Yfirlýsing evrópsku Attac samtakanna í kjölfar grísku þingkosninganna

Í dag er dagur samstöðu með Grikkjum í Evrópu. Því birtum við yfirlýsingu evrópsku Attac samtakanna til stuðnings Syriza.

Vonin hefur borið sigur úr býtum í baráttunni við ótta og uppgjöf í grísku þingkosningunum sem haldnar voru 25. janúar síðastliðinn. Í fyrsta skipti í grískri sögu er vinstri sinnuð ríkisstjórn við völd í landinu. Sigurinn vekur von, ekki aðeins fyrir grískan almenning heldur einnig fyrir alla þá íbúa Evrópu sem sýnt hafa samstöðu í baráttunni við niðurskurð Troikunnar.

Samstaðan var mikil og áberandi í kosningabaráttunni, ekki aðeins á fundum í Grikklandi, heldur líka í pólitískum yfirlýsingum og á stuðningsviðburðum um alla Evrópu. Segja má að við höfum öll tekið þátt í þessum sögulegu atburðum. Niðurstöðurnar hvetja okkur til dáða: í grísku kosningunum unnu kjósendur til baka lýðræðislegan rétt sinn til að stýra þeim ákvörðunum sem teknar eru í þeirra eigin samfélögum.

Fyrstu yfirlýsingar og aðgerðir hins nýja meirihluta staðfesta ásetning um að berjast gegn niðurskurðarstefnunni í Grikklandi og Evrópu, að frelsa almenning undan skuldaokinu sem notað er til að framkvæma stefnumál nýfrjálshyggjunnar og sem meinar kjósendum að njóta lýðræðislegra réttinda og félagslegs réttlætis. Þessi barátta verður hatrömm og þarfnast viðvarandi stuðnings. Evrópsku Attac samtökin heita stuðningi sínum, því málið varðar Evrópu alla og baráttan snýst um að breyta stefnu álfunnar.

Ekkert af þessu verður auðvelt og vissulega má setja fram gagnrýni ef þess gerist þörf. Hin evrópsku Attac samtök ætla sér að fylgjast náið með ákvörðunum þeim sem ríkisstjórn Syriza tekur. Við þessar vandasömu aðstæður munum við fyrst og fremst leggja mat á árangur ríkisstjórnarinnar út frá því hversu vel hún stuðlar að því að eftirfarandi markmið náist; endalok niðurskurðastefnunnar, að efla stofnanir lýðræðisins, að taka völdin úr höndum markaðarins, að bregðast við loftlagsbreytingum af mannavöldum og endurvekja félagslegt réttlæti um alla Evrópu.

Sökum þess að opinberar skuldir Grikklands koma okkur öllum við og skipta höfuðmáli fyrir Grikki sjálfa, sem standa frammi fyrir ósjálfbærri skuldastöðu, munum við fyrst og fremst berjast fyrir því að haldin verði evrópsk ráðstefna um opinberar skuldir, í líkingu við þá sem haldin var árið 1953 í London vegna skulda Þýskalands. Þessa ráðstefnu munum við nota til þess að berjast fyrir endurskilgreiningu á hlutverkum og völdum þeim sem stofnanir Evrópusambandsins fara með.


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóotir