Sumarháskóli evrópskra félagshreyfinga, París ágúst 2014

Tveir fulltrúar íslensku Attac-samtakanna, Sólveig Anna Jónsdóttir og Árni Daníel Júlíusson sóttu sumarháskóla evrópskra félagshreyfinga, sem haldinn var í París 19.-23. ágúst síðastliðinn. Hér verður gerð grein fyrir umræðum á nokkrum málstofum sumarháskólans.


Sumarháskólinn var haldinn í útjaðri Parísar í háskóla sem kenndur er við Denis Diderot, einn fremsta upplýsingarmann Frakka og ritstjóra frönsku alfræðiorðabókarinnar. Háskólinn er á vinstri bakka Signu, nokkurn spöl frá miðborginni. Í grendinni er þjóðarbókasafn Frakka, kennt við Francoise Mitterand fyrrum forseta Frakkland. Öll umgjörð sumarháskólans var þægileg og skilvirk. Matur og drykkur á vegum ýmissa aktívistasamtaka fékkst í hádeginu á grænu svæði á miðju háskólasvæðinu, og þar voru sölu- og kynningartjöld ótal samtaka, með hvers kyns kynningarefni, bókum, tónlist, kvikmyndum, áprentuðum bolum o.s.frv..

Sumarháskólann sóttu mun fleiri en gert hafði verið ráð fyrir, svo fundarsalir voru yfirleitt troðfullir, stundum yfirfullir. Stemningin var mjög góð, fundir líflegir og mikill baráttuandi sveif yfir öllu. Fulltrúar frá Grikklandi, Spáni og Portúgal voru áberandi, jákvæðir og ferskir, en flestir fulltrúar komu þó frá Frakklandi og Þýskalandi þar sem eru stærstu Attac-deildirnar í Evrópu. Attac-samtökin voru upphaflega stofnuð 1997 sem viðbrögð alþjóðsamfélagsins við alþjóðavæðingu á forsendum fjármagns og kapítalisma, og voru hluti af baráttubylgju gegn nýfrjálshyggju sem reis hátt á tímabilinu 1999-2001. Greinilegt var að hinn nýji andi aktívisma og baráttu sem til varð með uppreisnunum 2011 hefur endurnýjað kraftinn í samtökunum, og eins og áður segir var greinilegt að Suður-Evrópubúar hafa komið sterkir inn á síðustu árum. Margir þeirra sem hafa orðið virkir í félagshreyfingum upp úr 2011, t.d. í Indignados-hreyfingunni á Spáni, líta þó á Attac sem “gömul samtök” og skipuleggja sín eigin samtök, t.d. í nafni Occupy-hreyfingarinnar.

Á ráðstefnunni voru einnig Norðmenn, Svíar, Írar og Englendingar. Norsku Attac-samtökin eru mjög öflug og ráða yfir sterku skipulagi, starfsmönnum og mörgum aktívistum. Attac-deild er nýstofnuð á Írlandi og þaðan komu tveir fulltrúar, eins og frá Íslandi. Einnig er deildin í Englandi nýtilkomin, og komu þeir sterkir inn í ýmsar málstofur, t.d. á sviði innflytjendamála og stríðsógnar.

Málstofa um kreppuna og viðbrögð við henni, 20. ágúst

Ein af þeim málstofum sem fulltrúar Íslendinga fylgdust með var málstofa um kreppuna og viðbrögð við henni. Málstofan stóð þrjá morgna, 20.-22. ágúst og var ein af nokkrum kjarnamálstofum sem stóðu allar þrjá daga. Í öllum þessum málstofum töluðu þekktir aktívistar og sérfræðingar og ræddu um stöðuna. Í málstofunni um kreppu og kreppuviðbrögð töluðu fulltrúar frá Grikklandi, Frakklandi, Belgíu, Austurríki, Spáni og Þýskalandi.

Gerard Duménil frá Attac Frakklandi var að tala þegar komið var að fyrsta morguninn, en Dominique Lévy hafði þá lokið máli sínu. Duménil er nemandi Charles Bettelheim, sem var einn áhrifamesti marxisti 6., 7. og 8. áratugarins í Frakklandi. Duménil útskrifaðist með doktorspróf í hagfræði frá Ecole des Hautes Etudes Commerciales 1978. Louis Althusser, annar áhrifamikill franskur marxisti, skrifaði formála að ritgerðinni, þegar hún kom út á bók. Duménil varði á 9. áratugnum gildiskenningu Marx, sem byggði á verkum enska hagfræðingsins Ricardo. Hann hefur haldið uppi harðri gagnrýni á nýfrjálshyggju ásamt með höfundum eins og Dominique Lévy, Jacques Bidet o.fl. Með Lévy skrifaði hann bókina “The Crisis of Neoliberalism.” Meginhugmynd þeirrar bókar er að nýfrjálshyggjan hafi lítið að gera með umskipti í hugmyndafræði eða annað slíkt, heldur hafi verið um að ræða stéttabaráttu, markvissa endurreisn algerra yfirráða yfirstéttarinnar. Markmiðið hafi verið að bæta tekjur yfirstéttarinnar, ekki að fjárfesta í framleiðslutækjum eða nýjum framleiðsluaðferðum og enn síður að fjárfesta í þjóðfélagslegum framförum.

