Ávarp Alter Summit ráðstefnunnar í Aþenu 7. og 8. júní 2013

Stefnuyfirlýsing almennings

Sameiginlegar og aðkallandi kröfur okkar um lýðræðislega, félagslega, vistvæna og femíníska Evrópu.

Endum niðurskurðinn, áður en niðurskurðurinn eyðileggur lýðræðið!

Evrópa stendur á bjargbrúninni og starir ofan í hyldýpið. Niðurskurðarstefnan ýtir almenningi í Evrópu útí fátækt, ógnar lýðræðinu og tætir í sundur velferðarkerfið. Neyðarástand ríkir í þeim löndum sem verst verða úti, á meðan vaxandi ójöfnuður eyðileggur samfélagið.

Evrópsk elíta, sem ekki hefur hlotið lýðræðislega kosningu, sýnir sífellt einræðislegri tilburði í þeim tilgangi að halda lífinu í misheppnuðu kerfi nýfrjálshyggjunnar – þrátt fyrir útbreidd mótmæli og mikla andspyrnu. Lýðræðið er í hættu og kynþáttahatur, útlendingafordómar, þjóðernishyggja, fasismi og mismunun (andúð á samkynhneigðum og fordómar gegn konum) verða sífellt meira áberandi. Kreppan dýpkar með hverjum deginum sem líður og ekki er lengur hægt að líta fram hjá möguleikanum á hruni Evrópusambandsins.

Okkar brýnasta verkefni er að koma á raunverulega lýðræði í Evrópu. Um þessar mundir stýra evrópskar ríkisstjórnir fyrir hönd fjármálamarkaða og sama gildir um opinberar stofnanir: þessu verður að breyta. Sigur almannahagsmuna verður að tryggja sem og jafnrétti og réttlæti. Á þessum grundvallaratriðum byggist krafa okkar um lýðræðislega, félagslega, náttúruvæna og femíníska Evrópu , í samstöðu með alþýðu veraldar.

I) Binda skal endi á skuldaþrælkun

Skuldir hins opinbera eru afleiðingar pólítískrar stefnu í hagstjórn sem evrópskar stofnanir og stjórnvöld hafa fylgt í áratugi og fylgja enn. Í áratugi hefur verið fylgt skattastefnu sem hyglir með svívirðilegum hætti fámennum hóp auðmanna og stórfyrirtækja; hið opinbera hefur margsinnis notað almannafé til að bjarga fjármálastofnunum; niðurskurður almannaþjónustu hefur bitnað á fjölskyldum og gert kreppuna dýpri; bankar hafa stundað gegndarlausa spákaupmennsku með opinber skuldabréf meðan spilling og hagsmunaárekstrar hafa sett svip sinn á opinber fjármál.

Víðast hvar eru skuldir heimila til komnar vegna þess að fjármálastofnanir og ríkisvaldið hafa hvatt til skuldsetningar til að viðhalda neyslu meðan rauntekjur fólks hafa staðið í stað eða dregist saman.

Aðgerðir stjórnvalda og Evrópusambandsins eru hannaðar til að neyða almenning til að greiða allar þessar skuldir, sem og skuldir þess opinbera. Þar er horft framhjá því að stór hluti skuldanna eru óréttmætar, þar sem lánin voru tekin án nokkurs tillits til almannahgsmuna og í öðrum tilfellum eru skuldirnar það háar að útilokað er að hægt sé að greiða þær til baka.

Mannréttindi verða að vera í forgangi fram yfir endurgreiðslu skulda, og almannahagsmuni þarf að taka fram yfir hagnað! Við krefjumst þess að skref verði tekin til að forða íbúum Evrópu undan þrýstingi fjármagnsmarkaða og þeim ójöfnuði sem felst í niðurskurði almannaþjónustu. Til að hægt verði að setja almenning í forgang þarf að breyta ríkisfjármálum, skattkerfi og peningamálastefnu svo að almenningi Evrópu verði forðað frá skuldagildrum framtíðarinnar.

