Ég ætla að segja fátt af viti, Árni Daníel sendi mér póst fyrir nokkrum dögum og spurði hvað erindið mitt ætti að heita. Ég svaraði: Æ, það heitir bara random bull og og hugsanir um uppreisn og óeirðir akkúrat núna, þetta sagði ég auðvitað af því ég var ekkert búin að hugsa nema bull. Svo kom boð á póstlista Attac og í því stóð að ég ætlaði að halda lítinn fyrirlestur sem héti Random bull og og hugsanir um uppreisn og óeirðir. Frábært, nú býst enginn við neinu af viti hugsaði ég og flýtti mér svo að hætta að hugsa nokkurn skapaðan hlut.
Nema um kalkún. Aftur og aftur hefur hann komið mér í hug undanfarið, villti kalkúnninn sem var á þvælingi seint á árinu 2007 eða snemma árs 2008 á gatnamótunum við Energy Park Drive og Raymond Avenue, í svona mánuð birtist hann við veginn, við hægðum á okkur, við bentum á hann, þetta var svo fáránlegt, við hrópuðum af spenningi og smá áhyggjum, hvaðan kom hann, hafði hann sloppið úr sláturhúsinu eða hafði hann alltaf verið á þvælingi, og við vonuðum að hann lenti ekki í slysi. Svo einn daginn var hann horfinn og sást ekki meir. Þessi dularfulli villikalkúnn.
Það var á þessum gatnamótum, kalkúnagatnamótunum, þegar ég heyrði fyrst útvarpsmann segja, vandræðalegan og hálf flissandi: ætli við eigum að fara nota R orðið? Eins og hann væri að segja eitthvað soldið dónalegt, eitthvað sem prúðir útvarpsmenn sem vinna hjá National Public Radio segja helst ekki nema tilneyddir. R orðið, the R word; recession. Samdráttur, efnahagslegur samdráttur. Á íslensku hljómar þetta ekki vel og ég skil að enginn hér hafi viljað segja þetta. Mjög vúlgert. En árin 2007 og 2008 voru svosem sögulega vúlger ár.
Ég veit ekkert af hverju ég man svona ótrúlega vel eftir þessu, þessum vandræðalega manni sem vildi greinilega allra síst tala um eitthvað ömurlegt eins og samdrátt. Kannski var kalkúninn akkúrat á ferðinni á þessari stundu, kannski sá ég kalkúninn um leið og ég heyrði orðið og þetta límdist saman í heilanum á mér að eilífu. Kannski varð þessvegna til svona öflug minning.
Kannski var útvapsmaðurinn vandræðalegur af því að hann vissi að um leið og orðinu væri sleppt yrði ekki aftur snúið, og það reyndist alveg rétt. Þetta var a Recession og ekki bara eins og hver önnur, heldur a Great One. Crisis sem hjá sumum varð alveg heil kreppa. Eins og td. hjá Grikkjum. Ef maður væri hrifinn af hyperbólum gæti maður í þeirra tilfelli kallað kreppuna efnahagslegt genocide, undirbúið af Goldman Sachs, þeirri merku stofnum frelsis og ósýnilegra handa og svo framkvæmt rösklega af Evrópska Seðlabankanum með dyggri aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðins, en auðvitað ekki kallað efnahagslegt genocide, nema af sentimental fávitum, hjá fullorðnum heitir svona Óhjákvæmilegar niðurskurðar og aðlögunar aðgerðir sem hafa þá gleðilegu útkomu að vinnuafl verður samkeppnishæft á hinum evrópska innri markaði; konur að selja sig fyrir 5 evrur í Aþenu, ma. af því að enginn hefur efni á að borga þeim meira, sumum finnst þetta kannski ágætis dæmi um framboð og eftirspurn,um eitthvað sem heitir laissez faire, eins og forstjórinn sagði: you’re worth what you’re worth, gamalmenni í röðum að bíða eftir grautnum sínum, 1000 á dag að missa vinnuna sína og enga aðra að fá, heimilislausir að frjósa til dauða og allir útlendingarnir, ofsóttir, meiddir, geymdir í búrum, hvergi velkomnir, allra síst þar sem enginn á pening, þegar þeir klárast er eins og samkennd klárist líka. Sumir myndu kannski kalla þetta einhverskonar endalok sögunnar.
