Tvískinnungur Evrópusambandsins í málefnum Palestínu

Submitted by admin on Fim, 15/11/2012 – 00:00 Höfundur: Ramzy Baroud

Evrópa er ólík Bandaríkjunum, eins og við erum oft minnt á. Evrópuríkin sýna yfirleitt meira jafnvægi í nálgun sinni þegar kemur að átökum Ísraels og Palestínu en Bandaríkin, sem styðja Ísrael skilyrðislaust. Erfiðara er fyrir „pro-ísraelska lobbíið“ að kaupa og selja evrópska stjórnmálamenn. Fjölmiðlar í Evrópu skoða frekar báðar hliðar málsins, ólíkt bandarísku fjölmiðlunum sem eru oft hliðhollari málstað Ísraels en ísraelskir fjölmiðlar. Þó að ljóst sé að utanríkisstefna eins ríkis er sjaldnast hrein eftirlíking af utanríkisstefnu annars ríkis er lítið sem bendir þó til þess að Evrópusambandið sé vettvangur sanngirni og pólitískrar skynsemi. Ólíkt því sem á sér í Bandaríkjunum er hlutdrægni Evrópu minna áberandi og er það með vilja gert.

Ólöglegu gyðingabyggðirnar í hernumdri Austur-Jersúsalem og á Vestubakkanum, og stefna Evrópusambandsins gagnvart þeim, varpa skýrustu ljósi á ósamræmi og hræsni sambandsins, og stefnu sem vinnur jafnvel gegn sjálfri sér. Hinar hörðu yfirlýsingar um skuldbindingar ESB við alþjóðalög þegar kemur að ólögmæti landnemabyggðanna, viðvaranir sambandsins um að mannvirkin sem reist eru þrengi sífellt að íbúum Palestínu og hindri möguleikana –ef nokkrir eru- á tveggja ríkja lausninni svokölluðu, ásamt öllu hinu, eru ekki annað en yfirlýsingar sem standa í nær algjörri mótsögn við það sem raunverulega á sér stað.

Það er ekki aðeins svo að Evrópusambandið geri lítið til þess að reyna að hefta vöxt landnemabyggðanna, sem nú ná yfir 42% af heildarlandrými Vesturbakkans og Austur-Jerúsalem, og stærstan hluta náttúrulegra auðlinda sem þar er að finna. Með óskammfeilnum og afdráttarlausum hætti kostar sambandið raunverulega vöxt byggðanna. Hið undarlega er að ESB gerir þetta á sama tíma og það er mikilsháttar kostnaðaraðili heimastjórnar Palestínumanna og óþreytandi talsmaður tveggja ríkja lausnarinar.

En hvernig stendur á því að ESB er talsmaður lausnarinnar sem það sjálft tekur beinan þátt í að grafa undan? Er um að ræða hreina hræsni – misræmi á milli mælskulistar og aðgerða, eða er afstaða Evrópusambandsins hluti af ákveðinni utanríkisstefnu sem hefur mun meira vægi en pólitískur vilji einstakra ríkja innan sambandsins?

Staðreyndir og tölur sýna svo að ekki verður um villst samsekt og sjálfsánægju Evrópusambandsins, sem og beina fjárfestingu sambandsins í nýlenduverkefni Ísraelsríkis. Í nýrri skýrslu: “Trading Away Peace: How Europe helps sustain illegal Israeli settlements”, fletta 22 frjáls félagasamtök ofan af tvískinnungi Evrópu. Á meðal samtakanna eru Christian Aid og International Federation for Human Rights.

Í skýrslunni kemur fram að: „Nýjasta mat ísraelsku ríkisstjórnarinnar fyrir Alþjóðabankann á verðmæti þess sem ESB flytur inn frá landnemabyggðunum nemur 300 milljónum dollara (230 milljónir evra); þetta er u.þ,b. 15 sinnum meira en verðmæti innflutnings ESB frá Palestínumönnum“. „Þetta þýðir að Evrópusambandið flytur inn ríflega 100sinnum meira fyrir hvern landnema en Palestínubúa, þar sem fjórar miljónir Palestínumanna búa á hernumdu svæðunum og 500.000 ísraelskir landnemar.“

Evrópa er stærsti viðskiptafélagi Ísraels, að Bandaríkjunum undanskildum. Ef svo mikilvægir viðskiptafélagar hyrfu myndi ísraelska hagkerfið finna fyrir afleiðingum ísraelskarar utanríkisstefnu. Líklegt er að upphæðin sem nefnd er hér að ofan sé miklu hærri, þar sem mikið af þeim vörum sem framleiddar eru á hernumdu svæðunum eru merktar „framleitt í Ísrael“, einfaldlega vegna þess að mörg fyrirtæki með höfuðstöðvar á hernumdu svæðunum eru með útibú í Ísrael. Gott dæmi um þetta er SodaStream fyrirtækið. Meira en 70% af vörum fyrirtækisins er selt í Evrópu, þrátt fyrir að framleiðslan fari fram í Ma’ale Adumim, ólöglegri landnemabyggð gyðinga sem er í stöðugri útþennslu, byggðri á palestínsku landi í Austur-Jersúsalem. Fyrirtæki í landnemabyggðunum njóta margvíslegra skattaívilnana og annarar hvatningar, eins og t.d. að fá að nota „vegi aðeins fyrir gyðinga“, sem Palestínumenn mega ekki nota, jafnvel þó að vegirnir séu á palestínsku landi. „Vegna þess að fyrirtækin eru einnig með verksmiðjur í Ísrael,“ skrifar Eline Gordts á Huffington Post, “geta þau merkt vörunar Framleitt í Ísrael. Slíkt er hagkvæmt þegar komast skal hjá því að merkja sérstaklega vörur framleiddar í landnemabyggðunum, en tvö evrópulönd hafa sett reglur um slíkt skuli gera.

Mótmæli við veg sérstaklega ætlaðan gyðingum.

Evrópusambandið hefur lítið við það að athuga að halda landnemabyggðunum samkeppnishæfum efnahagslega, með því að vera meiriháttar markaðssvæði fyrir þær. Sambandið gerir í raun sitt besta til að gera ísraelska hagkerfið að þátttakanda á evrópska markaðnum. Nýjasti þátturinn í þessari viðleitni átti sér stað 23. október síðastliðinn, þegar Evrópuþingið fullgilti samning ESB og Ísrael um samræmismat og staðfestingu (EU-Israel Agreement on Conformity Assessment and Acceptance (ACAA)). Staðfesting samningsins er ekki einangrað tilfelli heldur partur af látlausri viðleitni sem nær aftur til ársins 1995 og svokallaðs Association Agreement, en tilgangur hans var sagður vera að verðlauna Ísraelsríki fyrir viðleitni til friðarumleitana og að veita aðstoð við að brjóta upp einangrun ríkisins gagnvart örðum löndum á svæðinu. Þrátt fyrir viðstöðulausar tilraunir Ísraelsríkis í að sölsa undir sig stærstan hluta Vesturbakkans, áframhaldandi einangrun hernumda hluta Austur-Jerúsalem og langvinnt umsátrið um Gaza, gerir Evrópusambandið lítið í að sýna fram á óænægju með brot Ísraelsríkis á alþjóðalögum. „Það er þess virði að leggja á minnið,“ skrifar Emanuele Scimia í Asia Times, „að 24. júlí síðastliðinn hafði Evrópuráðið, framkvæmdarvald Evrópusambandsins, þegar samþykkt að uppfæra (upgrade) viðskipta og stjórmálasamband við Ísrael á meira en 60 sviðum.“

Full mótsagna halda Evrópuríkin áfram að styðja landnemabyggðirnar á sama tíma og þau gangrýna þær. Valdamestu lönd Evrópu – Þýskaland, Bretland og Frakkland – orðuðu sameiginlega gangrýni sína þann 6. nóvember síðastliðinn, á nýtt leyfi ísraelsku stjórnarinnar til mikilla nýbygginga á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem.

„Við væntum þess frá öllum aðilum í Mið-Austurlöndum að þeir forðist að gera nokkuð sem hamlar endurupptöku friðarumleitana“, sagði þýski utanríksráðherran Guido Westerwelle. Hann sagði einnig að landnemastefna Ísraels væri „hindrun við friðarferlið“. Í raun eru þessar fyrirhuguðu nýbyggingar þó aðeins toppurinn á ísjakanum því samkvæmt áðurnefndri skýrslu „hafa landnemabyggðir þanist út síðasliðin tvö ár, með tikynningum eða samþykktum um meira en 16.000 nýbyggingar“. Stefna þessi heldur líklegast áfram með áður óþekktri fólsku þar sem Benjamin Netanyahu og hægri-stjórn hans hafa gert það ljóst að útþennsla landnemabyggðanna er einn af horsteinum stefnu þeirra, og sérstaklega eftir að Netanyahu hlýtur að öllum líkindum endurnýjað umboð að næstu kosningum loknum.

Samhliða vexti landnemabyggðanna er eyðilegging „palestínskra mannvirkja – m.a. þeirra sem reist hafa verið fyrir styrki frá Evrópusambandinu.“ Evrópusambandið ver hvorki yfirlýsta stefnu sína gagnvart landnemabyggðunum né leitar lagalegra leiða vegna kerfisbundinnar eyðileggingar Ísraels á byggingum og verkefnum sem styrkt hafa verið úr sjóðum ESB. Verra er að samkvæmt skýrslunni hafa „evrópsk fyrirtæki fjárfest í nýbyggingum og innviðum í landnemabyggðunum og veita jafnframt þjónustu þar. Þekkt dæmi eru G4S (Bretland / Danmörk), Alstom (Frakkland), Veolia (Frakkland), og Heidelberg Cement (Þýskaland) ….“

Palestínuarabar bíða við aðskilnaðarvegginn klukkutímun saman á hverjum morgni áður en þeim komast til vinnu.

Stefna Evrópuríkjanna kann að virðast órökrétt á yfirborðinu – t.d. það að Þýskaland gangrýni ísraelsku landnemabyggðirnar en heimili svo fyrirtækinu Heidelberg Cement að hagnast á hernáminu. En pólitískur vitleysisgangur er ekki eiginleiki evrópskra stjórnmála, né endast rugl og pólitískar mótsagnir lengi, nema vegna þess að ósamræmi er einmitt það sem Evrópusambandið sækist eftir í stefnu sinni.

Það er því sannarlega hægt að segja að munur sé á stefnu Bandaríkjanna og Evrópusambandsins gagnvart Ísrael og Palestínu; hið fyrrnefnda veitir opinberan og skilyrðislausan stuðning, hið síðarnefnda sýnir undirförula samsekt í því að tryggja framgang hernámsins sem það þykist vilja enda.


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir