Ávarp flutt 8. mars í Iðnó

Kæru félagar,

til hamingju með daginn og takk fyrir að bjóða mér.

Ég ákvað að mæta hingað sem fulltrúi hins femíníska próletaríats. Ég er alls ekki lömpen, eða tötrahypja eins og það heitir á íslensku, heldur afskaplega stéttvís kona. Ég hef alltaf verið femínisti. Mínar fyrstu femínísku minningar eru hápólitískar auðvitað, snúast um Kvennaframboðið, svuntu og ásakanir um áróðursbrögð frá pabba vinkonu minnar. Góð saga, ég skal einhverntíman segja ykkur hana.

Ég hef líka alltaf verið kommúnisti. Í mínum huga fara róttæk stéttabarátta og femínismi saman eins og lóa og spói og ég varð í alvöru ótrúlega hissa fyrir ekkert svo mjög löngu síðan þegar ég áttaði mig á því að allir geta sagst vera femínistar, án þess að geta eða þurfa að færa nokkrar sönnur á mál sitt. Ég hafði semsagt alveg misst af neóliberal útgáfunni af kvenfrelsisbaráttunni, þangað til 2008, satt best að segja. Skömm er frá að segja.

Jæja, nú hætti ég að kjafta frá leyndarmálum og hef erindið:

Getur femínismi verið afl gegn fasima?

Er fasismi eitthvað sem við þurfum raunverulega að vera að pæla í hér á Íslandi? Og afhverju hefur almenningur, ekki bara einhverjir radíkalar, undanfarið verið að hugsa um fasisma?

Vegna þess að pólitískir flokkar með áberandi fasísk einkenni eru orðnir mjög áberandi:

Tepartýið í Bandaríkjunum, öfga-hægri armur Repúblíkanaflokksins, samansafn smáborgara og próletaríats sem hefur enga stéttavitund vegna þess að allt tal um stéttabaráttu hefur verið markvisst fjarlægt úr umhverfinu, eða Gullin dögun í Grikklandi, flokkur fasista sem hafa ekkert að fela og hræða okkur kannski mest þessvegna, UKIP í Bretlandi, Svíþjóðardemókratarnir sem unnu stórsigur í kosningum síðasta sumar, ásamt fjölmörgum öðrum óhefðbundnum hægri flokkum í Evrópu, sem einnig unnu mikla sigra í kosningunum síðasta sumar(á meðan kosningaþátttaka dregst almennt saman, mæta kjósendur þjóðernisflokkana á kjörstað). Svo mætti lengi telja, gleymum ekki Pegida hreyfingunni.

Hér í Reykjavík fékk flokkur sem var við það að þurrkast út stórfínt fylgi um leið og forystan ákvað að þramma af stað undir ekkert mjög taktföstum slætti íslamófóbíunnar. Þessi sami flokkur fríkar út og fer að tala um ofsóknir og endalausnir ef einhver leyfir sér að vitna í orð borgarfulltrúanna sem voru kjörnir, fer í kjölfar eigin ofsafenginna viðbragða að tala um arfleið flokksins sem mesta mannréttindaflokks Íslands. Þegar sú sýning fer í gang er freistandi að vitna í Trotský, sem velti mikið fyrir sér uppgangi fasismans fyrir margt löngu:

“Veröldin öll hefur hrunið innan í höfðum smáborgaranna, sem glatað hafa öllu andlegu jafnvægi. Stétt þessi argar kröfur sínar svo hávært, sökum örvæntingar, hræðslu og biturleika, að hún sjálf heyrir ekki lengur og glatar því getunni til að skilja eigin orð og látbragð.”

Þrátt fyrir að gríðarmikill munur sé oft á milli landa í því hvernig fasismi birtist hjá pólitískum hreyfingum eiga þær ávallt mikilvæg atriði sameiginleg: Þeirra á meðal eru tilbúningur á óvinum og blórabögglum,og markviss áróður, í þeim tilgangi að búa til hræðsluástand á meðan raunverulegur tilgangur hreyfinganna er falinn í popúlisma og fölskum loforðum.

Og svo afskaplega mikilvægur þáttur: stéttaeðlið, sem er ávallt til staðar, auðvaldið; sem styður undantekningarlaust hin fasísku öfl á einhvern hátt og uppsker undantekningarlaust eins og til var sáð.

Gott dæmi um framkomu auðvaldsins við vinnuaflið undir fasískum stjórnarháttum er ástandið í Chile undir stjórn Pinochet: þar glataði vinnuaflið sífellt meira af sínum skerf í tekjum þjóðarbúsins til auðvaldsins, lágmarkslaun lækkuðu um næstum því helming á níunda áratugnum, fátækt jókst, einn þriðji af vinnuaflinu var án atvinnu í upphafi níunda áratugarins.

Tuttugasta öldin geymir svo auðvitað mörg fleiri dæmi.

Hversvegna hafa flokkar með fasísk einkenni orðið svona áberandi undanfarin ár?

Viðbrögð flokka nýfrjálshyggjunnar sem víðast hvar hafa verið og eru við völd, við kreppu auðvaldsins sem dunið hefur yfir veröldina, hafa búið til ástand þar sem fasísk retorík á greiðan aðgang að kjósendum. Í stað þess að grípa til þess sem hægt væri að kalla eðlileg viðbrögð í kreppuástandi, að nota ríkið til að endurbyggja samfélögin sem kapítalistarnir hafa farið langt með að eyðileggja, er þveröfug leið farin af hinum hefðbundnu pólitísku flokkum: niðurskurður, uppsagnir, ósanngjörn dreifing skattbyrðinnar þar sem þau blönku halda restunum af velferðarkerfinu uppi á meðan þau auðugu stinga arðinum undan, niðurrif áunninna réttinda vinnandi fólks og svo auðvitað árásir á mótmælendur og árásir á aðflutt og “óþarft” vinnuafl sem tilheyrir öreigastéttinni, ásamt ýmsu öðru.

(Hér er hægt að nefna hnífaárás lögreglunnar sem hlýðir skipunum útlendingayfirvalda, á Chaplas Menka, sem dæmi um árásir á “óþarft” vinnuafl).

Síðasta krísa, sem byrjaði á WallStreet og breiddist svo út um alla veröld hefur afhjúpað algjörlega nýfrjálshyggjuna sem það sem hún er: Hið “fullkomna” arðránstæki, þar sem bæði lagaumgjörð þjóðríkjanna og alþjóðleg lagaumgjörð er útbúin og endurunnin til að hámarka gróða auðvaldsins, þar sem “endurbætur” verða á vinnumarkaði í þeim tilgangi að auðvelda arðránið, þar sem hið yfirþjóðlega fjármagn þarf ekki að þola neinar hömlur en hið alþjóðlega prekaríat, hið óþarfa vinnuafl, má raunverulega drepast án þess að það komi nokkrum sérstaklega við.

Kapítalisminn og nýfrjálshyggjan hafa skapað samfélag sturðlaðra öfga. Ég vitna í einn internet komma: Að segja að ójöfnuður sé mikill á alþjóðlega vísu er eins og að segja að sólin sé pínku heit.

Samkvæmt útreikningum Credit Suisse, þeirrar ægilegu kommastofnunnar, á ríkasta eitt prósent veraldarinnar helming alls auðs á meðan helmingur alls mannkyns á samanlagt eitt prósent auðsins. World Socialist Web Site reiknaði dæmið áfram, notaði forsendurnar sem Credit Suisse hafði notað og komst að þeirri niðurstöðu að ef þróunin héldi áfram á sömu leið myndi eitt prósentið eiga allan auð veraldar innan 23 ára.

Frekar hrollvekjandi tölur, ekki satt?

Á meðan niðurskurðarstefna yfirvalda gerir lífið erfiðara fyrir hin eignalausu og skuldugu, halda hin ríku áfram að auðgast, þau soga til sín öll verðmæti sem sköpuð eru í samfélaginu, koma þeim undan í skattaskjól eða nota til að sölsa undir sig enn meiri eignir sem áður voru í almannaeigu en hafa verið settar á markað, oftast í óþökk almennings, af yfirvöldum.

Semsagt, ekkert triklar lengur niður, allt sogast upp.

Örvæntingarfullir kjósendur í Evrópu og víðar gefast upp á falslýðræði nýfrjálshyggjunnar, þar sem kapítalistarnir hafa í raun tekið sér einræðishlutverk, treysta ekki lengur loforðum hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka, sem hafa enda svikið öll loforð aftur og aftur. Í sjúkri veröld nýfrjálshyggjunnar verður til sjúkt samband á milli óöruggra kjósenda, fasista og plútókrata. Í sjúkri veröld gerast ömurlegir hlutir, örvænting fær fólk til að taka ömurlegar ákvarðanir.

Það er ekkert sjálfsagt við það að fasismi njóti vinsælda eða sé óumflýjanlegur. En ef aðstæður halda áfram að versna, ef auðvaldið heldur áfram á sinni glæpaför og samfélög halda áfram að hnigna er ekkert ólíklegt að kapítalistarnir snúi sér í auknum mæli til fasískra afla til að tryggja hámörkun gróðans.

Eins og þau sem þekkja til fasisma á síðustu öld geta bent okkur á eru sum einkenni fasisma þegar til staðar á Vesturlöndum og fram koma sífellt háværari kröfur um meira, frá hópi þeirra sem fara með samfélagslega stýringu:

Öflugri njósnastofnanir, innan þjóðríkjanna og alþjóðlegar, sem eru ávallt á verði og vopnað lögreglulið með sérstakar heimildir til að takast á við svokölluð óæskileg, róttæk öfl .

Hvernig berjumst við femínistar gegn fasisma?

Í mínum huga er það augljóst:

Við berjumst gegn fasisma með því að berjast gegn kapítalismanum.

Við berjumst gegn fasisma með því að berjast fyrir réttlæti.

Við berjumst gegn fasisma með því að bjóða uppá raunverulegar, alternatívar lausnir.

Við berjumst gegn fasismanum með því að hjálpast að í því lífsnauðsynlega og almikilvægasta verkefni sem hægt er að hugsa sér:

Að koma okkur sjálfum, systrum okkar og bræðrum, sjálfu lífríkinu úr klóm þessa sturlaða auðvalds nútímans, sem stendur á bjargbrún heimsendis, tilbúið í að steypa okkur öllum fram af brúninni.

Við höfnum einstaklingshyggjunni, við höfnum frama einnar á kostnað annarar, við höfnum markaðsvæðingu réttlætisins og við viðurkennum að hin femíníska barátta er alþjóðleg og intersekjónal.

Ef okkur er raunverulega umhugað um að berjast gegn fasisma þá berjumst við gegn auðvaldinu.

Við spyrjum okkur: Hvað er femínismi?

Femínismi er frelsishreyfing, frelsunarhreyfing. Við frelsum okkur undan oki feðraveldisins, við gerum það sjálfar með persónulegri ákvörðun um að lifa sem upplýstar manneskjurog svo gerum við það með því að horfast í augu við það að baráttan er algjörlega samtvinnuð stéttabaráttunni.

Til að berjast gegn uppgangi fasismans þurfum við að taka þátt í róttækri fjöldahreyfingu sem vinnur markvisst gegn auðvaldinu og vinnur markvisst í því að búa til samfélag félagslegs og efnahagslegs jöfnuðar.

Í nafni alþjóðahyggjunnar ætla ég að lokum að vitna fyrst í Klöru okkar Zetkin, og svo í Rósu okkar Lúxemburg, blessuð sé minning þeirra:

Hagsmunir vinnuaflsins, þeirra kúguðu og arðrændu, eru þeir sömu í öllum löndum,

og

með baráttunni fyrir frelsun kvenna munum við flýta þeirri stundu er núverandi samfélagsgerð splundrast undan hamarshöggum hins byltingarsinnaða próletaríats.

Lifi baráttan, takk fyrir

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir