Fátækrahverfin hið innra

Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar.
Gesturinn hugsaði: Þið búið vel.
Fátækrahverfin eru innra með yður.

Þannig yrkir sænska skáldið Tómas Tranströmer og má segja að þarna birtist sannleikur ljóðsins, sá lífskjarni þess sem engin önnur svið ná yfir. Enginn veit hvað gerir ljóðið að handhafa þess sannleika sem ekki er hægt að orða með öðrum aðferðum. Þar koma til töfrar, töfrar tungumálsins. Ljóð verður til þegar hugsun og tilfinningar renna saman.

Það er fátt fréttnæmt í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna,” orti annað skáld, William Carlos Williams, sem líka var læknir og vissi nákvæmlega um hvað hann var að tala.

Það segir því meira um nútímann en ljóðið hve fáir leita það uppi. Það nýtur ekki mikils fylgis í skoðanakönnunum og það hefur lengi gengið atvinnulaust í þjóðfélagi yfirborðsmennskunnar. En þetta segir ekki alla söguna, því ljóðið vaknar við furðulegustu aðstæður og nær máli. Ekkert ósvipað og þegar fólk mótmælir. Þú getur sagt að ég sé draumóramaður, en ég er ekki einn um það.

Svona gæti ég haldið áfram að prjóna, en hvað með fátækrahverfin? Búa þau innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Er mikil verðbólga í sársaukanum? Hver er kauphallarvísitala gleðinnar? Eða eigum við að spyrja: Hvað varð um umhyggjuna í ríkidæminu? Svo virðist vera að því betur sem þjóðum vegnar á veraldlega sviðinu því minna sé umburðarlyndið. Þetta má heita undarleg mótsögn.

Til að hampa tjáningafrelsinu hrópa ég skíthæll á eftir nágranna mínum“, yrkir danska skáldið Peter Poulsen. Í allri umræðu nútímans gætir mjög þeirrar tilhneigingar að aðgreina tjáningafrelsið frá þroska. Í dag vitum við að það er dónaskapur að tala niðrandi um konur og samkynhneigða en það sama gildir ekki um útlendinga og fólk úr öðrum menningarheimum. Sá sem tjáir sig tekur ábyrgð sig á orðum sínum.

Sænskir rasistar hafa nýlega hampað myndum sem sýna nafngreinda þeldökka menn, oft talsmenn innflytjenda, hengda í snörum. Myndirnar minna á myndir frá athöfnum Ku Klux Klan. Þegar þeim er bent á að þetta sé rasismi kalla þeir þetta list og vísa til tjáningafrelsis. Þarna er spurningin um mörk tjáningafrelsis og þroska. Við vitnum aftur í Peter Poulsen og segjum: “Til að hampa tjáningafrelsinu hrópa ég skíthæll á eftir nágranna mínum“.

Að beita tjáningafrelsinu sem veiðileyfi á ákveðna þjóðfélagshópa og trúarbrögð er vanþroskuð misnotkun á því. Það þýðir þó ekki að slökkva eigi á þessum vanþroskuðu röddum heldur verður að mæta þeim bæði í orði og á borði. Nasisminn er hin eilífa áminning um þessi mál og þeir sem nú eru í því hlutverki sem gyðingar voru í þá eru landflótta fólk og múslimar. Þess vegna ber að taka þau hægrisinnuðu öfl sem nú tröllríða kjörkössum Vesturlanda alvarlega. Þau eru fátækrahverfin innra með okkur en nærast um leið á getuleysi umbótaaflanna sem fyrir löngu hafa kvatt þá hópa samfélagsins sem þeir upphaflega voru skuldbundnir.

Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar.
Gesturinn hugsaði: Þið búið vel.
Fátækrahverfin eru innra með yður.

og öll þessi ef og öll þessi kannski,
að vera eða vera ekki.
Þess vegna trúi ég á spurningamerkið,
drekki táraflóðinu
og hlæ jafnvel í mótmælaskyni.
Hver er ég og hvar
innan um öll þessi ef og öll þessi kannski …

Í upphafi var orðið,
og orðið var tónn og orðið var mynd
og engin mótsögn að vera í mótsögn við sjálfan sig,
því raddir lífsins eru margar
og heyrast löngu eftir
að þær eru þagnaðar

og þögnin talar í sífellu
um öll þessi ef og öll þessi kannski,
um tóna og myndir, orð án upphafs
því í upphafi var ekkert nema orð
hér á jörðu þar sem maginn
er jafn galinn og hausinn

Ég trúi á spurningamerkið,
á leitina að sambandi,
að innstungu í vegginn hjá guði
sem vitaskuld er án raflagna
og sambandslaus við allt
nema skip heiðríkjunnar
hlaðin svörtum fánum
og myrkri við sjónhring.

Þess vegna
trúi ég á spurningamerkið,
á hring lífsins
sem er síðasta núllið
í síðustu krónunni
og ekkert getur bjargað okkur
nema öll þessi ef
og öll þessi kannski,
trúin í trúleysinu
og trúleysið í trúnni,
amen.

Pistill sem Einar Már flutti á málþing í Iðnó 17. janúar um stöðu múslima á Íslandi, málfrelsi, trúfrelsi og þá hættu sem öfgafólk getur skapað í samfélaginu.