Takk fyir að bjóða mér að vera með ykkur. Ég ætla að tala stutt, bara í akkúrat 1000 orð.
Ég er hér í kvöld sem einhverskonar fulltrúi próletaríatsins, þó að enginn frá prólísamtökunum hafi beðið mig neitt sérstaklega um það. Og ég er náttúrlega einhverskonar plat prólí, bý í Pótemkíntjaldi borgarastéttarinnar með manninum mínum sem er í akademíu, en er reyndar svokallaður lömpen akademíker, þetta orð sá ég um daginn hjá einhverjum amerískum kommúnistun; því eins og Boots Riley, annar amerískur kommi, sagði: ef allir í hoodinu væru með doktorsgráðu segðirðu bara: djöfull er þessi doktor þarna góður í að steikja hamborgara handa mér!
Á tímum nýfrjálshyggjunnar eru við öll lömpen þetta og hitt, nema eitt prósentið sem svo var kallað af galdrabörnunum í ameríku sem kröfuðst þess ómögulega í eitt örstutt andartak, áður en löggan kom og lamdi þau í hausinn eins og löggan gerir alltaf við þau sem meina eitthvað með því sem þau segja.
Ok, ég er komin hér til að segja kannski eitthvað random um stéttabaráttuna. Það er náttúrlega ekki cool að tala um stéttabaráttu á Íslandi, Ísland er einstakt að öllu leyti, hér eru víst ekki stéttir, bara þjóð sem stundum verður örlítið ósátt en nær ávallt sáttum. Þjóð sem talar eina tungu og er yfirleitt að segja það sama: þjóðarsátt, hóflegar kröfur, það gefur á bátinn en við erum þó öll í honum, börnin eru hraust afþví þau kunna að drekka lýsi, þau syngja vísur og leika í rokinu, alla tíð.
En þegar maður hefur ákveðið að brynja sig með öllu sem maður finnur og er allt í einu; anarkisti, kommúnisti og femma er ekkert mál að afneita öllum þjóðum, ekkert mál að afneita bara hverju sem er og segja nei: þetta er ekki nógu gott fyrir mig, ég krefst þess að þið hættið að tala um þjóð, ég alveg skammast mín þegar þið gerið það. Þessvegna er gott að vera margt, allt þetta þrennt, bætum því svo við að trúa á guð, svona flott prógram auðveldar manni að vera alltaf á móti.
Engin þjóð, bara fólk, bara hrúgur af fólki, sem sumt á allt, alla peningana og allt fólkið, sem er alltaf eins og bjánarnir sem það er eitthvað þriðja flokks vinnuafl og á þessvegna ekki neitt nema í mesta lagi tvær hendur og tvo fætur en helst ekkert meir, alla vega ekkert sem hægt er að nota til að búa til drauma og kröfur um eitthvað ómöglegt, eitthvað hresst og galið.
Ok stéttabaráttan, hvað er hún eiginlega hér í þessum nýfrjálshyggna nútíma? Hann, nútíminn er tjúllaður, óður, hömlulaus, hættulegur, maður er alltaf agndofa. Maður ætlar kannski að horfa á eitthvað matreiðslushow á Food Network og kveikir á sjónvarpinu en er svo allt í einu búin að horfa á fréttir í marga klukkutíma og þegar maður er búinn að því þá þarf maður að horfa á hinar fréttirnar sem eru ekki í sjónvarpinu til að vita í alvöru eitthvað. Afþví fyrst þarf maður að vita um nútímann og svo um sannleikann.
Nútíminn hann er opressive, þrúgandi, óviðráðanlegur með afburða yfirráð.
En hún, stéttabaráttan, hvernig er hún? Eiginlega akkúrat allt sem hann er ekki, óttaslegin, sljó. Hún er meðvirk. Hún er satt best að segja voða leiðinleg eitthvað. Engann langar að vera með henni afþví hún er alltaf svo fyrirsjáanleg, hún kemur engum á óvart. Hún er alltaf að tapa og það kemur heldur engum á óvart. Enda kann hún ekki lengur að berjast. Í stað þess að segja: gefðu mér helvítis kökuna strax, mig langar að troða henni í mig!, segir hún: ég treysti mér allsekki nálægt kökum, mér hefur verið sagt að síðast þegar ég smakkaði hafi mér þótt kakan óttalega vond og beðið um brauð, en hei þú stóri, fá þú þér endilega risa sneið.
Ekkert kemur á óvart við hana en nútíminn, var hann alltaf svona?
Í fortíðinn var nútíminn ekki alltaf svona viss um sig. Oft snar, en oft var hægt að tjónka aðeins við hann,
og það var hún, blessunin, oftast, sem gerði það þá; með því að krefjast þess að fá að vera meira en eitthvað auðtjóðranlegt, meira en tvær hendur og tveir fætur: með því að krefjast frelsunar, sem er auðvitað hin ómögulega krafa og þessvegna alltaf öskruð, með því að láta ekki ljúga því að sér að barátta og eldmóður og gól, öskur og hasar væru hallærisleg og óaðlaðandi. Þvert á móti, þetta væri göfgandi, og í sjálfu sér mjög frelsandi.
En það er enginn á leiðinni til baka í það sem einu sinni var prógressívt og er nú prensenterað sem ólund biturs ofbeldisfólks. Það er ekkert hægt að feta sig til baka á einhvern upphafspunkt, sem er djúpt inní einhverri mythólígíu, hulinn nema á einhverju persónulegu andartaki í lífi þeirra sem taka þátt í óeirðum og uppþotum og standa allt í einu við hliðiná hinum sem öskruðu þá, í einhverjum mannkynssöguklímax.
Hvað er ég þá að tuða? Hvernig á hún þá að vera stéttabaráttan?
Hún á að vera um frelsun. Hún á að vera um frjálst fólk; frjálst undan búrókrasíu og karlaveldi verkalýðsfélaganna. Hún á að vera um bandalög þeirra sem sem eru jaðarsettir; kvenna og innflytjenda. Hún á að vera um algjöra höfnun á feðraveldinu. Hún á að vera um algjöra höfnun á lögum og ólögum feðraveldisins. Hún á að vera um algjöra höfnum á forréttindum, hvar sem þau finnast. Hún á vera um stuð og fjör, samvistir og samvinnu. Hún á að vera um náttúruna. Hún á að hafna vexti og kláfi á Esjuna, hún á að segja náttúran er systir mín, láttu hana í friði, hún á að segja mig langar ekki að vera eins og þið, mig langar ekkert í pening, mig langar ekki að þurfa alltaf að vera að hugsa um að ég eigi ekki pening. Mig langar ekki í endalaust tal um aðstæður á vinnumarkaði og hófsemi; hófsemi notum við í persónulegum samskiptum við sköpunarverkið svo almættið hafi á okkur velþóknun, en hófsamt réttlæti, hvað er það?
Stéttabarátta okkar nútíma verður að vera án hírarkíu, hún skilur ekki útundan, hún er ekki aðeins fyrir þegna þjóðríkis og ekki prólíana sem þurfa að fara á milli landa, endalaust, til að fá eitthvað í sig og á.
Hún segir: mig langar til að ég hafi alltaf allt að segja um eigin aðstæður, að ég verði á endanum eitthvað meira en tvær hendur og tveir fætur, bara fyrsta flokks hlekkjunarútlimir; að ég verði risastór haus með risastórann munn sem öskrar kröfuna um hið ómögulega í risastórum kór með risastóru fólki.
Ávarp flutt á Pólitísku menningar- og skemmtikvöldi, Á meðan húsrúm leyfir – virkjum baráttugleðina!, á Café Flóru miðvikudaginn 18. september 2013.