Fordæmum stríð

Sökum aðildar Íslands að NATO, sem tók við yfirstjórn aðgerða í Líbíu þann 31. mars, erum við nú, á vormánuðum árið 2011, þátttakendur í þremur stríðum.

Í Afganistan eru 140.000 hermenn á vegum NATO og Bandaríkjanna, að ótöldum gríðarlegum fjölda málaliða sem njóta einhverskonar lagalegrar friðhelgi og komast upp með dráp á almenningi án þess að þurfa nokkurn tímann að svara til saka.

Yfirlýstur tilgangur innrásarinnar árið 2001 var að finna og handtaka Osama bin Laden, í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum. Illska eins manns virðist réttlæta að nú, tíu árum síðar, sé líf almennra borgara í Afganistan í stöðugri hættu, og tala látinna hækkar. Börn eru þar í miklum meirihluta.

Í aðdraganda innrásarinnar í Írak var uppgefin ástæða Bandaríkjanna og viljugra þjóða, að Saddam Hussein væri vondur maður, hann byggi yfir gereyðingarvopnum, hefði drepið íbúa í Kúrdahéruðum landsins og að Írak væri eitt af “öxulveldum illskunnar”. Yfirvöld viljugra þjóða töluðu ekki um fórnarlömb viðskiptabannsins sem beitt hafði verið á Írak árum saman. Afleiðingar þess voru dauði milljóna saklausra íbúa úr fátækt og vannæringu, meirihlutinn börn. Í Írak ríkir enn upplausn, landið hefur verið lagt í rúst af ríkisreknum herjum Vesturlanda og hundruðum þúsunda málaliða á samning hjá einkareknum fyrirtækjum. Meira en 5 milljónir Íraka hafa hrakist frá heimilum sínum. Rúm milljón hafa nú þegar látist vegna þessa stríðs sem við studdum.

Innrásin í Líbíu er ekki annars eðlis en hinar tvær fyrrnefndu. Fjölmiðlar hafa fjallað um illsku ráðamannsins Gaddafi í nokkrar vikur. Í umfjöllun um hann fara nafngiftir hans allt frá því að vera byltingarleiðtogi, þegar hann tók þátt í meintu stríði gegn Al-Quaida í Bengazi, í það að vera kallaður einvaldur þegar hann fremur þjóðarmorð í sömu borg. Höfðað er til siðferðiskenndar og loftárásir eru valdar sem lausn. Frá lokum síðari heimstyrjaldar hafa Bandaríkin gert loftárásir á tuttugu og sjö erlend ríki. Í hvert sinn hefur verið talað um réttlátt stríð í nafni mannréttinda. Tala fórnarlamba og afleiðingar efnahagsbreytinga eftir árásirnar sýna hins vegar óréttmæti aðgerðanna.

Yfirvöld keppast við að lýsa því yfir að eina takmarkið sé að vernda líf almennra borgara í Líbíu. Á sama tíma eru “bandamenn” okkar að myrða saklausa borgara í öðrum löndum. Súltaninn í Barein myrðir óvopnaða mótmælendur með hjálp tvö þúsund sádí-arabískra hermanna. Í Jemen hafa hersveitir einræðisherrans Saleh, annars bandamanns Vesturlanda, drepið 52 mótmælendur í skotárásum. Líf almennra borgara í Líbíu virðist vera dýrmætara en líf almennra borgara annars staðar í Arabaheiminum.

Felst munurinn í góðum og vondum aröbum? Fyrir tæpum tveim árum réðust Ísraelar inn á Gasasvæðið, myrtu tvö þúsund manns og sprengdu upp byggingar, jafnvel byggingar Sameinuðu þjóðanna og spítala. Ekkert flugbann var sett á Ísrael. Þvert á móti er Ísrael það ríki sem hefur nánust diplómatísk tengsl við Evrópusambandið. Ísrael er það ríki sem fær hæstu fjárhagslegu aðstoðina frá Bandaríkjunum ár hvert.

Ekki gera ekki neitt

Þeir sem efast um réttmæti stríðsins í Líbíu eru ásakaðir um að vera sekir um stuðning við þjóðarmorð. Ef upplýsingar fjölmiðla eru réttar, ólíkt því sem átti sér stað í aðdraganda stríðsins í Írak þegar okkur var talin trú um að þar væru gjöreyðingarvopn að finna, má spyrja sig einfaldrar spurningar: Stoppar maður fjöldamorð með öðru fjöldamorði?

Af hverju var ekki reynt að semja? Gaddafi með stuðningi Arababandalagsins og Afríkusambandsins bað um að fá að semja fyrir innrás. Ríki Suður-Ameríku buðust til að senda embættismenn til samningaviðræðna. Því var kurteislega neitað með sprengjuárásum. Opinber ástæða var að Gaddafi væri ekki treystandi.

Vert er að minna á atburði liðinna ára:

Þegar ráðist var inn í Írak 1991 vegna stríðs í Kuwait neitaði Bush eldri sex samningatillögum Saddam Huseins.

Áður en Clinton varpaði sprengjum á Júgóslavíu settu Vesturlönd skilyrði fyrir samningum sem eru nánast óhugsandi fyrir frjálst ríki að samþykkja: Leyfi til að koma fyrir erlendu herliði í landinu og stjórna þar gangi mála.

Áður en ráðist var inn í Afganistan buðust Talíbanar til að framselja Bin Laden gætu Bandaríkin sannað sekt hans í árásunum á Tvíburaturnana 11. september. Bush yngri neitaði að semja.

Þegar ráðist var inn í Írak bauðst Saddam Hussein til að taka á móti eftirlitsaðilum til að skoða hvort gjöreyðingarvopn væri þar að finna. Því var neitað og loftárásir hófust. Nú hefur komið fram að stjórnvöld innrásarliðsins vissu að þar var engin gjöreyðingarvopn að finna.

Á þessu ári á nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar að skila niðurstöðum um aðdraganda stuðnings Íslands við innrásina í Írak. Krafist er afléttingar leyndar þeirra skjala sem leiddu til stuðnings okkar við stríðið og þau gerð opinber fyrir allan almenning. Krafa okkar er engu minni fyrir þetta stríð: Við krefjumst þess að öll gögn sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og fulltrúar í utanríkismálanefnd Alþingis höfðu aðgang að og byggðu stuðning sinn við ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á, verði þegar í stað gerð opinber.

Geðþóttaákvarðanir stjórnvalda eru brot á mannréttindum og því er áríðandi að almenningur geti lagt sjálfstætt mat á það hvort að nú líkt og áður hafi kjörnir fulltrúar byggt ákvörðun sína um stuðning við loftárásir á persónulegri löngun og einkahagsmunum, í þeim eina tilgangi að þjóna hagsmunum heimsvaldasinna og alþjóðaauðvalds.

Var dreift á mótmælafundi gegn stríðsglæpum vesturveldanna í Líbíu fyrir framan stjórnarráðið 12. 1príl 2011.