Niðurdýfan hófst í Ameríku, landi kalkúnanna, auðvitað, eins og allt. Og þegar hún virkilega fór af stað breiddist hún út með sama hraða og flest annað sem kemur frá Ameríku.
Og hún var eldsnögg hingað, eins og Drone á leið í brúðkaupsveislu í Jemen, enda elskum við Ameríku meira en flestir. Hún var jafn eldsnögg hingað og ástin á Ronald Reagan td., fyrir ekkert svo mjög löngu síðan, á Íslandi varð stór hópur fólks ástfanginn af Reagan, ég man eftir þessum merku tímum, hot damn, þau voru alveg óð í kallinn. Þau voru svo hot fyrir honum að þeim fannst besta hugmynd í heimi að endurskapa sjálf sig í hans mynd og Ísland í mynd hins útópíska peningabúgarðs, þar sem fólk, nei almáttugur, afsakið, ekki fólk, hvaða bull, fjárfestar, ganga um í sólinni, og annast litla peninga og stóra peninga, gefa þeim að borða og vökva og plokka þá svo mjúklega af runnunum þegar þeir eru tilbúnir. Og setjast svo saman við varðeldinn, sem í misheppnaðri íslenskri þýðingu varð að grilli, og hringla í sparibaukunum á kvöldin.
Ísland skyldi verða peningabúgarður á heimsmælikvarða, með styttu af Leifi og Reagan hlið við hlið, og slóganið yfir þeim báðum: Sigur viljans er allt sem þarf!
Sigur viljans, þannig að ef þú tapar er það vegna þess að þú vildur ekki sigra nógu heitt.
Einhverjar hjáróma raddir minnipokafólks heyrðust, eða réttara sagt, það heyrðist varla í þeim vælið, eitthvað um að áburðurinn sem notaður væri á peningabúgarðinum væri mögulega úr hökkuðu vinnuafli, þeim sem færu í verkfall, einstæðum mæðrum, krökkum með ónýtar tennur og bara margskonar úrvali af vesalingum.
Við þetta var margt að athuga, því nú voru hagsmunir þeirra á peningabúgarðinum orðnir hagsmunir allra, líka vesalinganna, klinkið var víst alveg að fara að trickla niður frá peningabúgarðinum, og brátt heyrðist ekkert, ekkert væl, þau sem langaði kannski að væla og segja: þetta trickle minnir nú einna helst á piss, föttuðu fljótt að því var best að sleppa, nema að þér þætti ok að vera kölluð ræfill og grenjuskjóða sem vildir fá allt fyrir ekkert og elskaðir að standa í biðröð til að fá ókeypis bónusbrauð og pela af mjólk.
Og svona gekk í dálitla stund, sumir orðnuðu sér við eld og hlökkuðu til allskonar ævintýra með barónessum og dularfullum mönnum frá miðausturlöndum, aðrir stóðu pissublautir og asnalegir og fengu, af því lyktin af þeim var svo vond, aldrei að vera með.
Svona gekk í doldinn tíma, hér og þar. Þangað til kalkúninn fór að birtast, við vissum það ekki þá, en hann boðaði breytta tíma, hann var fyrirboði.
Um niðurdýfu, og þegar hún hófst var hún epísk. Merkilegt að jafn óepískt dýr og kalkúnn verði fyrirboði um risa atburði. Risastóra fyrir Kana og risastóra fyrir Grikki og fyrir okkur, pínkulítil en í risavöxnum búgarðareksti sem allt í einu fór á hausinn, eins og niðurdýfu Drone hefði kastað í hann sprengju. Um leið slokknaði á grillinu og í myrkrinu sem fylgdi heyrðist ekki lengur skrjáfið í peningum, heldur kvein, faðir, því hefur þú yfirgefið okkur? Og svo var myrkt um stund og ekkert heyrðist nema andþrengslastunur þeirra taugaveiku.
En sjá, hvað er þetta?
Hvað glóir í myrkrinu?
Fullt af fólki, og hausinn á því glóði, ennisblaðið og svo hendurnar, þær voru mjög sýnilegar og heitar, á hverri hönd loguðu fimm eldspýtur sem gátu kveikt í öllu mögulegu.
Já, þessar hrúgur af logandi fólki voru ótrúlegar, væluskjóður og minnipokafólk og vesalingar allt í einu farin að loga, ekki afþví að það væri búið að kasta þeim á grillið, heldur kom loginn innan úr þeim sjálfum, þau voru búin að færa sig undan niðurfallsröri peningabúgarðsins, og farin að muna eftir sumu sem gerðist í gamla daga, muna eftir sögum um margt fólk saman, eitthvað sem hét samtakamáttur, sögurnar sem voru sagðar áður en vonda nornin Margrét tilkynnti að maðurinn gengi alltaf einn og enginn ætti að halda að annað væri í boði. Muna eftir því að einu sinni gekk fólk oft saman, já bíddu, var fólk ekki alltaf að gera eitthvað margt saman, hvað hét það aftur; hasar, læti, mótmæli, uppþot, óeirðir og svo kannski B orðið sjálft. Úff, það er sko rosalegt orð. Bylting. Hver þorir að segja það?
Hver þorði að segja öll þessi orð? Hver þorði að öskra og góla, níðrí bæ, úti, edrú, innan um fullt af ókunnugum? Hver þorði að mála myndir á skilti og veifa þeim, hver þorði að ná í rauðan fána og veifa honum? Hver þorði að veifa svörtum fána, á Íslandi, niðrí miðbæ? Hver þorði að klifra uppá þak á Alþingishúsinu og flagga þar Bónusfánanum sjálfum, svo að skrílinn á Austurvelli æpti af gleði og hrifningu yfir þessum besta brandara sem íslensk alþýða hefur nokkru sinni sagt? Hver var svona hugrakkur og logandi, í kuldanum eftir að grillolían hafði klárast?
Öll þau sem kölluð höfðu verið jaðar þetta og hitt. Þau sem höfðu ekki fengið að vera með útaf pissulyktinni, þó að þau hefðu aldrei pissað í sig og lyktin væri ekki af þeim. Þau sem að voru búin að gráta yfir líkhrúgum í löndum langt í burtu, í miðausturlöndum, en ekki miðausturlöndum dularfullra sjeika, heldur miðausturlöndum fátæklinga og alþýðu, þau sem voru búin að skæla útaf eyðileggingarlosta íslenskrar stjórnmálastéttar í samkrulli með auðvaldinu, þessum klámfengnu holum í umhverfinu þar sem áður voru blóm, strá og fuglar, þau sem voru búin að að engjast yfir því að fátæklingar væru fluttir inn frá útlöndum til að vinna og vinna og fá matareitranir og öndunarfærasjúkdóma og nota plastpoka fyrir sokka og sofa í gámum. Þau sem vildu að konur þyrftu ekki að vera vel rakaðar til að finnast þær vera á lífi. Þeim sem fannst það ekki það asnalegasta í öllum heiminum að allt fólk væri skapað jafnt af almættinu og ekki bara allt fólk heldur alltsaman, alltsaman sem lifði væri jafnmikils virði.
Það voru öll þessi sem loguðu í myrkrinu og þorðu svo mikið að gera og segja og góla að það kviknaði að lokum í útum allt og heilt jólatré fórnaði sér glatt á altari þessarar glöðu brjálsemi.
Þessarar frábæru uppreisnar, sem lét okkur loga heitar en grillið nokkurntímann. Þessi dásamlega uppreisn sem er dásamleg vegna þess að hún átti sér stað og ekkert endilega útaf neinu öðru. Afþví að í langan tíma hafði ekkert átt sér stað nema vúlgert drasl búið til af vúlgeru fólki og það er dásamlegt að losna undan því þó að ekki sé í nema stutta stund.
Þessvegna þakka ég fyrir vetraruppreisnina okkar og þau sem loguðu í vetrinum, þakka fyrir hana að eilífu. Eins villikalkúnn birtist hún og hvarf, við vissum ekki hvaðan hún kom eða hvert hún fór, sloppin úr sláturhúsinu gat hún þvælst hvert sem er. Furðuleg og óvænt eins og fyrirboði um eitthvað í framtíðinni, fyrirboði um tíma þar sem B orðið sjálft verður ekki eitthvað sem við þurfum að þrasa um hvort eigi við eða ekki. Tíma þar sem viðeigandiheit orðsins eru alveg á hreinu.
Takk fyrir.