Kosningar 13 árum frá Hruni

Ekki þarf að horfa lengi yfir svið íslenskra stjórnmála til að sjá að Hrunið í október 2008 er lykillinn að skilningi á stöðunni eins og hún er nú. Flokkar sem nutu mikils fylgis fyrir Hrun eru nú allt að helmingi eða tveim þriðjungum minni, eins og Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Í stað fjögurra eða fimm flokka virðast níu flokkar ætla að ná þingsætum í kosningunum þann 25. september. Hvorki fleiri né færri en fimm flokkar eiga sér upphaf í umrótinu í stjórnmálum vegna Hrunsins, Miðflokkur, Flokkur Fólksins, Viðreisn, Píratar og Sósíalistaflokkurinn. Tveir þeir síðarnefndu eiga rætur að rekja meira og minna beint til þess aktívisma sem þróaðist í og eftir Búsáhaldabyltinguna. Það má segja að þeir séu arftakar hennar.


Attac á Íslandi varð einnig til meðal aktívista sem urðu virkir eða náðu saman í Hruninu.  Staða alþjóðavæðingar, einkavæðingar og fjármálavæðingar er áhugamál Attac, og Hrunið sjálft sýndi ótvírætt hversu miklu máli það skiptir að vera vakandi gagnvart eyðileggjandi áhrifum þessara fyrirbæra á samfélög, jafnt hið íslenska sem önnur. 

Nýfrjálshyggjuvæðing samfélaga er meginorsök þess að alþjóðavæðing, einkavæðing og fjármálavæðing varð vandamál í nútímasamfélögum. Um er að ræða mikla sókn af hálfu auðmagnsins á breiðu sviði hugmyndafræði, stjórnmála, efnahags og menningar. Sú sókn hófst um 1980 og náði sér á strik um 1985 til 1990. Táknmyndir nýfrjálshyggjunnar, Ronald Reagan og Margaret Thatcher virtust ódrepandi og sátu við völd í Bandaríkjunum og Bretlandi frá því um 1980 allt fram til þess að Múrinn féll um 1990 og afturhaldsöfl samfélaga í Norður-Ameríku og Evrópu unnu stórsigur. Við tók tími þar sem vinstri flokkar, sérstaklega flokkar af sósíaldemókratískum meiði eins og Verkamannaflokkurinn í Bretlandi yfirgáfu stéttastjórnmál tímabilsins 1945 til 1985 eða svo, þá samfélagssátt sem skapast hafði um 1945 og verið viðhaldið af hálfu öflugrar verkalýðshreyfingar og almannasamtaka. Sósíaldemókratar samþykktu að gangast inn á forsendur nýfrjálshyggjunnar, til þess að ná völdum, en um leið hvarf erindi þeirra í samfélaginu, gufaði upp og afleiðingin varð sögulegur ósigur verkalýðsstéttarinnar.

Hér á landi tókst verkalýðsstéttinni að viðhalda samfélagssátt og sátt um uppbyggingu velferðarsamfélags alveg frá stríðslokum og fram yfir 1980. Það var ekki fyrr en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum 1983 að íslensk stjórnvöld hófu skipulegar árásir á kjör verkalýðs, oft í nafni baráttunnar gegn verðbólgu. Um 1990 harðnaði heldur betur í ári hjá smáfólkinu. Við tók nær tveggja áratuga ógnarstjórn nýfrjálshyggjuafla, í fyrstu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks en síðan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Um 1990 hófst til að mynda gríðarlegur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu undir forystu Alþýðuflokksins. Sighvatur Björgvinsson heilbrigðisráðherra gekkst fyrir að leggja niður tvö sjúkrahús, Landakotsspítala og St. Jósepsspítala í Hafnarfirði í nafni hagræðingar og sparnaðar. Viðspyrna annarra vinstri flokka og verkalýðshreyfingarinnar var í miklu skötulíki. Árið 1994 unnu vinstri menn sigur í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík og það varð upphafið að ferli sem lauk með endurskírn Alþýðuflokksins og því að ýmis flokksbrot vinstri manna úr kvennahreyfingum og hægri armi Alþýðubandalags gengu til liðs við Alþýðuflokkinn undir nafninu Samfylkingin. Þessi sambræðsla byggði tilveru sína á hugmyndum ættuðum frá þeim félögum Tony Blair og William Clinton. Erindi sósíaldemókrata meðal verkalýðs var að mestu afnumið. Samfylkingin talaði aldrei um verkalýðsstétt, arðrán eða auðvald. Afnám slíks orðfæris og hugsana var ein lykilforsenda þess að Samfylkingin gat upp úr 2000 boðið sig fram við auðstéttina sem nýr og betri valkostur til að stýra hinu kapítalíska samfélagi.

Hvergi hrundi nýfrjálshyggjan með eins miklu braki og brestum eins og hér á landi. Í september 2008 virtist hún standa grá fyrir járnum yfir samfélaginu öllu, en í október var allt hrunið. Allt starf auðstéttarinnar, allt frá því um 1985, við að grafa undan samfélagssáttmálanum frá miðri 20. öld með hugmyndir nýfrjálshyggjunnar að vopni var fyrir bí. Allir bankar á Íslandi urðu gjaldþrota og samfélagið lenti í efnahagslegu neyðarástandi. Ekki leið á löngu þar til öflug samstaða hafði myndast meðal almennings um að mótmæla þeirri samfélagsskipan sem getið hafði af sér Hrunið. Þessi samstaða birtist m.a. í vikulegum fundum á Austurvelli í október og nóvember 2008. Mikið skipulagsstarf var unnið meðal aktívista og fjöldi funda af ýmsu tagi var haldinn til að reyna að skipuleggja viðbrögð við Hruninu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar neitaði að taka afleiðingum af Hruninu og segja að sér. Það voru síðan mótmælaaðgerðir almennings, fyrst á gamlársdag 2008 og síðan þann 20. og 21. janúar 2009 sem leiddu til þess að stjórnin neyddist til að segja af sér.

Við tók bráðabirgðastjórn Samfylkingar og VG sem naut hlutleysis Framsóknarflokks. Þessi stjórn tók í fyrstu mikið tillit til krafna mótmælenda og setti ýmis lög sem voru hreyfingu þeirra að skapi. Þetta leiddi til þess að Samfylking, nú undir nýrri forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og Vinstri græn unnu sér inn talsvert traust almennings. Að minnsta kosti unnu þessir flokkar stórsigur í þingkosningunum í apríl 2009 og fengu hreinan meirihluta, umboð til að stjórna næstu fjögur ár. Þessu næst ákvað stjórnin að hætta að taka tillit til krafna mótmælenda og leiddi það til þess að stjórnin missti trúverðugleika. Helmingur þingflokks Vinstri grænna, þeir þingmenn sem höfðu meira eða minna verið kjörnir á vegum mótmælendahreyfingarinnar eins og Lilja Mósesdóttir, sögðu sig úr þingflokknum. Flokkur aktívista úr Búsáhaldabyltingunni, Borgarahreyfingin, náði einnig mönnum á þing. Stjórnin hélt velli alveg til 2013 en var að mestu lömuð síðari tvö ár af starfstíma sínum. Því olli flóttinn úr þingflokki Vinstri grænna og sú staðreynd að forseti landsins tók fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni þegar hún ætlaði að ganga til samninga við Evrópuauðvaldið og Evrópusambandið vegna Icesave reikninga Landsbankans. Ríkisstjórnin beið endurtekið ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess máls.

Sigur mótmælenda hér á landi í janúar 2009 átti þátt í því að haustið og veturinn 2010 til 2011 fór af stað bylgja mótmælahreyfinga annars staðar. Sérstaklega tóku mótmælendur á Spáni mikið mið af íslensku hreyfingunni, og mótmælahreyfingin þar var sú öflugasta í Evrópu. Um haustið 2011 myndaðist ný og öflug mótmælahreyfing í Bandaríkjunum, Occupy Wall Street, sem fljótt breiddist út um öll Bandaríkin og um allan heim. Þessar uppreisnir voru birtingarmynd þess að hugmyndalegt forræði nýfrjálshyggjunnar hafði gufað upp. Hinar nýju mótmælahreyfingar settu á stefnuskrá hjá sér að mótmæla forræði eins prósentsins og settu sér að tala máli níutíu og níu prósentanna. Kapítalismi, auðvald, verkalýðsstétt og arðrán komst inn í tungumálið á ný. Sú hugsun sem fylgdi þessum hugtökum og varðveist hafði hjá örfáum sérvitringum sem ekki vildu samþykkja fangaðarerindi nýfrjálshyggjunnar og endalok sögunnar fékk byr undir báða vængi. Jafnframt blómstruðu ýmsar hreyfingar á næstu árum. Foringjar af vinstri væng eins og Bernie Sanders og Jeremy Corbyn hlutu óvænt brautargengi fyrir róttækan málflutning sinn. Nýjar mannréttindahreyfingar eins og Black Lives Matter og MeToo risu. Í Bandaríkjunum hefur myndast öflug sósíalistahreyfing, sem á sér foringja eins og Alexöndru Ocasio-Cortez – AOC – og málgögn eins og Jacobin. Stór hluti ungu kynslóðarinnar tekur mið af eða fylgir þessari hreyfingu.

Hér á landi þróaðist hreyfingin sem hafði risið í Búsáhaldabyltingunni yfir í fjölmarga hópa sem allir buðu fram í kosningunum 2013. Aðeins einn þeirra fékk gengi, Píratar. Þar voru í forystu ýmsir úr Borgarahreyfingunni og víðar að úr mótmælahreyfingunni veturinn 2008 til 2009. Píratar fengu nokkra þingmenn í kosningunum 2013 og aftur 2016 og 2017. Á tíma stjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013 til 2016 voru Píratar stundum með allt að 40% fylgi í skoðanakönnunum. Það sýnir að fólk var að leita að nýjum stjórnmálavettvangi, og í kosningunum 2016 og 2017 komu fram á sjónarsviðið ný öfl eins og Björt framtíð, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins. Árið 2017 gerðist það líka að stofnaður var Sósíalistaflokkur Íslands og vakti athygli fyrir að taka ekki þátt í kosningunum sem haldnar voru það ár. Hins vegar gerðist tvennt árið 2018 sem tengdist Sósíalistaflokknum: Hann fékk kjörinn borgarfulltrúa í Reykjavík og einnig stóð hann að framboði B-listans í Eflingu, öðru stærsta verkalýðsfélagi landsins. Sá listi vann stórsigur og var lykilþáttur í endurreisn verkalýðshreyfingarinnar sem staðið hefur yfir síðan. Róttækir verkalýðssinnar úr hópi búsáhaldarbyltingarfólks hafa náð völdum í fleiri verkalýðsfélögum eins og VR og forysta ASÍ hefur mun róttækara yfirbragð en áður. Segja má að stéttarbaráttustefna sé orðin mikils ráðandi í samtökum verkalýðsins.

Sterk og róttæk verkalýðshreyfing er lykillinn að árangri í baráttu gegn alþjóðavæðingu, einkavæðingu og fjármálavæðingu. Sterk stjórnmálasamtök sem tala máli verkafólks og styðja samtök þeirra eru mikilvæg. Einn mikilvægasti þátturinn í sigri nýfrjálshyggjunnar eftir 1990 var múlbinding verkalýðshreyfingarinnar og þöggun þeirra radda sem töluðu um að nýfrjálshyggjan væri stéttastríð auðstéttarinnar gegn verkalýðnum. Slík þöggun var forsenda þess að hægt var yfirhöfuð að vaða yfir samfélögin með alþjóðavæðingu, einkavæðingu og fjármálavæðingu sem veikti stöðu verkafólks á skipulegan hátt. Alþjóðavæðingin leiddi til þess að stórir hlutar framleiðslukerfis auðugu auðvaldsríkjanna voru fluttir til ríkja í fátækari hlutum heims, þar sem réttur verkafólks var minni og laun lægri. Um þetta fjallaði bandaríski aktívistinn og fræðimaðurinn Naomi Klein í bókinni No logo.

Einkavæðingarstefna nýfrjálshyggjunnar á sviðum velferðarkerfis, heilbrigðismála, menntamála og félagsmála leiddi til þess að einkaaðilar fengu aðgang að þessum sviðum til að reka þar gróðastarfsemi. Það leiddi yfirleitt til versnandi þjónustu á þessum sviðum. Einnig urðu kjör verkafólks sem starfaði við þjónustu af þessu tagi verri. Þá var beinlínis skorið niður fjármagn í stórum stíl til velferðarkerfa og er enn gert. Heilbrigðiskerfið hefur orðið illa úti bæði hér á landi og annars staðar. Fjármálavæðing leiddi hér á landi til þess að samfélagið hrundi og varð gjaldþrota. Það leiddi síðan til niðurskurðar á mjög breiðu sviði, sem samfélagið býr enn við að mjög miklu leyti. Um slíkan niðurskurð af völdum hamfara fjallar Naomi Klein í bókinni Shock Doctrine.

Fjármálavæðingu hefur verið líkt við krabbamein í samfélögum. Kröfur um arðsemi hlutabréfa og annarrar fjármálastarfsemi ganga fyrir öllu öðru og leiða til niðurskurðar, lækkandi launa og árása á lífskjör starfsfólks fyrirtækja sem ofurseld eru slíkum kröfum. Besta svarið við slíku, og við fyrirbærum eins og ráðningu fólks á hvers kyns lausráðningarsamningum eða „verktöku“ er skipulagning verkalýðsfélaga, sem hefur að baki sér öflug stjórnmálasamtök sem tala máli verkafólks og verkalýðsfélaga. Einnig er mikilvægt að stunda víðtæka fræðslu- og rannsóknastarfsemi úr frá hagsmunum verkafólks og almennings almennt. Það verður m.a. að gera þá kröfu að háskólar og aðrar rannsóknastofnanir sem fjármagnaðar eru með almannafé sinni því að rannsaka þær hamfarir sem dunið hafa yfir á síðastliðnum áratugum af völdum nýfrjálshyggjunnar. Samtök eins og Attac leitast við að skipuleggja slíka starfsemi en hafa lítið afl. Þó er það mismunandi eftir löndum, bæði í Noregi, Þýskalandi, Belgíu og Frakklandi eru þetta öflug samtök sem hafa einnig tengsl við öflugar rannsóknastofnanir.

Nú 13 árum eftir Hrun hafa samtök aktívista í Hruninu sem störfuðu nánast blindandi og út frá neyðarástandi þróast og þroskast. Bæði verkalýðshreyfing og stjórnmálaflokkar hafa orðið til sem að mestum hluta til eru viðbrögð við Hruninu og því ástandi sem þá skapaðist. Gagnrýni á alræði kapítalsins hefur stöðugt vaxið. Það hefur komið vel í ljós í aðdraganda kosninganna hér á landi þrettán árum eftir hrun.