Íhlutunarstefna í nafni mannúðar?

Síðan á tíunda áratug síðustu aldar og sérstaklega síðan í Kósóvó stríðinu 1999, mætir hver sá sem stendur gegn vopnaðri íhlutun Vesturveldanna og NATÓ því sem kalla mætti anti-anti war vinstrinu (þar með töldum þeim sem eru lengst til vinstri á pólitíska rófinu). Í Evrópu og sérstaklega í Frakklandi er þessi hópur vinstrimanna settur saman úr meginstraums sósíaldemókrötum, grænu flokkunum og stærstum hluta hins róttæka vinstris. Hópurinn talar ekki opinskátt um stuðning við vestrænar hernaðaraðgerðir og gangrýnir þær jafnvel (en þá yfirleitt vegna aðferða sem beitt er eða undirliggjandi hvata – Vesturveldin styðja verðuga baráttu, en klaufalega og með olíu eða geópólitíska hagsmuni í huga). En tími anti-anti war vinstrisins fer að mestu í að “vara við” hættulegri þróun skoðana þess hóps fólks á vinstri væng stjórnmálanna sem enn er staðfastur í andstöðu við vopnaða íhlutun. Af honum er krafist að hann sýni samstöðu með “fórnarlömbum einræðisherra sem myrða eigið fólk” og að hann láti ekki undan ósjálfráðri óbeit á heimsvaldastefnu, Bandaríkjunum eða Zíonisma, og síðast en ekki síst að hann endi ekki á sama stað og öfgahægrihóparnir. Frá árinu 1999 hefur okkur verið sagt að “við” verðum að vernda afganskar konur, Kúrda í Írak og nýverið almenning í Líbíu og Sýrlandi.

Því verður ekki neitað að barátta þeirra vinstrimanna sem styðja íhlutunarstefnu hefur verið mjög árangursrík. Hverful andstaða varð sannarlega til gegn stríðinu í Írak, sem selt var almenningi sem barátta við uppdiktaða ógn, en lítið hefur borið á andstöðu vinstrisinna vegna loftárásanna á Júgóslavíu, loftárásanna á Líbíu til að losna við Gaddafi eða þeirrar íhlutunar sem nú á sér stað í Sýrlandi. Þau mótmæli sem heyrast vegna endurnýjaðrar heimsvaldastefnu eða raddir sem hvetja til friðsamlegra lausna eru einfaldlega virtar að vettugi, með áköllum um “R2P”; réttinn eða skylduna til að vernda og aðstoða fólk í hættu.

Í spurningunni um það hver þessi “við” erum sem eigum að vernda og blanda okkur í átök, er grundvallar margræðni þeirra á vinstri vængnum sem styðja íhlutunarstefnu fólgin. Staðreyndin er sú að öll þau átök sem við eigum að taka þátt í eru vopnuð. Þátttaka í þeim er því vopnuð þátttaka og slíkt krefst vopnaðs hers. Það er augljóst að vestrænir vinstrisinnar ráða ekki yfir slíkum her. Hægt væri að biðla til evrópsku herjanna um að blanda sér í hin ýmsu átök en þeir gera það aldrei án öflugs stuðnings frá Bandaríkjunum. Raunverulega er því ákall anti-anti war vinstrisins: “Gerðu það, ó Ameríka, make war, not love!” Og þar sem Bandaríkin eru, eftir áföllin og ósigrana í Írak og Afganistan, ófús til að gera innrásir með hernámsliði, er ákallið aðeins beiðni um að sprengjum verði kastað á lönd þar sem mannréttindabrot eiga sér stað.

[img_assist|nid=415|title=Natosprengjum rignir yfir Trípólí|desc=|link=none|align=left|width=299|height=170]Að sjálfsögðu má hver sem er halda því fram að mannréttindum verði héðan í frá best borgið undir sérstökum verndarvæng bandarísku ríkisstjórnarinnar og þeim sprengjuflugvélum, eldflaugskeytum og fjarstýrðu árásarvélum sem hún hefur yfir að ráða. En það er mikilvægt að gera sér grein fyrir raunverulegu inntaki ákallanna um “samstöðu” og “stuðning” við uppreisnaröfl eða aðskilnaðarhreyfingar sem eiga í vopnuðum átökum. Þessar hreyfingar hafa enga þörf fyrir slagorð æpt á “samstöðumótmælum” í Brussel eða París og þær óska ekki eftir slíku. Þær vilja þungavopn og sprengjuregn á óvini sína.

Þau á vinstri vængnum sem styðja íhlutunarstefnu eiga að sýna heiðarleika og vera hreinskilin um val sitt og kalla opinskátt eftir því að Bandaríkin hefji loftárásir á hvern þann stað sem mannréttindabrot eru framin; en jafnframt verður þá að taka afleiðingunum. Í raun er sú stétt stjórnmálamanna og herforingja sem nú eiga að bjarga fólki undan “morðóðum einræðisherrum” sú sama og háði stríðið í Víetnam, sú sama og kom á viðskiptabanninu á Írak og gerði svo innrás í landið, sú sama og refsar handahófskennt Kúbu, Íran og hverju því landi sem fellur í ónáð, sú sama og veitir Ísrael gegnheilan stuðning, sú sama og beitir hvaða brögðum sem er til að koma í veg fyrir umbætur í Suður-Ameríku, þar með talið valdaráni, og sú sama og arðrænir verkafólk og eyðileggur náttúruna um víða veröld. Maður þarf að vera ansi óraunsær og barnalegur til að sjá í þessari stétt bjargvætti “fórnarlambanna”, en í raun hafa þau sem tilheyra anti-anti war vinstrinu gerst talsmenn nákvæmlega þeirrar hugmyndar, þar sem enginn annar herafli getur framkvæmt það sem beðið er um.

Auðvitað veit ríkisstjórn Bandaríkjanna varla af tilvist vinstrimanna sem styðja íhlutunarstefnu. Bandaríkin byggja ákvarðanir um hvort þau heyja stríð á sigurlíkum og mati á pólitískum og efnahagslegum hagsmunum. Og um leið og stríð er hafið er allt kapp lagt á að sigra. Það er ekkert vit í því að biðja Bandaríkin um að framkvæma aðeins góðviljaðar hernaðaríhlutanir, gegn raunverulegum illmennum, með því að beita einungis blíðlegum aðferðum sem skaða hvorki almenna borgara né sakleysingja.

Sem dæmi má nefna að þau sem kalla eftir því að “Afgönskum konum sé bjargað” eru í raun að biðja um að Bandaríkin skerist í leikinn, sprengi í loft upp óbreytta borgara í Afganistan og noti fjarstýrð sprengjuvélmenni (Drones) í Pakistan. Það er tómt rugl að biðja Bandaríkin að vernda án þess að sprengja, vegna þess að herafli virkar þannig að hann bæði sprengir og skýtur.[1]Í tilefni NATÓ ráðstefnunnar í Chicago efndi Amnesty International til herferðar þar sem NATÓ var hvatt til að vinna áfram að framförum í þágu kvenna í Afganistan. Ekki var útskýrt … Continue reading

Eftirlætis þema íhlutunarsinna á vinstrivængnum er að ásaka þau sem hafna hernaðaríhlutunum um að “styðja einræðisherrann”, og er þá átt við leiðtoga þess lands sem verður fyrir árásum hverju sinni. Vandamálið er að hvert einasta stríð er réttlætt með umfangsmiklum áróðri sem snýst helst um að útmála óvininn sem algjört illmenni, sérstakalega leiðtoga óvinaríkisins. Mótstaða gegn þessum áróðri krefst þess að við setjum atburðina í stærra samhengi, þar sem við vörpum á þá ljósi með því að bera þá saman við glæpi þeirra sem við eigum að styðja. Verkefni þetta er nauðsynlegt en áhættusamt; hver einustu mistök verða notuð gegn okkur, á meðan allar lygar stríðsæsingamanna gleymast nær samstundis.

Þegar í fyrstu heimsstyrjöldinni voru Bertrand Russell og aðrir breskir friðarsinnar ásakaðir um að “styðja óvininn”. En það var ekki vegna aðdáunnar og ástar á þýska keisaranum sem þeir fordæmdu áróður bandamanna, heldur vegna friðarhugsjónarinnar. Þau á vinstri vængnum sem styðja íhlutanir eru mjög upptekin af því að fordæma “tvöfeldni” staðfastra friðarsinna, þeirra sem beina gagnrýni sinni frekar að glæpum eigin stjórnvalda og herja en að þeim glæpum sem óvinur augnabliksins er sagður fremja (Milosevic, Gaddafi, Assad, osfrv.), gagnrýni sem sprettur af upplýstri og lögmætri ákvörðum: að sporna við stöðugum stríðsáróðri okkar eigin stjórnmálaleiðtoga og fjölmiðla, áróðri sem byggist fyrst og fremst á því að gera úr þeim óvini sem Vestuveldin eiga í baráttu við hverju sinni skrímsli, um leið og boðið er upp á mjög fegraða mynd af árásaröflunum.