Sameiginlegar og aðkallandi kröfur okkar eru:  

  1. Undir eins verði fallið frá þeim aðgerðum sem krafist er í “minnisblaði” troikunnar um skuldug ríki. Þvínæst verði stór hluti opinberra skulda felldur niður, án þess að það skaði hagsmuni smærri fjárfesta og sparifjáreigenda eða lífeyrissjóði. Umfang niðurfellingarinnar skal ákveða í hverju landi með lýðræðislegum hætti. Í þessu ferli á almenningur að fá að koma að endurskoðun og bókhaldi hins opinbera.
  2. Endurgreiðsla þeirra skulda sem ekki eru felldar niður verður að vera með þeim skilyrðum að ekki sé gengið á umhverfið, heilbrigðri efnahagsþróun stefnt í voða eða félagslegum og efnahagslegum réttindum ógnað, heldur að efla megi almannaþjónustu og draga úr atvinnuleysi og fátækt.
  3. Leggja verður á tímabundinn auðlegðarskatt sem færir eignir frá auðugustu þjóðfélagshópunum til þeirra sem minna hafa.
  4. Lán Seðlabanka Evrópu og annarra evrópskra fjármálastofnana til aðildarríkja verða að vera á lágum vöxtum og lúta lýðræðislegri stjórn, án nokkurra skilyrða um niðurskurð, einkavæðingu eða önnur stefnumál nýfrjálshyggjunnar.

II) Í þágu efnahagslegrar og félagslegrar Evrópu: endið niðurskurðinn!

Grimmilegar aðhaldsaðgerðir stofnana Evrópusambandsins og ríkisstjórna margra Evrópuríkja, sérstaklega í suður- og austurhluta álfunnar, hafa verið réttlættar með nauðsyn þess að greiða niður skuldir. Heilu þjóðirnar eru hnepptar í ánauð, mikilvæg opinber útgjöld skorin niður og rannsóknir og fjárfestingar í menntun sem geta skapað betri heim eru vanræktar.

Aðhaldsaðgerðir evrópskra stofnana og stjórnvalda hafa skapað neikvæðan spíral, grafið er undan efnahagslífi, fjárlagahalli eykst, skuldir og atvinnuleysi aukast og umhverfisváin versnar. Á sama tíma hefur fámennur minnihluti haldið áfram að auðgast.

Nú er svo komið að helmingur auðæfa Evrópu er í eigu 10% íbúa álfunnar. Stefna stjórnvalda miðar í raun að því að viðhalda þessum ójöfnuði og efnahagsstefnu frálshyggjunnar sem eyðileggur vistkerfi jarðar auk þess að grafa undan borgaralegum og félagslegum réttindum almennings.

Við krefjumst þess að snúið verði baki við þessum aðgerðum og stefnum, og að unnið verði að annarskonar samfélagi sem tryggir félagslega velferð, jafnrétti, réttláta skiptingu auðs, sjálfbærni vistkerfisins og verndun á sameignum þjóða.

  1. Nú þegar verður að vinda ofan af niðurskurði og aðhaldsaðgerðum hins opinbera sem steypa Evrópu í æ dýpri efnahagskreppu. Afnema verður samninga og löggjöf sem liggja til grundvallar, svo sem sáttmála um samkeppnishæfni sem nú eru til umræðu. Ríkisfjármál eiga að lúta lýðræðislegri stjórn.
  2. Tryggja verður að skattkerfi séu þrepaskipt og réttlát, og að skattar á eignir, eignatekjur og hagnað fyrirtækja séu skattlagðir með sama hætti í öllum Evrópuríkjum. Neysluskattar verði ekki hækkaðir, notkun skattaskjóla verði bönnuð og að gripið verði til harðari aðgerða gegn skattaundanskotum og svikum.
  3.  Þróa verður opinberar fjárfestingaráætlanir fyrir öll Evrópuríki svo hægt sé að byggja upp samfélag sem reiðir sig á iðnað og landbúnað sem getur skapað milljónir nýrra starfa en um leið brugðist við þeirri vistfræðilegu kreppu sem blasir við. Slíkar áætlanir verða að byggja á sjálfbærni og miða að almannahagsmunum, jafnframt því að skorið verði niður í útgjöldum til hernaðar. Fjárlög Evrópusambandsins skulu sömu leiðis taka mið af þessum markmiðum.
  4. Efla verður almannarýmið, bæði í borgum og í ósnortinni náttúru, jafnt sem hið borgaralega rými í samfélaginu. Sömu leiðis verður að efla alla almannaþjónustu og sjá til þess að samfélagið tryggi almenningi aðgang að undirstöðugæðum, þar á meðal heilbrigðisþjónustu, menntun, almannatryggingum, almenningssamgöngum, félagslegu húsnæði, vatnsveitum og orkuveitum. Öll slík almannaþjónusta á að vera undir lýðræðislegri stjórn og í eigu hins opinbera eða með öðrum hætti sameign almennings.

III) Réttindi fyrir alla: nei við fátækt og óvissu!

Niðurskurður almannaþjónustu er árás á almenning og réttindi alþýðunnar. Hann leiðir til lakari lífskjara og í mörgum löndum hefur niðurskurður leitt til bráðrar krísu. Afleiðingarnar eru fjöldaatvinnuleysi, lakari lífskjör og eyðilegging náttúrunnar.

Undir yfirskini þess að verið sé að bregðast við yfirstandandi kreppu hefur verið gengið enn lengra á þessari braut. Ráðist er á réttindi verkafólks og stéttarfélög, þar á meðal samningsrétt þeirra. Í nafni samkeppnishæfni eru hagsmunir verkamanna og almennings borin fyrir borð en hagnaður hafinn til skýjanna.

Kvennastéttir hafa orðið sérstaklega illa úti þegar ráðist er á rétt verkafólks. Það fellur einnig fyrst og fremst á herðar kvenna að bregðast við niðurskurði í velferðarþjónustu, þjónustu við aldraða og börn. Niðurskurður og aðhaldsaðgerðir stjórnvalda hafa fyrst og fremst bitnað á þeim sem búa við hvað lökust kjör; lífeyrisþegum, atvinnulausum og innflytjendum. Heil kynslóð evrópskra ungmenna þarf að kljást við áður óþekkta félagslega hnignun.

Hverri manneskju skal tryggja lýðræðisleg, efnahagsleg, vistfræðileg og félagsleg réttindi, með starfi og tekjum sem nægja til þess að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi:

  1. Tryggja verður samningsrétt verkamanna og verkfallsréttinn. Almennir kjarasamningar sem felldir hafa verið úr gildi vegna aðhaldsaðgerða skulu teknir upp aftur, staðlar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skulu virtir og endi skal bundinn á hættulegar vinnuaðstæður.
  2.  Binda skal endi á félagsleg undirboð í Evrópu: þetta skal gert með því að byggja upp sameiginlegan grundvöll og lágmarksviðmið þegar kemur að velferðarmálum, almannatryggingum og efnahagslegum réttindum, þ.m.t. húsnæði og heilsugæslu.
  3. Vernda skal réttindi skuldsettra heimila og tryggja verður rétt almennings til að búa í mannsæmandi húsnæði. Banna verður útburði og nauðungarsölur á heimilum fólks sem ræður ekki við að borga skuldir sínar.
  4.  Laun verður að hækka og tryggja þarf mannsæmandi lágmarkslaun, annað hvort með löggjöf eða almennum kjarasamningum.
  5. Tryggja verður launajafnrétti, jöfn lífeyrisréttindi og jöfn tækifæri til frama og lífsfyllingar í starfi. Leggja verður skýlaust bann við misnunun á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, þjóðernis eða uppruna.
  6. Stytta verður vinnutíma án þess að því fylgi launaskerðing, og tryggja verður að ógreidd umönnunar- og heimilsstörf deilist með réttlátum hætti á milli fólks. Tryggja verður viðunandi vinnuaðstæður fyrir alla. Setja verður þak á leyfilegan launamun innan hvers fyrirtækis.
  7. Banna verður fyrirtækjum sem rekin eru með hagnaði að ráðast í stórfelldar uppsagnir.

IV) Í þágu lýðræðislegs efnahagskerfis: bankar skulu þjóna almannahagsmunum.

Hrun einkarekinna banka haustið 2008 var engin tilviljun, heldur bein afleiðing þess að fjármálakerfið þjónar eingöngu fjármagnseigendunum og spákaupmönnum, ekki almenningi. Á undanförnum áratugum hafa ríkisstjórnir lagt blessun sína yfir þetta fyrirkomulag og greitt götu þess með því að verða við öllum kröfum fjármálafyrirtækja. Félagslega reknar fjármálastofnanir, ríkisbankar, samvinnubankar og sparisjóðir, sem áður þjónuðu almannahag og stjórnuðust ekki af gróðasjónarmiðum hafa verið einkavæddar.

Viðbrögð stjórnvalda við kreppunni var að dæla milljörðum evra í fjármálakerfið til að bjarga bönkum á kostnað almennings. Milljörðum hefur verið veitt til fjármálastofnana án þess að þeim fylgi neinar kvaðir. Með þessu hefur gróðadrifin fjármálaþjónusta verið efld enn frekar.

Bankarkerfið verður að þjóna almannahagsmunum, samfélaginu og umhverfinu. Héðan í frá skulu stofnanir Evrópusambandsins og ríkisstjórnir álfunnar gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að binda endi á óhófleg völd fjármálastofnana. Þetta skal gera með ströngu regluverki og með því að tryggja lýðræðisleg áhrif almennings á stjórn stærstu banka.

Sameiginlegar og aðkallandi kröfur okkar eru:

  1. Algjör aðskilnaður viðskiptabanka og fjárfestingabanka;
  2. Taka skal til endurskoðunar misvægið í veittum tryggingum til fjármálafyrirtækja í einkaeign og koma á opinberu eftirliti með bankaþroti til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess fyrir efnahagslífið; ef bankar eru of stórir til að fara í þrot – “too big to fail” – skal leita allra viðegandi leiða til að fyrirbyggja slík neikvæð áhrif.
  3. Setja stranga reglugerð með fullnustuákvæðum svo hægt sé að beina lánum í farveg sem stuðlar að jákvæðri þróun samfélagsins: atvinnusköpun í góðum takti við samfélagsleg markmið og umhverfið.;
  4. Stuðla að því að til verði almennt lánakerfi með sameignarfyrirkomulagi og undir raunverulegu félagslegu eftirliti;
  5. Banna öll viðskipti við skattaskjól. Banna skuggabankastarfsemi og öll önnur form á braski utan efnahagsreiknings. Skattleggja öll fjármagnsviðskipti og hemja á ný flæði fjármagnsins ef nauðsynlegt reynist. Koma á gegnsæji og afnema reglur um bankaleynd.

Verjum lýðræðið!

Undir því yfirskini að brugðist sé við kreppunni hafa stjórnvöld í Evrópu lagt upp í einhverja alvarlegustu atlögu að lýðræðinu sem íbúar álfunnar hafa upplifað frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Lýðræðisleg umræða er þögguð og ýtt er undir klofning á milli þjóðfélagshópa og þjóða. Hin fyrirsjáanlega afleiðing er sú að hægriöfgaflokkar sækja í sig veðrið, fylgi fasískra hreyfinga eykst sem og andúð á innflytjendum. Þessa þróun er ekki hægt að stöðva nema undið verði ofan af niðurskurði og lýðræðislegar stoðir samfélagsins styrktar.

Helstu fórnarlömb þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið eru viðkvæmustu og varnarlausustu íbúar álfunnar. Þeir hafa þurft að bera byrðarnar af fjármálahruninu og vegna uppgjafar stjórnvalda gagnvart fjármálastofnunum. Mikilvægasta verkefni okkar er að verja lýðræðið. Við höfum val um þjóðfélagsskipulag: okkur ber að breyta valdahlutföllunum þannig að hægt sé að breyta samfélagsskipaninni og endurbyggja raunverulegt félagslegt og efnahagslegt lýðræði í Evrópu.

Vegna þess að við viljum lýðræðislega stjórnarhætti, ekki teknókratíska stjórnun.

Vegna þess að við viljum raunverulegt lýðræði og fullveldi, ekki forystu sjálfskipaðrar elítu.

Vegna þess að við neitum því að byggja velmegun Evrópu á kúgun annara þjóða og misnotkun á náttúrunni, og við höfnum Evrópu sem ýtir undir og tekur þátt í átökum og vígvæðingu.

Vegna þess að við viljum binda endi á kúgun á konum og afnema feðraveldið:

Erum við staðráðin í því að byggja upp baráttuhreyfingu fyrir lýðræðislegri, félagslegri, vistvænni og femínískri Evrópu!

Markmið okkar er að styðja og styrkja baráttu almennings; við komum saman til að berjast fyrir ofangreindum kröfum og til að gera þær að raunveruleika með aðgerðum í hverju landi fyrir sig og með sameiginlegum evrópskum aðgerðum ..

Alter Summit ráðstefnan í Aþenu þann 7. og 8. júní 2013 er afgerandi skref í þessa átt.

www.altersummit.eu

info@altersummit.eu


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir