Byltingar eru einn mikilvægasti þátturinn í sögu síðastliðinna 500 ára

Á síðustu fimm árum hefur orðið djúptæk breyting á samfélagsumræðunni. Eftir nærri þriggja áratuga gagnsókn auðvaldsins, frá því um 1980 til 2007 eða svo, með fjármálabólum, “hagvexti” og falli ríkja sem kenndu sig við sósíalisma hefur kapítalisminn sjálfur verið nærri því að falla. Hann hefur lent í sinni dýpstu kreppu frá því um 1930, og engin merki eru um lausn hennar eða nýja sókn kapítalsins á einhverju sviði. Frá 2008 hafa mótmæli, uppreisnir og jafnvel byltingar gegn alveldi auðmagnsins blómstrað, og margra áratuga gamlar einræðisstjórnir sem studdar hafa verið af miðstöð heimsauðvaldsins í Bandaríkjunum hafa fallið í byltingum.

Það er ekki að furða að nýtt mat á framvindu sögunnar hafi tekið að bæra á sér. Danski fræðimaðurinn Bertel Nygaard hefur sent frá sér bók sem heitir Revolution, masser af modstand. Hún vísar beint í byltingar og uppreisnir síðustu ára, sérstaklega arabíska vorið, sem útgangspunkt fyrir umfjöllun um byltingarhugtakið á breiðu sviði. Umfjöllun Nygaards hefur ýmsa kosti, hann nálgast viðfangsefni sitt á öfgalausan og afslappaðan hátt og er hvorki yfirmáta neikvæður og heiftúðugur gagnvart byltingum né manískur boðandi umfangsmikilla þjóðfélagsbreytinga í framhaldi af einhverri augljósri kreppu kapítalismans (sem þó er í sjálfu sér öllum ljós).

Nygaard afmarkar efni sitt þannig að ljóst er að byltingarhugtak hans er bundið við byltingu á sögulegum nútíma, eftir 1500, og fyrsta byltingin sem hann fjallar um er sú hollenska, sem venjulega er kölluð áttatíu ára stríðið og byrjaði 1568. Byltingar og uppreisnir sem verða fyrr fá ekki skipulega umfjöllun fyrst og fremst vegna þess hve hugmyndaheimur slíkra uppreisna var fjarri hugmyndaheimi nútímans, hugmyndaheimur sem bundinn er yfirnáttúrulegum hugsunarhætti. Þessi afmörkun er ekki alltaf heppileg. Nefna má að ein mikilvægasta uppreisn 16. aldar, bændauppreisnin í Þýskalandi 1525, var líka ein mikilvægasta forsenda þess sem Nygaard telur skipta sköpum fyrir framgang byltinga á sögulegum nútíma: Stöðug efling og styrking ríkisvaldsins sem umgerðar um þjóðfélagslega framvindu, og styrking þess er skv. Nygaard bæði forsenda og afleiðing byltinga. Engu að síður er efnisafmörkun Nygaard í meginatriðum skynsamleg og eðlileg miðað við það markmið sem hann setur sér: Að sýna að byltingar eru einn mikilvægasti þátturinn í sögu síðastliðinna 500 ára, hvorki meira né minna, og meginviðmið í nútímasamfélögum og nútímamenningu. Þetta viðmið gleymist stundum á samfélagslega rólegum tímabilum, og jafnvel eru gerðar tilraunir til að þagga niður skipulega, fræðilega umfjöllun um þessi fyrirbæri. Stundum finnst manni að ef tvö eða þrjá ár líða án byltinga sé því strax lýst yfir af einhverjum vitringnum að nú sé öllum byltingum hætt, þeirra tími sé liðinn og komi aldrei aftur, og sú skoðun vandlega auglýst í öllum fjölmiðlum.

30 ára þöggun

Nygaard kemur að sögu byltinga frá áhugaverðum sjónarhóli, eftir 30 ára tímabil þar sem byltingar hafa einmitt meira og minna verið þaggaðar í fræðasamfélaginu, umfjöllun um þær takmarkaðar og sú sem farið hefur fram hefur helst beinst að því að gera sem allra minnst úr möguleikum og áhrifum byltinga. Tilraunir hafa verið gerðar til að aflýsa byltingum fortíðarinnar, eða þurrka þær út úr sögunni, eins og þeirri ensku 1640-1660 og frönsku 1789-1794. Fram hafa sem sagt komið fræðimenn sem hafa haldið því fram að þetta hafi alls ekki verið byltingar, ekkert hafi gerst og virðist það nokkuð seint í rassinn gripið, því það er jú öllum ljóst sem ekki eru þeim mun hærra í fílabeinsturni fræðanna að þarna urðu byltingar. Eftir reynslu áranna 2008-2013 er afar auðvelt fyrir fræðimenn eins og Nygaard að gera grín að slíkum tilraunum, en þær hafa, þótt geggjaðar séu, hins vegar verið allt of áhrifaríkar og eyðileggjandi fyrir samfélagsfræði í heild sinni.

Fræðilegur sjónarhóll Nygaards byggir á sögulegri félagsfræði fræðimanna eins og Theda Scocpol, sem skrifaði áhrifaríka bók um byltingar og orsakir þeirra árið 1979, States and Social Revolutions. Nygaard gerir ákaflega mikilvægan greinarmun á byltingu sem augnabliki eða atburði, og byltingu sem ferli. Hann tekur ýmis dæmi og notast við ýmsar byltingar og reynslu þeirra, en Nygaard er ekki með neina sérvisku á því sviði, notast nánast við ákveðna útgáfu af heilbrigðri skynsemi. Mikilvægustu dæmi hans eru byltingarnar í Hollandi 1568-1648, í Englandi 1640-1660, í Ameríku 1776-1784, Frakklandi 1789-1794 eða 1815, Frakklandi 1830 og 1832, Evrópu 1848-1849, Frakklandi 1871, Rússlandi 1917, Þýskalandi 1918, Spáni 1936-1939, Kína 1949, Kúbu 1959, Víetnam og uppreisnin eða byltingin sem varð í kjölfar Víetnamstríðsins um allan heim, kennd við ártalið 1968. Tveir þessara atburða standa þó upp úr, franska byltingin 1789-1794 og sú rússneska 1917.

Athyglisverð er lýsing Nygaards á því hvernig villtustu og öfgafyllstu draumar frönsku byltingarinnar, stefnuyfirlýsingar og útópíur frá tímabili hinna buxnalausu, sans-culottes, og Robespierre 1793-1794 urðu með tímanum að eðlilegum og hversdagslegum viðmiðum hins borgaralega samfélags á 19.-21. öldinni. Lýðræði, frelsi og mannréttindi einstaklinga og almennur kosningaréttur var á þeim tíma ekki annað en útópískir draumar sem orðið höfðu til í rás byltingarinnar, reynslu manna, gleði og gagni af árangursríkri uppreisn gegn slæmri stjórn, en nú á tímum finnst okkur ekkert útópískt við slíkar hugmyndir. Borgaralega byltingin var semsagt ákveðinn atburður, sem opnaði gáttir fyrir nýjan hugmyndaheim og nýtt samfélag, sem síðan mótaðist í langtíma byltingarinnar og var um 1870 orðið að raunveruleika, þrátt fyrir ákafar tilraunir afturhalds- og gagnbyltingarafla til að snúa gangverki sögunnar við og endurreisa guðsríki og stofnanabundið misrétti hins framliðna lénskerfis hér á jörð. En lénskerfið var dautt og varð ekki endurreist.

Atburður og langtími

Samspil og tengsl þjóðfélagsþróunar í langtíma og þjóðfélagsbyltingar sem atburðar er ekki einfalt, sérstaklega þegar yfirsýn skortir fyrst eftir atburði, en þegar litið er til baka verða línur skýrari. Borgaralegar byltingar urðu í Hollandi 1568 og Englandi 1640, og á næstu áratugum og öldum náðu þessi tvö samfélög algjörri forystu í efnhagsmálum, því kapítalisminn fékk að leika þar lausum hala með miklum hagvexti og framförum í efnahagsmálum. Franska byltingin var að verulegu leyti viðbrögð við sókn Englendinga á efnahagssviðinu, og í stuttu máli sagt kom í ljós að fjöldahreyfing með frelsi, bræðralag og jafnrétti á stefnuskránni gat byggt upp það mótvægi sem þurfti: Öflugt ríkisvald sem stóð vörð um jafnrétti þegnanna og tryggði rétt þeirra til að stunda ábatasama iðju í anda kapítalismans án afskipta gerræðislegra lénsherra. Með slík markmið að leiðarljósi byggðist upp hvert þjóðríkið á fætur öðru á meginlandi Evrópu á 19. öld, Frakkland, Þýskaland, Ítalía… Nygaard getur með franska dæminu sýnt fram á bæði hvernig byltingin varð sem atburður, sem augnablik, en jafnframt hvernig kröfur og draumar byltingarinnar rættust smám saman á næstu áratugum. Sögunni sem byrjaði 1789 lauk á ákveðinn hátt um 1850-1870, með mótun borgaralegrar menningar og opinbers vettvangs byggðri á hugmyndum um frelsi, jafnrétti og bræðralag allra manna, lagalegu jafnrétti allra einstaklinga.

Nygaard ýjar að því að önnur saga hafi byrjað með atburðum í Rússlandi 1917. Hann bendir á að byltingarmenn í Rússlandi, þeir Lenín og Trotskí, helstu forystumenn byltingarinnar þar, hafi ekki búist við því að byltingarflokkurinn myndi halda völdum, honum myndi verða velt úr sessi eins og Parísarkommúnunni, sem var fyrsta tilraun til byltingar lágstéttanna árið 1871. Annar möguleiki væri að bylting yrði líka í Þýskalandi og síðan sósíalísk heimsbylting. Hvorugt gerðist. (Byltingin í Rússlandi var hins vegar að verulegu leyti afleiðing af vexti kapítalisma í Þýskalandi og stöðugri eflingu Þýskalands sem herveldis og efnahagsveldis, líkt og byltingin í Frakklandi varð fyrir áhrif frá enskri útþenslu. Álagið á hið veikburða ríkiskerfi rússneska keisaradæmisins varð of mikið og það hrundi).

Eins og í frönsku byltingunni varð sú rússneska gróðrarstía útópískra hugmynda, sérstaklega á tímabilinu frá 1917 til 1929. Hvers kyns hugmyndir um nýja tegund af kommúnísku lýðræði, kynfrelsi, jafnrétti kynjanna o.s.frv. blómstruðu, og tímabilið varð á ákveðinn hátt að forboða þess sem gerðist á þessum sviðum á tímabilinu 1960-1980, sem einnig var tímabil útópískra byltingardrauma. Meðal þess sem rússneska byltingin tryggði í sessi var líka krafan um velferðarþjóðfélagið. Til viðbótar við mannréttindi og tjáningarfrelsi (og viðskiptafrelsi) kom nú fram krafa um að ríkisvaldið yrði nýtt til að tryggja að framfarir í vísindum kæmu öllum til góða í fullkomnu heilbrigðis-, mennta- og framleiðslukerfi. Útópískar hugmyndir rússnesku byltingarinnar hafa sem sagt smám saman verið að festa sig í sessi sem hið eðlilega, sjálfsagða í hverju samfélagi, öfugt við það sem ef vill mætti halda vegna hins svokallaða “hruns sósíalismans”, og þetta er hliðstætt við langtímaþróunina eftir frönsku byltinguna.

Sigur Bolsévíkaflokksins í rússnesku byltingunni hafði hins vegar ekki þau áhrif að koma heimsbyltingu sósíalismans af stað á þann hátt sem Lenín og Trotskí bjuggust við. Sósíalísk bylting varð ekki í þróuðustu ríkjum heims, Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum, sem jafnframt voru miðstöðvar heimsvaldastefnu og auðvalds. Hins vegar varð rússneska byltingin upphaf mikillar byltingarhreyfingar í öðrum heimshlutum, og reis þar hæst kínverska byltingin og síðan barátta Víetnama við bandaríska heimsveldið. Við lá að “organísk” kreppa auðvaldsins vegna Víetnamstríðsins um 1968 kæmi af stað byltingum á Vesturlöndum, og þar urðu víðtækar þjóðfélagsbreytingar sem eins og áður segir áttu í rauninni rætur, eða að minnsta kosti forvera, í rússnesku byltingunni, og í þeim draumórum sem þá komust í umferð eftir ýmsum leiðum

Einnig urðu breytingar á vestrænum samfélögum í framhaldi af rússnesku byltingunni með öðrum hætti. Ástæðan var sú að á svipaðan hátt og óttinn við frönsku byltinguna leiddi til umfangsmikilla breytinga, endurbóta og nývæðingar í samfélögum eins og þeim þýsku og ítölsku, þá leiddi óttinn við sósíalísku byltinguna til enn víðtækari breytinga, endurbóta og nývæðingar í öllum vestrænum ríkjum, endurbóta sem kenndar eru við uppbyggingu velferðarþjóðfélagsins. Nygaard talar reyndar ekki mikið um þessa staðreynd, en ályktunin er nokkuð augljós og kemur heim og saman við þau fræði sem ítalski fræðimaðurinn og kommúnistinn Antonio Gramsci hafði forystu um að móta, kenninguna um hina svokölluðu óvirku byltingu (passive revolution).

Gagnbylting innanfrá

Nygaard leggur líka fram áhugaverðar hugmyndir um hvernig hægrimenn og valdhafar byltingarríkja hafa sameinast um að líta svo á að þær einræðisstjórnir sem komust til valda í Sovétríkjunum eftir lok borgarastyrjaldarinnar 1920 og Kína 1949, og sem smám saman þróuðust út í hreinar gagnbyltingarstjórnir, hafi verið hin eina mögulega og óhjákvæmilega útkoman úr sósíalískum byltingartilraunum. Hugtakið sem hann notar er gagnbyltingin í dulargervi, gagnbylting sem verður innanfrá. Ein mögnuð athugasemd Nygaards er að menningarbyltingin í Kína 1966-1976 hafi verið mikilvæg tilraun sem forystumaður í sósíalísku ríki stóð fyrir, þar sem reynt var að ráðast gegn þessari gagnbyltingu í dulargervi. Þessi forystumaður var Maó Tse-Tung, og menningarbyltingin hafði á ákveðnu tímabili mikil áhrif til þess að auka trú manna á endurnýjunarmátt sósíalismans og getu hans til að tryggja raunveruleg alþýðuvöld. Raunar má einnig færa að því rök, og rannsóknir ýmissa fræðimanna benda til, að Stalín hafi haft álíka áhyggjur, og reynt að bregðast við þeim en ekki haft erindi sem erfiði, ekki frekar en Maó.

Gagnbyltingar án dulargervis eru að sjálfsögðu einnig til, og sú sem flestir þekkja nú á tímum er auðvitað gagnbylting nýfrjálshyggjunnar, gagnbyltingin sem eyða átti öllum ávinningum sósíalismans og alþýðuhreyfinga í nafni verkalýðs og bænda, á svipaðan hátt og gagnbyltingar 19. aldar áttu að eyða ávinningum frönsku byltingarinnar. Nygaard fjallar lítið um þá gagnbyltingu, en meira um eldri tegundir eins og nasisma og herstjórnir Suður-Ameríku.

Í byltingu er ekkert fyrirfram ákveðið

Nygaard leggur áherslu á að þau átök, deilur og vandamál sem brjótast upp á yfirborðið í byltingum hafi lengi verið undir yfirborðinu og ólgað þar. Byltingar séu samsettar úr pólitískum átökum, félagslegum breytingum og félagslegri virkni, flókin fyrirbæri þar sem skyndilega lýstur saman margvíslegum átakalínum og þróun sem smám saman hefur gerjast. Upphaf byltinga sem atburða er oftast frekar meinleysislegt, það virðist ekkert sérstakt um að vera, kannski bara venjuleg mótmæli á Austurvelli eða við bandaríska sendiráðið eins og svo oft, en stundum snúast sjálfsprottin mótmæli skyndilega upp í uppreisn eða jafnvel skipulega byltingu. Markmið og samtök verða til í ferli byltingarinnar og vaxa og þróast, og/eða verða að engu. Sameiginlegt öllum byltingum – sem skilgreiningaratriði – er að eftir þær verður ekkert eins og það var áður; gagnbyltingin verður einhvern veginn að fara inn á það svið sem byltingin hefur sett upp til að eiga möguleika á að ná árangri. Þetta er afar mikilvægt atriði í umfjöllun Nygaards.

Borgarastéttin snýst gegn byltingum

Byltingar sem langtímaþróun eiga sér marga fleti og mörg andlit. Eins og áður sagði leiddi borgaralega byltingin að því er virðist til eflingar ríkisvalds og stóreflingar hagkerfa, sem bættu framleiðslukerfi og juku framleiðslumátt. Þetta átti þó ekki við í svæðum utan Evrópu eða Norður-Ameríku, þar sem heimsvaldastefnan olli því að hvorki ríkisvald né framleiðslukerfi þróaðist með sama hætti. Eftir 1848 lagði borgarastétt heimsins ekki út í frekari byltingar, þar sem hættan á því að þær þróuðust út í alþýðubyltingar sem ógnuðu sjálfu valdi borgarastéttarinnar var orðin of mikil, eins og komið hafði í ljós í byltingaröldunni 1848-1849 í Evrópu.

Þetta varð til þess að byltingar tímabilsins eftir það hafa verið alþýðubyltingar, gerðar í nafni sósíalisma, og borgarastéttin, sem nú er orðin gríðarlega öflug, með heimsyfirráð og alla heimsins auðlegð, vopnabúr, eftirlitsiðnað og tækni til ráðstöfunar, hefur snúist gegn þeim af gríðarlegri grimmd og hörku. Efnahags- og þjóðfélagsþróun í löndum (Sovétríkjunum, Kína) þar sem sósíalísk bylting hefur tekist þrátt fyrir það hefur yfirleitt orðið með þeim hætti að þar hafa orðið hraðfara umbætur í heilbrigðis- og menntakerfi, jafnframt því sem efnhagslíf hefur tekið stakkaskiptum og nývæðst undir verndarvæng ríkisvaldsins – eins og raunin hafði áður orðið með nokkuð öðrum hætti á meginlandi Evrópu eftir 1800. Þetta er þó ekki til umræðu í bók Nygaards, enda mikið og flókið efni. Bæði Sovétríkin og Kína hafa síðan gengið í gegnum breytingar sem virðast að einhverju leyti afturhvarf til eldri tíma ójafnræðis og misréttis, en eftir stendur þó nútímavæðingin sjálf, sem ekki verður tekin aftur.

Ættingjar byltinga, eða skyldir hlutir, eins og endurbótastefna sósíaldemókrata, styrjaldir, sem oft tengjast byltingum með ýmsum hætti og gagnbyltingar (sem þegar hefur verið rætt nokkuð um að ofan) eru ræddar í sérstökum kafla, og bent á að í löndum eins og Danmörku hafi byltingar í rauninni haft úrslitaáhrif á alla þjóðfélagsþróun á 19. og 20. öld, þótt þær hafi ekki orðið í sjálfu landinu. Óttinn við slíka byltingu og/eða afl alþýðuhreyfinga innblásinna af árangursríkum byltingum annars staðar, hefur eins og áður segir þá leitt til þess að yfirstétt viðkomandi lands hefur gert endurbætur til að koma í veg fyrir byltingu í eigin land. Einnig er bent á þá hefð sem mótast hefur í söguritun í Englandi, að gera sem allra minnst úr þætti alþýðubaráttu í þjóðfélagsþróun og því “gleymt” að bylting varð í landinu, borgaralega byltingin 1640-1660, sem í endurliti er ein sú allra mikilvægasta í þessu ferli öllu.

Allt er þetta mjög áhugavert að skoða fyrir okkur Íslendinga, sem nýverið höfum tekið þátt í eða orðið vitni að atburðum í okkar eigin samfélagi sem hafa fengið heitið bylting. Það er ef til vill heldur mikið sagt að hér hafi orðið bylting veturinn 2008-2009, en í samfélagi þar sem síðustu þrjátíu til fjörtíu ár (að minnsta kosti 1980-2008, og t.d. í Danmörku alveg frá 1973) hefur sú tilfinning verið ráðandi að tímabili fjöldabaráttu væri lokið. Áhrif æ íhaldssamari verkalýðsfélaga væru síminnkandi, og lífskjarabyltingin á tímabilinu 1930-1970 hefði haft í för með sér þá mótsagnakennda þróun að hin tiltölulega vel stæða milli/verkalýðsstétt væri ekki lengur jafn róttæk. Niðurstaða árangursríkrar verkalýðsbaráttu og baráttu bændasamtakanna, t.d. um 1990, var ef til vill fremur íhaldssamt samfélag, eða að minnsta kosti samfélag þar sem friður og sátt ríkti að mestu. Það að í slíku samfélagi skyldi koma til almennrar uppreisnar gegn stjórnvöldum er ef til vill óvænt á ákveðinn hátt, en þegar aðdragandi og forsendur eru skoðaðar sést að kapítalisminn hagar sér þannig að ekkert kemur á óvart varðandi hann. Þetta atriði er hvergi til umfjöllunar hjá Nygaard, enda ræðir hann ekkert þróunina á Íslandi.

Ríkisvaldið svíkur almenning

Á sama tíma hefur ríkisvald hvers ríkis orðið æ áhrifaminna, eða öllu heldur æ óaðgengilegra almenningi og samtökum hans, en áhrif alþjóðlegs auðmagns stöðugt meiri innan þess. Eftir því sem áhrif almennings innan ríkisvaldsins hafa orðið minni, hefur raunverulegt vald stjórnmálamanna og pólitískra flokka sem byggjast á fjöldahreyfingum minnkað. Lýðræðið, samfélagslegt fyrirbæri sem kostaði afar harða baráttu að byggja upp á yfir 400 árum, hefur orðið að láta undan síga.

Eftir 1994 hefur þetta leitt til vaxandi andstöðu við nýfrjálshyggju, sem sjálf er í raun og veru aðeins ný útfærsla á stöðugt vaxandi áhrifum alþjóðlegra stórfyrirtækja með miðstöðvar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Japan. Andstaða almennings hefur birst í uppreisnum í Mexíkó (Zapatistar), einnig almennri hreyfingu almennings um alla Suður-Ameríku til stuðnings við stjórnmálaöfl sem hafna einkavæðingu, fjármálavæðingu og alþjóðavæðingu, og óska þjóðnýtingar og raunverulegra valda í höndum þjóðlegs, lýðræðislegs ríkisvalds. Hún hefur birst í hörðum átökum, eins konar orustum, milli andstæðinga alþjóðavæðingar og lögreglu, sérstaklega á árunum 1999-2001, t.d. í Seattle, Gautaborg og Genúa, en einnig á mörgum fleiri stöðum. Haldnar eru árlegar heimsráðstefnur andstæðinga alþjóðavæðingarinnar. Og árið 2007 kom kreppan.

Nygaard fjallar tiltölulega lítið um þau mikilvægu þáttaskil í langtímasögu byltinga sem urðu 1917 þegar sósíalisminn varð skyndilega ráðandi mótspil almennings gegn nýju valdi borgarastéttarinnar, en umfjöllun hans um gagnbyltinguna innanfrá er afar gagnleg. Hann fjallar heldur nær ekkert um “fall sósíalismans” í Austur-Evrópu 1989-1991 (út frá greiningu Nygaards er óvíst að um gagnbyltingar gegn sósíalisma hafi verið að ræða, þar sem þær höfðu þegar orðið innan frá, heldur einhvers konar lýðræðisbyltingar, en þetta er flókið mál og víst er að þær voru meira og minna skipulagðar í höfuðstöðvum CIA).

Sú staðreynd að sósíalismi sem samfélagskerfi, hugmyndin um framleiðslukerfi í almannaeigu, án eignarréttar auðmanna eða eignarréttar yfirhöfuð, að þetta samfélagskerfi féll, var mikið áfall fyrir réttindabaráttu almennings, auk þess sem mikill óbeinn árangur sósíalismans í gegn um óvirku byltingarnar hafði á vissan, mótsagnakenndan hátt veikt hreyfingarnar sem báru hana uppi eins og áður er lýst. En með falli sósíalismans fór þegar í stað að halla á almenning í réttindabaráttu hans. Ógnin af sósíalísku byltingunni var ekki lengur til staðar í augum borgarastéttarinnar.

Auðvaldið afhjúpast

Reynslan af uppreisnum tímabilsins 2008-2013 er í þessu ljósi afar áhugaverð. Um er að ræða uppreisnir almennings sem verða við aðstæður þar sem kapítalisminn, ráðandi, viðurkennt, opinbert samfélagskerfi og menning, hefur verið afhjúpaður sem glæpasamtök auðmanna, skipulagður til að níðast á fólki. Allir sjá að þetta þarf ekki að vera svona. Nægileg tækni, auðlegð og þekking er fyrir hendi til að allir jarðarbúar geti lifað góðu lífi, ef þessum gæðum væri skipt með réttlátum hætti, en kapítalisminn, völd borgarastéttarinnar og heimsvaldastefnu hennar, hindrar að það sé gert. Hugmyndafræði kapítalismans leyfir ekki lengur frelsi, jafnrétti og bræðralag, og snýst með æ ofsafengnari hætti gegn þeim sem leyfa sér að láta sig dreyma um slíkt, eða reyna t.d. að afhjúpa ofbeldisglæpi sem framdir eru í nafni ráðandi kerfis. Almenningur stendur frammi fyrir augljósu óréttlæti og auðstéttin reynir varla lengur að réttlæta arðránskerfi sitt.

Í ljósi þess hve afhjúpun auðvaldsins er mikil virka viðbrögð almennings og uppreisnir hans ef til vill heldur veikburða. Ekki má þó gera lítið úr þeim og greining á öllum þessum hreyfingum er afar mikilvæg. Hér á landi felldi uppreisn almennings öfgafulla nýfrjálshyggjustjórn úr sessi og barðist síðan næstu fjögur árin með verulegum árangri við tilraunir “vinstri stjórnar” til að stjórna landinu í meginatriðum með aðferðum nýfrjálshyggjunnar. Í þessari baráttu allri átti íslenskur almenningur í beinum átökum við alþjóðlegt auðvald í gervi AGS og náði ákveðnum árangri. Ólíklegt er t.d. að CIA hafi skipulagt baráttu Íslendinga í Icesave málinu, eða hvað?

Hvar erum við þá stödd í sögunni ef við segjum að íslenska uppreisnin sé framhald byltingarsögunnar? Hún var greinilega atburður af því tagi sem menn hafa fjallað um sem uppreisnir, jafnvel byltingar, en hvernig er unnt að staðsetja hana í langtíma byltingarinnar? Í byltingunni sem þróunarferli? Hvaða byltingu? Einhvern veginn var hún allt öðruvísi en rússneska byltingin, sósíalisminn ekki á dagskrá, miklu frekar að anarkismi væri það. En var hún samt ekki hluti af því þróunarferli sem var farið í gang í rússnesku byltingunni og er ennþá í gangi þrátt fyrir allt? Barátta almennings gegn valdi borgarastéttarinnar? Baráttan gegn kapítalismanum?

Hvar í útópíunni (eða draumum fortíðarinnar um verðandi framtíð) á að staðsetja íslensku búsáhaldabyltinguna? Hverjar voru kröfur uppreisnarinnar? Hver var útópía hennar? Draumar og sýnir? Hún var/er ef til vill ekki bylting sem slík, en hún var að minnsta kosti atburður sem á nýjan hátt fitjaði upp á því að uppreisn almennings væri raunhæfur möguleiki, jafnvel við aðstæður þar sem átti að hafa verið búið að kveða allar slíkar tilraunir í kútinn. Hún var líka forboði miklu stærri atburða, mótmælahreyfinga í Suður-Evrópu og Bandaríkjunum, raunar um allan heim, og byltingarhreyfinga í Arabaríkjunum, þeirra sem urðu tilefni fyrir Bertel Nygaard að skrifa bók sína um byltinguna. Sú saga er ennþá að gerast og mikil þörf á að fjalla um hana. Bók Nygaards ætti með öðru að nýtast ágætlega við það verk.