Um starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sl. 3 ár

Ályktun stjórnar Íslandsdeildar Attac um starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sl. 3 ár  

Nú, þegar sjöttu og síðustu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðins á efnahagsáætlun þeirri sem sjóðurinn lagði til og íslensk stjórnvöld fylgdu er lokið, hefur forystusveit ríkisstjórnarinnar lýst yfir mikilli ánægju með samstarfið. Stjórn Attac á Íslandi tekur ekki undir það.

Eftir að þrír helstu bankar Íslands féllu í október 2008 tók Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yfir stjórn efnahagsmála á Íslandi. Markmið sjóðsins var að endurreisa íslenska fjármálakerfið og koma því í það ástand að þátttaka gæti hafist að nýju í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Þetta samrýmdist að öllu leyti pólitískum markmiðum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde sem var við völd í landinu til loka janúarmánaðar 2009. Það kom hins vegar á óvart að stefna “fyrstu hreinu vinstri stjórnar” Jóhönnu Sigurðardóttur, stjórnar sem komst til valda eftir uppreisn almennings gegn afleiðingum nýfrjálshyggjunnar og hruni fjármagnskapítalismans á Íslandi, félli jafn vel að stefnu sjóðsins.

Eins og ávallt í samfélögum fjármagnsins hefur reikningurinn fyrir endurreisninni verið sendur almenningi. Íslenska ríkið var nánast skuldlaust við áramót 2008 en við hrunið lögðust á það skuldir sem námu heils árs þjóðarframleiðslu. Vaxtagreiðslur af þessari upphæð nema fimmtungi ríkisútgjalda, og þær takmarka mjög svigrúm ríkisvaldsins til að veita þjónustu og hefja framkvæmdir sem gætu minnkað atvinnuleysi. Við þessa staðreynd hafa hvorki AGS né stjórnvöld gert neinar athugasemdir.

Þá ákvað ríkisstjórnin í samráði við AGS að hefja miklar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Á sama tíma og fjármálakerfið er endurreist í óbreyttri mynd með gríðarlegum tilkostnaði hafa ríkisútgjöld verið skorin niður með afar harkalegum hætti, sem síðan hefur leitt til minnkandi eftirspurnar í hagkerfinu og dýpkað kreppuna. Við endurreisn íslenska fjármálakerfisins fór ekki fram nokkurt uppgjör við fjármálastefnu undanfarinna 20 ára, stefnu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn studdi og hvatti áfram hvar sem hann kom að. Hér, líkt og annarstaðar á Vesturlöndum, hélst alveldi fjármálamarkaða, þrátt fyrir hrunið 2008.

Gengistryggðu lánin, ólögleg lán sem fjármálastofnanir héldu fast að lánþegum fyrir hrun, hækkuðu gríðarlega í kjölfar falls bankanna, þegar verðmæti krónunnar féll um helming og skuldabyrðin lagðist af fullum þunga á þá sem lánin höfðu tekið. Þrátt fyrir að AGS hafi í hverri endurskoðuninni á fætur annarri undirstrikað að engar leiðréttingar yrðu gerðar á skuldum almennings, urðu öflug og fjölmenn mótmæli haustið 2010 til þess að stjórnvöld sáu að grípa þurfti til aðgerða, og greiðslubyrgði lánþega var linuð að einhverju marki.

Sömu sögu er að segja af Icesave-skuld Landsbankans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin fullyrtu að Íslendingum bæri “skylda” til að greiða þær skuldir og að annað hrun væri óumflýjanlegt nema Íslendingar greiddu ekki að fullu. Komið hefur í ljós að þær dómsdagsspár voru með öllu ástæðulausar; ranglátar álögur á almenning nú og framtíðarkynslóðir hafa minnkað vegna mótmæla, og þjóðarakvæðagreiðslna um Icesave-lögin sem fylgdu í kjölfarið. Þar sannaðist enn á ný að fjöldasamstaða er árángursríkasta vopn alþýðunnar gegn yfirgangi fjármagnseigenda.

Skuldasúpa sú sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengist við að hræra í með ríkisstjórnunum tveimur er komin til vegna hruns bankanna og er að öllu leyti á ábyrgð fjármálakerfisins sjálfs. Draumur nýfrjálshyggjunnar um óstjórnlega auðlegð, byggða á stjórnlausu fjármagni og sjálfsstýringu fjármálamarkaða “sem ávallt leita jafnvægis” snérist upp í martröð alls almennings. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvatti til og var einn af aðalleikendunum í því að leggja veröldina alla undir hugmyndafræði þá sem gerði martröðina mögulega.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru tíundaðir fjármálagjörningar sem leiddu til þess að fjármagnseigendur og stjórnendur bankanna, skólaðir í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, steyptu efnahag landsins í glötun. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og ríkisstjórnin hafa látið sem svo að þessar staðreyndir væru algerlega óviðkomandi því hvað gert væri við skuldasúpu ríkissjóðs og almennings. Ríkisstjórn Íslands, með fjármálaráðuneytið og efnahagsráðuneytið í forystu, hefði átt að nota útgáfu skýrslunnar sem tækifæri til að spyrja grundvallarspurninga. Hver á að borga skaðann af starfsháttum fjármagnseigendanna? Er réttlætanlegt að láta almenning líða fyrir ábyrgðarleysi og samsekt þeirra sem undirbjuggu jarðveginn fyrir hrunið; fjármálafyrirtækjanna sjálfra, stjórnmálakerfisins, embættismannakerfisins og, í hugmyndafræðilegu tilliti, viðskipta- og hagfræðideilda háskóla landsins? Ríkisstjórnin, með umboð frá kjósendum, í kjölfar fjöldamótmæla og uppreisnar, hefði átt að koma hér á nýju fjármálakerfi, grundvölluðu á þörfum almennings, ekki fjármagnsins.

Starf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi hefur fyrst og fremst falist í að endurreisa fjármálakerfið á forsendum nýfrjálshyggjunnar, í þeim anda sem leiddi til hrunsins. Á meðan reikningurinn fyrir syndir auðstéttanna er sendur alþýðunni tíðkast enn á ný ofurlaun innan bankakerfisins á Íslandi, og bankarnir markaðssetja nú sem áður draumsýn um glæsta tilveru, byggða á skuldsetningu. Öllum má vera ljóst að leikurinn er hafinn á ný, þrátt fyrir að hér sé gríðarlegt atvinnuleysi og mikill landflótti, þrátt fyrir að launþegar hafi tekið á sig miklar byrgðar, þrátt fyrir að enn sé boðaður niðurskurður í samfélagsþjónustu. Þetta er algerlega óásættanlegt út frá réttlætissjónarmiðum, og gengur þvert á öll loforð stjórnarflokkanna tveggja í aðdraganda alþingiskosninganna 2009.

Krafa Attac á Íslandi er þessi: Að kostnaðinum við arðránsævintýri fjármagnsaflanna verði að fullu og öllu létt af almenningi, skuldirnar sem urðu til í hruninu eru honum óviðkomandi. Að niðurskurðarstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar verði snúið til baka, að launþegar jafnt og ellilífeyrisþegar, atvinnulausir og námsmenn verði varðir fyrir ágangi banka og fjármálastofnana. Að mótuð verði stefna í ríkisfjármálum sem tekur mið af því að enn einu sinni hefur kapítalisminn orsakað kreppu, sem takast þarf á við um ókomna tíð og að fáránlegt er að láta sem ekkert annað standi til boða en niðurskurðarhnífur helstu hönnuða kerfisins.

Stjórn Attac á Íslandi, 29. Ágúst, 2011.