Evrópukerfið hrynur

Er hægt að bera saman Evrópu og Bandaríkin?

Meirihluti Evrópubúa lítur svo á að Evrópa hafi allt það til að bera sem þarf til að hún geti orðið efnahags- og stjórnmálaveldi á borð við, og þar af leiðandi óháð, Bandaríkjunum. Einfaldur samanburður á íbúafjölda og þjóðarframleiðslu virðist augljóslega sýna það. Út frá mínu sjónarhorni tel ég hins vegar að Evrópa hafi á sér þrenna mikla annmarka sem hindra slíkan samanburð.

Fyrst af öllu, þá býr norðurhluti ameríska meginlandsins (Bandaríkin og – það sem ég kalla utanlandshérað þeirra – Kanada) yfir miklu meiri náttúruauðæfum en sá hluti Evrópu sem er vestan við Rússland, eins og sést á því hve Evrópa er háð innfluttri orku.

Í öðru lagi þá er í Evrópu mikill fjöldi þjóða, sem þróast hafa á löngum tíma, og hafa hver fyrir sig það ólíka stjórnmálamenningu, að jafnvel þótt þessi fjölbreytni markist ekki endilega af þjóðernishyggju í neikvæðri merkingu, þá er hún nægilega djúpstæð til að ómögulegt er að tala um “evrópska þjóð” eins og unnt er að tala um “ameríska þjóð” í Bandaríkjunum. Við komum að því síðar.

Í þriðja lagi (og þetta er meginástæðan fyrir því að ekki er hægt að gera slíkan samanburð) var og er þróun kapítalismans í Evrópu ójöfn, á meðan bandarískur kapítalismi hefur þróast á tiltölulega einsleitan hátt um allt bandaríska svæðið, að minnsta kosti síðan í Þrælastríðinu. Evrópa vestan við Rússland (þar með talið Hvítarússland og Úkraína) er sett saman úr þremur svæðum þar sem kapítalisminn hefur þróast á ólíkan hátt á hverju svæði fyrir sig.

Hinn sögulegi kapítalismi – það er að segja, það form kapítalísks framleiðsluháttar sem hefur orðið ofan á á heimsvísu – mótaðist á 16. öld á þríhyrndu svæði sem afmarkaðist af London, Amsterdam og París og tók á sig endanlega mynd með frönsku byltingunni og iðnbyltingunni á Bretlandi. Þetta líkan, sem hefur verið ráðandi í helstu miðstöðvum kapítalismans fram til okkar tíma (frjálslyndur kapítalismi, með orðum Wallersteins), þandist út í Bandaríkjunum af miklum krafti og hraða eftir lok Þrælastríðsins og batt endi á völd þrælaeigenda í alríkisstjórninni, og batt síðar einnig enda á sjálfstætt vald Japans. Sama líkan lagði undir sig kjarnasvæði Evrópu með álíka hraða (eftir 1870), í Þýskalandi og Norðurlöndin. Þessi kjarnasvæði Evrópu (Stóra Bretland, Frakkland, Þýskaland, Holland, Belgía, Sviss, Austurríki og Norðurlönd) eru nú undir efnahagslegum, stjórmálalegum og þjóðfélagslegum yfirráðum eigin einokunarauðvalds sem ég hef talað um sem altækt, en það þróaðist af eldri stigum einokunarauðvalds á tímabilinu 1975-1990.

Þrátt fyrir þetta, þá er hið altæka einokunarauðvald á þessu svæði Evrópu ekki “evrópskt”, það er enn eingöngu “þjóðlegt” (það er að segja þýskt, breskt, sænskt o.s.frv.) jafnvel þótt starfsemi þessara fyrirtækja fari fram um alla Evrópu og jafnvel allan heim. Hið sama gildir um hið altæka einokunarauðvald nútímans í Bandaríkjunum og Japan. Í athugasemdum mínum við þær frábæru rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu sviði hef ég lagt áherslu á það hversu þessi niðurstaða skiptir miklu máli.[1]„Transnational Capitalism or Collective Imperialism?•, Pambazuka News, 23. mars 2011.

Annað svæðið nær yfir Ítalíu, Spán og Portúgal þar sem sama almenna líkanið – hið altæka einokunarauðvald – mótaðist mun síðar, ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld. Vegna þessa eru enn fyrir hendi ýmis sérkenni í efnahagslífi og stjórnmálum sem hindra að þau nái jafnri stöðu við hin ríkin.

Þriðja svæðið, sem nær yfir svæðið þar sem áður voru “sósíalísku ríkin” og Grikkland, eiga sér ekki eigin, þjóðlegt, altækt einokunarauðvald ( grískir skipaútgerðarmenn eru mögulega undantekning, þótt draga megi verulega í efa hvort þeir séu “grískir”). Þar til í síðari heimsstyrjöld voru öll þessi ríki afar fjarri því að búa yfir hinum þróaða kapítalisma sem einkenndi kjarna Evrópu. Síðar hindraði sósíalismi með sovésku sniði enn frekar þróun þjóðlegrar borgarastéttar þessara landa og byggðu upp ríkiskapítalisma í þeirra stað með ýmsum félagslegum, ef ekki sósíalískum einkennum. Þegar þessi ríki voru á ný innlimuð í hinn kapítalíska heim með þáttöku í Evrópusambandinu og NATO, tóku þau (þar á meðal Grikkland) stöðu annarra jaðarríkja kapítalismans – þeim var ekki stýrt af eigin þjóðlegu, altæku einokunarauðvaldi heldur lutu einokunarauðvaldi frá kjarnasvæði Evrópu.

Þessi misleitni Evrópu útilokar alveg samanburð við Bandaríkin og Kanada. Spyrja mætti þó hvort þessa misleitni megi ekki þurrka smám saman út – einmitt með uppbyggingu Evrópusambandsins? Það er almenn skoðun í Evrópu. En ég tel svo ekki vera og kem að því síðar.

Eigum við að bera saman Evrópu og Ameríkurnar tvær?

Ég tel raunhæfara að bera sama Evrópu og Ameríkurnar tvær (annars vegar Bandaríkin og Kanada og hins vegar Rómönsku Ameríku og löndin í Karíbahafi) frekar en við norðurhluta Ameríku eingöngu. Ameríkurnar tvær einkennast, sem heild innan heimskapítalismans, af því hversu ólík svæði ráðandi og miðlægur norðurhlutinn annars vegar og undirokað jaðarsvæðið í suðri hins vegar eru. Þessi yfirráð, sem hið rísandi bandaríska vald (sem lýsti markmiðum sínum í Monroe-yfirlýsingunni árið 1823) deildi með breskum keppinaut sínum, sem þá var ráðandi stórveldi um allan heim, er nú fyrst og fremst í höndum Washington, en hið altæka einokunarauðvald Bandaríkjanna ræður nú ríkjum í efnahags- og stjórnmálalífi ríkjanna sunnan við landamæri þeirra þrátt fyrir hreyfingar í þá átt að komast undan þeim yfirráðum, sem eflst hafa að undanförnu. Hliðstæðan við Evrópu er greinileg. Austurhluti Evrópu er jaðarsvæði sem er í svipaðri stöðu gagnvart vesturhluta Evrópu og Rómanska Ameríka er í gagnvart Bandaríkjunum.

En þessi hliðstæða, eins og aðrar hliðstæður, hefur sínar takmarkanir, og ekki má virða þær að vettugi, því það leiðir til rangra ályktana um hina fjölþættu framtíðarþróun sem er möguleg og um það hvaða leiðir skuli fara til að opna hliðið að hinni bestu mögulegu þróun. Á tveimur sviðum er mismunur, fremur en líkindi, ráðandi. Rómanska Ameríka er gríðarstórt meginland sem býr yfir miklum auðlindum – vatni, landi, jarðefnum, olíu og gasi. Austur-Evrópa er að engu leyti sambærileg hvað þetta varðar. Þess utan er Rómanska Ameríka miklu einsleitari en Austur-Evrópa: Þar eru töluð tvö náskyld tungumál (þó má ekki gleyma fjölmörgum indíánatungumálum sem hafa varðveist) og lítill þjóðernisrígur milli nágranna. Þótt þessi mismunur skipti máli, þá hindrar hann ekki að unnt sé að gera ýmskonar samanburð.

Yfirráð Bandaríkjanna í suðurhluta Ameríku eru fyrst og fremst efnahagslegs eðlis, eins og sjá má á því sam-ameríska líkani sameiginlegs markaðar sem Washington talar fyrir (þótt tilraunir Bandaríkjamanna til að koma honum á fót hafi í bili verið lagðar á hilluna). Jafnvel sá hluti þessa líkans, NAFTA, sem þegar er kominn í framkvæmd og innlimar Mexíkó í hinn stóra markað í Norður-Ameríku, er á engan hátt ógnun við pólitískt fullveldi Mexíkó. Það er ekkert einfeldningslegt við þessa athugasemd. Ég veit vel að engar þéttar hindranir skilja að efnahagslegar aðferðir og þær sem notaðar eru á pólitíska sviðinu. Samtök Ameríkuríkja (SAR eða OAS) eru réttilega álitin vera “nýlenduskrifstofa Bandaríkjanna” af andófsöflum í Rómönsku Ameríku, og listi bandarískrar íhlutunar, hvort sem er hernaðarlegrar (eins og í Karabíska hafinu) eða með stuðningi við valdarán hersins, er nógu langur til að sanna það.

Stofnanalegt form sambandsins milli ríkja Evrópusambandsins er runnið frá breiðari og flóknari rökum. Raunar er til eins konar “Monroe-kenning” Vestur-Evrópu (“Austur-Evrópa er eign Vestur-Evrópu”). En þar með eru ekki öll kurl komin til grafar. Evrópusambandið er ekki lengur aðeins “sameiginlegur markaður” eins og í upphafi, þegar það takmarkaðist við sex ríki áður en við bættust önnur ríki Vestur-Evrópu. Eftir Maastricht samkomulagið er það stjórnmálabandalag. Vissulega var það hugsað sem tæki til að styðja við þær fyrirætlanir að afhenda altæka einokunarauðvaldinu í æ meira mæli stjórn þátttökulandanna. En það getur einnig orðið vettvangur átaka og andófs gegn þessum fyrirætlunum og þeim aðferðum sem notaðar voru til að koma þeim í framkvæmd. Evrópsku stofnanirnar eiga að tengja þjóðir sambandsins og beita ýmsum aðferðum í því augnamiði, eins og t.d. að skipta fulltrúafjölda ríkja á Evrópuþinginu eftir fólksfjölda fremur en þjóðarframleiðslu. Þess vegna er ráðandi skoðun í Evrópu, líka meðal vinstri sinnuðustu gagnrýnenda núverandi stofnana þess, sú von að Annarskonar Evrópa sé möguleiki.

Áður en við ræðum þessar og aðrar hugmyndir um framtíðarmöguleika Evrópu, tel ég nauðsynlegt að taka hliðarspor og ræða annars vegar Atlantshafsbandalagið og heimsvaldastefnuna, og hins vegar sjálfsmynd Evrópu.

Evrópa, eða atlantísk og heimsvaldasinnuð Evrópa?

Stóra Bretland er Atlantshafssinnaðra en það er Evrópusinnað, og hefur erft það viðhorf vegna fyrri stöðu sinnar sem ráðandi heimsveldi – jafnvel þótt hið eina sem nú er eftir af þeirri arfleifð sé sú forréttindastaða sem City of London heldur í alþjóðavæddu fjármálakerfi. Af þeim sökum lætur Stóra Bretland hina mjög svo sérstöku stöðu sína í Evrópusambandinu víkja fyrir þeim forgangi sem það lætur evró-atlantíska markaðinn hafa á sviði efnahagsmála og fjármála. Slíkt hefur forgang gagnvart óskum um að taka virkan þátt í pólitískri uppbyggingu Evrópu.

En það er ekki bara Stóra Bretland sem horfir út á Atlantshafið. Ríkin á meginlandi Evrópu gera það ekki síður, jafnvel þótt þau virðist vilja byggja upp stjórnmálasamvinnu í Evrópu. Sönnun þess er miðlæg staða NATO í stjórnmálasamvinnunni. Sú staðreynd að hernaðarbandalag við ríki utan sambandsins skuli í raun vera þáttur í “evrópsku stjórnarskránni” er frávik sem ekki á sér neina hliðstæðu. Vernd NATO – þ.e. Bandaríkjanna – gegn “rússneska óvininum” (!), er sumum Evrópuríkjum (Póllandi, Ungverjalandi, Eystrasaltsríkjum) mikilvægari en þáttaka þeirra í Evrópusambandinu.

Varanleiki atlantismans og útvíkkað aðgerðasvæði NATO um allan heim eftir hvarf hinnar ætluðu “Sovétógnar” er afleiðing þess sem ég hef greint sem tilurð sameiginlegrar heimsvaldastefnu þríeykisins (Bandaríkjanna, Evrópu og Japan), þ.e.a.s. ráðandi miðstöðvar hins altæka einokunarauðvalds sem ætlar sér að halda yfirráðum sínum þrátt fyrir að ný veldi hafi risið. Þetta er tiltölulega nýleg umbreyting í heimsvaldakerfinu, sem áður, og venjulega, byggðist á átökum milli heimsvaldaríkjanna. Ástæðan fyrir því að þessi sameiginlega heimsvaldastefna kemur fram er þörfin fyrir sameiginleg viðbrögð gagnvart rísandi veldum jaðarsvæðanna, þjóða og ríkja í Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku sem vilja sleppa úr hlutverki hinna undirokuðu.

Sá hluti Evrópu sem hér um ræðir er aðeins Vestur-Evrópa, en öll ríki hennar hafa í nútímanum alltaf verið heimsvaldaríki hvort sem þau áttu nýlendur eða ekki, þar sem þau hafa alltaf fengið sinn hluta af rentu heimsvaldastefnunnar. Þvert á móti hafa Austur-Evrópuríkin ekki haft neinn aðgang að slíkum tekjum þar sem þau ráða ekki yfir eigin einokunarauðvaldi. Þau hafa hins vegar gert sér þær grillur að þau eigi rétt á slíkri rentu vegna þess eins að þau eru “evrópsk.” Hver veit hvort þau geti nokkurn tímann losað sig við þær grillur?

Heimsvaldastefnan, sem nú er orðin sameinuð og verður það hér eftir, á sér sameiginlega stefnu gagnvart Suðrinu – stefnu þríeykisins – sem felst í sífelldri árásargirni gagnvart þjóðum og ríkjum sem dirfast að draga í efa hina sérstöku tegund alþjóðavæðingar þríeykisins. Og sameinuð heimsvaldastefnan hefur hernaðarforystu, ef ekki ráðandi veldi: Bandaríkin. Skilyrðið er að hvorki Evrópusambandið né nokkuð ríki í því hafi nokkra “utanríkisstefnu” framar. Staðreyndirnar sýna að það er aðeins einn veruleiki: að fylkja sér um þá stefnu sem Washington (stundum í samráði við London) ákveður hverju sinni upp á sitt eindæmi. Séð úr Suðri, þá er Evrópa ekkert annað en skilyrðislaust bandalagsríki Bandaríkjanna. Jafnvel þótt efasemdir um þetta séu uppi í Rómönsku Ameríku – eflaust vegna þess að yfirráð Bandaríkjanna einna eru hér sérlega grimmileg án þess að undirlægjur þeirra í Evrópu taki þátt – þá eru engar slíkar efasemdir í Asíu og Afríku. Valdhafar í rísandi ríkjum vita þetta: þeir sem eru við völd í öðrum ríkjum á meginlöndunum tveimur taka því þegjandi og hljóðalaust að vera aðeins hlýðnir undirmenn. Öllum er þeim ljóst að aðeins Washington skiptir máli, ekki Evrópa sem gæti þess vegna alls ekki verið til.

Er til evrópskt þjóðerni?

Best er að skoða þessa spurningu út frá sjónarhól sem staðsettur er inni í Evrópu. Ástæðan er sú að utan frá séð – t.d. frá öllu Suðrinu – þá virðist tvímælalaust svo sem “Evrópa” sé raunveruleiki. Fyrir þjóðum Asíu og Afríku, sem hafa “ekki-evrópsk” tungumál og trúarbrögð, jafnvel þótt sá raunveruleiki hafi látið undan síga vegna trúskipta til kristni vegna trúboðs eða vegna þess að lönd hafa tekið upp mál fyrrum nýlenduherra sem opinbert tungumál, þá eru Evrópumenn “hinir”. Málið snýr öðruvísi við í Rómönsku Ameríku, sem er, eins og Norður-Ameríka, afleiðing af uppbyggingu “hinnar Evrópu” – “Nýja heimsins”, sem tengist því hvernig kapítalisminn hefur þróast sögulega.

Hina raunverulegu spurningu um evrópska sjálfsmynd eða “þjóðerni” er hins vegar aðeins unnt að ræða með því að horfa á Evrópu eins og hún lítur út innanfrá. Kenningarnar sem staðfesta og hafna raunveruleika þessarar sjálfsmyndar takast á í deilum þar sem báðir aðilar sveigja eigin röksemdafærslu of langt í eigin þágu. Sumir vísa til kristindómsins, þótt rökréttara sé í því samhengi að tala um kaþólsku, mótmælendatrú og orþódox kristni – og ekki má gleyma öllum þeim fjölda sem ekki játar sérstaka trú eða er jafnvel trúlaus með öllu og ekki er lengur hægt að horfa fram hjá. Aðrir munu benda á að Spánverji nái betur til Argentínumanns en Litháa, að frönsk kona muni skilja Alsírbúa betur en búlgarskan mann, og að Englendingar njóti sín betur í þeim hlutum heimsins þar sem tunga þeirra er töluð en á meginlandi Evrópu. Grísk-rómversk menning ættfeðranna, hvort sem er eins og hún var eða endursköpuð, ætti að gera latínu og grísku, fremur en ensku að opinberu tungumáli Evrópu (eins og hún var á miðöldum). Átjándu aldar Upplýsingin var fyrst og fremst afurð London/Amsterdam/Parísarþríhyrningsins jafnvel þótt hún væri flutt út allt til Prússlands og Rússlands. Fulltrúalýðræði er ennþá afar ótryggt í sessi og of nýlegt til að unnt sé að rekja rætur þess til hinna mjög svo ólíku stjórnmálamenningarheilda Evrópu.

Það er ekki erfitt að sýna fram á hve hin ýmsu þjóðerni Evrópu eru enn öflugar heildir. Frakkland, Þýskaland, Spánn og Bretland voru öll mótuð í aldalöngum og grimmilegum hernaði. Þótt hinn valdalausi forsætisráðherra Lúxemborgar geti sagt að föðurland hans (eða bankans hans?) “sé Evrópa”, þá mundi enginn franskur forseti, þýskur kanslari eða breskur forsætisráðherra dirfast að láta út úr sér aðra eins þvælu. En er raunverulega nauðsynlegt að hafa sameiginlega sjálfsmynd til að lögmæt markmið um samþættingu ákveðins svæðis eigi rétt á sér? Ég tel að svo þurfi alls ekki að vera. Með því skilyrði að hinar ýmsu sjálfsmyndir (köllum þær “þjóðlegar”) séu viðurkenndar og hinar raunverulegu ástæður fyrir sameiginlegum vilja til að byggja upp pólitíska heild séu settar fram á nákvæman hátt. Þetta grundvallaratriði gildir ekki aðeins fyrir Evrópumenn: það er jafngilt fyrir þjóðir Karíbahafsins, Rómönsku Ameríku, Arabaheimsins og Afríku. Það þarf ekki að trúa á “Arabisma” eða “Négritude”[2]Negritute: Bókmennta- og hugmyndahreyfing meðal svartra menntamanna og stjórnmálamanna í Frakklandi á fjórða áratugnum. Hreyfingin var andvíg nýlendustefnu og vildi skipta fyrirlitningu … Continue reading til að fallast á að arabískt eða afrískt ferli sé fullkomlega lögmætt. Því miður, þá haga “Evrópusinnar” sér ekki af slíkri skynsemi. Mikill meirihluti þeirra telur að nægilegt sé að kalla sig “yfirþjóðlega” eða “and-sjálfstæðissinna” sem er meiningarlaust þegar best lætur og stangast jafnvel á við veruleikann. Af þeim sökum mun umræða mín um það hversu lífvænleg uppbygging Evrópusambandsins sé ekki grundvallast á hinum svikulu söndum “sjálfsmyndar” heldur á öruggum grunni þeirra vandamála sem við er að fást og þeirra stofnana sem mynda ætti til að taka á þeim.

Er Evrópusambandið lífvænlegt?

Spurningin er ekki hvort evrópskt verkefni (hvaða verkefni? til hvers?) sé mögulegt – svar mitt er augljóslega jákvætt – heldur hvort það verkefni sem nú er í gangi sé lífvænlegt eða hvort unnt sé að breyta því þannig að það verði lífvænlegt. Ég beini orðum mínum ekki að hægrisinnuðum “Evrópusinnum”, þ.e. þeim sem í hlýðni við kröfur hins altæka einokunarauðvalds samþykkja Evrópusambandið eins og það er og hugsa aðeins um að finna lausnir á núverandi “tímabundnum ” vanda (sem ég tel að sé alls ekki tímabundinn). Ég ræði einungis rök þeirra sem halda því fram að “annars konar Evrópa” sé möguleg, þar á meðal talsmanna endurbætts kapítalisma með mannlegu andliti og þeirra sem líta svo á að umbreyta ætti Evrópu og heiminum öllum yfir í sósíalisma.

Miðlægt í þessari umræðu er eðli þeirrar kreppu sem nú umlykur Evrópu og heiminn allan. Hvað Evrópu varðar, þá eru yfirborðskreppa evrusvæðisins og baksviðskreppa Evrópusambandsins óaðskiljanlegar.

Að minnsta kosti síðan Maastricht sáttmálinn var gerður, og að mínu áliti, frá því löngu áður, hefur uppbygging Evrópusambandsins og evrusvæðisins verið hugsuð og hönnuð sem þættir í uppbyggingu svokallaðrar frjálslyndrar heimsvæðingar – það er að segja sem uppbygging kerfis sem geti tryggt algjör yfirráð hins altæka einokunarkapítalisma. Í þessu samhengi þá er nauðsynlegt að hefja greininguna á móthverfum sem að mínu viti gera þetta verkefni (og þar af leiðandi Evrópuverkefnið sem er hluti af því) ólífvænlegt.

En, í skilyrðislausri vörn fyrir Evrópuverkefni þá er sagt að það hafi þann kost að vera til, vera þegar fyrir hendi og því megi breyta. Sem sértæk kenning er þetta vissulega rétt. En hvaða kringumstæður myndu gera það mögulegt? Ég held að það þurfi tvöfalt kraftaverk (skiptir máli að taka það fram að ég trúi ekki á kraftaverk): (1) að fjölþjóðlega Evrópuverkefnið viðurkenni að þjóðlegt fullveldi sé raunverulegt, hinir ólíku hagsmunir sem þar rekast á, og að það skipuleggi stofnanir sínar út frá þeim raunveruleika og (2) að kapítalisminn – ef ætlunin er að halda sig innan þess almenna ramma sem hann stýrir með efnahag og samfélagi – verði neyddur til að vinna með aðferðum sem eru aðrar en þær sem eigin lógík kapítalsins býður, sem í dag er yfirráð hins altæka einokunarauðvalds. Ég sé ekkert sem bendir til að meirihluti Evrópusinna geti tekið tillit til þessara skilyrða. Né heldur sé ég að vinstri minnihlutinn, sem tekur tillit til þeirra, geti vakið stjórmálalega og félagslega hreyfingu sem ræður við að hreyfa við íhaldssemi hinnar viðteknu Evrópustefnu. Þess vegna er mín niðurstaða að Evrópusambandið geti ekki verið neitt annað en það er, og sem slíkt ekki lífvænlegt.

Kreppa evrusvæðisins sýnir veikleika verkefnisins.

“Evrópu” verkefninu eins og það er skilgreint í Maastricht sáttmálanum og verkefninu um að stofna evrusvæði var aflað fylgis í almannavitund með áróðursherferð sem aðeins er hægt að lýsa sem (ég hef ekki önnur orð til að lýsa henni) hálfvitalegri og óheiðarlegri. Sumum – hinum (tiltölulega) vel stæðu þjóðum hinnar auðugu Vestur-Evrópu – var sagt að með því að þurrka út fullveldi þjóða myndi öllum hinum hatursfullu styrjöldum sem blætt höfðu álfunni ljúka (og auðvelt er að skilja hvers vegna svo vel gekk að koma þessu rugli inn hjá fólki). Með þessu var borin fram sósa: vináttan við hið mikla amríska lýðveldi, sameiginleg barátta fyrir lýðræði í hinu vanþróaða Suðri – ný leið til að samþykkja gamaldags heimsvaldaviðhorf – o.s.frv. Hin – veslings fólkið í austri – fengu loforð um auðlegð með því að “hlaupa uppi” vestræn lífskjör.

Meirihlutar í báðum hlutum Evrópu – vestur- og austurhluta – gleyptu þetta rugl. Í austri trúði fólkið því, að því er virðist, að innganga í Evrópusambandið myndi leiða til þess að hinn alræmdi lífskjarajöfnuður myndi nást, sem sannarlega hefðu verið góð skipti. En verðið sem þau greiddu – ef til vill sem refsing fyrir að hafa liðið ríkisstjórnir sem lögðu stund á sósíalisma af sovéskri gerð sem nefndur var kommúnismi – var sársaukafullur aðlögunartími sem stóð yfir í þó nokkur ár. Aðlögunin – það er, “aðhald” (fyrir verkamenn, ekki milljarðamæringa) – var neydd upp á fólk. Afleiðingin var þjóðfélagslegt stórslys. Þannig varð Austur-Evrópa að jaðarsvæði Vestur-Evrópu. Nýleg könnun sýnir að 80% Rúmena telja að “á tímum Ceausescu hafi allt gengið betur”![3]Tilvitnunin er fengin frá munnlegri skýrslu rúmensks þáttakanda á Balkan Social Forum í Zagreb 2012 Getum við fundið betri vitnisburð um það að hið svokallað lýðræði sem einkennir Evrópusambandið hafi algerlega glatað trúverðugleika sínum? Munu þjóðirnar sem hlut eiga að máli læra sína lexíu? Mun þeim skiljast að rökfræði kapítalismans er ekki lífskjarajöfnuður heldur þvert á móti vaxandi lífskjaramunur? Ekki veit ég það.

Það að Grikkland skuli nú vera í miðpunkti átakanna er bæði vegna þess að Grikkland er hluti evrusvæðisins og eins vegna þess að íbúar landsins vonuðust til að sleppa við örlög hinna (fyrrum “sósíalísku”) jaðarríkja á Balkanskaga. “Grikkir” (ég veit ekki nákvæmlega hvað það þýðir) héldu (eða vonuðu?) að það að hafa sloppið við það ólán að vera stjórnað af “kommúnistum” (öflugir á hetjutíma síðari heimsstyrjaldarinnar) – þökk sé ofurstunum! – myndi þýða að þau þyrftu ekki að greiða hið háa verð sem aðrar þjóðir Balkanskaga þurftu að greiða. Evrópa og evran myndi virka á annan hátt í Grikklandi. Evrópsk samstaða, og sérstaklega samstaða milli ríkjanna á evrusvæðinu, þótt samstaðan væri af skornum skammti annarsstaðar (þar sem refsa þurfti fyrir glæp “kommúnismans”) myndi koma þeim til góða.

Grikkir sitja nú uppi með afleiðingarnar af barnalegum draumsýnum. Þeir ættu að vita núna að kerfið mun draga þá niður á lágan stall nágranna þeirra á Balkanskaga, Búlgara og Albana. Rökfræði evrusvæðisins er ekkert öðruvísi en Evrópusambandsins; þvert á móti er hún ofbeldisfyllri. Almennt séð þá leiðir rökfræði kapítalískrar uppsöfnunar til þess að til verður vaxandi ójöfnuður milli þjóða (rætur mismunarins á miðsvæðum og jöðrum liggja þar); og uppsöfnun sem stýrt er af altæka einokunarauðvaldinu eflir enn meir þessa kerfislægu leitni í kapítalismanum. Sú athugasemd verður gerð við þetta að stofnanir Evrópusambandsins búi yfir getu til að leiðrétta ójöfnuð með viðeigandi fjárhagslegum stuðningi sem beint er að ríkjum sem eru eftirlegukindur í sambandinu; og almenningsálitið hefur gleypt við þessu. Í raun og veru þá er þessi stuðningur (að undanskildum landbúnaði, sem er sérstakt mál sem ekki verður rætt að sinni) ekki nægur til að draga þá sem eftir sitja að landi; auk þess, og það er jafnvel enn alvarlegra, þá styður það við yfirráð altæku einokunarhringana og styrkir þannig tilhneigingu til ójafnrar þróunar vegna þess hversu opin viðkomandi þjóðfélögin verða að vera. Enn fremur þá er þessi aðstoð miðuð við að styrkja ákveðna landshluta (til dæmis Bæjaraland, Langbarðaland og Katalóníu) og veikir þar með burði þjóðríkja til að berjast gegn alræði einokunarhringana.

Evrusvæðið var hannað til að ýkja enn frekar þessa tilhneigingu. Grundvallareðli þess er ákveðið með reglugerðum Evrópubankans, sem banna honum að lána ríkisstjórnum þjóðríkja (og jafnvel yfirþjóðlegu evrópsku ríki, væri það til, sem ekki er raunin), og lánar eingöngu til banka – á fáránlega lágum vöxtum – sem síðan fá af fjárfestingum sínum í skuldabréfum þjóðríkja vaxtatekjur sem hafa eflt yfirráð altæku einokunarhringanna. Það sem kallast fjármálavæðing kerfisins er hluti af markmiðum þessara hringa. Þegar í upphafi greindi ég kerfið og komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki lífvænlegt, og að það myndi hrynja um leið og kapítalisminn lenti í meiriháttar kreppu; það er nú að gerast fyrir augum okkar. Ég hélt því fram að eini valkosturinn sem myndi efla og treysta kerfið smám saman myndi þurfa á að halda viðhaldi þjóðlegra gjaldmiðla sem tengdir væru í kerfi ákveðins skiptigildis, sem komið væri á fót með þeim hætti að til yrði samkomulag um hlutfallslegt verðgildi allra gjaldmiðla, og um stefnumið í iðnaði. Og þetta kerfi yrði við líði þangað til, að lokum og miklu síðar, þróun á sviði stjórnmálamenningar myndi leyfa til yrði sambandsríki Evrópu ofan við þjóðríkin, án þess að þó aðþurrka þau út.

Evrusvæðið hefur síðan lent í fyrirsjáanlegri kreppu sem virkilega ógnar tilveru þess, eins og jafnvel hefur fengist viðurkennt í Brüssel. Þess sjást engin merki að Evrópusambandið muni geta beitt þeirri nauðsynlegu, róttæku sjálfsgagnrýni sem gæfi til kynna að annars konar stýring á peningakerfinu verði tekin upp og að hætt verði við þá frjálshyggjustefnu sem er innbyggð í gildandi sáttmála.

Þeir sem bera ábyrgð á gjaldþroti Evrópustefnunnar eru ekki fórnarlömb hennar – hin viðkvæmu lönd á jaðri Evrópu – heldur þvert á móti kjarnalönd Evrópu (það er að segja ráðandi stéttir þessara landa), fyrst og fremst Þýskaland, sem hafa grætt á stefnunni. Þetta gerir móðganir þeirra við Grikki enn viðbjóðslegri. Löt þjóð? Skattsvikarar? Frú Lagarde gleymir að svikararnir sem um ræðir eru skipaútgerðarmennirnir sem verndaðir eru af (AGS-studdu) frelsi alþjóðavæðingarinnar.

Röksemdafærsla mín er ekki byggð á því að benda á átök milli þjóða, jafnvel þótt margt bendi til þess að þau séu vaxandi. Hún er byggð á því að benda á átök milli altæku einokunarhringanna (sem sjálfir hafa aðalstöðvar sínar í kjarnalöndum Evrópu) og verkamanna í kjarnalöndum Evrópu og jaðarlöndum hennar einnig – jafnvel þótt aðhaldskostnaðurinn sem báðir hópar voru neyddir til að greiða sé umtalsvert meiri í jaðarlöndum en kjarnalöndum. “Þýska aðferðin”, sem allir hægriflokkar Evrópu hafa hrósað hástöfum jafnt sem margir vinstriflokkar, hefur gengið vel í Þýskalandi vegna þess hversu verkamenn þar hafa verið tiltölulega þægir og sætt sig við kaup sem er 30% lægra en í Frakklandi. Þessi þægð er lykillinn að því hve þýskur útflutningur gengur vel og því hversu vaxtatekjur þýska einokunarauðvaldsins hafa vaxið gríðarlega. Allir ættu að geta skilið hvers vegna þessi aðferð heillar þá sem tala fyrir kapítalisma án fyrirvara!

Enn það versta er eftir: með einum eða öðrum hætti, skyndilega eða smám saman, mun Evrópusambandið liðast í sundur, og það byrjar með evrusvæðinu. Þá erum við komin á upphafsreit á ný: til fjórða áratugarins. Þá verður til svæði með þýska markinu sem yrði bundið við Þýskaland og ríkin sunnan og austan við landamæri þess, sem lúta því, Hollendingar og Norðurlandabúar verða sjálfráðir en sáttfúsir, Stóra Bretland sem fjarlægist enn meir ólgusjó meginlandsstjórnmála með Atlantshafsstefnu sinni, einangrað Frakkland (eins og þegar De Gaulle var við völd? Eða Vichystjórnin?), og Spánn og Ítalía sem eru í óreiðu. Við munum fá það versta frá báðum heimum: þjóðir Evrópu sem lúta alræði altæku einokunarhringanna og tilheyrandi alþjóðavæddri “frjálshyggjunni” annars vegar, og hins vegar ráðandi stjórnmálaöfl sem munu þurfa að reiða sig æ meir, einmitt vegna valdaleysis síns, á “þjóðernislegan” áróður. Þess konar stjórnmálaástand myndi margfalda möguleika öfgahægrimanna. Við munum fá (höfum við nú þegar?) Pilsudski, Horthy, baróna Eystrasaltsríkjanna, fólk sem vill Mussolini og Frankó endurvakta, og Maurassísinna[4]Maurassísinnar: Heitir eftir Charles Maurrass, sem var foringi hreyfingar þjóðrembusinna og gyðingahatara sem nefndist Action Francaise um 1900.. “Þjóðernis” tal öfgahægrimanna eru lygar, því þessi stjórnmálaöfl (eða foringjar þeirra að minnsta kosti) samþykkja ekki aðeins kapítalisma almennt séð heldur einnig í því eina formi sem hann getur tekið á sig, alltumlykjandi einokunarkapítalisma. Ekta “þjóðernisstefna” getur aðeins verið alþýðusinnuð (popúlísk) nú á tímum í raunverulegri merkingu orðsins: að þjóna alþýðunni, ekki blekkja hana. Nú til dags verður að nota sjálft orðið “þjóðernisstefnu” varlega, og ef til vill er betra að tala í staðinn um “alþjóðlega samstöðu þjóða og verkamanna.” Andstæð þessu er orðræða þeirra hægrimanna sem takmarka þjóðernisstefnu sína við að hvetja til ofbeldis gegn innflytjendum og sígaunum, sem er kennt um ófarirnar. Ekki bregst það heldur að þessir hægrimenn bæta “fátækum”- sem kennt er um eigin fátækt og að misnota framlög úr velferðarkerfinu – á haturslista sinn.

Þetta er það sem þrjóskuleg vörn fyrir Evrópukerfið í miðjum storminum leiðir til: Það verður eyðilagt.

Er til sársaukaminni valkostur? Er ný bylgja framsækinna þjóðfélagsbreytinga að rísa?

Já tvímælalaust, því þegar allt kemur til alls þá er ennþá til fleiri en einn valkostur. En það þarf að skýra hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til að einhver þeirra verði að veruleika. Það er ómögulegt að hverfa að fyrri stigum kapítalískrar þróunar, aftur til tímans áður en samþjöppun kapítalismans náði núverandi stigi. Aðeins er hægt að halda áfram, það er að segja með því að byrja út frá núverandi stigi samþjöppunar kapítalísks valds, og þá verður að skilja að tími er kominn til að “taka eignir arðræningjanna eignarnámi.” Ekkert annað lífvænlegt viðhorf er hugsanlegt. Að því sögðu hindrar þessi tillaga ekki að hvers konar baráttu sem leiðir skref fyrir skref í þá átt. Þvert á móti verðum við að skilgreina markmið hvers áfanga og og velja baráttuaðferðir við hæfi. Það að láta hjá líða að sinna slíkri áfangabaráttu og baráttuaðferðum leiðir til að menn dæma sjálfa sig til að endurtaka einungis yfirborðsleg og máttlaus slagorð eins og “Niður með kapítalismann!”

Í þessum anda og með tilliti til Evrópu þá er fyrsta skrefið sem líklegt er til árangurs – sem ef til vill er þegar að mótast – að mótmæla svokölluðum aðhaldsaðgerðum. Þær eru nátengdar og háðar einræðislegum og andlýðræðislegum aðgerðum. Það markmið að örva efnahagslífið, þrátt fyrir það hversu óljóst merkingin er (örva með hvaða aðgerðum? og hvernig?), er nátengt þessu fyrsta skrefi.

Það verður þó að játa að þetta fyrsta skref rekst á það kerfi sem notað er af Evrópubankanum til að stýra gjaldeyrismálum á evrusvæðinu. Af þeim sökum sé ég enga möguleika á að sleppa við að “hverfa af evrusvæðinu” með endurreisn fullveldis peningamála í Evrópuríkjunum. Þá og aðeins þá er hægt að opna svigrúm til aðgerða, sem þarfnast samninga milli Evrópuríkja og því fylgir endurskoðun á lagatextum sem evrópskar stofnanir eru grundvallaðar á. Þá og aðeins þá er unnt að grípa til aðgerða sem leiða til þjóðnýtingar einokunarhringanna. Ég sé til dæmis fyrir mér aðskilnað einstakra þátta bankastarfsemi og jafnvel fullkomna þjóðnýtingu banka í vanda; vald einokunarhringanna yfir litlum og meðalstórum fyrirtækjum og bændum verði afnumið; komið verði á skattkerfi sem skattleggur háar tekjur sérstaklega; eignir fyrirtækja sem ætla að flytja starfsemi sína annað verði teknar eignarnámi af verkamönnum og sveitastjórnum; viðskiptavinum á sviði verslunar, iðnaðar og fjármála verði fjölgað stórkostlega með því að hefja opnar viðræður, til dæmis við vaxandi efnahagsheildir í Suðri; o.s.frv. Öll þessi ráð þarfnast þess að fullveldi þjóða verði endurreist og því verður að óhlýðnast evrópskum reglum sem banna slíkt. Því það er mér alveg ljóst að stjórnmálalegar aðstæður sem leyfa slíkar aðgerðir muni aldrei verða fyrir hendi á sama tíma um allt Evrópusambandið. Það verður ekkert slíkt kraftaverk. Þannig að við verðum að gera okkur að góðu að hefjast handa hvar sem við getum, í einu eða nokkrum löndum. Ég er sannfærður um að um leið og menn hefjast handa muni snjóboltinn fara að rúlla og bæta utan á sig.

Við þessum tillögum (sem hafa þegar verið lagðar fram, að hluta til að minsta kosti, af François Hollande forseta) hafa stjórnmálaöflin sem eru í þjónustu altæku einokunarhringanna þegar brugðist með breytingartillögum sem myndu svipta þær öllum broddi: “endurvekjum vöxtinn með því að gera alla og mömmu hans samkeppnishæfari en virðum um leið opinn og gengsæjan, frjálsan markað.” Þessi orðræða er ekki bara orðræða Merkels; hún er jafnframt orðræða sósíaldemókratískra andstæðinga hennar og forseta Evrópubankans, Draghis. En það verður að viðurkennast – og segja – að “opnir og gagnsæjir markaðir” eru ekki til. Markaðirnir, ógegnsæir í eðli sínu, eru yfirráðasvæði einokunarhringa sem berjast sín á milli um viðskiptin. Þetta er bara óheiðarlegur málflutningur sem verður að fordæma sem slíkan. Það að leitast við að bæta stýringu markaða eftir að hafa fallist á þá í grundvallaratriðum – með því að leggja til reglur til að “hafa eftirlit með þeim” – leiðir ekki til neins. Það er að biðja altæku einokunarhringana – gróðaþega þess kerfis sem þeir stýra sjálfir – um að ganga gegn eigin hagsmunum. Þeir vita nákvæmlega hvernig á að gera að engu þær reglugerðir sem eiga að hindra starfsemi þeirra.

Ákvarðanirnar sem teknar voru í september 2012 til að komast út úr evrukreppunni (evrópski samtryggingarsjóðurinn, evruskuldabréf, endurkaup evrópska Seðlabankans á ríkisskuldum), komu ekki aðeins of seint né – að magni til – voru í takt við þörfina, heldur falla þær einnig innan ramma aðhaldsaðgerðastefnunnar sem eyðir sjálfkrafa öllum mögulegum ávinningum, því aðhald og niðurskurður eykur óhjákvæmilega við skuldirnar en dregur ekki úr þeim – að halda öðru fram er hrein og tær heimska. Þar sem þessar aðgerðir eru hugsaðar innan ramma fjármagnsvæðingarinnar, þ.e.a.s. eru undirgefnar “væntingum” fjármagnsvæddu, altæku einokunarauðhringanna, eru þær dæmdar til að opna allar gáttir að hruni.

Í þokkabót hafnar þessi stefna fullveldi ríkja, í þessu tilfelli ríkja Evrópusambandsins, án þess að skilyrði séu fyrir hendi til þess að fullveldi evrópsks ríkis, sem ekki er til né verður til í nánusdtu framtíð, komi í þess stað. En það að afneita fullveldi ríkja þýðir einfaldlega að fullveldi einokunarhringanna er sett í þess stað. Og án fullveldis þjóða er lýðræðið ekki mögulegt eins og við höfum mýmörg dæmi um: Evrópusambandið neitar endurtekið að taka mið af vilja meirihlutans eins og hann birtist í kosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum þegar niðurstaðan hugnast ekki einokunarhringunum.

Þess vegna krefst alþýðan um heim allan þess að á ný verði tekið tillit til fullveldis þjóða. Án þess verða alþjóðalög fótumtroðin og í stað þeirra kemur “réttur” heimsvaldasinnanna til að blanda sér í málefni þjóða sem neita að fara að fyrirmælum hnattvæddra einokunarhringa. Án þess að virðing sé borin fyrir fullveldinu eru engir lýðræðislegir og framsæknir valkostir í boði, hvorki í Evrópu né annarsstaðar.

Tuttugasta öldin einkenndist ekki einungis af styrjöldum sem voru svo ofbeldisfullar að aldrei hafði annað eins þekkst, sem var afleiðing átaka milli heimsvaldaríkja (sem þá voru allnokkur að tölu). Hún einkenndist líka af gríðarlega öflugum byltingarhreyfingum meðal landa og þjóða sem voru á jaðri kapítalismans á þeim tíma. Þessar byltingar umbyltu Rússlandi, Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku af miklum krafti og lögðu þannig til langöflugasta kraftinn í þjóðfélagsbreytingum heimsins. Hins vegar var ekki að finna nema í mesta lagi daufan enduróm af þeim í kjarnasvæðum heimsvaldastefnunnar. Afturhaldsöfl hliðholl heimsvaldaríkjunum héldu stjórnmálavöldum yfir þeim þjóðfélögum sem nú hafa orðið að þríeyki samtíma sameiginlegrar heimsvaldastefnu, og það gerir þeim kleyft að reka stefnu “innilokunar” og síðan “reka til baka” fyrstu bylgju sigursællar baráttu fyrir frelsun meirihluta mannkynsins undan kúgun. Það var þessi skortur á alþjóðahyggju meðal verkamanna og þjóða sem er rótin að tvöföldum harmleik tuttugustu aldarinnar: örmögnun sóknarinnar sem hófst á jaðarsvæðunum (fyrstu tilraunir með sósíalísk samfélög, leiðin frá andheimsvaldasinnaðri frelsisbaráttu til félagslegrar frelsunar) annars vegar, og hins vegar, för evrópsku sósíalistahreyfingarinnar yfir til herbúða kapítalisma/heimsvaldastefnu meðan sósíaldemókrata rak yfir í frjálshyggu.

Sigur kapítalismans – sem varð að sigri altæku einokunarhringanna – mun aðeins hafa reynst afar skammvinnur (1980-2008?). Lýðræðisleg og félagsleg barátta sem á sér stað um allan heim, og líka ákveðin stefnumótun meðal rísandi ríkja, verður til að yfirráð einokunarauðvaldsins minnka og leiða til annarar bylgju umbreytingar á hnattræna vísu. Þessi barátta og átök eiga sér stað í hverju samfélagi á hnettinum, bæði í Norðri sem í Suðri.

Til að halda valdi sínu neyðist kapítalismi samtímans til að ráðast samtímis á ríki, þjóðir og verkamenn í Suðri (að ofurarðræna vinnuafl þeirra og ræna náttúruauðlindir þar) og verkamenn Norðursins, sem neyðast til að keppa við kollega sína í Suðri. Hlutlægar aðstæður fyrir alþjóðlega samverkan baráttunnar eru því fyrir hendi. Hins vegar er leiðin frá hlutlægum aðstæðum til þess að meðvitað baráttufólk virki þær í baráttu er ennþá talsvert löng leið. Við ætlum ekki að leysa þetta vandamál með nokkrum stórum, auðveldum, innantómum frösum. Alvarleg rannsókn á átökum milli rísandi ríkja og heimsvaldastefnu þríeykisins og tenging þeirra við lýðræðislegar og félagslegar kröfur verkafólks viðskomandi landa alvarleg rannsókn á uppreisnum sem í gangi eru í ríkjunum í Suðri og takmörkunum þeirra og mögulegri þróun, alvarleg rannsókn á baráttunni sem íbúar Evrópu og Ameríku há – þetta eru óhjákvæmilegar forsendur þess að eiga árangursríkar umræður um mögulega framtíð.

Engin hreyfing virðist vera fyrir hendi eða í augsýn sem muni endurvekja alþjóðahyggju. Verður önnur bylgja baráttunnar fyrir því að bylta heiminum þá “endurgerð” hinnar fyrstu? Hvað varðar Evrópu, sem er viðfang þessara umþenkinga, þá er andheimsvaldaumræðan fjarri meðvitund bæði þeirra sem nú eru í forystu baráttunnar, sem og þeirra hugmynda sem þau gera sér um hvernig framhald baráttunnar á að verða – ef yfirleitt nokkur hefur leitt hugann að því á þeim slóðum. Mér finnst við hæfi að ljúka hugleiðingum mínum um “Evrópu utan frá séð” með þessari, að mínu mati, mikilvægu athugasemd.

Þýðing: Árni Daníel Júlíusson

References

References
1 „Transnational Capitalism or Collective Imperialism?•, Pambazuka News, 23. mars 2011.
2 Negritute: Bókmennta- og hugmyndahreyfing meðal svartra menntamanna og stjórnmálamanna í Frakklandi á fjórða áratugnum. Hreyfingin var andvíg nýlendustefnu og vildi skipta fyrirlitningu hvítra manna út með því að ýta undir menningu svartra.
3 Tilvitnunin er fengin frá munnlegri skýrslu rúmensks þáttakanda á Balkan Social Forum í Zagreb 2012
4 Maurassísinnar: Heitir eftir Charles Maurrass, sem var foringi hreyfingar þjóðrembusinna og gyðingahatara sem nefndist Action Francaise um 1900.