Evrópa: Markaður sem lofar góðu?

Forsætisráðherra Kanada og forseti Evrópusambandsins hafa staðfest sameiginlegan pólitískan skilning sinn á fríverslunarsamningi Kanada og Evrópusambandsins. Í opinberri umræðu er fullyrt að samningurinn sé góður, bæði fyrir Kanada og Quebec, þar sem markaðssvæði ESB bjóði uppá mikla möguleika; útflutningsfyrirtæki fái með samningnum viðskiptatækifæri; frjáls verslun sé ávallt af hinu góða fyrir efnahag landa þar sem hún ýti undir vöxt og þróun; og að lokum að ESB standi vörð um velferðarkerfið og geti ekki mögulega verið uppspretta nokkurs skaðlegs.

Sem evrópskum borgurum ber okkur skylda til að andmæla þessum hughreystandi orðum embættismanna og kjörinna fulltrúa: Evrópusambandið er ekki fyrirmynd þegar kemur að sjálfbærri þróun og félagslegu réttlæti, og er ekki lengur hið fyrirheitna land augljósra efnahagslegra tækifæra. Evrópusambandið hefur skaðað sjálft sig með almennri stefnu niðurskurðar sem leitt hefur til félagslegrar og lýðræðislegrar kreppu.

Augljóst er að í kjölfar kreppunnar hefur verkefnaskrá sambandsins stýrst af fjármálamörkuðunum, á kostnað almennings. Opinberar skuldir hinna svokölluðu jaðarríkja, þ.e Grikklands, Spánar, Portúgals og Írlands, hrundu af stað spákaupmennskuæði sem aldrei var raunverulega reynt að koma í veg fyrir, á meðan bönkunum var bjargað með skatttekjum. Stór hópur fólks var og er, fórnarlömb ömurlegrar stefnu sem látið er eins og muni leiða til efnahaglegs jafnvægis; á Grikklandi hefur t.d. stórtækur niðurskurður þeirra sem “leita jafnvægis” leitt til alvarlegrar hnignunnar á heilsu almennings og útbreiddrar eymdar, á meðan opinberar skuldir halda áfram að hækka. Á Spáni hefur atvinnuleysi farið yfir 25% og önnur hver ung manneskja þar er án atvinnu og í Portúgal hefur atvinnuóvissan haft þau áhrif að gríðarstór hópur ungs fólks flýr til annara landa, í leit að vinnu. Efnahagslíf er í miklum hægagangi og opinber orðræða um “bata” getur ekki falið stöðnunina í Evrópu. Jafnvel Þýskaland, sem fagnað er sem Evrópumeistara í vexti, getur einungis stólað á vesældarlegan 0.3% hagvöxt árið 2013.

Í stað þess að takast af alvöru á við þau vandamál sem nú mæta íbúum Evrópu, fela hin ýmsu stjórnvöld og sambandið sjálft sig á bak við hugmyndafræði með því að halda því fram að fríverslunarsamningar bjóði upp á lausnir. Þvert á móti hefur frjálst flæði framleiðsluvarnings og fjármagns, undirstöðuatriði samninga innan ESB og í auknum og kerfisbundnum mæli einnig í samningum við lönd utan sambandsins, leitt til starfsóöryggis, og aukinnar misskiptingar tekna. Fríverslunarsamningar eru þannig stór orsakavaldur í núverandi kreppu. Hvers vegna að styrkja slíkt kerfi enn frekar?

Við slíkar kringumstæður er vert að huga að því hvaða markaðstækifæri leiðtogar okkar eru að meina þegar þeir reyna að sannfæra okkur um að ESB sé Eldorado fjárfesta.

Það er fráleitt að ætla að viðskiptasamningurinn á milli Evrópusambandsins og Kanada, CETA, (Comprehensive Economic and Trade Agreement) geri ástandið betra. Með því að auka völd kanadískra og evrópskra auðhringja og takmarka getu opinberra yfirvalda til að styrkja eða viðhalda félagslegum réttindum almennings, aðgangi að heilsugæslu og náttúruvernd, getur samningurinn aðeins aukið misrétti og óréttlæti báðum megin Atlantsála. Þetta liggur í augum uppi. Hversvegna má ekki gera texta samningsins opinberan? Almenningur – sá hinn sami og allt þetta á að vera svo ganglegt fyrir – hefur enga aðkomu að samningsferlinu sökum þess að aðeins hinir sjálfskipuðu sérfræðingar vita hvað kemur fólki best.

Afnám grasrótarlýðræðis í Evrópu, fórn þess á altari markaðarins hefur gert það að verkum að flokkadrættir aukast á milli hópa í samfélaginu og leit að blórabögglum magnast, með auknu útlendingahatri og rasískri þjóðernishyggju.

Leiðtogar Kanda og Evrópusambandsins halda því fram að Evrópusambandið sé fyrirheitna landið og vekja með því aðkallandi spurning: fyrir hverja er það fyrirheitna landið?


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir

Thomas Coutrot, hagfræðingur og talsmaður Attac í Frakklandi, skrifaði þetta opna bréf fyrir hönd Attac-network: L’Europe, un marché prometteur? / Europe a less promising market than Harper thinks