“einhverjir eru alltaf vitlausu megin á blaðsíðum sögunnar”

Kæra fólk,

Það er erfitt að finna stund og stað til að byrja á svo að ég byrja bara hér:

Tuttugusta og annan júlí síðastliðinn hittust 28 menn og konur, utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna og sömdu einhverskonar yfirlýsingu um hið svokallaða ástand í Miðausturlöndum. Þau fordæmdu árásir Hamas á Ísrael, kölluðu þær glæpsamlegar og kröfðust þess að allir hryðjuverkahópar á Gaza afvopnuðust samstundis. Þau fordæmdu hið mikla mannfall og lögðu áherslu á að almenningur mætti ekki vera skotmark. Og þau viðurkenndu rétt Ísraelsríkis til að verja sig árásum en bentu á að slíkar varnir þyrftu að vera í samræmi við árásirnar og innan þeirra marka sem alþjóðalög kveða á um.

Tuttugasta og sjöunda júlí síðastliðinn hringdi Obama í Netanyahu og sagði honum frá vaxandi áhyggjum sínum af dauðsföllum almennra borgara á Gaza og versnandi aðstæðum þar. Og lagði svo áherslu á að Washington fordæmdi harðlega árásir Hamas á Ísrael og á rétt Ísraels til að verjast.

Átök, ástand og varnir. Snyrtilega uppsett, eitt leiðir af öðru, hryðjuverkafólk kemur af stað átökum, það verður til ástand, grípa þarf til varna. Rétturinn til að verjast þeim sem ákveðið hefur verið að séu hryðjuverkamenn, þeim sem auðvitað eru Arabar, er eins og allir vita, heilagastur allra. Hryðjuverkaarabar, hver vill ekki verjast þeim? Við berjumst við þá þar svo við þurfum ekki að berjast við þá hér; þetta sagði George W. Bush, hafði kannski heyrt það hjá vinum sínum í Ísrael, fannst það hljóma ótrúlega vel, og gerði svo innrásir í tvö lönd þar sem mikið af brúnu fólki býr, brúnu hryðjuverkafólki sem er flinkt í að deyja.

Ísrael, glæstur vinur Ameríku og Evrópu og uppáhaldsnemandi, verst nú hryðjuverkaaröbunum af miklum móð, mikilli eljusemi, með því sem varla er þó hægt að kalla vopn, við hljótum að þurfa að kalla þau varnartæki eða eitthvað slíkt, við Íslendingar þekkjum svona vel; stundum er her ekki her heldur varnarlið, stundum er vopn ekki vopn heldur vörn, stundum er sprengja ekki sprengja heldur skjól:

Nú verst Ísrael með varnartækjum, hrúgum af þeim, til er óendanleg uppspretta þeirra, nokkurskonar töfrabrunnur sem í er veitt höfðinglega, dyggilega, samviskusamlega, án hlés, lífsrýmisvarnartækjum frá Evrópu og Bandaríkjunum:

Ameríka hefur frá árinu 2008 og ætlar fram til ársins 2019 að veita Ísrael svokallaða hernaðaraðstoð, lífsrýmis og varnaraðstoð, uppá samtals umþ.b. þrjúþúsund og fjögurhundruðmilljarða íslenskra króna, Evrópa hefur á liðnum árum selt varnir til Ísraels fyrir marga stóra milljarða og jafnframt hefur Evrópusambandið veitt ísraelskum varnarfyrirtækjum hrúgur af rannsóknarstyrkjapeningum til að rannsaka hvernig verjast má hryðjuverkafólki.

Við hættum ekki fyrr en markmiðinu hefur verið náð, segir Benjamin Netanyahu, Mission Accomplished, fyrr en við höfum fundið endalausnina á brúna hryðjuverkafólkinu með réttlætinu okkar, styrktu af amerískum og evrópskum peningum. Því hver getur þolað árásir á sitt heimaland?

Já, hver getur þolað slíkt?

Ekki Evrópubúar, ekki Ameríkanar eða Ísraelsmenn.

Fyrirbærið manneskja er ekki hönnuð til að þola óréttlæti mjög vel. Manneskjum sárnar ofríki og ofbeldi og óréttlæti og ofbýður svo oftast að lokum. Við skoðum mannkynssöguna og lesum um kúgun og níðingshátt og við setjum hnefann í borðið áratugum, jafnvel árhundruðum eftir að eitthvað svívirðilegt óréttlæti átti sér stað og segjum nei fjandinn hafi það, þetta gengur ekki! og við gleðjumst þegar manneskjur í mannkynssögunni rísa upp og heimta sitt réttlæti, heimta það sem þeirra er, við gleðjumst þegar hlekkir eru brotnir og stíflur bresta.

En sumum í mannkynssögunni er þó úthlutað annars konar hlutverki en að rísa upp, þau eiga ekki að æpa á frelsi og réttlæti. Þau eiga að spila hlutverk hinna, einhverjir þurfa alltaf að vera hinir, einhverjir eru alltaf vitlausu megin á blaðsíðum sögunnar, röngu megin við stífluna.

Einhverjir þurfa alltaf að tapa, einhverjir þurfa alltaf að vera fólkið sem á ekkert og má ekkert; ekkert nema að gráta og halda á smábörnum sem á vantar hendur og fætur, fólk sem á ekkert og má ekkert nema að róta í steypuruslinu sem einu sinni var húsið þeirra, fólk sem á ekkert og má ekkert, á ekkert hveiti til að baka úr brauð, á ekkert kjöt til að búa til úr hakk og spagettí, á ekkert vatn til að þvo fötin sín í, ekkert rafmagn til að kveikja á sjónvarpinu sínu með, ekkert nema blóðugan lítinn skó, ekkert nema bænir til almættisins, ekkert nema myrkur og vitneskjuna um að það má drepa þau, já þau má drepa endalaust, aftur og aftur, áratugum saman, taka allt frá þeim, blómin þeirra, börnin þeirra, ólífutrén þeirra, moldina þeirra og skilja ekkert eftir nema rusl og hrúgur af brúnum líkömum, eins og sögulegt minnismerki um endalausn. Einhverjir þurfa alltaf að vera fólkið sem á ekkert og má ekkert, nema að vera undirgefið, og nú skulu Palestínuarabar vera svo undirgefnir að í mannkynssögunni þekkist varla annað eins, á endanum skulu þeir ekkert eiga nema tár og ekkert mega nema að gráta.

Aðeins Ísrael hefur rétt á að verjast, Palestínuarabar hafa rétt á að deyja í undirgefni.

Því það sem kallað er átökin á Gaza eru ekki átök. Þegar við, manneskjur, segjum: Þau tókust á sjáum við fyrir okkur í það minnsta agnarögn af einhverju sem kalla má jafna stöðu. Á Gaza eru ekki átök, heldur kólónísering, rasismi, aðskilnaðarstefna. Fólk sem verður fyrir slíku á að vera undirgefið, annars gengur verkefnið ekki sem skildi.

Nei, þetta er ekki stríð, heldur kúgun, með lokatakmarki; að kremja allt fólkið á Vestubakkanum og Gaza. Ekki eitthvað sem við þurfum að nota um orð sem engu lýsir, orð eins og ástand, heldur viðbjóðslegt óréttlæti þar sem einn hópur fólks skal deyja og annar hópur fólk skal drepa, styrktur með peningum frá heimsveldi sem fyrir ekki svo löngu rak sína eigin aðskilnaðarstefnu, styrkt með vopnum frá þeim sem stýrt hafa veröldinni í hundruð ára með grimmd, yfirgangi, vopnavaldi og kúgun; galinni elítu á mála hjá hergagnaiðnaði, galinni elítu sem með annari hendi galopnar vopnabúr sín fyrir Ísrael og með hinni skrifar gagnslausar ályktanir um vopnahlé, með blóði fólksins í Palestínu. Galinni elítu sem krefst í raun einskis af Ísrael, en krefst alls af fólkinu í Palestínu, krefur það á endanum um að vera ekki fólk, ekki manneskjur, rísa aldrei upp, ofbjóða aldrei. Því það, að vilja ekki láta drepa sig og pína, er víst frátekið fyrir þau sem sleppa við að leika hlutverkið hryðjuverkaarabi í mannkynssögunni.

Sumarið 2008 stóð ég í röð ásamt tugum þúsunda annara, ég stóð í röð í fimm klukkutíma til að sjá Obama lýsa yfir sigri í prófkjöri Demókrataflokksins. Ég hef aldrei verið nokkursstaðar með jafn mörgu fólki, allskonar fólki, öll fjölbreytni mannkyns var samankomin í þessari ógnarlöngu röð. Og þegar við sáum þig, Obama, og Michelle þína, ég man að hún var í fjólubláum kjól, þá fóru sumir að gráta. Ekki vegna þess að við værum einfeldingar og kjánar, sem héldu að nú myndi allt breytast, heldur vegna þess að við vonuðum að nú myndi kannski sumt breytast. Að nú myndi kannski ljúka hinu hræðilega og óbærilega tímabili innrása, pyntinga, voðaverka, drápa á saklausu fólki.

Og í nafni okkar sem stóðu í röðinni til að sjá þig og vona, og í nafni þeirra sem nú standa hér segi ég:

Obama:

Ekki vera imperíalisti, ekki vera keisari, ekki vera morðingi, ekki bera ábyrgð á viðurstyggð, vertu manneskja, vertu manneskja, eins og þau sem stóðu í röðinni, eins og þau sem felldu tár, vonartár. Hættu að vopna Ísraelsher til voðaverka á Gaza! Hættu því!

Snúðu af þessari braut ofbeldis, sem engir vilja nema þau sem nú skipuleggja endalausn. Þess krefjumst við, í nafni þess að vera manneskjur!

  • Obama, stöðvaðu fjöldamorðin!
  • Hættu að vopna Ísraelsher til voðaverka á Gaza!
  • Burt með hernámið – frjáls Palestína!

Ræða sem Sólveig flutti á fundi félagsins Ísland-Palestína við Bandaríska sendiráðið fimmtudaginn 31. júlí 2014