Duménil ræddi vanda Suður-Evrópuríkja. Hann spurði hvort ætlunin væri að endurnýja kapítalismann eða hvort við værum bara föst í kerfinu. Hann greindi kreppuástandið í Suður-Evrópu og benti á að rótin að vandanum sæti mjög djúpt. Með myndun Evrusvæðisins hefði átt að opna þessum löndum aðgang að mörkuðum, búist var við að framleiðni í hagkerfum þeirra myndi aukast og alls staðar á Evrusvæðinu yrði jafn gott að stunda viðskipti. Vandinn væri bara sá að það hefði ekki gerst. Nauðsynlegt hefði verið að fjárfesta gríðarlegt fé til að auka framleiðni í þessum löndum, og það hefði ekki dugað nema til að auka framleiðnina takmarkað. Meginþorri fjárfestinga á evrusvæðinu hefðu átt sér stað í löndum sem þegar höfðu forskot, aðallega Þýskalandi.

Löndin í Suður-Evrópu ættu með öðrum orðum við það vandamál að stríða að aukin framleiðni og útjöfnun í hagkerfum þeirra miðað við lönd norðar í álfunni hefði ekki tekist. Þrjár leiðir væru út úr kreppunni, sem væri fyrst og fremst fjármálakreppa. Einfaldast væri að koma upp takmörkunum á sviði fjármálaviðskipta, leggja skatta á gróða og afnema alveldi fjármálamarkaða. Önnur leið væri á þeim nótum sem Keynes lagði til á sínum tíma. Ef félagslegar og aðrar bætur væru skornar niður leiddi það beina leið til samdráttar í efnahagslífi. Það markmið að greiða niður skuldir ríkis, sveitarfélaga og annarra við núverandi aðstæður væri fáránlegt, jafnvel AGS væri sammála því. Þriðja leiðin væri sú sem marxistar legðu til, að afnema kerfið í heild sinni, því væri ekki við bjargandi. Engin þessara leiða útilokaði aðra, og þær gætu farið saman.

Sú stefna sem mörkuð hefði verið í Evrópu, niðurskurður í velferðarkerfi, afnám ýmissa réttinda verkafólks, niðurskurður í heilbrigðis- og skólakerfi sýndi hins vegar að kerfið væri gjaldþrota. Ef kerfið væri í mjög djúpri kreppu vegna þess að kapítalisminn væri ekki lengur uppbyggilegur, heldur réðist gegn samfélögunum, væri þá ekki kominn tími til að huga að altækum lausnum í marxískum anda? Hvernig á að ákveða hversu miklu eigi að breyta? Hversu langt þurfum við að ganga, spurði Duménil og hann svaraði: Ástandinu verður ekki breytt nema með mjög miklu átaki, það er ekki lengur hægt að gera umbætur á kerfinu eins og venjulega. Þetta skiptir máli fyrir stefnumörkun aðgerðarsinna.

Ricardo Garcia Zaldivar

Næstur á mælendaskrá var Spánverjinn Ricardo Garcia Zaldivar, Attac á Spáni. Hann er hagfræðingur við Háskóla Karls III. í Madríd. Á Spáni hefur mótmælaaldan gegn kreppu nýfrjálshyggjunnar og kapítalismans í Evrópu risið einna hæst, og 2011 kom fram mótmælahreyfing kennd við 15. maí. Á þessu ári hefur nýr flokkur með grundvöll í þessari mótmælahreyfingu verið að ná fjöldafylgi, en það er Podemos.

Zaldivar ræddi um kapítalisma á Spáni en sagði að greining hans gæti átt eins vel við Grikkland, Portúgal, jafnvel Ítalíu og Frakkland. Spánn hefði gengið í Evrópubandalagið árið1986 og þegar í stað hefði frjálst flæði fjármagns verið innleitt. Þetta hafði umsvifalaust áhrif á efnahagskerfið og neyddi það til að keppa við önnur hagkerfi á mjög ójöfnum forsendum. Viðskiptalífið hafði verið á bak við verndarmúra sem einræðisstjórn Francos hafði sett upp, en átti nú skyndilega að keppa á samkeppnismarkaði sem það hafði engar forsendur til að gera. Afleiðingin var “a massacre”, fjöldi fyrirtækja réði ekki við stöðuna og lagði upp laupana.

Spænskur kapítalismi varð að velja sér svið þar sem hann hafði möguleika á að blómstra, og þau svið voru bæði fá og þröng: Byggingariðnaður og ferðamennska. Afleiðingin varð samþætting hagþróunar við þýska hagkerfið. Módelið var einfalt, “frjálsri” samkeppni var neytt upp á samfélagið, svo allur iðnaður á Spáni lenti á haugunum, en fjármagnið kom og því var eytt í hraðbrautir, til að hraðar mætti flytja inn varning frá Þýskalandi!

Neysluvörur sem neytt var á Spáni voru framleiddar í öðrum löndum. Peningar til að kaupa varningin komu líka utan frá sem lán. Minna var flutt út en inn, þannig að halli varð á vöruskiptajöfnuði. Þetta skýrir hvað gerðist 2007-2008. Hagkerfi sem ekki fékk staðist til lengdar sprakk einfaldlega, eða hrundi. Árið 2006 voru á Spáni byggðar fleiri íbúðir en í Frakklandi, Ítalíu og Englandi til samans. Eftirspurn var einungis eftir 20% af framleiðslunni en 80% var byggt spekúlatívt, veðjað á að einhver myndi einhverntíman kaupa.

Staðan í norðurhluta Evrópu var þveröfug. Þýskir bankar lánuðu spænska hagkerfinu. Í Þýskalandi gekk allt vel, iðnaður blómstraði, hann seldi vörur sínar erlendis, skorið var niður í félagskerfinu, laun lækkuð, en þýskur iðnaður og þýskir bankar höfðu handbært fé, gríðarlegt fé, af hverju ekki að lána spænskum bönkum til að blása út fasteignabóluna enn meira. En skyndilega stóðu spænskir bankar uppi í botnlausri kreppu, algerlega gjaldþrota.

Á tíma fasteignabólunnar á Spáni lánuðu bankar mikið fé til fjölskyldna. 80% Spánverja eiga íbúðir sínar sjálfir, leigumarkaður er lítill. Fólk þarf að kaupa sér þak yfir höfuðið og fólk keypti húsnæði með lánum til 40 eða 50 ára. Jafnframt varð gríðarleg fasteignabóla við ströndina, meðfram allri ströndinni: Íbúðir voru byggðar og seldar Norður-Evrópumönnum.

Árið 2007 sprakk bólan, byggingarfyrirtækin fóru á hausinn, bankarnir lentu í vanda og fóru að loka. Eftir 3-4 ár kom annað stig kreppunnar. Stjórnvöld fóru að bjarga bönkum, einkaskuldir urðu að opinberum skuldum með því að stjórnvöld lögðu út fé sem ekki var til, svo ríkið varð gríðarskuldugt. Ríkisstjórnin varð að hlýða því sem Seðlabanki Spánar lagði til.

Þetta hefur víða gerst. Auður hefur verið fluttur frá verkalýðsstéttinni til kapítalista og stjórna fyrirtækja. Bankar eru verndaðir og mjög valdamiklir, t.d. Santander bankinn. Í Grikklandi er sagt: Hér gengur illa, en samt ekki eins illa og í Búlgaríu. Á Spáni er sagt, hér gengur illa en samt ekki eins illa og í Grikklandi. Í Frakklandi er sagt, hér er allt á hausnum, en samt ekki eins og á Spáni. Við lifum um efni fram vegna þess að “hugmyndafræði hins frjálsa markaðar” er allsráðandi, sagði Zaldivar að lokum.

Í umræðum á eftir kom m.a. fram það álit eins áheyranda að nýfrjálshyggja Vesturlanda hefði misst allt út úr höndunum á sér þegar Kínverjar gripu tækifærið og urðu betri í nýfrjálshyggjuleiknum en Vesturlönd sjálf. Kínverjar noti markaðinn á markvissan hátt undir stjórn sterks ríkisvalds til að undirbúa sósíalisma, en Vesturlönd noti markaðinn undir stjórn markaðsins sjálfs, sem hafi valdið stjórnleysi og hruni. Þá komu fram áhyggjur af því að seðlabankar prentuðu ókjörin öll af peningum, til að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Kæmi til hennar væri eins víst að öll spilaborgin myndi hrynja.

Bent var á að skilja þyrfti að vandamálin, væri skortur á eftirspurn, of hæg fjárfesting, hluti launa lækkandi, eða hvað? Hver ætti að kaupa, hver ætti að lána. Þegar framleiðni fer minnkandi hrynur grundvöllur kapítalismans, og þá um leið uppsöfnun auðmagns. Getur kapítalismi enn skapað verðmæti, var spurt.

Einnig var spurt hvort kreppan fælist ekki í skorti á auðlindum.

Dominique Lévy varð fyrir svörum. Hann sagði varðandi eftirspurnarvandamálið að eftirspurn hefði t.d. verið of mikil í Bandaríkjunum og leitt til mikils innflutnings erlendis frá með skuldasöfnun. Hann benti á að oft hefði komið til auðlindaskorts, og slíkt hefði alltaf verið leyst. Hann sagði einnig að hann teldi ekki að núverandi kreppa væri lokakreppa kapítalismans, kapítalisminn myndi ekki hverfa af sjálfu sér. Þess vegna værum við hér, að ræða leiðir til að láta hann hverfa.

Þá kvaddi sér hljóðs tölfræðingurinn og hagfræðingurinn Michel Husson. Hann nefndi Kína og sagðist ekki telja að það að byggja upp mesta misréttissamfélag heimsins væri fyrsta skref í átt til sósíalisma. Hann héldi ekki að þar yrði til öflugur sósíalismi. Hann sagði einnig að kapítalismi væri ekki sérlega skilvirkur við að mæta ýmsum þörfum fólks, svo sem félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntun, sem lítil hagnaðarvon væri í að sinna. Það væri vaxandi bil á milli þeirra þarfa sem kapítalisminn gæti látið í té (t.d. bílar) og þess sem fólk flest þarfnaðist.

Þá tók aftur til máls Ricardo frá Spáni og taldi vandamál Evrópu vera vandamál sem auðmagnið hefði skapað. Hrun í húsnæðisverði á Spáni hefði leitt til þess að þar væru 3.000.000 íbúðir á lágu verði. Bankarnir héldu þeim auðum, því þeir hefðu látið bera þær fjölskyldur út sem þar hefðu búið. Bankarnir ætli að bíða þangað til verðið hækkar á ný. Frelsi kapítalsins hefði skapað eins konar fjármálaský eða peningaský, sem leitaði um allt til að finna 10% gróða.

Þá var spurt utan úr sal hvort þáttakendur í pallborðinu gætu skýrt muninn á Íslandi og Evrópu. Á Íslandi hefði bönkunum ekki verið bjargað og bankastjórar dæmdir í fangelsi, en í Evrópu væri fólk sett í fangelsi fyrir að skulda bönkunum fé. Michel svaraði því til að íslenska leiðin væri fullkomlega mögulegt í Evrópu, ef viljinn væri fyrir hendi.

Dominique talaði um að núverandi kreppa væri fyrst og fremst kreppa hins engilsaxneska kapítalisma, þeirrar tegundar sem þróast hefði í Bandaríkjunum og Bretlandi og þröngvað upp á Þýskaland eftir síðari heimsstyrjöld. Þessi tegund kapítalisma væri ekki alls staðar við lýði. Kreppan væri síður en svo endalok kapítalismans, hann ætti enn mörg líf eftir.

Thanos Contagyris, stjórnandi málstofunnar og fulltrúi Attac í Grikklandi sagði við svo búið að auðvitað værum við á lokastigum kapítalismans, og var ósammála Dominique. Kerfið sjálft væri í djúpri kreppu.

21. ágúst

Peter Wahl

Morguninn eftir hóf Peter Wahl frá Attac í Þýskalandi málstofuna. Attac í Þýskalandi er önnur af öflugustu deildum Attac-samtakanna, ásamt með þeirri frönsku. Minna hefur farið fyrir mótmælum og uppstokkun í stjórnmálakerfinu í Þýskalandi í mótmælaöldunni frá 2011 miðað við ýmis önnur lönd, en öflug mótmæli urðu þó á síðasta ári í Frankfurt am Main, sem kennd voru við Blockupy, og sú hreyfing hyggur á frekari aðgerðir. Peter Wahl var einn af stofnendum þýsku Attac-deildarinnar og hefur verið mjög virkur í hreyfingunni.

Wahl hóf mál sitt á því að benda á að í styrjöld væri nauðsynlegt að ráðast á ákveðna staði í varnarvirkjum andstæðingsins. Nauðsynlegt væri að finna góðan stað til að berjast á, hentugan vígvöll. Að sínu áliti væri mikilvægast að sigra fjármálakapítalið eða eyða völdum þess og áhrifum, það væri lykilverkefni vinstri afla.

Af hverju er það svo nauðsynlegt, spurði hann. Svarið er að fyrir 30 árum síðan varð meginbreyting í því hvernig kapítalisminn virkaði, vegna þess að fjármálamarkaðir í Bandaríkjunum og Evrópu fóru að starfa á annan hátt en áður. Áður höfðu fjármálamarkaðir þjónað öðrum þáttum kapítalismans, hinum áþreifanlegu framleiðsluþáttum eins og bílaframleiðslu, matvælaframleiðslu, raftækjaframleiðslu o.s.frv. Nú breyttist þetta samband. Fjármálamarkaðirnir urðu miðpunktur hins nýja kapítalisma. Rétt eins og kol og stál voru miðpunktur 19. aldar kapítalisma og bifreiðar miðpunktur 20. aldar kapítalisma þá er fjármálaauðvaldið nú miðpunktur 21. aldar kapítalismans.

Fjármálaauðvaldið byggir á auðæfum, peningum. Fjármálabrask verður mikilvægasta viðskiptamódelið, sem áður skipti litlu máli, en nú er verðgildi hlutabréfa upphaf og endir allrar starfsemi kapítalískra fyrirtækja. Keynes benti á sínum tíma á að braskarar gerðu ekki mikinn skaða ef þeir leyfðu viðskiptastarfsemi að öðru leyti að þróast óheft, en ef fyrirtæki í framleiðslugeiranum yrðu að búa við að fljóta á úthafi fjármálabrasks þá væri það að bjóða hættunni heim. Ef spilavítið tekur völdin, þá sé fjandinn laus.

Hver er grundvöllur valda fjármálafyrirtækjanna? Fyrst og fremst gríðarlegt umfang, og gríðarlegur gróði eða arðsemi. Þetta væri ólíkt því sem væri annars í samfélaginu. Regla kapítalistanna væri að fjárfesta ekki í raunverulegri framleiðslu, heldur fjármálafyrirtækjum.

Áhrif fjármálamarkaðanna á stjórnmál væru gríðarleg. Erfitt væri fyrir stjórnmálamenn að stýra fjármálamörkununum. Þeir væru alþjóðavæddir, samtengdir þvers og kruss milli landa, skattsvik væru lítið mál, kerfið væri ótrúlega flókið og mjög erfitt að setja því stólinn fyrir dyrnar með reglugerðum. Til væri orðið alþjóðlegt “oligarchy” (fáveldi) í fjármálaheiminum. Opinber þjónusta væri sífellt háðari fjármálamörkuðunum, heilbrigðisþjónustan, eftirlaunakerfið og menntakerfið. Fjármögnun verkefna á vegum ríkis og sveitarfélaga yrði æ háðari fjármálamörkuðum með útgáfu skuldabréfa.

Raunar væri fjármálaveldið farið að hafa afar neikvæð áhrif um allt samfélagið. Varanleg vanfjárfesting í raunhagkerfinu hefði áhrif á vinnumarkaðinn. Varanlegt og vaxandi atvinnuleysi væri ein af afleiðingunum. Fjármálaauðvaldið þrýsti stöðugt og óaflátanlega á eftir því að einkavæða. Það er þyrst og sækir í að ná undir sig starfsemi af öllu tagi með einkavæðingu, skólum, sjúkrahúsum, stoðkerfum eins og vatnsveitum, rafveitum o.s.frv.

Í öðru lagi veldur fjármálakapítalisminn stöðugt meiri misskiptingu, hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Þetta er nú almennt viðurkennd staðreynd, eins og mikil áhrif franska hagfræðingsins Pikettys sýna.

Í þriðja lagi hnignar lýðræðinu stöðugt. Fjármagnið getur á augabragði yfirgefið land þar sem ákvarðanir óhagstæðar því eru teknar af lýðræðislegum stjórnvöldum. Þetta gildir að vísu ekki um Bandaríkin og Þýskaland, en öll önnur ríki, ekki síst Grikkland, Portúgal, Spán, jafnvel Ítalíu. Áhrif fjármálavaldsins eru gríðarleg án þess að nokkur bankamaður hafi verið kjörinn til valda í lýðræðislegum kosningum. Sambandið er hið sama og milli galdramannsins og lærlingsins, ó meistari ég þarf aðstoð þína því ég hef vakið upp svo marga drauga.

Endurbætur eru ónógar, taka aðeins á fáum þáttum og eru óskipulegar, og úr áhrifum þeirra er skipulega dregið af lobbíistum fjármálafyrirtækja. Þær munu að lokum verða að engu, en eru að vísu ekki fullkomlega gagnslausar.

Er glasið hálf fullt eða hálf tómt? Sú spurning hvaða kerfi þjóðfélagið þurfi er spurning sem ekki hefur verið lögð fram. Hver er nauðsynlegur grundvöllur breytinga? Nauðsynlegt er að loka spilavítinu, svipta fjármálafyrirtækin, bankana, völdum. Það þarf að loka þeim, segja upp öllu starfsfólki, þurrka hörðu diskana á tölvum þeirra, loka húseignum þeirra og loka samskiptaleiðunum sem gera þeim kleift að færa fjármagn óhindrað milli landa.

Minnka þarf fjármálageirann skipulega, þar til hann þjónar á ný þörfum framleiðslukerfisins en ekki öfugt, það þarf að af-alþjóðavæða markvisst, og koma á höftum á frjálst flæði fjármagns. Minnka þarf flækjustigið, sem þýðir að endurreisa þarf lýðræðisleg yfirráð yfir mörkuðum. Aftengja þarf tengsl milli fjármála hins opinbera og fjármálamarkaðanna, stighækkandi skattkerfi þarf að komast á og eftirlaun og heilbrigðiskerfi má ekki einkavæða.

Stjórnmálalausnir á þessu sviði þurfa að taka tillit til þess að bankamenn eru ekki löghlýðnir borgarar, m.ö.o. þeir eru glæpamenn, valdastéttin er klofin, en hún hefur ekki efni á að borga fyrir næstu kreppu, sagði Wahl að lokum.

