Nýlendan Ísland?

Nýlendan Ísland 1 – til 1914

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stefnir að því að gera Ísland að hráefnanýlendu heimsauðvaldsins. Hér er m.a. mikið af „hreinni“ orku, bæði vatnsorku, jarðhita og vindorku, fögur náttúra sem gæti hentað sem afslöppunarsvæði fyrir þreytta forstjóra alþjóðlegra stórfyrirtækja, og olía á Drekasvæðinu. Þetta eru þau not sem alþjóðaauðvaldið ætlar að hafa af Íslandi eftir bankahrunið. Gjaldþrota ríkisvald og nauðstödd alþýða er óskastaða AGS, en líklega hafa þeir ekki búist við uppreisn almennings. Ríkisstjórninni sem þeir sömdu við um þetta var einfaldlega velt í janúarbyltingunni, innan fjögurra mánaða frá bankahruninu. Þetta breytir allri stöðunni og gefur von um að AGS muni ekki veitast svo létt að innlima landið að fullu í heimskerfi arðránsins.

Í nokkrum greinum verður staða Íslands í heimskerfinu rædd. Tekið verður mið af greiningu Leníns á einokunarauðvaldinu í bók hans „Heimsvaldastefnan“, sem fyrst kom út 1916. Þar stendur m.a.:

Fáeinir einokarar hrifsa til sín ráðin yfir verzlunar- og iðnaðarframkvæmdum alls auðvaldsþjóðfélagsins. Þeim gefst í fyrsta lagi kostur á því, vegna bankasambanda sinna, viðskiptareikninga og annarra fjármálaráðstafana – að öðlast nákvæma vitnesku um hag einstakra kapítalista, og því næst að hafa umsjón með þeim og láta áhrif sinna gæta gagnvart þeim með því að rýmka eða takmarka, létta eða torvelda lántökur þeirra, og loks að kveðja óskorað á um örlög þeirra, ákveða arðsemi fyrirtækja þeirra, svipta þá rekstursfé eða gera þeim kleift að auka það fljótlega og í stórum stíl o.s.frv..

V. I. Lenin, Heimsvaldastefnan, hæsta stig auðvaldsins ísl. útg. Heimskringla 1961, bls. 43

Þetta hljómar eins og lýsing á íslenska einokunarauðvaldinu, þeir sem upplifa nú afhjúpanir á „spillingu“ í íslenska bankakerfinu kannast afar vel við þessa lýsingu. „Spillingin“ er einfaldlega lykilþáttur í allri starfsemi bankanna.

Þessi greining er líka lykillinn að greiningu Leníns á því hvernig örfáir fjármálafurstar lögðu undir sig gervallt efnahagskerfi heimsvaldaríkjanna um 1900. Þeir mynduðu stórbanka og auðhringa sem tóku yfir allan iðnað, sérstaklega kola- og járniðnað, mikilvægustu iðngreinar þess tíma. Ríkin voru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Á eftir fylgdi gríðarleg samkeppni þessara ríkja um áhrif og völd í öðrum heimshlutum, í Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og Suðurhafseyjum. Afríku var á örfáum árum skipt upp í nýlendur þessara heimsvaldaríkja og tóku Bretland og Frakkland bróðurpartinn. Innfæddir vörðust hvarvetna af hörku en urðu að láta í minni pokann fyrir vélbyssum og skipulagi hvíta mannsins.

Þetta kerfi stendur enn. Einokunarauðvaldið stýrir heiminum frá miðstöðvum sínum í Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Nýjar auðvaldsmiðstöðvar hafa myndast eða eru að myndast í Kína og víðar, en hafa ekki raskað valdajafnvæginu ennþá. Sovétríkin voru langmesta ógnin við heimsauðvaldið á meðan þau stóðu, og í skjóli þeirra urðu nær allar nýlendur heimsins frjálsar á 6. og 7. áratugnum. Eftir 1980 hefur jafnvel verið talað um endurnýjun nýlendustefnunnar í Afríku, hvítir menn nýta sér hrunið ríkisvald í sumum hinna nýfrjálsu ríkja til að rupla og ræna.

Fyrir tíma einokunarauðvaldsins og heimsvaldastefnunnar var við lýði eldri tegund af nýlendustefnu. Hvítir menn fóru um heiminn á seglskipum sínum og lögðu undir sig ákveðna hluta hans. Sums staðar námu þeir land og útrýmdu samfélögum innfæddra, eins og í Norður-Ameríku og Ástralíu, annars staðar blönduðust þeir innfæddum eins og Spánverjar í Suður-Ameríku. Í Karíbahafi útrýmdu hvítir menn samfélögum innfæddra og fluttu þangað í staðinn þræla, sem þeir höfðu keypt í Afríku. Svartir þrælar voru látnir vinna á plantekrum við hræðilegar aðstæður til að framleiða sykur og aðrar nýlenduvörur, sem seldar voru með stórgróða í Evrópu. Stærstur hluti Asíu og Afríku varð ekki nýlendur fyrr en á 19. öld. Kína var aldrei skipt upp á milli heimsvaldaríkjanna.

Meðal þeirra sem tóku þátt í þessari eldri tegund heimsvaldastefnu voru Danir. Þeir áttu þrjár eyjar á Karíbahafi, höfðu þar plantekrur og fluttu þangað þræla. Þar varð þrælauppreisn á 18. öld, sem Thorkild Hansen hefur skrifað um í bókinni Þrælaeyjan. Ekki er vitað um neina Íslendinga sem komu til Dönsku Vestur-Indía, enda hefur það ekki verið rannsakað. Það er ekki ólíklegt að einhver hafi slæðst þangað.

Staða Íslands innan Danaveldis var önnur. Danaveldi var eitt af samsteypuríkjum 16.-19. aldar, en svo má nefna þau ríki sem samanstóðu af ólíkum þjóðum og pólitískum einingum undir einu valdi. Slík ríki voru m.a. Austurríki, Ottómanska ríkið, Svíþjóð og Danmörk-Noregur. Hér á landi ríkti innlend yfirstétt sem átti allar jarðeignir og kúgaði leiguliða. Í ríkinu var einnig þýskur hluti sem nefndist Slésvík-Holstein, norskur hluti, færeyskur, grænlenskur og síðast en ekki síst danskur. Danir höfðu stöðuga minnimáttarkennd gagnvart Þjóðverjunum sem skipuðu margar stöður í stjórnkerfinu, en bæði Norðmenn og Íslendingar höfðu minnimáttarkennd gagnvart Dönum. Danir skipuðu margar æðstu stöður í Noregi en fáar á Íslandi. Innlend yfirstétt stóð tiltölulega sterkt hér á landi. Ísland hafði eigið tungumál og stjórnkerfið var mikið til rekið á því, með útgáfu Alþingistíðinda á íslensku frá 1630. Menning Íslendinga naut ákveðinnar virðingar í Danmörku, en því var sjaldnast fyrir að fara í nýlendum Evrópubúa í Afríku og Ameríku. Yfirleitt var fyrsta verk nýlenduherranna að leggja menningu innfæddra í rúst.

Staða Íslands var því fremur eins og staða héraðs í Evrópuríki en staða nýlendu. Það má ef til vill líkja Íslandi við Bretagne eða Baskaland í frönsku samhengi.

Sjaldan er hugað að mikilvægum þætti í þróun kapítalisma, en það er upphaf hagvaxtar í landbúnaði. Þegar það gerist hefur landið losað sig við yfirráð lénskerfisins og er komið á braut kapítalisma. Fyrstu löndin sem þetta gerðu voru Holland og England á 17. öld, með hollensku byltingunni um 1600 og þeirri ensku um 1650. 200 ár liðu þar til önnur lönd bættust í hópinn, Bandaríkin, Norðurlönd, Þýskaland, Frakkland og norðurhluti Ítalíu. Þetta gerðist um 1770-1800, með amerísku og frönsku byltingunni. Napóleon flutti frönsku byltinguna út til Þýskalands og Ítalíu, en á Norðurlöndunum gerðist þetta án beinnar valdbeitingar. Á Íslandi muna menn hann Jörund, hann var kannski meiri tímamótamaður en margur heldur.

Alla 19. öld hélst íslenska jarðeigendastéttin við völd. Hún átti allar jarðeignir og tók af þeim landskuld. En samhliða juku almennir bændur verslun sína stöðugt, í beinu sambandi við markaðinn og án þess að landeigendur næðu að hirða afraksturinn. Það var markaður erlendis fyrir fisk og fiskafurðir, hákarlalýsi, ull, tólg og kjöt. Bændur juku sauðfjárrækt og nutu hagnaðarins. Gufuskip fóru að sigla til landsins. Þar kom að bændur gerðu uppreisn gegn danska kaupmannavaldinu, fyrir áhrif frá enskum sauðakaupmönnum, og stofnuðu eigin verslunarfélög. Íslenska bændahreyfingin náði miklum pólitískum áhrifum og róttæk, alþýðleg þjóðernisstefna vann afgerandi sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um Uppkastið árið 1908. Um svipað leyti hurfu síðustu leifar lénsskipulags í landinu þegar bændum var gert kleift að kaupa jarðir þær sem þeir sátu. Íslenska yfirstéttin, sem hafði beðið ósigur í Uppkastsslagnum, snéri sér að togaraútgerð og reyndi að selja fossa og norðurljós til erlendra auðfélaga. Nútímaþjóðfélagið skreið úr hamnum, varpaði af sér kristinni trú sem lykilþætti hugmyndafræði og tók upp í staðinn veraldlega þjóðernisstefnu. Tungumál nútímans á Íslandi var íslenska. Danska varð tákn hins gamla, kúgunarinnar, yfirráða lénsveldis og dansks kaupmannavalds. Þess vegna voru dönskuslettur illa séðar í málinu fram yfir 1970.

Ísland var um 1900 hluti af jaðarsvæði Evrópu. Það tilheyrði ekki evrópska heimsvaldakjarnanum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi, en var eins og Norðurlöndin öll í nánu sambandi við þennan kjarna. Ísland tilheyrði ekki þeim meginhluta heimsins þar sem bjó fólk, dökkt, rautt eða gult á hörund, sem hvítir menn töldu sér rétt og skylt að kenna kristni og aðra góða siði með vélbyssur að vopni. Í þessum löndum ríkti grímulaust ofríki ofbeldisfullrar heimsvaldastefnu, kynþáttahyggju og kapítalisma. Megineinkenni íslenska samfélagsins voru hins vegar öflug smábændahreyfing, líkt og á öðrum Norðurlöndum, sjálfstætt, innlent auðvald og vaxandi verkalýðsstétt. Um 1913 fór sú stétt að skipuleggja sig.

Nýlendan Ísland 2: Tímabilið 1900-1940

Í síðustu grein var rætt um stöðu Íslands í heimskerfinu um 1900. Bent var á að Ísland hefði ekki tilheyrt þeim meginhluta heimsins þar sem bjó fólk, dökkt, rautt eða gult á hörund, sem hvítir menn töldu sér rétt og skylt að kenna kristni og aðra góða siði með vélbyssur að vopni. Í þessum löndum ríkti grímulaust ofríki ofbeldisfullrar heimsvaldastefnu, kynþáttahyggju og kapítalisma. Megineinkenni íslenska samfélagsins voru hins vegar öflug smábændahreyfing, líkt og á öðrum Norðurlöndum, sjálfstætt, innlent auðvald og vaxandi verkalýðsstétt

Ísland var þó svo sannarlega á áhrifasvæði heimsvaldastefnunnar. Þær auðlindir sem heimsvaldaríkin ásældust hér um slóðir voru hvorki málmar né jarðarávextir heldur fiskur. Breska heimsveldið gerði út togara, sem frá því um 1890 fóru að veiða þorsk við Ísland í miklum mæli. Það hafði þau áhrif að íslenska yfirstéttin sá sér leik á borði að hætta að kúga mótþróafulla smábændur í bandalagi við danska burgeisa, og fór að gera út togara sem fengust fyrir slikk frá Bretlandi. Það var miklu gróðavænlegra og auðveldara, því smábændur voru orðnir hávær og kröfuharður þrýstihópur sem ekkert réðist við. Annar hluti yfirstéttarinnar skipulagði sig kringum innflutning, gerðist heildsalar.

Á tímabilinu frá 1900-1914 ríkti í heiminum hagvöxtur. Heimsvaldaríkin lögðu undir sig það sem eftir var af heiminum, og brátt kom upp hörð samkeppni milli þeirra. Við lá að styrjöld brytist út milli Breta og Frakka 1906. Samkeppni Þjóðverja og Breta fór harðnandi. Þjóðverjar voru orðnir öflugasta iðnveldi Evrópu um 1900, og komnir langt fram úr Bretum um 1914. Þeir voru bæði fjölmennari og réðu yfir nýtískulegri iðnaði en Bretar. Þjóðverjum gramdist að hafa aðeins fengið leifarnar af heiminum fyrir nýlendur á tíma nýlendukapphlaupsins 1885-1914. Þeir áttu fáar og fátækar nýlendur.

Samkeppni Þjóðverja og Breta leiddi að lokum til heimsstyrjaldarinnar miklu 1914-1918. Orsakir styrjaldarinnar má rekja beint til samkeppni milli tveggja einokunarauðvaldshópa, Þjóðverja annars vegar og Breta og Frakka hins vegar. Styrjöldin var uppskiptastyrjöld, Þjóðverjar ætluðu sér stærri bita af kökunni, þeir vildu fá frjálsar hendur í Miðausturlöndum og víðar. Markmið heimsvaldaríkjanna náðust engan veginn, því nú fór allt í vitleysu. Allt tímabilið 1914-1945 var samfelld kreppa og dauðastríð evrópsku heimsvaldastefnunnar, og stóð á vissan hátt alveg til 1980. Útfærsla landhelginnar á Íslandsmiðum var eins og táknrænn síðasti nagli í líkkistuna. Við vorum heppin að Thatcher var ekki komin til valda þá.

Meðal afleiðinga neyðarástandsins sem skapaðist á Íslandi í fyrra stríði var stofnun Landsverslunar. Henni var ætlað að tryggja landsmönnum lágmarks nauðsynjar, var eins konar neyðarstjórn þess tíma. Landsverslun var stofnuð í lok fyrri heimsstyrjaldar þegar mikill skortur varð á lífsnauðsynjum eins og kolum. Á þeim tíma sat bændahreyfingin í ríkisstjórn og hún skipulagði og hafði umsjón með uppbyggingu Landsverslunar. Samvinnuhreyfingin var þegar orðin öflug og hafði útrýmt dönskum kaupmönnum frá mörgum kaupstöðum, að minnsta kosti norðan lands og austan, á tímabilinu 1905-1914. Bændur gátu nú verslað við eigin verslanir, kaupfélögin, og eftir fyrra stríð tengdust kaupfélögin og Landsverslun þannig að samvinnuhreyfingin náði forræði í verslun á öllu landinu.

Á sama tíma fór Jónas Jónsson frá Hriflu hamförum, stofnaði bæði Framsóknarflokk og Alþýðuflokk og hamaðist gegn íhaldssamri og dansksinnaðri yfirstétt landsins í harðorðum og óvægnum skrifum. Jónas var afar öflugur. Hann var vinur Hallgríms Kristinssonar, sem öllu réði í samvinnuhreyfingunni og hafði skipulagt Landsverslun. Saman gerðu þeir smábændahreyfinguna að stórveldi í íslensku þjóðlífi. Á millistríðsárunum varð Framsóknarflokkurinn að ríkisberandi flokk Íslands, líkt og bændaflokkurinn Venstre var í Danmörku áður en Sósíaldemókratar öðluðust þann sess. Framsóknarmenn stýrðu nútímavæðingu sveitanna með vegagerð, brúarbyggingum og mjólkursölulögum, og þeir voru í stjórninni sem setti lög um almannatryggingar. Hinn íhaldssami hluti yfirstéttarinnar var samt mjög áhrifaríkur, og sat einn að framhaldsmenntun í höfuðborginni með yfirráðum yfir Menntaskólanum í Reykjavík. Stofnun Menntaskólans á Akureyri var á vegum Jónasar Jónssonar, sem vildi auka fjölda sveitamanna í hópi menntamanna.

Á millistríðsárunum var gengi borgarastéttarinnar fallvalt. Tímabilið 1923-1930 gengu þorskveiðar vel og togaraútgerð blómstraði. Reykjavík óx og óx, fyrst og fremst sem höfuðborg, miðstöð stjórnkerfis, verslunar og viðskipta, en auðvitað líka sem útgerðarborg. Lítil iðnvæðing varð og verkalýðsstétt höfuðborgarinnar hafði sitt höfuðvígi við höfnina, meðal félagsmanna í verkalýðsfélaginu Dagsbrún. Á tímabilinu 1930-1940 kvað við annan tón. Kreppan sótti Ísland heim og olli hruni þorskveiða og togaraútgerðar. Mikil þjóðfélagsátök urðu, með óeirðum árið 1932, Gúttóslagnum. Borgarastéttin lét undan. Um 1936 var svo komið að nær allt atvinnulíf úti á landi var annaðhvort í höndum samvinnufélaga eða sveitarfélaga, og í Reykjavík var stærsta félagið í togaraútgerð, Kveldúlfur, gjaldþrota. Til mála kom að þjóðnýta félagið. Nærri lá að kapítalisminn yrði sjálfdauður á Íslandi, og allt tímabilið 1934-1938 réði stjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks ríkjum með róttæk markmið að leiðarljósi. Hagur alþýðu til sjávar og sveita var í fyrirrúmi. 

Kreppan gerði að verkum að iðnaður óx mjög í Reykjavík. Hagkvæmara varð að framleiða hlutina í bænum sjálfum heldur en að flytja þá inn. Verksmiðjur spruttu upp og framleiddu sápu, gos, smjörlíki og annað slíkt. Á þessum tíma hófst líka uppbygging iðnaðar á Akureyri. Þar varð til mikil verksmiðjusamsteypa, SÍS-verksmiðjurnar, sem unnu úr innlendu hráefni, ull og skinnum. Mjólkuriðnaður óx og dafnaði bæði á Akureyri og í Reykjavík.

Enn sem komið var hafði Ísland haft lítil bein kynni af heimsvaldastefnunni. Bretland og fleiri lönd sendu þó alltaf einhverja togara til veiða á Íslandsmiðum. Nasistar lögðu ást á Ísland, þar sem hinn hreini kynstofn bjó að þeirra mati. Hinn hreini kynstofn var hins vegar á fullri ferð við að endurskilgreina sig, rithöfundar eins og Halldór Laxness spruttu upp úr jarðvegi sósíalisma og verkalýðsbaráttu og gagnrýndu smábændahreyfinguna og hugmyndafræði hennar, jafnt sem kapítalistana og kúgun þeirra á verkalýðsstéttinni. Íslensk þjóðernisstefna varð íhaldssamari með árunum og rak til að mynda konur inn á heimilin um 1930 með hugmyndafræðilegri herferð. Hins vegar náði íslensk þjóðernisstefna varla að tengjast kynþáttahyggju traustum böndum á þessum tíma, meðal annars af því að Ísland var ekki öflugt heimsvaldaríki og stóð ekki beint að nýlendukúgun. Seint á 6. og sérstaklega á 8. áratugnum tók Ísland sér svo stöðu meðal baráttuafla gegn heimsvaldastefnu, þegar landhelgin var færð út.

Nýlendan Ísland 3: Tímabilið 1940-1950

Tveir auðmagnshópar voru á Íslandi á millistríðsárunum, ef svo má segja, samvinnuhreyfingin og heildsala/togaraauðvaldið. Báðir hóparnir voru í ýmsum tengslum við erlent auðvald, svo sem banka í Danmörku og Bretlandi. Í meginatriðum var þó um að ræða þjóðlegt auðvald, sem ekki gekk erinda erlendra auðhringa, einfaldlega vegna þess að slíkir hringar voru ekki í aðstöðu til að nýta sér auðlindir eða tækifæri á Íslandi á tímabilinu 1914-1940. Ástæðan var fyrst og fremst hin almenna kreppa auðvaldsins, uppskiptastyrjaldir, heimskreppa og framsókn sósíalismans. Auðvaldið var hálf lamað, sérstaklega í kreppunni miklu 1930-1940.

Árið 1939 hófst síðan evrópska borgarastyrjöldin, sem svo hefur verið kölluð, á ný eftir langt vopnahlé. Þjóðverjar hugðu á hefndir, með illvíga og afar ógeðfellda kynþátta- og útþensluhugmyndafræði að vopni. Sú hugmyndafræði var samt ekkert mjög ólík því sem var að finna meðal hvítra nýlendubúa í nýlenduveldum Frakka og Breta, en hennar varð sjaldnar vart með beinum hætti heima í þessum löndum. Í síðari heimsstyrjöldinni tókst bandalag með borgarastétt Bretlands og Bandaríkjanna og sósíalistastjórninni í Sovétríkjunum gegn útþenslustefnu nasismans. Meginþungi styrjaldarinnar hvíldi samt á Rússum. Sú óvænta niðurstaða að Sovétríkin, höfuðvígi verkalýðshreyfingar og baráttu gegn heimsvaldastefnu, skyldu nánast á eigin spýtur sigra eitt af kjarnalöndum heimsvaldastefnunnar í styrjöld var heimsauðvaldinu mikið áfall. Næstu 40 árin stóðu hrikaleg átök milli sósíalismans og frelsishreyfinga í nýlendum annars vegar og heimsvaldaríkjanna hins vegar. Heimsvaldastefnan fékk heldur betur á baukinn og heimsvaldaríkin Bretland og Frakkland misstu mikið af valdi sínu og áhrifum. Kína bættist í hóp andheimsvaldaríkjanna með sósíalisma að sovéskri fyrirmynd að leiðarljósi. Hörðustu átökin í kalda stríðinu (1947-1989) urðu einmitt á jöðrum Kínaveldis, í Kóreu og Víetnam.

Þann 10. maí árið 1940 réðist breski herinn á Ísland. Fátt varð um varnir, enginn her í landinu og Danmörk var hernumin. Danmörk átti jú að sjá um landvarnir hér en var að sjálfsögðu ekki í aðstöðu til að sinna því. Hernámið var í raun ekki hefðbundið heimsvaldahernám, menning og efnahagslíf heimamanna var látin í friði. Bretland hafði alltaf haft mikil áhrif á Íslandi og Íslendingar þekktu því vel til Bretlands. Ekki fór samt hjá því að umtalsverð þjóðfélagsátök yrðu vegna hernámsins. Ástæðan var sú að hernámið setti allt efnahagslífið á annan endann. Kyrrstaða kreppuáranna var rofin, og fjöldaflutningar hófust úr sveitinni á mölina. Vestfirðir urðu langverst úti, þar hrundi byggð á stórum svæðum og fækkaði mjög mikið í sveitum. Norðurland hélt sínu betur, sem og Suðurlandsundirlendið og Borgarfjörður.

