Það er svo sorglegt að vera fullorðin manneskja á landi þar sem samhyggð er bara með evrópskum sparifjáreigendum

Kæra fólk!

Fyrst ætlaði ég að tala um staðreyndir í 3 mínútur hér í dag. Af því að þær eru á okkar heimssögulegu tímum mikilvægar, af því að við erum ennþá fær um að muna staðreyndir, ekki bara um peninga heldur líka um fólk. Þannig að 5 milljónir munaðarlausra barna vegna innrásarinnar í Írak er eitthvað sem ég get munað. Og að tíðni barnakrabbameins eftir stórskotaliðsárásir hinna viljugu þjóða árið 2004 í kjölfar þess að 4 málaliðar voru drepnir í Fallujah hefur 12faldast. Ég get munað það. Og tíðni hvítblæðis þar er 38 sinnum meiri en áður. Ég man líka þegar fangabúðirnar í Guantanamó hétu GITMÓ og menn geymdir í búrum þar hvísluðu: nasistar -nasistar-lygarar um hinar viljugu þjóðir.

Og ég veit að Saudi-Arabía hefur nýlega gert við Bandaríkin stærsta hergagnasamning í sögu heimsveldisins. Þar er sannarlega dirfska vonarinnar á ferð. Og að þeir drepa fólk í landinu við hliðina á sér – Bahrain – með þessum vopnum. Og að í Bahrain eru 6000 bandarískir hermenn stasjóneraðir. Og ég man að Petraeus yfirmaður NATÓ heraflans í Afganistan sagði á blaðamannafundi fyrir ekkert svo löngu að NATÓ dræpi aðallega almenna borgara í landi því sem nú heitir Afpak. Þið vitið: Afganistan og Pakistan. Hann sagði líka að hann teldi að afganskir foreldrar afskræmdu með eldi lík barnanna sinna til að geta fengið samúðargreiðslur frá Bandaríkjunum.

Og þá er ég búin að hugsa svo mikið um orð. Af því að þau eru svo stórkostlega hræðileg og samt svo fyrirsjáanleg. Össur Skarphéðinsson sem á mörg orð; sem sagði haustið 2001 að alþjóðasamfélagið vildi að Osama yrði sóttur og svo væri sjálfsagt að hjálpa Afgönum að byggja upp sitt samfélag og milljónir manna væru líklegar til þess að enda á vergangi en sjálfsagt væri svo að hjálpa til við að gera Afganistan að betra samfélagi. Þá var Össur búinn að líta sólarlag kalda stríðsins og bjó í veröld nýrri og góðri og var á leið inní hina allra bestu veröld allra veralda með nýfrjálshyggjuna sér við hönd, veröld þar sem hræsni er bara fyrir ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka, og fullorðið fólk – leiðtogar – er komið svo miklu miklu lengra. Komið á staðinn þar sem maður er orðinn doer – gerandi – einhver sem gerir eitthvað og milljónir manna á vergangi er eitthvað sem kall á Íslandi þar sem búa 300.000 horfist bara í augu við, horfir í spegilinn og spegilmyndin er sólarlag. Og nú er Össur komin til Líbíu með Vinstri grænum og þau eru Operation Unified Protector- Aðgerð Sameinaðir Verndarar. Þau hafa sameinast með Obama sem heima hjá sér ætlaði að byggja skjaldborg um fólk og hætta að pynta en er nú sameinaður með auðvaldinu og geymir Bradley Manning, 24 ára manneskju með heilkenni sem heitir Sterk Réttlætiskennd í litlum klefa 23 tíma á sólarhring fyrir að hafa horft í spegil og séð eitthvað annað en sólarlag.

Í Líbíu ætlar Norræna Velferðarstjórnin að koma frá einvaldi sem drepur fólk, Álfheiður Ingadóttir ætlar að stöðva þjóðarmorð og vill ekki taka neinn tíma í að hugsa sig aðeins um, hún hefur Responsibility to Protect, skyldu til að vernda líbíska borgara vegna þess að Vesturveldin seldu vopn til Gaddafi og eiga þess vegna að vopna uppreisnina, við erum jafnréttissinnar. Í staðin fær vinstri græni flokkurinn ásamt fjölþjóðlegum olíuauðhringjum áfram aðgang að auðlindum, eitthvað pauf í aröbum má ekki stoppa það, góðir eða vondir arabar, á endanum skiptir það engu máli, í allra bestu veröldinni er bersýnilegt að fætur manna eru til þess gerðir að vera skóaðir enda höfum við öll eitthvað á fótunum, og að arabar eru til þess gerðir að hægt sé að drepa þá enda eru þeir alltaf að drepast. Á nýrri öld er sannleikurinn gamall, peningar og völd eru sólarupprisan og það skilja nú allir. Ef þú ert eitthvað að þrasa ertu bara eins og Hitler eða með Jesúkomplex sem er víst jafnslæmt og að vera eins og Hitler árið 2011 á Íslandi.

Á Íslandi er alþjóðahyggjan svona, það að vera internatsjónalisti er svona: veröldin er píramídi, aldrei lárétt lína. Ég er frekar ofarlega í píramídanum af þvi að einu sinni var heimsstyrjöld og á Íslandi kom réttur her á land, og við fengum eitthvað sem heitir Marshallaðstoðin og bara góð alþýða fékk svoleiðis, hin fékk bara hlekki og kannski nokkur hrísgrjón og þess vegna vitum við að við erum góð, svona eins og að við vitum að við erum góð af því að við vorum aldrei í Heimdalli. Ég ætla að passa að vera áfram á réttum stað í píramída valdsins, frekar ofarlega, því að blóð lekur nefnilega niður. Þannig að þau sem eru neðarlega eru svo oft að ösla í blóðpollum sem heita No-fly-zone eða Collateral damage.

Og á mínum stað í píramídanum heitir byssa ekki byssa, heldur kannski penni eða hvítvínsglas, Tony Blair var víst alltaf fullur á kvöldin því hann var undir svo miklu álagi og með slæmt tilfelli af húbris, eða að byssan heitir boð um að koma á ráðstefnu og hitta lúxusdanann Anders Fogh Rasmussen sem vissi alveg að íslenska bankakerfið myndi hrynja en getur kannski núna losað um erlent fjármagn til að koma hjólum atvinnulífsins aftur á stað, maður veit aldrei! Better safe than sorry eins og Halldór Ásgrímsson sagði ábyggilega.

Við viljum ekki beina línu þar sem allt fólk er jafnt og öll börn eru börn hvort sem þau kunna lag með Justin Biber eða kunna bara að sækja eldivið og vatn. Bein lína er óraunhæf í okkar flókna nútímasamfélagi þar sem allt gerist svo hratt, og Evrópusambandið gæti farið á hausinn fljótlega, við verðum að flýta okkur, annars missum við kannski af því að vera fullir þáttakendur í heimssögulegum atburðum sem enginn spáði fyrir um nema einhverjir útlenskir minnipokamenn.

Ameríska sendiráðið sagði um okkur Íslendinga árið 2005:

“Stundum virðist eins og það besta sem við getum gert sé að afvegaleiða fólk frá stefnu sem þeim finnst viðbjóðsleg með stórfenglegum menningar- og íþróttaprógrömmum sem hjálpar þeim að fókusera á áframhaldandi mikilfenglegt framlag Ameríku til arfleiðar veraldarinnar”

Nú segir sendiráðið bara jæja, þá vitum við það, við þurfum ekkert að afvegaleiða lengur, engum finnst stefnan lengur viðbjóðsleg. Þau þurfa ekki einu sinni að vera örvæntingarfull útaf herstöð sem er að loka til að segja yes please! Fyrsta hreina vinstristjórnin er ekki dýr í rekstri. Alltaf að græða.

Nú er ég búin að tala lengur en í 3 mínútur og ætla að hætta áður en ég fer kannski að gráta af þvi að það er svo sorglegt að vera fullorðin manneskja á landi þar sem samhyggð er bara með evrópskum sparifjáreigendum.

Fyrst ætla ég samt að segja eins og einhver asni og minnipokakona: Ísland úr NATÓ, ég þoli þetta ekki lengur, hvað í andskotanum haldiði að þið séuð að gera, ég ætla að stofna nefnd um ykkur og hvernig þið tókuð ákvörðunina um stríð, og ég ætla að muna þær staðreyndir eins og allar hinar. Mér er alveg sama hvaða flokkseigendafélagi þið tilheyrið, þið eruð núna í NATÓ og í stríði og ég segi Ísland úr NATÓ og NATÓ burt úr veröldinni.

Takk fyrir.

Ein setning er stolin frá Altúngu.


Ræða flutt á mótmælafundi gegn stríði í Líbíu á Lækjartorgi 14. apríl 2011

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir