Ályktun stjórnar Attac-samtakanna á Íslandi um kosningarnar í Grikklandi 25. janúar 2015

Undanfarin fimm ár hafa Grikkir mátt þola einhverja verstu kreppu, hörmungar og harðindi sem dunið hafa yfir nokkurt Evrópuríki frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Almennt atvinnuleysi er nærri 30%, atvinnuleysi meðal ungs fólks ríflega 50%, efnahagslífið hefur dregist saman um 25% á fimm árum og hvergi sér til lands í þessum þjóðfélagslegu hamförum.

Harðindin eru eingöngu af manna völdum. Þau eru fyrirskipuð af svokallaðri Troiku, heilagri þrenningu Evrópusambandsins, Evrópubankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem tekið hefur sér vald til að skipa fyrir um að Grikkir skuli þola niðurskurð, samdrátt og eymd.

Nú lítur út fyrir að Grikkir kjósi til valda flokk, sem hefur á stefnuskránni að hafna forræði Troikunnar. SYRIZA boðar að komist flokkurinn til valda, muni stjórn sem hann leiðir hefja aðgerðir til að vinda ofan af þessum manngerðu hörmungum. Heimili fá rafmagn, lágmarkslaun verða lögboðin, undið verður ofan af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins, o.s.frv. Boðað verður til alþjóðlegrar skuldaráðstefnu þar sem Grikkir munu fara fram á að ólögmæt skuldsetning landsins verði felld úr gildi.

Stefna og starf SYRIZA flokksins og mikið fylgi hans er vonarljós í þeim hörmungum sem nýfrjálshyggjan hefur leitt yfir Grikkland og önnur lönd álfunnar. Ásamt með flokknum Podemos á Spáni er nú raunverulegur möguleiki á að boðið verði upp á valkost við grimmilega nýfrjálshyggju og niðurskurðarstefnu þá sem Þýskaland undir forystu kanslarans Angelu Merkel, með stuðningi AGS, hefur þröngvað upp á evrópskan almenning, í þágu fjármagnsaflanna.

Sósíaldemókratar, bæði hér og annars staðar í Evrópu, keppast við að lýsa því yfir að SYRIZA sé popúlískur flokkur sem gangi gegn heilbriðgri skynsemi með stefnu sinni. Íslandsdeild Attac álítur hins vegar, ásamt hinum alþjóðlegu Attacsamtökum, að stefna og áherslur SYRIZA geti orðið fyrirmynd fyrir endurnýjun stjórnmála, bæði á Íslandi sem og annars staðar í álfunni; að unnt verði að byggja nýja sókn gegn því eina prósenti mannfjöldans, sem á nær fjórðung þjóðarauðs Íslands og helming alls auðs mannkyns.

Síðan kreppa auðvaldsins skall á hafa allar pólitískar og efnahagslegar aðgerðir í Evrópa snúist um að tryggja alvald banka og auðjöfra yfir almenningi. Engu hefur verið skeytt um afdrif fólks, sem misst hefur vinnu og heimili, engu hefur verið skeytt um lýðæðið, þvert á móti hafa mótmæli verið barin grimmilega niður og fríverslunarsamningar gerðir bak við luktar dyr, engu hefur verið skeytt um afdrif flóttafólks og farandverkamanna sem búa við ömurlegar aðstæður, ofsótt af stjórnvöldum og hreyfingum fasista, sem vaxið hefur fiskur um hrygg í efnahagslegu uppnámi síðustu ára. Ekkert hefur skipt máli nema auður auðvaldsins og að hann haldi áfram að vaxa.

Niðurstaða kosninganna á morgun kemur til með að hafa áhrif langt út fyrir Grikkland. Sigur SYRIZA mun blása kjarki í brjóst almennings sem þjáðst hefur undir oki kapítalistanna. Hann mun kveikja ljós í myrkri kreppunnar og vísa veginn til mannúðlegrar framtíðar þar sem gildi lýðræðisins; frelsi, jafnrétti og bræðralag eru raunverulega í heiðri höfð. Sigur SYRIZA gefur fólki í Evrópu tækifæri til að segja: Við erum þreytt á nýfrjálshyggju, niðurskurði og rasisma. Við krefjumst Evrópu fyrir fólk, ekki fjármagn!

Íslandsdeild Attac sendir hugheilar baráttu og stuðningskveðjur til Grikklands. Við stöndum við hlið ykkar í baráttunni fyrir réttlátri veröld, megi sigur ykkar vísa okkur veginn.

Við höfum engu að tapa nema fölsku lýðræði nýfrjálshyggjunnar og heilan heim að vinna.

Stjórn Attac á Íslandi.