Þannig færði heimsvaldastefna kapítalismans landinu mikinn skell eða áfall, sem var að ýmsu leyti ekki ólíkur þeim skelli sem landið varð fyrir 29. september 2008. Áfallið 1940 stafaði einfaldlega af því að mjög mikið peningamagn kom allt í einu inn í hagkerfi sem hafði náð ákveðnu jafnvægi eftir kreppuaðgerðir stjórnvalda. Þetta var á þeim tíma túlkað mjög jákvætt, en öllum var ljós spillingin sem fylgdi með hernámsliðinu, og margir skelfdust hana. Ekki skánaði ástandið þegar Bandaríkjaher tók við vörnum landsins af Bretum, Bandaríkjamenn voru miklu betur stæðir en Bretar og fjármagnið flæddi inn í landið. Afleiðingarnar í sjávarþorpum landsins voru t.d. þær að fólk hætti margt að rækta kartöflur, halda kýr og stunda annan smábúskap, það borgaði sig ekki lengur. Tekjurnar af vinnunni fyrir herliðið voru svo miklar.

Nú fór heldur betur að draga upp á himininn í viðureign Íslendinga við heimsvaldastefnuna. Bandaríski herinn fór af landi brott, en um allan heim hrönnuðust upp ófriðarský. Samstjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks, fyrsta stjórn lýðveldisins, féll árið 1946 eftir tveggja ára setu. Ástæðan var ágreiningur um nýjan herverndarsamning sem færði Bandaríkjamönnum yfirráðin yfir Keflavíkurflugvelli. Enginn her átti að vera þar. Samningurinn var liður í undirbúningi Bandaríkjamanna fyrir átökin um Evrópu. Ein af höfuðborgum heimsauðvaldsins, Berlín, var að hálfu á valdi óvinarins og umkringd sósíalísku landi. Kapítalisminn háði baráttu upp á líf og dauða um yfirráð í Evrópu. Kommúnistar voru öflugir í Frakklandi og á Ítalíu og búist var við valdatöku kommúnista á meginlandi Evrópu á hverri stundu. Kommúnistar sigruðu í þingkosningum í Tékkóslóvakíu og tóku þar völdin. Sovétmenn lokuðu aðgangi að Berlín á landi og Bandaríkjamenn skipulögðu loftbrú til að sjá borginni fyrir nauðsynjum. Í Kína náðu kommúnistar völdum í fjölmennasta ríki heims. Heimsvaldastefna og kapítalismi beið þar með einn sinn stærsta ósigur á 20. öld.

Skelfingin ríkti í höfuðstöðvum einokunarauðvaldsins. Í Evrópu var sett af stað gríðarleg „hjálparstarfsemi“, Marshallaðstoðin, sem fólst í því að dæla þangað miklum fjármunum frá Bandaríkjunum. Þetta er ekki ólíkt núverandi ástandi; fjármunum er dælt inn í hagkerfi kjarnaríkja auðvaldsins til að halda valdakerfi kapítalismans þar á floti, en munurinn er sá að nú njóta Íslendingar ekki neins af þessari gjafmildi. Það gerðu þeir hins vegar 1947-9.

Hervæðing hófst á ný í Bandaríkjunum. Þau réðu yfir kjarnorkusprengjunni, en ekki leið á löngu þar til Sovétmenn höfðu sína eigin sprengju. Ekki var um annað að ræða en hervæðast í alvöru, með herútboði, uppbyggingu flota, flughers og landhers, og þessi her þurfti að komast frá Ameríku til Evrópu. Ísland varð fyrir valinu, ásamt með Azoreyjum, sem lykilherstöð. Íslensk stjórnvöld voru beðin um aðstoð, og það sem nú gerðist verður ekki túlkað öðru vísi en að heimsvaldastefnan hafi lagt undir sig landið í óþökk almennings en með stuðningi fámennrar yfirstéttar og fylgismanna hennar. Íslandi var boðin innganga í Atlantshafsbandalagið, hernaðarbandalag heimsvaldastefnunnar, sérstaklega heimsvaldaríkjanna Bandaríkjanna og Bretlands. Stjórnvöld ákváðu að þiggja boðið, en Sósíalistaflokkurinn var á móti. Það var almenningur líka. Þúsundir manna mótmæltu á Austurvelli þann 30. mars árið 1949. Valdi lögreglu og hvítliða var beitt gegn mótmælendum, og andspyrnan hrundi. Menn lögðu ekki út í frekari beinandspyrnu gegn ofbeldinu, enda engin hefð fyrir vopnaðri baráttu í landinu.

Það sem á eftir fylgdi var hálfgerð martröð. Kalda stríðið lagði klakabönd á alla samfélagsumræðu og framsækna starfsemi næstu 20 árin. Bandaríkjamenn komu til landsins með mikið herlið árið 1951 og þaðan flutu dollararnir inn í þjóðlífið. Ísland varð eins og svo margar eyjar í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi herstöð á vegum Bandaríkjanna. Örlög Íslendinga urðu þó ekki eins slæm og örlög íbúa eyjarinnar Diego Garcia í Indlandshafi. Þeir voru allir fluttir á brott og hafa ekki fengið að snúa til heimkynna sinna enn þann dag í dag.

Nýlendan Ísland 4: Tímabilið 1950-1990

Hinar miklu breytingar sem urðu á valdahlutföllum stéttanna á Íslandi árið 1949 settu mark sitt á næstu áratugi. Verkalýðsstéttin, almenningur, hafði beðið ósigur fyrir heimsvaldastefnunni. Íslendingar bjuggu undir hæl hennar á meðan hvert landið af öðru varð frjálst, í Afríku, Asíu og jafnvel í bakgarði Bandaríkjanna, á Kúbu. Andstaðan við hersetuna var gríðarleg og tvisvar sinnum náðu völdum stjórnir sem höfðu brottför hersins á verkefnaskrá sinni. Andspyrnan gegn heimsvaldastefnunni náði ekki að hagga við hernum, en leitaði útrásar í andheimsvaldasinnaðri pólitík í fiskveiðum. Landhelgin var færð út hvað eftir annað og varð það fyrirmynd sams konar aðgerða hvarvetna í þriðja heiminum. Breski togaraflotinn var sendur heim með skottið á milli fótanna. Breska heimsveldið varð að láta Íslandsmið af hendi.

