Attac á Íslandi fagnar dómi EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu

Íslandsdeild Attac lýsir yfir ánægju sinni með niðurstöðu EFTA-dómstólsins í deilumáli Íslendinga annars vegar og Breta, Hollendinga og Evrópusambandsins hins vegar. Stefnubreyting alþjóðastofnana í þessu máli er fyrst og fremst til komin vegna einbeittrar og öflugrar fjöldabaráttu á Íslandi. Þegar sumarið 2009 vaknaði kröftug andspyrna gegn því að almenningur væri látinn greiða skuldir gjaldþrota einkabanka. Sú andspyrna leiddi til þess að Íslendingar fengu að greiða atkvæði um tvo samninga við Breta og Hollendinga um Icesave, og höfnuðu báðum.

Íslensk stjórnvöld höfðu verið neydd, m.a. af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, til að semja við Breta og Hollendinga, og voru neyðarlán til Íslands skilyrt því að samkomulag næðist. Íslendingar höfnuðu þessum samningum þrátt fyrir úrtölur og ósannindi frá stjórnvöldum og talsmönnum alþjóðlegra fjármálastofnana, sem ýmist töluðu um siðferðilega skyldu Íslendinga vegna skulda einkabanka eða höfðu í hótunum um að Ísland myndi einangrast og sökkva í djúpa kreppu ef samningum yrði hafnað. Rétt er að halda því til haga að Bretar og Hollendingar greiddu strax út stærstan hluta innistæðnanna. Auk þess hefur komið í ljós að eignir í þrotabúi bankans duga fyrir greiðslum innistæðna, og vel það.

Dómurinn er staðfesting á því að innistæðutryggingakerfi ESB er meingallað. Jafnframt er hann staðfesting á því að ekki er hægt að þröngva almenningi til að taka ábyrgð á mistökum fjármálakerfisins, eftirlitsstofnana sem starfa í skjóli sinnulausra stjórnmálamanna og kasínókapítalistanna.

Hrun íslensku bankanna er skýrt dæmi um óstöðugleika alþjóðlegs fjármálakerfis sem byggir á spákaupmennsku og er rekið eins og risavaxið spilavíti. Sameinumst og eflum baráttuna gegn spilltum og gjaldþrota kapítalisma, framtíð okkar allra er í húfi.

Stjórn Attac á Íslandi, 30. janúar, 2013.