Miðausturlönd – eyðilegging samkvæmt áætlun

Styrjaldargnýrinn í fjarlægð er óslitinn. Þessa stundina er stríð Vestursins háð úr lofti – gegn Íslamska ríkinu svokallaða innan Sýrlands og Írak. Íslamska ríkið er vígahópur sem einkum á rætur í uppreinsinni gegn Assadstjórninni í Sýrlandi. Þar hefur hann að mestu verið vopnaður og fjármagnaður af CIA og af helstu bandarmönnum USA í Miðausturlöndum, s.s. Sádi-Arabíu og Katar. Þetta er aðeins nýjasta stríðið í seríu styrjalda sem Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO og Arabalöndum auk Ísraels standa að. Stríðið er samfellt, en brennipunkturinn flyst til. Samfellt stríð er orðin opinber bandarísk stefna.


Enduruppskipting áhrifasvæða frá 1990

Heimsvaldakerfið leyfir ekki valdatómarúm. Saga kapítalískrar heimsvaldastefnu sannar það aftur og aftur. Græðgin í auð og völd er óseðjanleg. Eftir fall Sovétríkjanna raskaðist jafnvægið milli heimsveldanna mjög. Alþjóðastjórnmálin urðu einpóla vegna yfirburðavalds Bandaríkjanna. Margir hinir einföldu töldu að fall Múrsins boðaði frið. En vestrænir heimsvaldasinnar sáu fyrir sér allt annað en frið, nefnilega enduruppskiptingu áhrifasvæða út frá nýjum styrkleikahlutföllum. Og þar sem hægt er að sækja fram sækir maður fram! Frá falli Múrsins varð viðmið Bandaríkjanna heimsyfirráð.

Helstu svæði til enduruppskiptingar eftir fall Sovétríkjanna voru Austur-Evrópa og Miðausturlönd. Wesley Clark fyrrum yfirhershöfðingi NATO sagði frá fundi sínum árið 1991 með Paul Wolfowitz, þá vararáðherra og síðar varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann sagði þar að Bandaríkin hefðu nú 5-10 ár til að “hreinsa upp þessi gömlu skjólstæðingsríki Sovétríkjanna, Sýrland, Íran og Írak, áður en næsta risaveldi kemur og skorar okkur á hólm.” Wolfowitz fókusaði á Miðausturlönd af því þaðan streymir olían. Þessi þrjú lönd settu Bandaríkin nú á listann “öxulveldi hins illa” (og þrjú í viðbót: Líbíu, Norður-Kóreu og Kúbu) og settu í gang stríðsvélar sínar eins og brátt mun sagt verða.

Keppinautar skora risaveldið á hólm

En kapítalísk þróun er ójöfn, gömlu heimsveldin eru hnignandi og kreppuhrjáð. Þrátt fyrir sigur Bandaríkjanna í kalda stríðinu, þrátt fyrir einstæða valdastöðu þeirra og trausta hirð bandamanna hafa ný heimsveldi siglt upp að hlið þeirra í keppninni um heimsmarkaðinn. Dollarinn er að missa stöðu sína sem allsherjargjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum og það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bandaríska hagkerfið. Bandaríska vefritið Business Insider skrifaði núna 8. október síðastliðinn: “Því miður, Ameríka, Kína var að fara fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims, skv. útreikningum AGS.”

Lengi hafa önnur heimsveldi veigrað sér við að taka upp andstöðu gegn yfirþyrmandi drottnunarstöðu Bandaríkjanna. En eftir aldamótin hafa helstu keppinautarnir, einkum Rússland og Kína, í vaxandi mæli myndað skipulega andstöðu. Hið hnignandi veldi N-Ameríku heldur risaveldisstöðu sinni öðru fremur á einu sviði, því hernaðarlega (að drottnunarstöðu Bandaríkjanna á fjölmiðlasviðinu kem ég síðar). Og gamla risaveldið mætir andstöðunni nýju með því að treysta á hernaðartrompið. Styrjaldir Bandaríkjanna og NATO eftir lok kalda stríðsins hafa haft tvær megináherslur: A) Að tryggja yfirtök Vesturveldanna á flæði olíunnar. Í því skyni hefur Vestrið kappsamlega grafið undan og reynt að steypa þjóðernissinnuðum stjórnvöldum á strategískum svæðum sem kostað hefur langvinn stríð og upplausnarástand í einu landi af öðru. B) Síðasta áratuginn eða svo hefur herstjórnarlistin stöðugt meira miðast við seinna áherslusviðið, að einangra og skaða keppinautana, einkum Kína og Rússland, og rýja þá bandamönnum. Í fyrstu lotu er lögð áhersla á að grafa undan helsta bandamanni þeirra í Miðausturlöndum, Íran, og helsta svæðisbundna bandamanni hans, Sýrlandi. Útkoma stefnunnar er órofa stríð.

Öldin okkar: óslitið stríð

NATO, undir forustu Bandaríkjanna, háði stríð úr lofti gegn Júgóslavíu árið 1999 (stutt af Íslandi!). Tveimur árum síðar réðust Bandaríkin og NATO á Afganistan – stríð sem enn stendur (stutt af öllum ríkisstjórnum Íslands á tímabilinu!). Rúmu ári síðar hófu Bush og Blair stríð sitt gegn Írak (Ísland á lista “hinna viljugu”!) . Þegar dró úr stríðsátökum í Írak (landið þá í rúst og upplausn) hófst stríð NATO gegn Líbíu (stutt af íslensku vinstristjórninni!). Um það bil sem stríðið í Líbíu fjaraði út 2011 (með Líbíu í tætlum og upplausn) færðist fókusinn yfir til Sýrlands. Að formi til var stríðið þar borgarastríð. Atburðarásin byrjaði vissulega sem umbótabarátta meðal almennings og tengdi sig “arabísku vori” en breyttist á undurskömmum tíma í styrjöld. Með stuðningi vestrænna heimsvaldasinna og bandamanna þeirra í Arabaheimi varð umbótabaráttan að stórfelldri innrás í landið með staðgengilsherjum og málaliðum. Vestrænu bakmennirnir og arabísku fylgiríki þeirra blésu að glæðum trúardeilustríðs sem þeir mátu svo að helst gæti grafið undan stjórnvöldum Sýrlands. Uppistaða uppreisnarherjanna voru öfgasinnaðir trúarhópar salafista, fyrst Al Nusra og smám saman einnig þeir sem kenndir voru við ISIS (síðar skírt Íslamska ríkið) , báðir með tengsl við Al Kaída, báðir studdir af vestrænum leyniþjónustum og vopnaðir af hinum tryggu bandamönnum Bandaríkjanna í Miðausturlöndum (Sádum, Katar, Tyrkjum…). Sumarið 2013 var svo undirbúin árás Bandaríkjanna og NATO-bandamanna þeirra á Sýrland á grundvelli hannaðrar atburðarásar, nefnilega eiturgasárásar í útjaðri Damaskus þar sem sökinni var í heimspressunni komið á Assadstjórnina. Innrás “alþjóðasamfélagsins” var komin á fremsta hlunn um mánaðarmótin ágúst/september þegar hún var skyndilega blásin af. Ekki hafði reynst nægur alþjóðlegur stuðningur fyrir henni. Andstaðan kom frá BRICS-löndum, einnig innan Evrópu, Cameron beið snautlegan ósigur fyrir eigin þingi og loks reyndist Obama ekki hafa stuðning fyrir árásinni heima fyrir. Hann varð að hanna atburðarásina betur – sem hann gerði – og skjóta beinni íhlutun á frest.

Brennipunkturinn færðist þá til Úkraínu. Valdaránið í Kænugarði sl. febrúar var “litabylting” af bandarísku vörumerki með fingraför CIA út um allt. Í frægu “Fuck the EU” símtali sem lak út skömmu fyrir kúppið afhjúpaði bandaríski varautanríkisráðherrann Victoria Nuland ítarleg bandarísk plön um samsetningu nýrra stjórnvalda í Úkraínu. Forleikurinn var afar víðtæk starfsemi “mannréttindasamtaka” undir væng bandarísku samtakanna USAID, NED o.fl. Nuland gaf það upp í ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara til stuðnings við vestrænt sinnuð lýðræðisöfl í Úkraínu! Eftirleikur valdaránsins var brútalt stríð hægristjórnarinnar í Kænugarði gegn rússneskumælandi sjálfsstjórnarsinnum austurhéraðanna (stríð stutt af Íslandi!). Human Rights Watch segir að stjórnvöld hafi m.a. beitt klasasprengjum gegn borgurunum. Ekki tókst þó að brjóta á bak aftur andstöðu sjálfsstjórnarsinna og við tók brotgjarnt vopnahlé.

CIA og nýja stríðið gegn Írak og Sýrlandi

Um það leyti sem vopnahléið var samið í Úkraínu espaðist á ný upp stríðið í Írak og Sýrlandi. Nú var ISIS/Íslamska ríkið (ÍS) í aðalhlutverki. Líkt og í leiksýningu kynntu samtökin sig inn á sviðið með því að hálshöggva í beinni í samfélagsmiðlunum bandaríska blaðamanninn James Foley. ÍS reynast vera furðulega vel vopnuð og auðug samtök og sýna undraverðan árangur á vígvellinum. Fyrst innan Írak, en almennt er vitað að þau hafa fyrst og fremst vaxið út úr stríðinu í Sýrlandi. Vestræn pressa lýsir hinu nýja stríði sem svo æðisgenginni villimennsku að það bókstaflega heimti íhlutun frá “alþjóðasamfélaginu”. ‚islamska ríkið jafnvel ógni Bandaríkjunum! Strax í águst sagði Dempsey, æðsti hershöfðingi Bandaríkjanna (æðsti foringi Joint Staff): “Að sigrast á vígamönnum ÍS útheimtir að við eyðum bækistöðvum þeirra í Sýrlandi.” Herforingjarnir sátu ekki við orðin tóm heldur hófu loftárásir á Sýrland í skyndi. Obama segir að landhernaður sé ekki á dagskrá í Sýrlandi. Hann viðurkennir þó að stríðið við ÍS muni taka nokkur ár (Ísland styður þennan hernað!). Áðurnefndur Dempsey sagði svo strax í september að bandarískur landhernaður í þessu stríði yrði kannski nauðsynlegur.

Mjög lítið er hins vegar talað um hvaðan ÍS kom eða fékk styrk sinn. Ekki mun ég færa löng rök í því máli. Ég bendi á mjög fræðandi og heimildum studda grein í New York Times frá 24. mars 2013 sem sýnir og sannar hvernig vopnabúnaður berst íslamistunum í Sýrlandi frá Sádi Arabíu og Katar gegnum Tyrkland og Jórdaníu og Króatíu (í ESB). Þarna er talað um 160 ferðir í stórum herflutningavélum. Og skv. greininni er ekki vafi á þætti CIA í málinu:

Frá skrifstofum á óþekktum stöðum hafa bandarískir leyniþjónustumenn hjálpað arabískum ríkisstjórnum við kaup á vopnunum, þ.á.m. á mjög stórri pöntun frá Króatíu, og valið út þá herforingja og hersveitir sem taka við vopnunum, að sögn bandarískra starfsmanna sem tjá sig með þeim skilyrðum að njóta nafnleyndar

http://www.nytimes.com/2013/03/25/world/middleeast/arms-airlift-to-syrian-rebels-expands-with-cia-aid.html@pagewanted=all&_r=0

Eins og önnur stríð Vestursins á seinni árum er þetta háð með blöndu af opinberri herferð (íhlutun í mannúðarskyni og stuðningur við lýðræðisöfl!) og mikilli leynd eftir krókaleiðum. Bandarísk hermálayfirvöld og stjórnmálamenn hafa opið staðið að vopnasendingum og öðrum stuðningi við “hófsama íslamista” í Sýrlandi (eins og Líbíu áður). Þá voru líka “öfgahópar” meðal uppreisnarmanna miklu betri en Assadstjórnin. Þegar svo ÍS var skyndilega orðið versta ógn samtímans sem ógnaði m.a.s Bandaríkjunum varð rökfærslan flóknari. Joe Biden varaforseti var spurður í októberbyrjun sl. hvort ekki hefði verið rétt að grípa fyrr inn gegn þessum voðaöflum. Þá varð hann að viðurkenna að helstu bakmenn þeirra væru “vinir okkar í Miðausturlöndum” og jafnframt að “hófsömu uppreisnarmennirnir” hefðu aldrei verið til. Þá er hin eðlilega spurning: Hvert fóru þá vopnasendingarnar sem stílaðar voru á hina “hófsömu” sem aldrei voru til? Hvert annað en til ÍS?

Í bandarískri stjórnmálastétt er siður að gagnrýna hvern stríðsrekstur fyrir sig og þá helst þegar “hinn” flokkurinn er við völd. Þá er alsiða að lýsa stríðinu sem “mistökum” og “klúðri” (jafnvel heimsku). Upplausnarástandið sem við tekur af hinu vestræna hernámi er þá sagt vera staðfesting á klúðrinu. En ekki er ólíklegt að “okkar” forseti hefji svo næsta stríð og þá verða það “hinir” sem hamra á “mistökunum” og “klúðrinu”. Þeir sem segja að stríðin séu klúður eða afbökun á grundvallarstefnunni eru með því að segja að grundvallarstefna USA í utanríkismálum byggist á friðsemd og samvinnu. Það er hins vegar algjört meginatriði í þessu máli að stríðin eru ekki frávik frá stefnunni eða “mistök”. Þau eru stefnan sjálf. Sömu leiðis upplausnin sem stríðunum fylgir.

Að velja stríðinu yfirskrift

Styrjaldir heimsvaldasinna fara fram í fjölmiðlum ekki síður en á vígvöllum. Yfirtök vestrænna heimsvaldasinna á heimspressunni eru afgerandi í að skapa þá heimsmynd sem stríðin byggjast á. Finna verður YFIRSKRIFT STRÍÐSINS sem selja má almenningi. Allt frá 11. sept hafa bandarískir heimsvaldasinnar háð stríð undir yfirskriftinni “Stríð gegn hryðjuverkum”. Yfirskriftin varð til hjá Bush yngra og var jafnskjótt tekin upp af NATO. Þetta var raunar kjörorð nýhægrimanna, grúppunnar kringum Bush, Cheney, Rumsfeld og Wolfowitz. Obamastjórnin (ekki ólíkt Clintonstjórninni áður) hefur lagt aðrar áherslur og háð stríð sín undir nýrri yfirskrift : Skyldan að vernda borgarana! Mannúðaríhlutun! Þetta er frjálslynd heimsvaldastefna sem kallar sig “frjálslynda alþjóðahyggju”. Gegnum USAID, NED o.fl tengir CIA sig við mannréttindasamtök vítt um heim og stofnar önnur, sem hafa á stefnuskrá sinni mannréttindi, lýðræði, réttindi kvenna og samkynhneigðra og annað sem safnað getur mótmælum frjálslyndra og valdið ólgu. Í aðdraganda Líbíustríðs var bænaskrá um hernaðaríhlutun undirrituð af 70 “mannréttindasamtökum” send Ban-ki Moon og átti hún mikinn þátt í að SÞ samþykkti loftferðabannið á Líbíu. Í nýjasta stríðinu í Írak og Sýrlandi eru þessar tvenns konar yfirskriftir sameinaðar í eitt: “Stríð gegn hryðjuverkum” og “skyldan að vernda borgarana”. “Litabyltingar” í stíl við valdaránið í Úkraínu eru hluti af þessari taktík. Þessar nýju yfirskriftir/yfirvörp styrjalda ganga miklu betur í VINSTRIÐ vítt um heim sem áður átti það til að skapa vandræði kringum stríðsrekstur. Andstaðan við þessar nýju herferðir Vestursins hafa ekki mætt teljandi andstöðu – svo nýju yfirskriftirnar virka!

Stjórnvöld í Júgóslavíu, Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi, Úkraínu… Hvað er það sem þessir “óvinir okkar” eiga sameiginlegt? John Pilger orðar það svo:

Nafn óvina “okkar” hefur breyst gegnum árin, frá kommúnisma til íslamisma, en almennt er það sérhvert samfélag sem er óháð vestrænu valdi og er á hernaðarlega mikilvægu og auðlindaríku svæði, eða einfaldlega býður upp á valkost við vestræna drottnun.

http://www.theguardian.com/commentisfree/2014/may/13/ukraine-us-war-russia-john-pilger

Bandaríkin og taflborðið mikla

Þessi greining Pilgers skýrir hvað ræður því að Vesturveldin dæma einstök lönd til “valdaskipta”. En það er ekki nóg að líta á innra ástand og stefnu einstakra landa. Strategistarnir horfa á einstök lönd einkum út frá mikilvægi þeirra í taflinu um yfirráð á stærri áhrifasvæðum, og í taflinu um heimsyfirráð. Nú síðast var ríkisstjórn al-Malikis í Írak bolað frá völdum af því hún sýndi mótþróa við yfirmenn sína, studdi Assadstjórnina í Sýrlandi gegn uppreisnarherjunum, vingaðist við Íran, keypti vopn af Rússum og seldi olíu til Kína.

Í bók sinni The Grand Chessboard frá 1997 talar Brzezinski (áður öryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta) um mikilvægi Evrasíu fyrir heimsyfirráð. ” Evrasía er stærsta meginland á hnettinum og myndar möndul alþjóðastjórnmála. Veldi sem ræður Evrasíu ræður tveimur af þremur þróuðustu og efnahagslega frjósömustu svæðum heims…” (bls 31) Hann er mjög meðvitaður um að aðrir umsækjendur um hnattræn áhrif hafa komið fram, einkum Rússland og Kína. Hann skrifar: “Með aðvörunarmerkin við sjónarrönd bæði í Evrópu og Asíu verður sérhver bandarísk stjórnarstefna að beina sjónaukanum að Evrasíu í heild og láta stjórnast af hnattrænni herstjórnarlist.” (bls. 197) Síðan fjallar hann um “Balkanlönd Evrasíu”, svæði sem spannar Kákasuslönd, Mið- Asíu (Kasakstan, Úzbekistan, Kyrgistan, Túrkmenistan, Afganistan, Tadsíkistan) og Tyrkland. (bls 124) Svæðið hefur gífurlegt vægi, segir hann, vegna olíuauðs. Og svæðið minnir á Balkanskagans af því þau mynda valdapólitískt tómarúm: “Í Evrópu kallar orðið “Balkanlönd” fram í hugann mynd af þjóðernaátökum og átökum stórvelda um áhrifasvæði… ekki aðeins eru þau [Balkanlönd Evrasíu] pólitískt óstöðugar einingar heldur freista þau og bjóða upp á átroðning voldugri nágranna… nefnilega Rússlands, Tyrklands, Íran og loks Kína sem sýnir vaxandi áhuga á svæðinu… Gömlu Balkanlöndin voru valdapólitísk verðlaun í baráttunni um æðsta vald í Evrópu. Balkanlönd Evrasíu spanna það flutninganet sem tengir ríkustu og iðnvæddustu útstöðvar Evrasíu í austri og vestri og eru [tilsvarandi] valdapólitískt mikilvæg.” (bls 124)

Trúardeilutrompið

Herstjórnendur og leyniþjónustur Vesturvelda (Bandaríkjanna, Breta, Ísraels og vestrænna bandamanna þeirra) blása að glæðum ófriðar á svæðinu, ófriðar á grundvelli þjóðernaandstæðna og þó einkum trúardeilna. Þetta gerðu hernámsyfirvöldin í Írak afar skipulega eftir því sem leið á hernámið þar – til að valda sundrungu hjá andstæðingnum, deila og drottna – og fór þá að ganga betur í stríðinu í þessu sjía-sunní tvískipta landi.

Strategistar heimsvaldasinna hafa séð (sáu það m.a. skýrt í “balkaníseringu” Íraks) að trúardeilutrompið getur reynst notadrjúgt í því að brjóta niður einstök lönd, breyta landamærum og brjóta strúktúra sem ekki hafa þjónað heimsvaldasinnum sem skyldi. Viðleitnin að auka fjandskap milli þjóðernahópa og trúarhópa varð nú kerfisbundin. Hinn þekkti bandaríski blaðamaður Seymour Hersh vann sitt fyrsta afrek í rannsóknarblaðamennsku er hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Víetnam 1969 og vann síðan Pulizer-verlaunin. Hann skrifaði grein í New Yorker 2007 um það hvernig Bush-stjórnin veðjaði á þetta trúardeilutromp til að snúa málum sér í hag í Miðausturlöndum:

To undermine Iran, which is predominantly Shiite, the Bush Administration has decided, in effect, to reconfigure its priorities in the Middle East… The U.S. has also taken part in clandestine operations aimed at Iran and its ally Syria. A by-product of these activities has been the bolstering of Sunni extremist groups that espouse a militant vision of Islam and are hostile to America and sympathetic to Al Qaeda.

Kortið af “Nýjum Miðausturlöndum”

The Project for the New Middle East

Þróunin hin síðari ár hefur staðfest orð Hersh æ betur með hverju ári sem líður. Þessi aðferð er nátengd því sem nefnt hefur verið “balkanísering” með tilvísun til uppskiptingar Júgóslavíu í sjö lítil ríki á 10. áratugnum. Mörg lítil ríki henta heimsvaldasinnum betur en staðbundin stórveldi. Í því samhengi er mjög áhugavert landakort eitt af “Nýjum Miðausturlöndum” sem hefur verserað í vald- og herpólitískum kreðsum í USA og hjá NATO síðan 2006. Kortið sýnir landafræðimunstur sem ungir strategistar skuli hafa á bak við eyrun og væri “skynsamlegra og heppilegra” en það landakort em gilt hefur. Mahdi D. Nazemroaya (m.a hjá “Global Research” í Kanada) bendir á þetta í grein frá 2006. Kortið er gert af Ralph Peters undirofursta í bandarísku hernaðarakademíunni og birt í The Armed Forces Journal 2006. Þar er Írak skipt í þrennt, Sjía-Írak í suðri, Sunní-Írak í miðið og svo Kúrdistan sem einnig fær hluta af Sýrlandi. Þessi hluti kortsins stemmir sláandi vel við það sem nú fer fram fyrir augum okkar, 8 árum síðar. [Birta kortið.]

Hlutverk Frankensteins

Líkt og oft hefur verið bent á í sambandi við Al Kaída og þeirra líka: Í Íslamska ríkinu hafa Bandaríkin vakið upp sinn Frankenstein. Skrímslið snýst að einhverju leyti gegn skapara sínum, rétt er það, hálsheggur t.d. bandaríska blaðamenn. En slík óþægindi eru meðvituð áhætta og fyllilega í samræmi við grunnáætlunina. Aðalatriðið er að skrímslið nái að sundra og valda upplausn í hinum tilætluðum ríkjum. Tilgangurinn er að sundra þjóðareiningu gegn heimsvaldaíhlutun, brjóta þessi lönd upp, réttlæta Vestræna hernaðaruppbyggingu í Miðausturlöndum og skilja þar eftir upplausn, dauða og eyðileggingu. Sem jafnframt er skref í átt að því að fella Íran og þar með í átt að einangrun Rússlands og Kína.

Meðan þessu fer fram hefur Kína unnið að því kappsamlega með viðskiptalöndum sínum að samþætta Evrasíu á efnahagssviðinu. Efla það “flutninganet sem tengir ríkustu og iðnvæddustu útstöðvar Evrasíu í austri og vestri” svo notuð séu áður tilfærð orð Brzezinskis. Talað er í því sambandi um endurgerð Silkivegarins. Það er að nokkru leyti baksviðið að krampakenndum aðgerðum Bandaríkjanna og Vestursins í Miðausturlöndum, einnig tilraunum þeirra til að etja Úkraínu gegn Rússum og refsiaðgerðum þar að lútandi. Þetta er skiljanlegt. Fall allra mótþróaríkja í Miðausturlöndum og Mið-Asíu myndi hindra þróun Evrasíu sem þeirrar efnahagseiningar sem ella mun binda enda á “amerísku öldina”. En verið viðbúin: Gamla risaveldið og gömlu nýlenduveldin ætla að selja sig dýrt!