Verkalýðsstéttin háði verkföll undir forystu sósíalista, en þau breyttu litlu um valdahlutföllin. Eins konar tvíveldi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var ríkjandi. Sjálfstæðisflokkur hafði stóreflst með tilkomu hernámsins og kalda stríðið færði honum marga sigra á sviði áróðurs og hugmyndafræði. Einnig marga ósigra, sérstaklega eftir að styrjöldin í Víetnam harðnaði fyrir alvöru. Framsóknarflokkur byggði valdakerfi sitt á samvinnuhreyfingunni og stóð fyrir rafvæðingu sveitanna á áratugnum 1950-1960. Gríðarlegar framfarir urðu í sveitunum, nýtt húsnæði byggt, tún ræktuð, heyskapurinn vélvæddur, framleiðnin jókst, bændur urðu jafnokar bæjarbúa hvað varðaði menningu og efnahag. Það var að minnsta kosti stefna stjórnvalda. Og opinber hugmyndafræði var að íslensk menning ætti heima í sveitinni.

Í þéttbýlinu urðu líka framfarir. Reykjavík óx ört og sérstaklega úthverfi hennar. Fátt var um nýjungar í atvinnulífi, þó voru tvær stórar verksmiðjur reistar fyrir Marshallfé: Áburðarverksmiðjan í Gufunesi og Sementsverksmiðjan á Akranesi. Einnig varð mikil útþensla í velferðarkerfinu. Menntakerfið óx hratt, heilbrigðiskerfið einnig og tryggingakerfið var smám saman bætt. Tækninýjungar eins sjónvarp breyttu öllu yfirbragði þjóðlífsins á 7. áratugnum. Hagvöxtur í kjarnalöndum auðvaldsins var umtalsverður á þessu tímabili, 1950-1970, miklu meiri en nokkurn tíma á tímabilinu 1970-2009. Ef til vill má rekja það til þess að árið 1945 stóð verkalýðshreyfing og réttindabarátta almennings tiltölulega sterkt í auðvaldsríkjunum. Naomi Klein hefur á einum stað lýst því hve samstaða og barátta almennings í Bandaríkjunum var öflug á kreppuárunum. Neyðin var mikil, en samhjálp og samstaða einnig. Þetta skilaði sér á eftirstríðsárunum. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur hefur haldið því fram að jöfnuður og tiltölulega miklar tekjur almennings séu lang líklegastar til að skila jöfnum og miklum hagvexti, og má það til sanns vegar færa út frá reynslu tímabilsins 1945-1970.

Ekki má gleyma því að Sovétríkin voru stöðug ógn og áminning borgarastéttinni um að haga sér nú almennilega. Þetta kom fram í því að hlutur verkalýðsstéttarinnar af framleiðsluverðmæti í kjarnaríkjum auðvaldsins, sem laun, hækkaði um 1930 og hélst tiltölulega hár allt fram yfir 1980. Þá lækkaði þessi hlutur.

Ein nýjung í íslenska atvinnulífinu kom fram árið 1967 sem var á sinn hátt jafn ískyggileg og hernámið. Það var bygging álversins í Straumsvík. Heimsvaldastefnan hefur hvarvetna lagt hald á auðlindir, námur, orkuauðlindir og gróðurmold. Hér var fyrir forgöngu Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks farið út á þá óheillabraut að virkja íslensk fallvötn til að selja orkuna erlendum auðhringum. Sérstaklega í ljósi síðari tíma þróunar var þetta mikið óheillaskref. Hagfræðingurinn Þórólfur Matthíasson hefur lýst því svo að Austfjörðum hafi verið bjargað en Ísland sokkið með framkvæmdunum við Kárahnjúka. Orkusalan hefur alltaf verið mjög umdeild, því verðið sem fæst fyrir orkuna er svo lágt. Með þessu var Ísland í annað sinn innlimað í hráefnakerfi heimsvaldastefnunnar, en fyrri tilrauninni, þeirri að hernema fiskimiðinn, hafði verið hrundið með útfærslu landhelginnar. Álverið í Straumsvík er nú í eigu hins alræmda auðhrings Rio Tinto, sem frægur hefur orðið að endemum fyrir að bjóða upp á Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag árið 2008.

Annars einkenndist tímabilið 1950-1990 fyrst og fremst af vexti sjávarútvegs, útfærslu landhelginnar og almennum framförum á öllum sviðum. Sérstaklega reyndust vinstri stjórnir hagstæðar almenningi, svo sem eins og vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar árið 1971-1974. Raunar varð ýmislegt af því sem sú stjórn gerði til þess að styrkja stöðu auðmagnsins og búa í haginn fyrir alveldi þess á tímabilinu 1990-2008. Þar má nefna skuttogaravæðinguna, sem gerð var í nafni hagkvæmninnar en leiddi til mikillar samþjöppunar víða í sjávarbyggðum. Í landbúnaði hrúgaðist umframframleiðslan upp eftir 1970 og ljóst var að alls ekki var hægt að flytja neitt verulegt af framleiðslunni út, þrátt fyrir að um allan þriðja heiminn væri sveltandi fólk. Heimsmarkaðsverð var of lágt, var sagt.  Um allan hinn ríka heim hlóðust upp smjörfjöll og kjötbirgðir, en ekki mátti senda það til sveltandi fólks í þriðja heiminum. Það hefði komið niður á heimsmarkaðsverðinu.

Staðan var sú um 1975 á heimsvísu að heimsvaldastefnan hafði beðið verulega ósigra. Bandaríkin höfðu tapað Víetnamstríðinu. Svo einfalt var það. Portúgalar höfðu tapað nýlendustyrjöldum sínum í Angóla, Mósambik og Guinea-Bissau. Bylting varð í Portúgal í framhaldi af því, eins og uppreisn hafði orðið í Frakklandi í framhaldi af ósigrinum í Alsír. Byltingin í Portúgal 1974 var um skeið mikið áhyggjuefni auðvaldsins, en leystist að lokum farsællega. Miðstöðvar heimsvaldastefnunnar í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi urðu allar fyrir miklum áföllum á tímabilinu 1968-1975, pólitískum, menningarlegum og efnahagslegum. Hugmyndafræði auðvaldsins lá undir árásum frá hippum og róttækum stúdentum, réttindabaráttu svartra, kvenréttindahreyfingunni, Nixon Bandaríkjaforseti varð að segja af sér, og um 1975 lauk hinu mikla hagvaxtarskeiði sem hófst um 1950. En auðvaldið átti eftir að ná sér aftur, í bili.

Á Íslandi ríktu Spilverk þjóðanna og Megas yfir kynslóð sem ennþá gekk í hippamussum og las Marx, Lenín, Maó og Trotskí. Það var róttæka æskulýðshreyfingin. Hún var kjarninn í nýrri róttækni, sem endurnýjaði baráttuna gegn heimsvaldastefnunni. Hún snerist gegn herstöðinni á Miðnesheiði, gegn þáttöku Íslendinga í því bandalagi heimsvaldaríkja sem háði styrjaldir í Víetnam og annars staðar, gegn auðvaldinu, gegn alþjóðaauðhringunum. Attundi áratugurinn var ákveðinn hápunktur róttækni hér á landi, og sterkast kom sú róttækni fram í sigrum kvennahreyfingarinnar. Þessi róttækni sáði fræjum, sem enn eru að koma fram. Róttækir þessara tíma tóku yfirleitt afstöðu gegn Sovétríkjunum, því þau virtust hafa breyst í nýtt heimsvaldaríki. Í raun ríktu risarnir fjórir eftir sem áður, Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Sovétríkin reyndu líklega að leika á sama velli og hið heimsvaldasinnaða einokunarauðvald um skeið, ca. 1970-1990, en tókst það afar illa.

Nýlendan Ísland 5: Um 1990.

Allt fram yfir 1990 var íslenska fjármálakerfið á hendi ríkisvaldsins. Bankarnir voru í eigu ríkisins og var stýrt af fulltrúum pólitískra afla, aðallega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Fjárfest var í ýmiskonar atvinnutækjum, aðallega fiskiskipum og frystihúsum og atvinnulíf og útflutningur byggðist á því. Flugleiðir og Eimskip voru miðstöðvar hins svokallaða kolkrabba, auðhrings sem stýrði þeim hluta atvinnulífsins sem var undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, eða notaði þann flokk til að gæta hagsmuna sinna hjá ríkisvaldinu. Morgunblaðið var málgagn þessara afla og í því var hamast á móti samvinnurekstri, verkalýðsfélögum, sósíalisma og öðru slíku.

Um 1990 hrundi hinn auðhringur landsins, Samvinnuhreyfingin, Samband íslenskra samvinnufélaga. Þar með missti Framsóknarflokkurinn mikilvægasta bakhjarl sinn. Að vísu hvarf ekki öll sú starfsemi sem Sambandið hafði haft með höndum, en á Akureyri lögðust verksmiðjur Sambandsins næstum af. Hætt var að mestu að vinna úr hráefni frá landbúnaðinum, ull og skinnum. Úrvinnsla úr mjólk og kjöti hélt áfram og helst enn, en er ógnað ef Ísland gengur í Evrópusambandið.

Hrun Sovétríkjanna árið 1991 var mesti stórviðburður þessa tíma og markaði tímamót. Þótt Sovétríkin hefðu lengi verið gagnrýnd af vinstri mönnum fyrir heimsvaldatilburði og skrifstofubákn voru þau ákveðið tákn fyrir hreyfinguna. Þau höfðu líka verið brjóstvörn baráttunnar gegn heimsvaldastefnunni. Afstaðan til þeirra var nokkuð önnur í þriðja heiminum en í Vestur-Evrópu. Sá andkommúnismi og tortryggni út í Sovétríkin sem er svo áberandi í Bandaríkjunum og víða í Evrópu var ekki til staðar í sama mæli í þriðja heiminum, sem hafði notið mikillar hjálpar og stuðnings í frelsisbaráttu sinni frá Sovétríkjunum og Kína. Sú frelsisbarátta var einmitt háð gegn heimsvaldaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Tvö fyrrnefndu ríkin mynduðu ásamt Þýskalandi kjarnann í Evrópusambandinu. Þau fundu sér þar með nýtt hlutverk en voru áfram valda- og umsvifamikil í fyrrum nýlendum sínum, sérstaklega Frakkar.

Með hruni Sovétríkjanna fékk nýfrjálshyggjan frítt spil. Nú lá gjörvöll Austur-Evrópa fyrir fótum hennar, og í gang var sett mikið frjálshyggjuprójekt. Ríkisvaldið skyldi lagt af. Í reynd táknaði það að öll þjónusta við almenning á sviði heilsugæslu og almannatrygginga var skorin niður en fyrirtæki í eigu ríkisins seld óligörkum fyrir lítinn pening. Afleiðingin varð þjóðfélagshrun í Austur-Evrópu sem olli gífurlegri eyðileggingu í þessum samfélögum. Þegar um 1995 voru fyrrverandi sósíalistar búnir að ná völdum á ný í mörgum Austur-Evrópulöndum.

Staða heimsvaldastefnunnar og einokunarauðvaldsins um 1990 var í raun þannig að ekkert hafði breyst frá 1916, þegar Lenín gerði greiningu sína á því. Enn voru fjögur lönd kjarnalönd einokunarauðvaldsins, Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Bretland. Staðan er sú sama enn þann dag í dag. Löndin réðu að vísu ekki yfir nýlendum eins og 1916, heldur höfðu þær allar gert uppreisn og voru orðnar sjálfstæðar pólitískt séð. Þrátt fyrir það voru yfirráð heimsvaldalandanna í fyrrverandi nýlendum mjög mikil á nær öllum sviðum, menningarlega, efnahagslega og á stjórnmálasviðinu. Ræða má um að þriðja heims löndin séu mjög háð fyrrverandi nýlendukúgurum sínum, kjarnalöndum einokunarauðvaldsins. Í Suður-Ameríku skipuleggur yfirvaldið, Bandaríkin, morð á forsetum landanna ef þeir makka ekki rétt.

Á níunda áratugnum hófst hnignun iðnaðar í kjarnalöndunum. Til varð það sem kallað er ryðbelti í Bandaríkjunum, svæði borga með hnignandi iðnaði og atvinnuleysi. Fólk flutti í stórum stíl frá iðnaðarborgum í norðvesturhluta Bandaríkjanna og til Florida eða Kaliforníu. Hinar nýju iðngreinar, tölvuiðnaður og fjölmiðlaiðnaður blómstruðu þar. Í Bretlandi réðist Margaret Thatcher á verkalýðsstéttina á 9. áratugnum og lagði niður nær allar kolanámur, þar sem kjarnaöreigar tímabilsins í kring um 1916 unnu. Kola- og stáliðnaður var ekki lengur strategískt mikilvægur fyrir yfirráð einokunarauðvaldsins. Á þeim tíma þegar Lenín skrifaði Heimsvaldastefnuna var stál nauðsynlegt til flestra hluta, ekki síst í járnbrautir, skip og vopn. Þá miðuðu verkalýðsflokkarnir strategíu sína við að ná áhrifum meðal kjarnaöreiga, þeirra sem framleiddu þessa mikilvægu vöru. Það fyrsta sem kommúnistar gerðu eftir að hafa náð yfirráðum í Rússlandi var að skapa slíkan iðnað, og það kom þeim líka vel í síðari heimsstyrjöld, T-34 skriðdrekarnir drápu fasista eins og gítar Woody Guthrie síðar. This machine kills fascists.

Um 1975 áttuðu stjórnendur auðvaldsríkjanna sig á því að þeir áttu við mjög alvarlega kreppu að stríða. Lenín talaði í bók sinni um heimsvaldastefnuna um hnignandi auðvald, rotnandi auðvald, almenna kreppu auðvaldsins sem hófst um 1900, og skapaði síðan sjálfur það sósíalíska ríki sem hélt lífi í von mannkyns á kreppu- og stríðstímum 20. aldar, má segja. Áhrif Sovétríkjanna voru ótrúleg, bæði í þriðja heiminum og þeim fyrsta. Öllum að óvörum féll þetta ríki, að líkindum að stórum hluta vegna þeirra miklu gagnrýni sem það varð fyrir í Evrópu eftir 17. júní 1953  í Austur-Þýskalandi, uppreisnina í Ungverjalandi 1956, vorið í Prag 1968 og Samstöðuhreyfinguna í Póllandi 1981. Það var alþýða Austur-Evrópu sem felldi Sovétríkin. En það breytir því ekki að það kerfi sem þetta fólk þráði var merkt dauðanum. Vestur-Þýskaland, Bretland, Norðurlönd voru eins og auglýsingagluggi fyrir kapítalismann, fólk í Austur-Evrópu þráði það sem það sá í sjónvarpinu og var fyrir vestan. Hluti af dauðateygjum hins hnignandi einokunarauðvalds var einmitt þróun auglýsinga- og kreditkortaiðnaðarins, sem lengdi örlítið í hengingaról auðvaldsins. Og það var þessi iðnaður sem átti talsverðan þátt í falli sósíalísku ríkjanna í Austur-Evrópu.

Bak við þessa framhlið var hræðilegur veruleiki: Kúgun í þriðja heiminum, hnignun í auðvaldslöndunum. Mjög hægði á hagvexti eftir 1975 í Evrópu og Bandaríkjunum. Margt var reynt til að koma honum af stað að nýju, en allt var það til einskis. Meðal þess sem einokunarauðvaldið reyndi var að flytja nær allan iðnað frá Bandaríkjunum og Bretlandi til ríkja eins og Kína, Indónesíu, Filippseyja og Víetnam. Þar var hægt að fá ódýrara vinnuafl en í heimalöndunum. Þar var líka komið á fót svokölluðum enklövum, svæðum sem voru í raun utan laga og réttar, og níðst var á vinnuafli Asíulandanna. Fólkið vann í verksmiðjum sem framleiddu til útflutnings og fékk lágmarkslaun, og eins og lýst er í riti Naomi Klein, No logo, fengust engar greiðslur til viðhalds vinnuaflsins, heilbrigðismála, skólamála og annars. Það áttu hin örfátæku lönd Suðvestur-Asíu að sjá sjálf um. Þetta var kallað efnahagsþróun. Heimsvaldastefnan hafði enn einu sinni tekið á sig viðbjóðslegt yfirbragð, og strigaskór, bolir og aðrar vörur fengust ódýrar í Wal-Mart og Hagkaupi.

Miklar mótmælaaðgerðir hófust gegn alheimsvæðingunni árið 1999 í Seattle í Bandaríkjunum. Þar voru að verki svokallaðir aktívistar, anarkistar, græningjar og annað róttækt fólk sem kunni ekki við það sem það sá. Mótmælaaðgerðirnar héldu áfram víða um heim allt fram til 2001, og raunar eftir það.

Heimsauðvaldið varð æ örvæntingarfyllra. Hvorki alheimsvæðing né netbóla gerði nokkuð til að örva hagvöxt. Brjálæðisleg einkavæðing á öllum sviðum heilbriðgismála, menntamála, samgöngumála, t.d. í Bretlandi, gerði það ekki heldur. Um 2001 hófst ný sókn einokunarauðvaldsins, nú á sviði fjármálaþjónustu. Risafjárhæðir voru skapaðar í tölvukerfum auðvaldsríkjanna og þær flugu æ hraðar um allan heim.