Vinstrimenn! Sýnið lit!

Ruglingurinn er mikill! Frá Miðausturlöndum til Evrópu, frá Bandaríkjunum til Kína ráðast fjöldahreyfingar á gamla hugmyndafræði, og stjórnmálaflokkar eru settir undir mælistikuna.

Átök standa milli þeirra sem krefjast kerfisbreytinga og hinna sem vilja styrkja það kerfi sem einmitt leiddi til ófaranna.

Hið gamla neitar að deyja, og hið nýja getur ekki fæðst.

Vinstrihreyfingin hefur verið afhjúpuð sem pappírstígrisdýr í kreppunni.

Hvorki hugmyndafræðilega né stjórnmálalega bendir þessi hreyfing á nokkurn valkost eða nýja sýn.

Þetta gæti stafað af því að það skortir skilning á fortíð kapítalismans, nútíð og framtíð.

Bylting og lýðræði

Ekki er unnt að spá fyrir um þróunina. Endurbótasinnar telja að eina leiðin sé lýðræðisleg endurbótastefna, það sýni fortíðin.

Þetta byggir á gagnrýni á sósíalískum tilraunum 20. aldar og núverandi tilraunum í Suður-Ameríku.

Þarna vantar lýðræði samkvæmt vestrænum hugsunarhætti.

Í þessu sambandi gleymist það að kapítalisminn hefur verið til í yfir 5 aldir og hefur breyst mikið í tímans rás. Merkantílismi, þrælaverslun, nýlendustefna, heimsvaldastefna, iðnbylting og tvær heimsstyrjaldir. Slík saga er allt annað en friðsamleg eða lýðræðisleg.

Lýðræðislegum endurbótasinnum er mjög umhugað um að draga lærdóma af rússnesku byltingunni 1917, þó án þess að setja þá í samhengi við það ástand sem var á þeim tíma í Rússlandi í fyrri heimsstyrjöld ásamt þeirri hernaðaríhlutun sem heimsvaldalöndin stunduðu í Rússlandi skömmu eftir 1917.

Svipaður skortur á samhengi er einkennandi fyrir þessa vinstri gagnrýni á núverandi tilraunum í anda sósíalisma í Suður-Ameríku sem heldur því fram að þar skorti eitthvað upp á lýðræði í vestrænni merkingu.

Ekki er nokkur leið að skilja stjórnmál í Suður-Ameríku án þess að taka hlutverk Bandaríkjanna með í reikninginn. Stuðningur Bandaríkjanna við valdaránið í Hondúras gagnvart lýðræðislega kjörinni stjórn fyrir tveimur árum síðan er þegar gleymt!

Endurbótastefnan velur úr

Einn helsti talsmaður endurbótastefnu á Norðurlöndum sl. áratugi, Göran Persson.

Meðvitað eða ómeðvitað velur endurbótastefnan úr þegar hún talar um sögu og þjóðfélagsbreytingar. Með því að leggja alla áherslu á lýðræði án þess að taka með í reikninginn þær félagslegu umbætur sem orðið hafa í þessum samfélögum og sem bætt hafa lífskjör milljóna manna, sýna endurbótasinnar tilhneigingu til að líta fram hjá eða mistúlka sögulegar forsendur og reynsluna af félagslegri þróun.

Nú Þegar írönsku prestastjórninni er lýst sem ógn við heiminn er ekki óviðeigandi að minna á sósíaldemókratastjórnina sem var lýðræðislega kjörin til valda í Íran í upphafi 6. áratugarins.

Múhammeð Mossadegh var steypt af stóli árið 1953 í blóðugu valdaráni sem CIA studdi. Glæpur stjórnarinnar var að þjóðnýta olíuiðnaðinn. Svipaðir atburðir urðu í öðrum heimshlutum (Arbenz í Guatemala, Lumumba í Kongó, o.s.frv.)

Umræðan um endurbætur eða byltingu verður ófrjó, ef ekki er litið til raunverulegrar sögulegrar reynslu.

Í upphafi 8. áratugarins var kenningarleg umræða á vinstri vængnum þannig mörkuð af reynslunni frá Chile, þar sem sósíalistinn Salvador Alliende var kominn til valda á lýðræðislegan hátt. Þá var bent á friðsamlega leið landsins til sósíalisma sem sönnun gegn leið kúbönsku byltingarinnar með vopnaðri byltinu.

Eftir minna en þrjú ár var Salvador Allende hins vegar steypt af stóli af hernum með stuðningi Bandaríkjamannna, og Chile lenti undir hryllilegri einræðisstjórn Augusto Pinochets.

Næstu þrjá áratugi var samfélagið í Chile undirokað af fasisma, og tilraunir Miltons Friedmans með efnahagslega nýfrjálshyggju fengu lausan tauminn.

Hugmyndin með þessari sögulegu upprifjun er ekki að fella endanlega dóm yfir endurbótastefnu eða byltingarstefnu, heldur að benda á það hversu mikilvægt er að huga að samhengi þeirrar umræðu.

Um leið er augljóst í þessu samhengi að ekki er byltingarástand í Vesturveldunum um þessar mundir.

Hinar hlutlægu aðstæður eru ekki fyrir hendi, og stjórnmálamenning vinstrihreyfingarinnar er gegnsýrð af endurbótastefnu. Á hinn bóginn eru þeir sem halda því fram að bylting sé á dagskrá illa haldnir af vinstriöfgastefnu sem barnasjúkdómi.

Stórveldistími endurbótastefnu

Táknar þessi viðurkenning, að eina leiðin fyrir vinstri sinnaða stefnu sé endurbótastefna innan ramma kerfisins? Hugmynd endurbótastefnu er að ekki aðeins búum við ekki við byltingarástand, heldur geti endurbætur leitt til að bæta kjör hinna lægst launuðu og þeirra sem minnst mega sín. Þ.e. varnarbarátta.

Þversögnin í þessari tegund stjórnmála er, eins og sagan hefur sýnt, að hún getur styrkt kerfið sjálft, ef henni er ekki fylgt eftir með stöðugri pólitískri virkni.

Minnismerki stórveldistíma endurbótastefnunnar hefur verið velferðarkerfið og hagstjórn í anda Keynes, sem var byggð upp eftir síðari heimsstyrjöld og sem nú er verið að yfirgefa í flestum lýðræðisríkjum Vesturlanda.

Í kreppu fjórða áratugarins og síðari heimsstyrjöldinni missti kapítalisminn megnið af trúverðurleika sínum. Baráttan gegn nasisma og fasisma hafði virkjað alþýðu Evrópu til pólitískrar baráttu. Ráðandi stétt og stjórnvöld höfðu misst trúverðugleika sinn.

Til að koma í veg fyrir, að almenn óánægja ógnaði kerfinu, var gert umfangsmikið samkomulag milli hinna valdamiklu aðila í efnahagskerfinu og almenning, sem ríkisvaldið sem millilið.

Ólíkt núverandi ástandi, þá var bylting raunverulegur möguleiki á þeim tíma. Án virkni utan þings er vafasamt að hin mikla málamiðlun hefði verið gerð.

Lélegt raunveruleikaskyn endurbótastefnu

Lélegt raunveruleikaskyn endurbótastefnu stafar af því að hafa litið á velferðarríkið sem nýjan viðvarandi strúktúr og ekki sem hliðarspor, sem leysti ákveðið stjórnmála- og efnahagsvandamál fyrir kapítalismann á ákveðnum tíma. Einn þáttur þessa viðhorfs er að síðan kommúnisminn hrundi hefur sjálf endurbótastefnan tekið upp nýfrjálshyggju.

Með öðrum orðum, sósíaldemókratisminn hefur með litlum breytingum yfirtekið þá hinn sama frjálshyggjuskilning á efnahagsmálum sem er ráðandi í borgaralegu flokkunum. Á sviði Evrópustjórnmála hefur þessi þróun sýnt sig í andfélagslegri pólitík á vegum sósíaldemókrata.

Það er magnað hversu skammt hið félagslega minni nær!

Eins og Maurice Lemoine benti á í franska blaðinu “Manière de voir” (ágúst-september 2012) “Árið 1997 var vinstri hreyfingin við völd í þrettán af fimmtán löndum Evrópusambandsins. Og hver var árangurinn?”

Hann svarar þannig að á meðan milljónir borgara, stéttarfélaga og samtaka hafa krafist félagslegrar samstöðu í Evrópu með forgang fyrir almennt aðgengileg verðmæti í stað einkavæðingar, þá notuðu sósíaldemókratar þá umræðuhefð, sem byggði á velmeinandi nauðhyggju, sem breytti þeim í stuðningsmenn fjárhags- og verslunarhugmyndafræði sem lagði áherslu á niðurlagningu iðnaðar, afnám reglugerða og andstöðu við afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu.

Þar sem endurbótastefnan er ráðandi hugmyndafræði á vinstri vængnum ekki aðeins í Danmörku, er kominn tími til að ráðast að rótum þeirra forsendna sem hún byggir á.

Hún lagar sig að ráðandi hugmyndum í efnahagsmálum og það leiðir til þess að ekki er unnt að taka á þeim vandamálum sem kapítalisminn stendur nú frammi fyrir.

Grunnviðmið vinstrihreyfingarinnar

Umræða um grunnviðmið vinstrihreyfingarinnar við greiningu á vandamálum samfélagsins og lausnarlíkani við þau ætti að koma í stað þess spuna sem nú er alltaf á lofti.

Hvað er markmið þess verkefnis sem endurbótastefnan hefur sett sér, og hver er munurinn á því og hugmyndum ráðandi stéttar?

Umræða um slíka þætti stjórnmálanna gæti leitt til aukinnar þáttöku almennings og bætt úr skorti á lögmæti stjórnmálastarfs endurbótasinna.

Spuni og það að gera lítið úr vandamálum sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir hindrar að unnt sé að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegum vandamálum þjóðfélagið stendur frammi fyrir nú á tímum.

Slík stjórnmálavæðing stjórnmálanna myndi hins vegar ganga gegn núverandi venjum.

Eftir fjármálakreppuna í Asíu árið 1992 sagði Robert Rubin, fjármálafursti á Wall Street og þáverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að list stjórnmálanna fælist í því að fá fólk til að samþykkja stjórnmálastefnu sem gengi gegn hagsmunum þess: “Eitt mesta vandamál stjórnmálanna í lýðræðissamfélögunum á næstu áratugum er að ráða við að taka óvinsælar ákvarðanir í efnahagsmálum, sem eru nauðsynlegar til að árangur náist í alþjóðlegum og samþættum hnattrænum efnahag.” (International Herald Tribune, 19. okt. 1998) Slík strategía gerir ráð fyrir stuðningi almennings við óvinsælar endurbætur.

Það er þessi stefnumótun sem nú er verið að framkvæma þegar Evrópusambandið reynir að stýra núverandi efnahagskreppu með því að krefjast gríðarlegs niðurskurðar í félagslegum útgjöldum ríkisins og verri starfsaðstæðum verkafólks, um leið og misrétti í samfélaginu vex.

Það er sorglegt, að ríkisstjórnir nota kreppuna til að hlaða undir þá stefnumótun, sem er ábyrgð fyrir kreppunni um leið og hún talar um að þessi stefnumótun sé forsenda fyrir því að varðveita velferðarkerfið!

Orwell, hvar ert þú?


Ellen Brun og Jacques Hersh hafa verið virk í vinstrihreyfingunni í Danmöku í marga áratugi. Þau voru ritstjórar tímaritsins Politisk Revy á 7. áratugnum og á 10. áratugnum ritstjórar tímaritsins SALT. Greinin er þýdd og örlítið stytt. Sleppt er vísunum í sérdanskar aðstæður, en greinin er upphaflega orðin til sem innlegg í umræðu um byltingarstjórnmál og endurbótastjórnmál sem hefur verið áberandi í Danmörku á þessu ári.

Þýðing: Árni Daníel Júlíusson