Bandaríkin hlusta ekki á íhlutunarsinna á vinstrivængnum við stefnumótun, en þar með er ekki sagt að hópur sá hafi engin áhrif. Skaðleg orðræða hans hefur þjónað því hlutverki að veikja friðarhreyfinguna. Þau sem styðja íhlutunarstefnu hafa einnig gert það að verkum að ekkert land í Evrópu getur nú tekið sjálfstæða afstöðu til hernaðar, líkt og Frakkland gerði undir stjórn De Gaulle eða jafnvel Chirac, eða Svíþjóð undir stjórn Olaf Palme. Í dag yrði slík afstaða strax gagnrýnd harkalega af vinstri sinnuðum íhlutunarsinnum, gagnrýninni svo komið á framfæri af evrópskum fjölmiðlum, og þar talað um “stuðning við einræðisherra” eða “glæp afskiptaleysis”.

Vinstrisinnum sem styðja íhlutunarstefnu hefur tekist að eyðileggja sjálfstæði Evrópubúa í utanríkismálum gangvart Bandaríkjunum og útrýma allri sjálfstæðri afstöðu fólks á vinstri vængnum þegar kemur að stríðsrekstri og heimsvaldastefnu. Jafnframt hefur hópurinn leitt Evrópubúa sem aðhyllast vinstri pólitík til að taka afstöðu sem ávallt er í algjörri mótsögn við vinstrisinna í Suður-Ameríku. Einnig eru Rússland og Kína úthrópuð sem andstæðingar þegar þau reyna að verja alþjóðalög.

Þegar fjölmiðlar tilkynna okkur að að fjöldamorð séu í uppsiglingu heyrist oft að “aðgerða sé þörf” til að að bjarga meintum fórnarlömbum og að enginn tíma megi glatast við það að athuga staðreyndir málsins. Þetta á kannski við þegar kviknað hefur í húsi nágranna, en slíkt offors þegar kemur að málefnum annara landa gerir að verkum að litið er fram hjá hagræðingu og fölsun á staðreyndum, sem og mistökum og villum sem ríkjandi eru í fréttum af erlendum vettvangi. Hver sem krísan er í öðrum löndum gerir ákafinn það að verkum að enginn tími gefst fyrir fólk á vinstri vængnum að íhuga alvarlega önnur viðbrögð en hernaðaríhlutun. Hvers konar sjálfstæða rannsókn er hægt að framkvæma til að skilja megi orsakir átakanna og vinna að mögulegum lausnum? Hvert er hlutverk ríkiserindreksturs (diplomacy)? Myndirnar sem dregnar eru upp af hjartahreinum uppreisnarmönnum eru vinstrisinnum kærar og koma í veg fyrir vangaveltur um stöðu mála. Þær koma í veg fyrir raunhæft mat á samtímanum og ástæðum uppreisna í heiminum, ástæðum sem eru afskaplega ólíkar þeim frá fjórða áratug síðustu aldar, þaðan sem uppáhalds goðsagnir vinstrimanna koma.

Merkilegt hlýtur einnig að teljast að íhlutunarsinnar á vinstrivængnum fordæma almennt byltingar fortíðarinnar vegna þess að þær leiddu til valdatöku Stalíns, Pol Pots, Maós osfrv. En nú, þegar uppreisnarmennirnir eru íslamistar (studdir af Vesturlöndum) eigum við að trúa því að allt verði gott á endanum. Hvað um að “draga þann lærdóm af fortíðinni” að ofbeldisfullar byltingar séu ekki endilega besta leiðin til að ná fram samfélagslegri breytingu?

Í stað þess að kalla eftir fleiri og fleiri hernaðaríhlutunum ættum við að krefjast þess af ríkisstjórnum okkar að borin sé virðing fyrir alþjóðalögum, afskiptum af innanríkismálum landa verði hætt og áhersla verði lögð á samvinnu í stað átaka. Að dregið sé úr afskiptum af innanríkismálum þýðir ekki aðeins endalok hernaðaríhlutuna. Það á jafnframt við diplómatísk og efnahagsleg samskipti: engar einhliða refsiaðgerðir, engar hótanir meðan á samningaviðræðum stendur, og jafna og sanngjarna meðferð gangvart öllum ríkjum. Í stað þess að fordæma leiðtoga ríkja eins og Rússlands, Kína, Íran, Kúbu fyrir að brjóta á mannréttindum, nokkuð sem íhlutunarsinnar á vinstrivængnum gera stöðugt, ættum við að hlusta á hvað þeir hafa að segja, eiga í samræðu við þá og aðstoða samborgara okkar við að skilja hina ólíku hugsunarhætti sem til eru í veröldinni, þar með talið þá gagnrýni sem beinist að Vesturlöndum. Að vinna að og rækta gagnkvæman skilning gæti, þegar til lengri tíma er litið, verið besta leiðin til að bæta mannréttindi allsstaðar í veröldinni.

Þetta myndi ekki leysa samstundis pólitísk átök í löndum eins og Líbíu og Sýrlandi eða brot á mannréttindum. En hvað gerir það? Íhlutunarstefnan eykur spennu og vígbúnaðarkapphlaupið í heiminum. Þau lönd sem upplifa ógn vegna stefnunnar og þau eru mörg, verjast hvernig sem hægt er. Áróðusherferðir koma í veg fyrir friðsamleg samskipti meðal þjóða, menningarleg samskipti á meðal borgara og, óbeint, í veg fyrir að hugmyndir frelsis og frjálslyndis fái að blómsta, hugmyndir sem þau á vinstrivængnum sem styðja hernaðaríhlutanir segjast vilja breiða út. Um leið og þau yfirgáfu allar hugmyndir um annað en íhlutanir gáfu þau um leið upp á bátinn nokkra möguleika á því að hafa áhrif á gang heimsmála.

Þessi hópur gerir ekkert til að “hjálpa fórnarlömbunum” eins og hann segist gera. Fyrir utan það að eyðileggja alla mótstöðu við hernað og heimsvaldastefnu, fær hann nákvæmlega engu áorkað. Þau einu sem í raun gera eitthvað eru þau sem eru við völd hverju sinni í Bandaríkjunum. Að treysta á þau til að tryggja velferð íbúa heimsins er viðhorf sprottið af algjöru vonleysi.Þetta vonleysi er þáttur í því hvernig stærstur hluti fólks á vinstri vængnum brást við “hruni kommúnismans”; með því að aðhyllast stefnu sem gengur þvert á kommúnisma, sérstaklega í alþjóðamálum, þar sem andstaða við heimsvaldastefnu og varnir á fullveldi ríkja hafa í auknum mæli verið útmálaðar sem ” leifar frá tímum Stalíns”.

Íhlutunarstefnan og Evrópusambandið eru hvoru tveggja hægri sinnuð stefnumál og verkefni. Hið fyrra tengist áformum Bandaríkjanna um algjör heimsyfirráð. Hið síðara er rammi sá er styður við efnahagsstefnu nýfrjálshygjunnar og eyðileggingu velferðarkerfisins. Það er mikil þversögn fólgin í því að bæði stefnumálin hafa verið réttlætt með “hugmyndum frá vinstri”: mannréttindum, alþjóðahyggju, andstöðu við kynþáttafordóma og andstöðu við þjóðernishyggju. Í báðum tilfellum hanga þau á vinstri vængnum sem misstu fótanna þegar Sóvétblokkin hrundi á orðræðu “örlætis og mannúðar” og reyna þar að finna bjargræði, vegna þess að þau skortir alla raunhæfa greiningu á hinu flókna samspili valda og hagsmuna í veröldinni. Þegar svona er ástatt fyrir fólki á vinstri væng stjórnmálanna þarf hægri vængurinn ekki eigin hugmyndafræði; honum nægir að tala um mannréttindi.

Engu að síður eru bæði stefnumálin, íhlutunarstefnan og Evrópusambandið, komin í öngstræti. Heimsvaldastefna Bandaríkjanna stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum, bæði efnahagslegum og diplómatískum. Íhlutunarstefnan hefur gert það að verkum að stór hluti heimsbyggðarinnar er sameinaður gegn Bandaríkjunum. Varla er nokkur eftir sem enn trúir á “aðra” Evrópu, félagslega Evrópu og hið raunverulega Evrópusamband (hið eina sem mögulegt er) vekur ekki mikinn áhuga eða spennu hjá vinnandi fólki. Ljóst er að erfiðleikarnir gagnast aðeins hægrimönnum og öfgahægri öflunum í samfélaginu. Þetta er einungis vegna þess að vinstrimenn hafa hætt að skilgreina alþjóðalög, frið og fullveldi sem frumforsendur lýðræðis.


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir

Jean Bricmont kennir eðlisfræði í Belgíu og er meðlimur í Brussel Tribunal. Hann er ma. höfundur bókarinnar Humanitarian Imperialism.

References

References
1 Í tilefni NATÓ ráðstefnunnar í Chicago efndi Amnesty International til herferðar þar sem NATÓ var hvatt til að vinna áfram að framförum í þágu kvenna í Afganistan. Ekki var útskýrt eða spurningunni einu sinni velt upp, hvernig hernaðarbandalag á að vinna að slíku markmiði