Styðjum baráttuna fyrir endurskoðun opinberra skulda í Evrópu

Skuldir hins opinbera eru þungamiðja kreppunnar á evrusvæðinu. Opinberar skuldir Grikklands, sem voru miklar fyrir, hafa stigmagnast síðan 2009. Opinberar skuldir Íra margfölduðust eftir að skuldum einkabanka var bætt við þær. Portúgal og Spánn eiga á hættu að fara sömu leið. Sömu tilhneiginguna má sjá í öðrum löndum Evrópu, og þar er Bretland ekki undanskilið.

Sameiginlegt mynstur á sér yfirleitt sameiginlegar rætur. Heimskreppan 2007-9 hefur haft mikinn kostnað í för með sér, að hluta vegna björgunar fjármálakerfisins, að hluta vegna minkandi framleiðslu og atvinnuleysis. Evrusvæðinu var gert erfiðara fyrir því sameiginlega myntin hafði veikt stöðu jaðarríkjanna og valdið miklum viðskiptahalla hjá þeim. Veikleikarnir á jaðrinum voru um tíma faldir að baki þenslu á fasteigna- og neyslumarkaði sem knúin var af skuldsetningu, en þetta gerði högg kreppunnar en harkalegra.

Vaxandi opinberar skuldir hafa leitt til þess að víða í Evrópu hefur verið gripið til hörkulegra aðhaldsaðgerða. Opinber útgjöld, þ.m.t. til heilbrigðis- og menntamála, hafa verið skorin niður; laun og eftirlaun hafa verið lækkuð; óbeinir skattar hafa verið hækkaðir. Kostnaðinum af kreppunni hefur verið velt yfir á þá sem höfðu ekkert með fjármálaorgíuna 2001-7 að gera. Á jaðri evrusvæðisins hefur þessi yfirfærsla leitt til mikils ófarnaðar með hruni kaupmáttar og fjöldaatvinnuleysi.

Þessi niðurskurðarstefna vekur mikilvægar spurningar um pólitíska ábyrgð alveg burtséð frá félagslegum og efnahagslegum afleiðingum hennar. Vinnandi fólki hefur verið falið að axla byrðarnar af opinberum skuldum, en hefur það verið nægilega upplýst um samsetningu þeirra, skilmála og uppruna? Svarið er nei og endurómar það í mörgum löndum Evrópu. Opinberar upplýsingar eru af skornum skammti, hlutdrægar og óaðgengilegar. Mikilvæg atriði um skuldabréfaútgáfur, svo sem starfsemi banka á hlutabréfamarkaðinum, eru enn undir dularhjúpi. Jafnvel enn minna er vitað um hlutverk stjórnmálamannanna og tengsl þeirra við fjármálastofnanirnar, byggingafyrirtækin og aðra stjórnendur einkafyrirtækja. Þingkostningar gera ekkert til að varpa ljósi á þessar spurningar.

Þessar spurningar brenna á Grikkjum og Írum. Getum við verið viss um að megnið af opinberum skuldum Grikklands séu lögmætar, sérstaklega í ljósi þess að til þeirra hefur verið stofnað í trássi við ESB samninga sem lýsa yfir að opinberar skuldir megi ekki vera meiri en 60% af vergri landsframleiðslu (VLF)? Kröfuhafarnir – aðallega helstu bankar Evrópu – vissu vel að þeir voru að sniðganga þessar lagalegu forsendur þegar þeir lánuðu til gríska ríkisins. Eru opinberar skuldir Írlands lögmætar þar sem mest af þeim eru spekúlatíft bankabrask sem opinber merkimiði hefur verið hengdur á? Eru lán þessara tveggja landa siðfræðilega og siðferðislega verjanleg ef það að borga af þeim felur í sér hrun samfélagsins eins og við þekkjum það.

Til að finna svör við þessum spurningum ættu lönd að mynda endurskoðunarnefndir sem verða óháðar stjórnmálaflokkum, en einnig þingum og öðru gangverki ríkisins. Þær ættu að hafa innan sinna vébanda endurskoðendur, hagfræðinga, lögmenn og aðra sérfræðinga, en einnig fulltrúa félagasamtaka og verkalýðsfélaga. Þær verða að hafa vald til að krefjast gagna frá opinberum stofnunum, kalla embætismenn sem aðra til að bera vitni, og jafnvel hafa aðgang að bankareikningum. Á þessum grundvelli ættu þær að taka opinberar skuldir til skoðunars og skera úr um hvort þær séu ólöglegar, ólögmætar, óviðeigandi eða, einfaldlega, óbærilegar. Samfélagið stendur þannig á traustari grunni til að ákveða hvernig það tekst á við opinberar skuldir. Ekki síst gæti endurskoðunarnefnd orðið fyrsta skrefið í framkvæmd lýðræðislegs eftirlits með opinberum skuldum framtíðarinnar, í stað þess að sætta sig við geðþóttareglurnar sem Þýskaland vill þröngva inn í stjórnarskrár ríkjanna á evrusvæðinu.

Það er mikil reynsla af því að mynda endurskoðunarnefndir í þróunarlöndunum. Nú er kominn tími til að flytja þessa þekkingu til Evrópu, aðlaga hana auðugri og flóknari samfélögum. Í þetta sinn er Grikkland að taka forystuna. Herferð til að mynda endurskoðunarnefnd var hleypt af stokkunum 3. mars með söfnun undirskrifta. Á annað hundrað þekktir einstaklingar víða að úr heiminum hafa skrifað undir ásamt þúsundum annarra frá Grikklandi. Markmiðið er að mynda breiðfylkingu sem krefst óháðrar þekkingar á og eftirliti með opinberum skuldum. Í ljósi viðsjárveðra aðstæðna eru skilyrðin nú hagstæð þar.

Ef Grikkjum tekst þessi ætlan er engin ástæða til annars en að Írar, og enn fleiri Evrópuþjóðir, fylgi í fótspor þeirra. Þá munum við sjá með eigin augum hversu ómótstæðilegur alþjóðlegur skuldabréfamarkaður er í raun.