Mikkel Bolt og greining hans á samhengi kreppu, nýfrjálshyggju og uppreisnarbylgjunnar frá 2011.
Danski listfræðingurinn og marxistinn Mikkel Bolt hefur sent frá sér bókina Krise til opstand, með undirtitlinum Noter om det igangværende sammenbrud. Bolt hefur tekið virkan þátt í umræðu vinstri sinna í Danmörku um nokkurra ára skeið og er þekktur í þeirra hópi. Í bókinni gerir Bolt tilraun til að fá yfirsýn yfir félagshreyfingar s.l. ára, sérstaklega uppreisnir víða um heim frá 2011, og leitar skýringa í kreppu kapítalismans, sem hann segir hafa verið í gangi alveg frá 8. áratugnum. Hrunið 2008 hafi aðeins verið nýjasta og alvarlegasta birtingarmynd þessarar kreppu hingað til. Ekki sé um að ræða einhverja tímabundna niðursveiflu, sem við getum beðið eftir að líði hjá. Kapítalisminn gangi einfaldlega ekki upp lengur.
Bolt telur semsagt, eins og svo margir aðrir, að kapítalisminn sé að hrynja. Hrunið 2008 og uppreisnir 2011-2014 séu aðeins upphafið á því sem í vændum sé. Vandamál kapítalismans séu orðin svo stórfengleg og lausnirnar sem kapítalisminn býður sjálfur upp á svo óraunhæfar að ekki sé um annað að ræða. Núverandi kreppa hafi rætur sínar á 8. áratugnum og viðbrögðum kapítalismans við uppreisnum og byltingum 7. áratugarins, t.d. allsherjarverkfallinu í Frakklandi í maí 1968. Samfélagssáttmáli eftirstríðsáranna hafi sýnt sig að færa verkalýðsstéttinni hættulega mikið sjálfstraust og skipulagsafl, og grundvallarsamkomulagið um að verkalýðsstéttin nyti aukinna launa og gæti þar með aukið neyslu sína meir og meir eftir því sem framleiðni jókst hafi að lokum hrunið, m.a. vegna þess að aukin framleiðni leiddi til minni þarfar fyrir vinnuafl.
Alveg frá því um 1980 hafi kapítalisminn leitað nýrra leiða til að lækka framleiðslukostnað, og nýfrjálshyggjan verið pólitísk birtingarmynd þróunartilhneiginga í hinum kapítalíska efnahag, þar sem kapítalisminn hefur reynt að gera tvennt: Að skera niður velferðarkerfið, létta af sér þeirri byrði sem endurframleiðsla vinnuaflsins er og velta henni yfir á almenning (sem ekki hefur efni á að taka á sig það hlutverk), og hins vegar að losa sig við vel skipulagða og baráttuglaða verkalýðsstétt Vesturlanda með því að leggja niður iðnað á Vesturlöndum og flytja hann til nýrra iðnsvæða, Kína, Indlands, Suðvestur-Asíu o.s.frv.
Jafnframt hafi orðið sú þróun á Vesturlöndum að föstum stöðugildum fækkar stöðugt. Sumir verði atvinnulausir, og stækkar sá hópur stöðugt, en aðrir verða “prekaríat”, sá hópur fólks sem fær greitt fyrir vinnu sína sem verktakar, yfirleitt mjög lág laun, stopula vinnu og býr við mikið óöryggi. Jafnframt einkennist staða þeirra sem eiga að heita í föstum stöðum æ meira af verkefnavinnu og vinnuskipulagi sem líkist meira því sem verktakar þurfa að búa við. Í þeim hluta heims sem ekki tilheyrir Vesturlöndum hefur síðan orðið til stór hópur fólks, allt að milljarður manna, sem hvorki tekur þátt í landbúnaði né iðnaði, né neinni annarri tegund af atvinnustarfsemi, og hefur ef til vill í mesta lagi vinnu við að hirða rusl af öskuhaugum og reyna að framfleyta sér með þeim hætti.
Hinn nýji andi kapítalismans
Bolt tengir hið nýja ástand á vinnumarkaði við nýjungar sem fram komu í samfélagsólgunni í kring um 1968. Hann vitnar í fræðimennina Boltanski og Chiapello, sem telja að hinn nýji andi kapítalismans sé að hluta til orðinn til út frá gagnrýni ungs fólks, stúdenta, listafólks og verkalýðsæsku á fordísk vinnuferli og aga. Á 9. áratugnum náði völdum fólk sem hafði tileinkað sér þessar hugmyndir í uppvextinum á 7. áratugnum, hugmyndir um frelsi, sjálfræði og heiðarleika gagnvart sjálfum sér (autenticitet), sem urðu þannig leiðarljós hins nýja kapítalíska anda, sem gagnrýni stigveldi og forræðishyggju fordismans og benti þess í stað á kerfi byggð á samskiptanetum, sem aftur leit til hugmynda listafólks um listræna og skapandi virkni einstaklingsins, í því augnamiði að einstaklingurinn fengi notið sín til fulls, sem fyrirmyndar. Böggull fylgdi skammrifi, því það var í þessu samhengi sem listamaðurinn varð að ídealtýpu fyrir prekaríatið, hið sveigjanlega og illa launaða vinnuafl.
Hin hliðin á prekaríatinu var upphaf skuldasöfnunar sem leið til að sjá fyrir sér. Þegar launin fóru að lækka varð verkalýðsstéttin að taka lán til að eiga fyrir daglegum nauðsynjum. Greiðslur fyrir verkefni komu sjaldan, umsóknum um styrki var oft hafnað og til að brúa bilið varð að taka lán, sem síðan urðu ófrávíkjanlegur hluti af framfærslukerfi hinnar nýju, skapandi og sjálfrealíserandi verkalýðsstéttar, eða kannski öllu heldur einhvers sem mætti ef til vill kalla einstaklingastétt.
Í nærri fjóra áratugi hefur átt sér stað stöðugt meiri niðurskurður í velferðarkerfi, menntakerfi og heilbrigðiskerfi, og jafnframt hafa laun lækkað stöðugt líka. Æ færri hafa fastar stöður með góð laun, og það veldur því að eftirspurn eftir vörum og þjónustu minnkar. Kerfið reynir að sjá við minnkandi eftirspurn með því að bjóða upp á vörur á afborgunarkjörum, fólki er boðinn yfirdráttur, greiðslukort, smálán o.s.frv., allt til að halda uppi eftirspurn. Einnig er nú orðinn ógjörningur að kaupa húsnæði eða stunda nám án þess að taka lán. Fólk er almennt orðið fast í skuldagildru um 25-30 ára aldurinn sem það kemst síðan aldrei úr á meðan það lifir. Nú þarf tekjur tveggja eða jafnvel þriggja einstaklinga til að kosta fjölskyldulíf einnar fjölskyldu, en um 1970 þurfti aðeins einar tekjur.
Bolt rekur orsakir þessarar þróunar til mótsagna í kapítalismanum; til að halda uppi nægilega háu gróðahlutfalli verður að lækka verð á vinnuafli en um leið að reyna að leita leiða til að losna við þá vöru og þjónustu sem framleidd er með því að veita aðgang að ódýrum lánum. Einnig er farið út í að einkavæða alla hluti, samgöngur, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, til að kapítalið fái aukið svigrúm. Sums staðar er sjálft vatnið einkavætt og verðlagt. Næsta skrefið hlýtur að vera að einkavæða andrúmsloftið og selja það í skömmtum.
Ekkert af þessu dugir, hagvöxtur hefur stöðugt verið að hægja á sér frá 1980. Hinar svokölluðu endurbætur gera ekki annað en skera niður lífsgæði almennings og níðast á samfélögunum, sem hafa stöðugt minna svigrúm til að taka á sig frekari endurbætur í anda nýfrjálshyggju. Þar að kemur að ekki er af meiru að taka, sá samfélagslegi sjóður sem byggður var upp á tímabilinu 1930-1980 tæmist að lokum. Vinnuaflið verður ekki lengur endurframleitt, það fær ekki tilhlýðilega menntun, góða heilbrigðisþjónustu eða nægilega félagslega þjónustu, hefur ekki efni á að eignast húsnæði og hefur aðeins efni á að kaupa ódýran, verksmiðjuframleiddann mat af vafasömum gæðum.
Skuldaleiðin fullreynd
Sú lausn sem nefnd hefur verið, að ríkið hefji peningaprentun og atvinnubótavinna og ríkisforsjá í anda Keynes verði tekin upp á ný er ekki raunhæf að mati Bolts, því ríki og samfélög heims hafa í 30 ár verið að safna skuldum og hafa ekkert bolmagn til að bæta við þær skuldir. Það verður æ augljósara hversu miklar ógöngur kapítalisminn er kominn í, greinilegast er það í löndum eins og Grikklandi og Spáni þar sem lausnin á kreppunni felst í niðurskurði á opinberri þjónustu, launum og sölu ríkiseigna sem einfaldlega eyðileggur samfélögin.
Það er auðvitað engin lausn eins og allir sjá, og kreppan felst m.a. í því að stjórnmálamenn, fræðimenn og aðrir ábyrgðarmenn kapítalismans gera sér fulla grein fyrir vandanum en vita ekki hvernig bregðast á við öðruvísi en að ganga af samfélögunum dauðum! Slíkt efnahags- og hugmyndakerfi er auðvitað fullkomlega gjaldþrota og ólögmætt, og styðst líka æ meir við nakið ofbeldi og kúgun, eins og meðferðin á Julian Assange, Chelsea Manning og Edward Snowden ber vitni um.
Bolt styðst hér við greiningu bandaríska fræðimannsins Robert Brenner á efnahagsþróun s.l. 40 ára, sem telur einmitt að kapítalisminn hafi verið í kreppu allan þennan tíma. Eftir vaxtarskeið 1948-1973 hafi aukin samkeppni ríkja eins og Þýskalands og Japans við Bandaríkin, og æ meiri offramleiðsla varnings eins og bíla, heimilistækja o.s.frv. orðið til þess að kapítalisminn neyddist til að hefja aðgerðir í anda nýfrjálshyggju til að leysa úr kreppunni. Lausnirnar – flutningur iðnaðar til láglaunasvæði þriðja heimsins, aðgangur að óheftu lánsfé o.s.frv. hafi síðan komið í hausinn á kapítalismanum með fullum þunga í fjármálahruninu árið 2008.
Menn eru orðnir ansi langeygir eftir því að hagvöxtur hefjist á ný og á meðan safnast upp stöðugt meiri óánægja. Meginefni bókar Mikkel Bolts er einmitt umfjöllun um uppreisnarhreyfinguna sem hófst 2011. Orsakir hennar finnur Bolt sem sagt í þeim aðstæðum sem lýst er að ofan: Hinum óleysanlegu mótsögnum kapítalismans, kreppu hans og stöðugt hnignandi lögmæti bæði hins kapítalíska efnahags- og pólitíska kerfis, þar á meðal þingræðiskerfisins og fjölmiðlanna. Hann fjallar um arabíska vorið, um uppreisnir í Suður-Evrópu í framhaldi af því, Occupy Wall Street-hreyfinguna í Bandaríkjunum og eflingu verkalýðshreyfingar í Kína. Greining hans á þessum hreyfingum og tengslum þeirra eða tengslaleysi við orðræðu sósíalismans og verkalýðshreyfingarinnar er afar athyglisverð.
Bolt telur að verkalýðshreyfingin á Vesturlöndum hafi á tímabilinu 1860-1970 náð miklum árangri og í raun átt meginþátt í því að uppfylla draum hinna borgaralegu byltinga 17.-19. aldar um góð, almenn lífskjör og lýðræðisleg samfélög með almennri þátttöku borgara í umræðu og stjórnmálum. Jafnframt hafi verkalýðshreyfingin átt meginþátt í því að nýlendur fengu frelsi. Það gerðist fyrst og fremst vegna þess að verkalýðshreyfingin náði völdum, fyrst í Sovétríkjunum og síðan í Kína, sem gerði gömlu nýlenduveldunum, Bretlandi og Frakklandi, ókleyft að viðhalda nýlenduskipulaginu. Sósíalísku ríkin studdu frelsisbaráttu nýlendnanna og Vesturlönd urðu að láta undan síga.
Verkalýðshreyfingin hafi hins vegar orðið að greiða góð lífskjör og lýðræði dýru verði. Verkalýðsstéttin hafi orðið að gangast inn á málamiðlun, sem fólst í því að hún tók fulla ábyrgð á því kerfi sem komið var á fót um og upp úr 1920, svokölluðum fordisma. Atvinnurekendur urðu að samþykkja aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að stjórnun samfélagsins, því ella stóðu þeir frammi fyrir almennri heimsbyltingu. Valið var auðvelt, og með því að gera verkalýðshreyfinguna samábyrga fyrir rekstri kapítalismans voru vígtennurnar dregnar úr henni.
Kapítalisminn hóf síðan gagnsókn gegn verkalýðshreyfingunni og sagði upp þessum samfélagssáttmála upp úr 1975. Ástæðan var sú að samfélagssáttmálinn tryggði ekki lengur nægilega hátt gróðahlutfall. Samfélagið skyldi nú markaðsvætt, réttindi verkafólks tekin af því og verkalýðshreyfingin lögð í rúst. Þetta var gert um öll Vesturlönd, meðal annars með því að flytja iðnað í stórum stíl frá Bandaríkjunum og Bretlandi til Kína og annarra svokallaðra nýmarkaðslanda. Þetta var hin svokallaða alþjóðavæðing, frelsi auðmagnsins skyldi hámarkað og allur heimurinn gerður að leikvangi kapítalsins. Talað var um endurbætur og framfarir, en í raun var aðeins um að ræða örvæntingarfulla tilraun gjaldþrota kerfis til að bjarga eigin skinni á kostnað almennings.
Í stað fordisma kom hið svokallaða just-in-time kerfi. Fólk er ráðið til vinnu rétt á meðan þörf er á því og síðan er því sagt upp. Fastar stöður lagðar niður í stórum stíl. Atvinnuleysi varð viðvarandi á stórum svæðum.
Viðhorfið til sósíalismans
Eitt af því athyglisverðasta í umfjöllun Bolts er viðhorf hans til sósíalismans, eins og hann var framkvæmdur í Sovétríkjunum á árunum 1917-1991. Bolt telur að peningahagkerfi og fordismi hafi verið þar við lýði rétt eins og vestan tjalds og því í raun enginn munur á Sovétríkjunum og Vesturlöndum. Samfélagssátt verkalýðs og yfirstéttar hafi í meginatriðum verið sams konar austan tjalds og vestan, aðeins með þeim mun að í Sovétríkjunum hafði kommúnistaflokkurinn það hlutverk með höndum sem borgarastéttin hafði á Vesturlöndum. Einnig hafi réttindi verkalýðs í Sovétríkjunum ef til vill verið meiri og tilveran öruggari.
Ekki hafi hins vegar dugað að tryggja mikil félagsleg réttindi og svipta borgarastéttina og aðalinn eignum sínum, eins og vissulega var gert í Sovétríkjunum, því öll skipan framleiðslukerfisins hafi verið fullkomlega sambærileg því sem viðgekkst á Vesturlöndum. Orsökina fyrir þessu telur hann að sé að finna í tilraun bolsévíka til að koma á sósíalisma í einu landi. Verkalýðsbyltingu sé hins vegar ekki hægt að gera í einu landi, hún verði að vera alheimsbylting eigi að vera unnt að leggja niður peningahagkerfið, sem sé forsenda þess að hún takist. Því sé það ekki endilega vandamál að hin gömlu skipulagsform verkalýðsins, ríkissósíalismi, sósíaldemókratismi og skipulögð verkalýðshreyfing, liggi nú í rústum.
Í þessu ljósi verði að skoða uppreisnirnar á 2. áratug 21. aldar. Um sé að ræða örvæntingarfull viðbrögð almennings við hruni og kreppu kapítalismans, en jafnframt gefi þau til kynna að nýtt tímaskeið sé runnið upp. Hrunið 2008 kom eftir að kapítalið hafði frá 1980 skipulega unnið að því að rýra kjör almennings og veikja baráttumátt verkalýðshreyfingarinnar, og hrunið svipti í einu vetfangi kerfið því litla lögmæti sem það enn átti inni. Fram að því hafði verið hægt að benda á einhvers konar hagvöxt, að minnsta kosti öðru hvoru. Mest af honum féll hins vegar í skaut lítils hóps auðmanna, og nær ekkert var notað til að bæta kjör almennings á einhvern hátt. 30 ára vanræksla samfélagsins af hálfu yfirvalda var þannig forspil hrunsins.
Það var jú ekkert samfélag til, aðeins einstaklingar. Uppreisnirnar afsönnuðu þá fullyrðingu á afskaplega afgerandi hátt.
Og ef ekki var til neinn valkostur (TINA, there is no alternative – Thatcher), þá var þessi eini valkostur nú orðinn gjörsamlega óásættanlegur.
Uppreisnin í Arabaheiminum í janúar 2011 kom ráðandi öflum gjörsamlega í opna skjöldu. Eftir aðeins nokkurra vikna mótmæli flúði Ben Ali, forseti Túnis, úr landi, eftir 23 ára setu á valdastóli. Það var í fyrsta sinn sem æðsti valdamaður í Arabaríki féll vegna mótmæla almennings. Skömmu síðar beindist athygli heimsins að Kaíró og Tharir-torgi. Þar féll Mubarak forseti Egyptalands einnig úr valdastóli eftir aðeins þriggja vikna mótmæli. Innan skamms logaði allur Arabaheimurinn í byltingu og uppreisnum.
Um vorið urðu til öflugar mótmælahreyfingar í Evrópu, sem fengu innblástur sinn frá arabíska vorinu. Sérstaklega urðu hreyfingarnar í Grikklandi og á Spáni öflugar. Mótmælendur hertóku Syntagma-torg í hjarta Aþenu, og torgtökur einkenndu einnig mótmælin á Spáni. Loks risu Bandaríkin upp, eftir að mótmælendur tóku Zucotti Park í hjarta New York-borgar í nafni hreyfingarinnar Occupy Wall Street. Á eftir fylgdu mótmæli í mörg hundruð borgum um öll Bandaríkin og loks 15. október 2011 um allan heim, þar á meðal hér á landi.
Ætlun Mikkel Bolts með frásögn sinni er að gefa lýsingu á heimsástandinu, og það er gert í mjög meðvitaðri andstöðu við þær smá- eða microstúdíur sem félagar hans í dönsku akademíunni hafa stundað og hefur verið í tísku í samfélags- og hugvísindadeildum hinnar vestrænu akademíu fram undir þetta. Hrunið 2008 og uppreisnirnar 2011 leiddu hins vegar í ljós hversu alvarlega þessar háskóladeildir voru komnar úr takti við veruleikann. Þörfin fyrir heildargreiningu samfélags og baráttuhreyfinga hefur sjaldan verið meiri en vanmáttur akademíunnar á þessu sviði jafnframt alveg sérstaklega mikill.
Hvernig á að gera byltingu?
Jafnframt gengur Bolt lengra, hann gagnrýnir fyrirliggjandi hugmyndir um hvernig á að stýra byltingum og umbótum á tíma kapítalisma. Í fyrsta lagi bendir hann á að hvorki umbótastefna sósíaldemókrata né byltingarstefna kommúnista hafi mikið að segja í núverandi uppreisnarhreyfingum. Kratar og kommúnistar séu vissulega með, en ekki í forystu og aðeins tvær meðal margra tilhneiginga. Meðal sterkustu einkenna Occupy Wall Street og Indignados hreyfinganna í Bandaríkjunum og á Spáni séu einmitt skortur á kröfum.
Í þeim skorti finnur Bolt lykilinn að skilningi á mótmælahreyfingum eftir 2008. Þær séu kommúnískar í eðli sínu. Launakröfur og kröfur um bætt lífskjör, kröfur um úrbætur á velferðarkerfinu, kröfur um eflingu verkalýðshreyfingarinnar, um uppbyggingu sósíalisma eða sósíaldemókratískra velferðarkerfa, allar slíkar kröfur séu marklausar við núverandi ástand, þegar hvers kyns samfélagssáttmálar séu liðin tíð. Hið eina sem mótmælendur biðji um sé full atvinna og endurreisn á nokkurn veginn eðlilegu samfélagsástandi, en á bak við þá kröfu sé á hinn bóginn þögn eða valkostur, sem liggi í hlutarins eðli, því kapítalisminn bjóði ekki lengur upp á neitt.
Það sé komið að því að hafna algerlega peningakerfinu og kapítalismanum. Þar sé ekki lengur eftir neinu að sækjast. Það sé þessi þögn sem sé svo ógnandi við Occupy hreyfinguna. Ógnin í arabíska vorinu sé engu minni, því það hafni 30 ára póstkólóníalisma með stöðugum afskipum Vesturveldanna af Arabaheiminum, og þessi höfnun sé í andstöðu við allt sem Vesturlönd hafa haldið að Arabaheimurinn væri.
Bolt gagnrýnir skipulagslega valkosti og prógröm sem vinstri hreyfingar hafi rætt og til staðar séu. Lenínisminn eins og honum sé lýst í bæklingi Leníns, Hvað bera að gera? sé óviðeigandi. Hann geri ráð fyrir því að hreyfingar verkalýðsins muni aldrei ná út fyrir takmarkaða baráttu fyrir bættum kjörum og betri launum hér og þar. Til þess að ná lengra þurfi skipulagðan og einbeittan flokk lítils hóps byltingarsinna, sem með réttri kenningu og réttu skipulagi geti beint baráttu verkalýðsins í rétta átt.
Þetta hafi Lenín og Bolsévíkaflokknum raunar tekist í byltingunni í Rússlandi 1917, en módelið hafi verið gallað að því leyti að það leiddi beint til áðurnefndrar niðurstöðu. Kommúnistaflokkurinn hafi haft öll völd og stýrt samfélagi sem var litlu hagkvæmara almenningi en sósíaldemókratísk samfélög Vesturlanda, og í fyrirkomulagi sínu stéttskipt í raun eins og áður er rakið. Tillögur fræðimanna eins og Žižeks um endurreisn lenínískra flokka og nauðsyn einhvers konar öflugs foringja í anda Thatcher, aðeins með öfugum formerkjum, líti framhjá sögu síðustu 30 ára og því að verkalýðshreyfingin sé í molum og forysta hennar á mála ríkjandi samfélagsafla.
Sama gildi um tillögur enska fræðimannsins og aktívistans Stuart Hall og félaga um endurreisn velferðarkerfisins í þeirri mynd sem það var 1948-1973, sú tilraun sé dæmd til að mistakast vegna þeirrar þróunar sem orðið hafi og áður er lýst, hvarfi stéttar iðnverkafólks og uppkomu prekaríatsins (eftir endurbætur á vegum þýskra sósíaldemókrata frá 2005, kenndar við Hartz, býr fjórðungur þýsks verkalýðs til að mynda við óöryggi í afkomu og ráðningarfyrirkomulagi, sem gerir að verkum að þessi hópur á aldrei fyrir brýnustu lífsnauðsynjum og sér ekki fram á að geta nokkurn tímann lifað mannsæmandi lífi).
Hvað er um þetta að segja?
Meginþættir í greiningu Bolts eru því þeir að undanfarin 30-40 hafi kapítalisminn verið í kreppu, ekki bara síðan 2008, og uppreisnir sl. ára séu aðeins skiljanlegar sé það haft í huga. Nýfrjálshyggjan hafi rústað skipulegri andspyrnu á vegum verkalýðsstéttarinnar sem skýri hve hefðbundinn sósíalismi sé lítt áberandi í þessum uppreisnum.
Um þetta mætti margt segja. Það mætti nefna að þegar á 8. áratugnum var gagnrýni á bæði kommúnistaflokka og sósíaldemókrata mjög áberandi og hörð, einmitt á vegum þess unga fólks sem stóð í fararbroddi í ´68 byltingunni. Gagnrýni á hinn svokallaða sósíalisma í Sovétríkjunum var engu minni, og byggði bæði á því sem virtist vera raunveruleg lýðræðisleg byltingarhreyfing í Kína, menningarbyltingin, og á því hversu svipaðar kúgunarvélar heimsvaldstefna Bandaríkjamanna og Sovétmanna virtust vera, annars vegar í Víetnam og hins vegar í Tékkóslóvakíu. Bæði hinn svokallaði sósíalismi í Sovétríkjunum og kapítalisminn á Vesturlöndum höfðu hins vegar hag af því að gera sem mest úr muninum á Sovétríkjunum og Vesturlöndum, sem var afskaplega lítill þegar allt kom til alls.
Gagnrýni á þingræði og borgaralegt lýðræði var engu minni, eins og kom vel fram hér á landi í þingkosningunum 1971 með grínframboði Framboðsflokksins. Sú gagnrýni endurómaði og endurómar af miklum krafti nú, t.d. með framboði Besta flokksins, sem aftur kallast á við gagnrýni Indignados á Spáni á þingræðið. Gagnrýnin á þingræðið kallast líka á við gagnrýnina á þær stofnanir sem um 1970 kölluðu sig verkalýðsflokka, en hafa síðan að mestu hætt að tala um verkalýðsstétt og alveg hætt að tala um sósíalisma. Opinbera pólitíska kerfið – fjölmiðlar, þing og flokkar – hefur eins og efnahagskerfið nær algerlega glatað lögmæti sínu.
Þó ekki alveg. Og ekki heldur velferðarkerfið, framleiðslukerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Enn eru við lýði verulegar leifar þessara kerfa, jafnvel meira en leifar, sem sinna þeim hlutverkum sem þeim voru falin á sínum tíma, en hrörnunin heldur áfram.
Gagnrýni Bolts er athyglisverð vegna þess að hún kafar svo djúpt í vandamálin og horfist svo óttalaus í augu við veruleika dagsins og skort á uppbyggjandi lausnum: Samfélagið horfist í augu við hrun, og ég hef enn ekki nefnt allra alvarlegustu ógnina sem Bolt talar um, árekstur kapítalismans við náttúruna. Umhverfiskreppuna. Sú kreppa er eins og bakgrunnur núverandi samfélagsátaka, alls staðar nálæg og skapar heimsendatilfinningu sem er stöðugt meira ógnandi. Það er ekki bara að kapítalisminn misnoti samfélagið á grófan og opinskáan hátt í gróðasókn sinni, hann misnotar líka umhverfið á æ grófari og opinskárri hátt.
Þar sem Bolt misstígur sig einna helst er í umræðunni um þjóðríkið (og auðvitað má gagnrýna Bolt fram og aftur, því viðfangsefni hans er svo víðtækt og reifunin oft stuttaraleg). Það er í hans augum ein af rótum hins illa, grunnþáttur vandamálsins, þjóðríkið tengist þingræðinu, fjölmiðlunum og öðrum illum öflum. Þetta tengist líka gagnrýni hans á lenínismann, því valdataka byltingarsinna í einu ríki er í augum Bolts algerlega marklaus. Vandamálið er hins vegar að bylting verður að taka völdin af valdhöfunum, sem þýðir að það verður að lama her, leyniþjónustu, fjölmiðla og hugmyndakerfi valdhafanna. Slíkt hefur yfirleitt í för með sér valdbeitingu, annars verður engin bylting. Byltingar hafa haft tilhneigingu til að styrkja ríkisvaldið og ef taka á forsendur byltingarhreyfinga nýjum tökum verður að greina ríkisvaldið og gefa því nýtt innihald í nýrri tegund byltinga.
Hvernig á þá að gera byltingu, ef það verður ekki gert innan ramma þjóðríkja? Bolt bendir á að Marx lagði mjög mikla áherslu á alþjóðahyggju verkalýðsins, og eitt af því áhugaverða við umfjöllun Bolts er einmitt stöðug vísun í Marx gagnvart lenínismanum og gagnvart sósíaldemókratismanum. Gagnrýni Bolts á lenínismann missir hins vegar að sumu leyti marks vegna þess að rannsóknir á Hvað ber að gera? undanfarið sýna að ritið hefur verið misskilið (sjá rannsóknir Lars T. Lih) og Bolt hefur þann misskilning innanborðs. Lenín hefur ennþá mikið að segja um það hvernig standa verður að byltingarstarfi og hugmyndir Bolts um skyndilega alheimsbyltingu og algert afnám peningahagkerfis í einu vetfangi virðast nokkuð óraunhæfar, en hver veit? Kannski hefur Bolt rétt fyrir sér í þessum efnum. Annað eins hefur gerst, og tíðarandinn er þannig að nánast hvað sem er getur gerst.
Occupy Wall Street, afneitun stjórnmála/ríkisvalds og hvað er bylting?
Við þetta má bæta því að Bolt bendir á hversu ópólitísk Occupy Wall Street hreyfingin er, hún hafi ekki sett fram neinar kröfur, ekki valið sér leiðtoga af neinu tagi. Þetta virðist í algerri andstöðu við fyrri reynslu af byltingum, lykillinn að árangri þeirra var einmitt hertaka ríkisvaldsins af hálfu vel skipulagðra byltingarafla og stórkostlegar umbætur á lífskjörum fylgdu í kjölfarið. Samt sem áður var hið kapítalíska ríkisvald í líki FBI fljótt á staðinn og Occupy hreyfingin var stöðvuð með ríkisstýrðu ofbeldi. Yfirstéttin leit greinilega svo á að hið beina lýðræði í Zucotti Park væri hættuleg ógn við ríkjandi kerfi, byltingarhreyfing sem þyrfti að kæfa í fæðingu. Kannski var það einmitt vegna þess hversu ópólitísk hún var á yfirborðinu.
Hreyfingarnar á Tahrir-torgi í Kaíró, Syntagma-torgi í Aþenu, Puerta del Sol í Madríd, Maidan í Kiev og jafnvel Austurvallarhreyfingin í Reykjavík, sýndu ýmis svipuð einkenni: Afneitun á stjórnmálum og fjölmiðlum, hik við að setja fram afgerandi eða djúptækar, byltingarsinnaðar kröfur og skort á yfirlýstum leiðtogum. Það er eins og trúin á hið pólitíska sé að hverfa, að hið byltingarsinnaða sé nú orðið nær algerlega ópólitískt og að hugmyndin um að ríkisvaldið geti virkað sem lýðræðislegt tæki sé nær alveg horfin. Örvæntingin er slík að svo virðist sem aðeins alger afneitun hefðbundinna flokkastjórnmála og fulltrúalýðræðis hafi hljómgrunn.
Um leið reyna leiðtogar hins vestræna heims enn einu sinni að halda því fram að markaðshagkerfið sé hið eina hugsanlega kerfi, niðurskurður velferðarkerfis og annarrar starfsemi á vegum ríkisvaldsins sé náttúrulögmál og hugmyndir um annan heim óraunhæfar. Allir vita hversu fráleitur þessi áróður er, og leiðtogarnir trúa honum ekki einu sinni sjálfir, en halda þó áfram að tala í þessum anda.
Þegar allt kemur til alls höfum við jarðarbúar ferðast ansi langa leið frá 2008, þegar hugmyndin um byltingu var nánast jafndauð og risaeðlurnar. Byltingin liggur núna hvarvetna í loftinu, og byltingahreyfingar og jafnvel byltingar fara af stað í hverju landinu á fætur öðru. Andrúmsloftið er gjörbreytt, og risaeðlurnar eru komnar á kreik, svona eins og í Jurassic Park. Allt getur gerst.