Ræða Sólveigar Jónsdóttur, formanns Attac, í Iðnó 28. júlí 2010

Kæru félagar, ágætu fundargestir,

Attac á Íslandi boðaði til þessa fundar hér í kvöld vegna áforma um að einkavæða orkuauðlindir Ísland. Nú hefur orðið þar nokkur viðsnúningur, en ljóst er að stjórnvöld þurfa mikið, öflugt og stöðugt aðhald. Attac ætlar að fylgjast áfram með framgangi málsins og vill hafa sitt að segja, líkt og hinir fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn við að stöðva einkavæðingaráform stjórnvalda.

Attac eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn einkavæðingu, markaðsvæðingu og hnattvæðingu á forsendum stórfyrirtækja. Samtökin mynduðust í kjölfar hins mikla fjármálahruns í Austur-Asíu og víðar árið 1997. Við stöndum nú frammi fyrir öðru hruni, hruni íslenska efnahagskerfisins, og því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fer með yfirstjórn íslenskra efnahagsmála.

Það var einmitt AGS sem gerði illt verra í hruninu í Austur-Asíu með kröfum um frjálst fjármagnsflæði, og hér á landi gengst AGS fyrir því að einkavæða sem allra mest, þar á meðal verðmætar orkuauðlindir landsins. Hrunið er notað sem tækifæri til að hrinda svokölluðum efnahagsumbótum í framkvæmd.

Kjörlendi hamfarakapítalistanna er að flytjast frá “þriðja heiminum” til Evrópu og fyrstu viðkomustaðirnir eru lönd á jaðri álfunnar, þar á meðal Ísland, Grikkland og Ungverjaland. AGS er ólýðræðisleg stofnun, fulltrúi peningafla heimsins, alþjóðlegur innheimtulögfræðingur. Eins og dæmin sýna virðist meginmarkmið stofnunarinnar vera að gera þau verðmæti upptæk sem enn er að finna í löndum sem nauðbeygð leita aðstoðar alþjóðasamfélagsins, og afhenda verðmætin alþjóðaauðvaldinu. Ungverjar hafa nú vísað AGS á dyr og ættu Íslendingar að fylgja fordæmi þeirra.

Í dag birti DV niðurstöður skoðanakönnunar sem Capacent gerði fyrir Teit Atlason bloggara. Þar kemur fram að 85% landsmanna eru andvíg því að náttúruauðlindir séu seldar erlendum aðilum, hvað þá vafasömum skúffufyrirtækjum. Engar auðlindir eru eins verðmætar nú á tímum og orkuauðlindir. Íslendingar eiga miklar auðlindir, en þær eru ekki ótæmandi. Þær munu ekki falla í verði, síður en svo. En þær koma að litlu haldi verði þær afhentar einkaaðilum á silfurfati, hvað þá að þær verði fullnýttar í hvelli til að nota í stóriðju.

Krafan er því að orkufyrirtækin, framleiðsla og dreifing, verði tekin af markaði. Á meðan þau eru á markaði er sífellt hætta á því að Magma-ruglið endurtaki sig æ ofan í æ, hvort sem fjárfestirinn er íslenskur eða kanadískur, pólskur eða búlgarskur.

Almenningur hefur fengið sig fullsaddann af orðræðu nýfrjálshyggjunnar um frjálst fjármagnsflæði sem drifkraft framfara. Almenningur hefur fengið sig fullsaddann af einkavæðingu, einkavinavæðingu og markaðsvæðingu. Samfélagið þarfnast efnahagslegs öryggis, á það hefur verið ráðist með grimmilegum hætti af fjármagnsöflunum og við verðum að reisa varnir, byggja veggi sem geta skýlt okkur fyrir slíkum árásum. Það hefur enginn gert fyrir okkur, allra síst ríkisstjórnin. Stefnubreyting ríkisstjórnarinnar nú hefur verið knúin fram með markvissu átaki og baráttu fjölda fólks. Fjöldasamstaða ber árangur!

Við krefjumst þess að ríkisstjórnin hlíti vilja þjóðarinnar, að orkuauðlindir verði teknar af markaði.

Takk fyrir.

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir