Hvaða vandamál fylgja því þegar ofuráhersla er lögð á að gagnrýna eina tiltekna deild auðmagns, svo sem banka eða stóriðju? Er nauðsynlegt að víkka slíka gagnrýni til kapítalismans í heild, og ef svo er, hvernig?
Það er hægt að segja að ólíkir kapítalistar séu mismunandi –hættulegir- og þessvegna er auðvitað skiljanlegt að fólk velji sér auðmagn til að berjast við. Hægt er að segja að Monsanto sé t.d. mun hættulegra en H&M, vopnasalar hættulegri en ferðaþjónusta osfv. (svo getum við spurt okkur hvort fólkinu í fataverksmiðjunum í Bangladesh finnist H&M vera hættulegra en Monsanto…).
Það getur líka oft verið gagnlegt að beina spjótum að einum hópi kapítalista til þess að fá fleiri til liðs við baráttuna, opna augu fleiri fyrir því að það þurfi að berjast fyrir breyttri veröld og að það sé ekki allt eins og best sé á kosið í besta heimi allra heima.
Og svo er oft mjög aðkallandi að krefjast umbóta á einhverju tilteknu fyrirbæri innan auðmagnskerfisin. Eins og td. á fjármálakerfinu eða industríal matvælaframleiðslu eða klámiðnaðinum. Ef maður neitar þörfinni á umbótum eða neitar að taka undir með þeim sem krejast umbóta er maður einfaldlega skeytingalaus um fólk, dýr, náttúru osfrv. Og skeytingaleysi er alltaf glatað.
Aktivismi og mótmæli eiga sér yfirleitt alltaf eitthvað ákveðið –skotmark-, einhverja kveikju og eitthvað sem hægt er að rally-a fólki í kringum. Þannig getur verið taktískt mikilvægt að taka fyrir einn arm kapítalismans í einu.
En á endanum er staðreyndin sú að vandamálin eru kerfislæg, að þau spretta öll af sömu grundvallarrótinni. Þá er mikilvægt að greina hvað það er við kapítalismann sem gerir hann slæman: Það er ekki að (allir) kapítalistar séu (alltaf) vondir, að peningar séu vondir (í sjálfu sér) osfv, heldur að lógík kapítalismans geri að verkum að jafnvel einhver -góð- kapítalísk fyrirtæki, sem okkur stendur ekki augljós ógn af, eru rekin með þeim hætti að það er problematískt, það er gróðasjónarmiðið og endalaus vaxtahugmyndin sem er vandi kapítalismans: Sú hugmynd að gróði eða hagnaður sé, eða eigi að vera tilgangur og markmið alls sem menn taka sér fyrir hendur. Allir kapítalistar hafa að markmiði að græða, sem gerir að verkum að þeir hafa hagsmuni almennings, heildarinnar eða hagsmuni lífríkisins ekki að leiðarljósi, heldur þrönga skilgreiningu á eigin hagsmunum.
Og þá er nokkuð ljóst að krafan um umbætur, endurbætur, er takmarkandi.
Ef við hugsum okkur til dæmis náttúruvernd, þar er oft barist gegn einu verkefni í einu. En er –hægt- að berjast fyrir náttúruvernd án þess að berjast geng kapítalismanum sem kerfi?
Auðmagnið rífur ekki aðeins einn og einn part af náttúrunni í einu í sig, heldur misbýður allri skipan veraldarinnar. Þetta er mjög áberandi, kannski mest áberandi þegar maður horfir á –lágstéttirnar- og svo náttúruna. Lágstéttirnar eru færðar til á milli landa í uppsveiflum og þegar niðursveiflan verður eru þær surplusvinnuafl, og enginn vill þær. (Þá stígur td. engin kapítalisti fram og bendir á að okkur beri skylda til að hjálpa vinnuaflinu sem kom sannarlega til að vinna).
Og náttúran er alltaf undir. Í uppsveiflunni þarf af nota hana til að búa til meiri hagvöxt á stórum skala, til að nota allt fjármagnið og ódýra lánsféð, framleiða meira svo almenningur kaupi meira og noti meira með öllu ódýra lánsfénu sínu. Í niðursveiflunni þarf svo að nota náttúruna til að búa til hagvöxt afþví það er ekki nógu mikill hagvöxtur og hinu þjóðlega surplus vinnuafli vantar vinnu til að borga til baka lánsféð og útlendinga vantar fjárfestingartækifæri á Íslandi.
(Mér finnst þetta einhvernveginn mjög relevant vangaveltur núna þegar -vinstri stjórnin- bæði opnaði á olíuvinnslu á Drekasvæðinu og á kísilverksmiðju á sama tíma og við áttum öll að notast við eyðilegginguna á Lagarfljóti í kosningabarátunni gegn íhaldinu, til að benda á hverskonar ógeð og hálfvitar þau væru, og trylltir náttúruníðingar. Á sama tíma var í lagi að gefa kapítalistunum aðgang að sjónum. Þversögnin er náttúrlega svo fáránleg að maður er orðlaus. Þetta er skýrt dæmi um það hvernig –gildi- gefast upp fyrir kapítalískri kröfunni um hagvöxt og fjárfestingu uber alles.
Joel Kovel segir í Enemy of Nature þetta um meginstraums umhverfisverndarhreyfingar, mér finnst það líka eiga vel við um vinstri flokkana á Íslandi:
Capital is more than happy to enlist the mainstream [environmental] movement as a partner in the management of nature. Big environmental groups offer capital a threefold convenience: as legitimation, reminding the world that the system works; as control over popular dissent, a kind of sponge that sucks up and constrains the ecological anxiety in the general population; and as rationalization, a useful governor to introduce some control and protect the system from its own worst tendencies, while ensuring the orderly flow of profits.
Joel Kovel, The Enemy of Nature: The End of Capitalism or the End of the World. Zed, 2002, p.154.
Þannig að fyrirbærin Gróði og Vöxtur éta upp og grafa undan öðrum gildum. Náttúrufegurð er einskis virði nema hægt sé að breyta henni í gróða. Sama gildir um menningu, listir, menntun, ást, kynlíf; allt þarf að snúast um gróða.
Um daginn var það Esjan sem í augnablik varð miðpunkturinn í vaxtar og gróðapælingum; fréttir bárust af því að kláfur yrði mögulega settur á Esjuna. Mér sýndist fólk almennt vera jákvætt, afþví að nr. 1 kæmist þá gamalt og/eða fatlað fólk á Esjuna (eins og það væru nú mannréttindi að komast á fjallstopp) og svo vegna þess að ferðamenn sem kæmu til Íslands þyrftu eitthvað meira að gera. Tekið var dæmi um að Gyllti hringurinn og Þingvellir væru illa farnir af of mikilli ásókn ferðafólks og því væri gott að beina straumnum á Esjuna. 200.000 ferðamenn á topp Esjunnar á ári hljóma þá allt í einu vel. Þarna var horft fram hjá því að öll pæling ferðamannaiðnaðarins gengur út á að flytja fleira fólk til landsins, iðnaðurinn gengur fyrir lögmálum kapítalismans um vöxt. Þannig að Esjan getur ekki bjargað Þingvöllum (enda er það auðvitað ekki hlutverk hennar!); með kláf á sér verður Esjan einfaldlega enn annað fórnarlamb bólunnar í túrismanum.
Þannig að já, það er nauðsynlegt að víkka gagrýnina til kerfisins.
Ef gagnrýni á ákveðna tegund kapítalsima, t.d. stórðiðju, inniheldur þennan tón: Gróði er slæmur (endalaus vöxtur er endanleg eyðilegging), en ekki eingöngu þessi tiltekna virkjun eða þessi tiltekni kláfur, er komið tækifæri til að –stækka- baráttuna. Þá er td. hægt að benda á að lókal aksjón sem felst í því að berjast t.d. gegn virkjun í Þjórsá, hefur glóbal implíkasjónir, að barist er ekki eingöngu gegn einu fyrirbæri heldur glóbal fjárfestingartækifærum td. Þannig er líka auðveldara að byggja á fyrri aktivisma, sýna fram á að það eru tengsl milli baráttu gegn stóriðju á Íslandi og vopnaframleiðslu, svo dæmi sé tekið – og að þau tengsl séu ekki tilfallandi eða samsæriskenning, heldur er í báðum tilfellum verið að berjast við sama grundvallarsjúkdóm, gróðahyggjuna; kapítalismann sem verður að vaxa með hvaða ráðum sem er, þangað til veröldin endar.
Þegar maður hefur horft í augu við það horfist maður í augu við að ekkert minna en algjör yfirráð nægja kapítalismanum og að næstum öll þjóðríki eru nú partur af maskínunni. Þannig að umbætur duga á endanum ekki, það er kapítalisminn sem þarf að konfrontera, jafnvel þó að það sé risastór og stundum agaleg staðreynd.