Eric Toussaint

Næstur á mælendaskrá var belgíski stjórnmála- og sagnfræðingurinn Eric Toussaint. Hann er forystumaður alþjóðlegra samtaka, CADTM, sem hafa aðsetur í Liege í Belgíu og hafa unnið mikið starf á sviði skuldamála þriðja heimsins og raunar alls heimsins. Hugtakið “odious debts” er eitt af lykilhugtökum þeirrar umræðu.

Toussaint ræddi um Evrópusambandið, nánari samvinnu Evrópuríkja undir forystu núverandi leiðtoga Evrópu. Evrópusambandið hefði sérkenni miðað við það hvernig Bandaríkin og Japan t.d. væru skipulögð. Meginmarkmið Evrópusambandsins væri að ráðast á og rústa félagslegum umbótum sem komið var á á tímabilinu 1945-1970 fyrir tilstilli baráttu verkalýðshreyfingarinnar og annarra félagshreyfinga. Sem sagt, halda áfram með, útvíkka og dýpka Thatcherismann. Markmiðið væri að gera Evrópu “samkeppnishæfa” á heimsmarkaði, þannig að hún gæti keppt við Bandaríkin og Kína.

Niðurskurður í velferðarkerfi hefði byrjað þegar um 1983 á vegum Mitterand-stjórnarinnar í Frakklandi og Papandreou-stjórnarinnar í Grikklandi. Árásirnar væru engin nýjung. Kreppan hefði nú haft þau áhrif að elítan í Evrópu hefði tvíeflst í árásum sínum á velferðarkerfið og eflingu nýfrjálshyggjunnar. Mjög brútal “shock therapy” hefði verið framkvæmd í Grikklandi, Portúgal, Írlandi og á Spáni. Í Frakklandi væri notuð svokölluð froskaaðferð. Alþjóðabankinn lýsir því þannig að froskur sé settur í pott með volgu vatni, og potturinn settur yfir eld. Froskurinn gerir sér ekki grein fyrir því að vatnið hitnar smám saman og deyr að lokum. Þannig ætlar Alþjóðabankinn að fara með verkalýðsfélög og aðra andspyrnu gegn niðurbroti velferðarkerfisins. Hvoru tveggja, frosksaðferðin og “shock therapy”, er ætlað að brjóta niður andspyrnuna.

Leiðtogar Evrópu hafa smíðað öfluga hernaðarvél gegn velferðarkerfinu. Þeir vilja ekki minnka, heldur auka muninn á Búlgaríu og Frakklandi t.d. Laun eru tíu sinnum lægri í Búlgaríu en Frakklandi. Þýskaland lætur framleiða varning á sínum vegum í láglaunalöndum og setur hann síðan saman heima hjá sér. Evran er mjög mikilvæg. Hún heldur PIIGS löndunum svínbeigðum, sem þrælalöndum. Þessi lönd geta ekki brugðist við kreppunni með því að lækka virði gjaldmiðilsins. Þau verða að skera niður launakostnað sem kostar gríðarleg átök.

Toussaint taldi að Sumarháskólinn væri vonarneisti í baráttunni, hér væru meir en 2000 manns, miklu fleiri en von var á. Róttækir vinstri flokkar væru hins vegar veikir og hefðu ekki náð að spyrna við í kreppunni. Óvinurinn væri miklu ófyrirleitnari og viðbrögðin væru allt of veik. Hvaða mótspil sem er sem hindraði þessar árásár væri af hinu góða. Ný skuldakreppa hefði myndast í Evrópu frá því 2008-2010, sem hefði leitt til mikillar kreppu í sjálfsforræði ríkja á jaðri Evrópu. Þessi skuldakreppa væri skuldakreppa einkaaðila, sem flutt hefði verið yfir á opinbera sviði, tap bankanna hefði verið þjóðnýtt og almenningur látinn borga brúsann.

Skuldir PIIGS ríkjanna hefðu aukist með stjarnfræðilegum hraða. Ástandið á Írlandi væri þó annað en í Grikklandi, en í heildina væru veiku hlekkirnir á Evrusvæðinu í gríðarlegum vanda. Opinberar skuldir á leið til himins. Skuldir hins opinbera í Grikklandi væri 175% af þjóðarframleiðslu, 140% í Portúgal. Þetta væri þrælkunarvél.

Toussaint ræddi þann möguleika að til valda kæmi vinstri stjórn sem hefði stuðning almennings. T.d. SYRIZA gegn Troikunni, og endurskoðun (audit) grískra skulda yrði framkvæmd, sem gæti valdið kreppu í Evrópusambandinu og breytt pólitísku ástandi í Evrópu. Grikkir skulda 300 milljarða dollara, og þar af skulda þeir Troikunni 230 milljarða. Þetta eru, sagði Toussaint, ólöglegar skuldir, “odious, illegal debts” (líkt og Icesave-skuldin, ÁDJ). Lánsféð væri ekki notað á neinn þann hátt að kæmi almenningi til góða, lánið væri ekki veitt á lýðræðislegum forsendum eða lýðræðislega stýrt, það væri notað til að framkvæma aðgerðir sem var grundvallarbrot á mannréttindum og brot á öllum samningum. Nauðsynlegt væri að nota opinbera endurskoðun skulda (public debt audits) til að afhjúpa glæpina. Þjóðnýting bankakerfisins og tryggingafélaga væri nauðsynleg, en hún kæmi í stað þess sem væri algerlega nauðsynlegt, að loka fjármálakerfinu.

Thanos Contagyris

Í Grikklandi hafa orðið stórkostlegar breytingar í pólitísku landslagi. Öflugur flokkur hefur orðið til sem hafnar “lausnum” Evrópusambandsins eða hinnar svokölluðu Troiku á kreppu evrusvæðisins, og hefur raunhæfa möguleika á að komast í ríkisstjórn í Grikklandi. Þessi flokkur er SYRIZA.

Fulltrúi Grikklands, Thanos Contagyris, Attac Grikklandi sagði allra fyrst að nýfrjálshyggjan væri dauð í Grikklandi. Eitthvað annað væri komið í staðinn. Hvorki sjálfstæði þjóðarinnar né einkaeign væri vernduð lengur. Efnahagslífið hefði dregist saman um 25%. Opinberar skuldir hefðu margfaldast, fátækt hefði stóraukist.

Fyrir 2500 árum hefði lýðræði verið fundið upp, einmitt til að leysa skuldavanda. Auðmenn hefðu lánað almenningi sem ekki gat greitt lánin, það varð uppreisn og til varð lýðræðiskerfi til að taka á slíkum málum.

Hvernig ættu Grikkir að komast út úr skuldavandanum?

Vöxtur hefði verið mikill til 2008. Halli á ríkisútgjöldum hefði verið minni en vöxtur efnahagskerfisins á hverju ári. Opinberar skuldir hefðu verið miklar en ekki vaxandi til 2007, en þá hækkuðu skuldir mjög hratt langt umfram það sem nokkur möguleiki væri að greiða til baka. Í september 2009 hófst kreppa, sem enn stendur.

Orsakir kreppunnar er að finna í hervæðingu. Frá 1981 fór Grikkland að kaupa mikið af vopnum af öðrum Evrópuríkjum, og það skýrir helminginn af öllum skuldum Grikklands. Ef ekki hefðu komið til þessi vopnakaup þá væri Grikkland ekki í vanda. Of mikið var flutt inn, og of lítið út, sé sagt. Ýmsar goðsagnir ganga um að Grikkir vinni of lítið og eyði of miklu. Fái of hátt kaup. Í raun sé vinnuvika Grikkja lengri en annars staðar og eyðslan nákvæmlega sú sama og meðaltal Evrópuríkja.

Kreppan er skelfileg, atvinnuleysi gríðarlega hátt. Skuldavandinn er óleysanlegur. Hvernig á að lækka skuldirnar niður í 60% þjóðarframleiðslu eins og stefnt er að? Ekki dygði þó t.d. 4% þjóðarframleiðslunnar yrðu greidd næstu 30 árin, það myndi aðeins duga til að borga vextina en ekki af höfuðstól skuldarinnar. Það tæki minnst 50 ár að leysa vandann.

Við höfum evruna og aðeins þau vandamál sem fylgja henni, en enga af kostum hennar. Sama ástand skapaðist í Þýskalandi 1929. Það gæti gerst hvað sem er. Hvernig ætti að leysa vandann? Tvær leiðir hafa verið lagðar til. Núverandi stjórn vill niðurskurð í ríkisútgjöldum (“austerity”) næstu 25-50 ár. Spillingu verði útrýmt. Takist þetta ekki þá eru þrjár leiðir opnar. Í fyrsta lagi væri möguleiki að neyða Þýskaland til að borga skuldirnar, taka á sig skellinn. Grikkland gæti gert bandalag við aðrar þjóðir í suðri. Annar möguleiki væri að Grikkland hætti að borga, og yfirgæfi evrusvæðið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef SYRIZA vinnur í næstu kosningum þá mun verða mynduð stjórn með áætlun um þjóðlega endurreisn. Það verður róttæk stjórn, mun róttækari en núverandi stjórn. Erfitt mun þó reynast að semja við lánardrottna, en Grikkland myndi yfirgefa evrusvæðið ef það tækist ekki. Það myndi verða endalok Evrópusambandsins.

Umræður

Spurning kom úr sal: Er íslenska leiðin fær?

Eric Toussaint svaraði því til að íslenska bankakerfið hefði verið einkavætt og síðan hrunið í september 2008. Íslensk yfirvöld hefðu stöðvað allar fjármagnshreyfingar. Þau hefðu ákveðið að fara fram á gjaldþrot bankanna frekar en bjarga þeim. Yfirvöld hefðu stofnað nýja banka sem farið hefðu með eignir hinna gömlu, hrundu. Bankainnistæður Íslendinga hefðu verið verndaðar, en innistæður erlendra ríkisborgara hefðu hins vegar brunnið upp í hruninu, sérstaklega hinar svokölluðu Icesave-innistæður, sem aðallega voru í Bretlandi og Hollandi. Síðan hefðu hafist viðræður milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar. Bretar og Hollendingar hefðu krafist þess að Íslendingar greiddu töpuðu innistæðurnar, sem hefði þýtt að íslenska ríkið hefðu orðið að þjóðnýta tap, sem til varð á vegum og vegna aðgerða einkaaðila (eigenda Landsbankans).

Íslenskur almenningur hefði hafnað slíkum afarkostum. Ríkisstjórnin hafi samið við Hollendinga og Englendinga, en öflug hreyfing gegn samningnum hefði orðið til og mikill fjöldi skrifað undir áskorun um þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. 93% Íslendinga hefði síðan hafnað honum í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Annar samningur hefði verið gerður og honum hafi einnig verið hafnað í febrúar 2012, nú með 63% á móti. Ísland hefði verið sett á lista yfir terroristahreyfingar vegna þess að það vildi ekki borga Bretlandi. Íslenskar innistæður í Bretlandi hefðu verið frystar.

Nú væri 3-4% hagvöxtur á Íslandi. Landið gæfi út ríkisskuldbréf á alþjóðamarkaði og sala bankaeigna væri í gangi. Höft væru á fjármagnshreyfingum. Íslenska dæmið sýnir að unnt sé að hafa taumhald á fjármálaveldinu. Fjármagnshreyfingar verða ekki við að peningar stíga upp í flugvél. Þannig að Ísland hindraði fjármagnshreyfingar, erlend fyrirtæki með eignir á Íslandi urðu að kaupa íslensk ríkisskuldabréf á markaði. Það eina sem þau máttu gera.

Bretland og Holland kærðu Ísland vegna Icesave málsins til EFTA og dómstóll þeirra samtaka dæmdi Íslandi í vil og Bretlandi og Hollandi í óhag. Niðurstaða dómsins er áhugaverð, Ísland reyndist ekki vera skyldugt til að borga tap einkaaðila og láta ríkisvaldið taka yfir skuldirnar. Bretland mun áfrýja dómnum. Hægristjórnin er komin til valda á ný, vinstri stjórnin reyndist ekki nægilega róttæk. Fasteignabólan á Íslandi sprakk, og hægrimenn lofuðu að ráða bót á tapinu sem hlaust af því fyrir heimilin. Þetta er það sem ekki hefur verið gert á Spáni t.d., en það var gert á Íslandi.

Toussaint sagði að lokum að íslenska módelið væri ekki eitthvað sem ætti að fylgja í blindni, en það sýndi hvað félagslegar hreyfingar gætu gert, að einhliða aðgerðir einstakra ríkisstjórna væru mögulegar og að AGS hefði stutt Ísland þegar það kom á ströngum takmörkunum á fjármagnsflæði. AGS styddi Ísland ennþá hvað þetta varðaði. Stofnunin hefði algerlega snúið við blaðinu hvað þetta varðaði miðað við fyrri aðgerðir. Kýpur hefði einnig komið á takmörkunum á fjármagnsflæði, með samþykki og stuðningi Troikunnar. Þetta væri leið sem SYRIZA myndi líklega fara.

Upp kom spurningin um samskipti róttækra félagshreyfinga og pólitískra flokka, t.d. Indignados og Podemos á Spáni. Einn pallborðsmeðlima svaraði því að róttækir flokkar hefðu stuðning vegna þess að stefnuskrá þeirra væri róttæk, og allar líkur á að þeir myndu framkvæma stefnuskrá sína.

Í umræðunum kom hins vegar fram að Peter Wahl áleit að flokkar eins og Podemos og SYRIZA væru ekki nýtt fyrirbæri. Róttækir flokkar hefðu komið fram áður, en þeir hefðu alltaf orðið að einhvers konar kerfisflokkum áður en langt um leið, t.d. Die Linke eða Græningjar í Þýskalandi.

Ekki væri hægt að gera stefnubreytingu innan vébanda Evrópusambandsins og yfirgefa nýfrjálshyggju, því nýfrjálshyggja væri grundvöllur og stefnuskrá þess. Það þyrfti að leggja niður Evrópusambandið.

Niðurlag

Vonandi gefur þessi umfjöllun innsýn inn í sumt af því sem til umræðu var á sumarháskóla Attac í París í ágúst. Nefna má að heitar umræður voru um mörg önnur málefni, svo sem innflytjendamál og athafnir NATO í Úkraínumálinu og Miðausturlöndum, svo aðeins fátt eitt sé nefnt.