Raunverulegar líkur eru á því að róttæk vinstri sinnuð stjórn taki við völdum á Grikklandi eftir kosningarnar sem haldnar verða þann 25. janúar næstkomandi. Stjórnmálasamtökin Syriza, bandalag evrópukommúnista, frjálsra félagasamtaka og and-hnattvæðingarsinna, njóta mikilla vinsælda.
Almenn skoðun aktivista og félaga í Syriza er að flokkurinn muni sigra í kosningunum og skipa nýja ríkisstjórn. Syriza sigraði í kosningum til þings Evrópusambandsins síðastliðið sumar og náði jafnframt töluverðum árangri í sveitastjórnarkosningum. Flokkurinn hefur haft forystu í skoðanakönnunum síðustu mánuði, mældist td. með 29 prósenta fylgi seint í desember. Kosningalög Grikklands hygla þeim flokki sem flest atkvæði hlýtur og gerir honum mögulegt að ráða yfir afgerandi meirihluta með 35 til 40 prósent atkvæða, eftir því hversu margir flokkar ná kosningu á þing.
Að sjálfsögðu er sigur ekki öruggur. Líklegast er að Syriza vinni kosningarnar án þess að ná hreinum meirihluta. Fram að kosningadegi mun flokkurinn verða fyrir holskeflu hræðsluáróðurs. Á þessari stundu er líklegast að Syriza verði að mynda bandalag með öðrum flokkum til að komast í ríkisstjórn.
Vandi Syriza er að engir líklegir samstarfsflokkar eru til staðar: Kommúnistaflokkur Grikklands, KKE, sem bauð fram til kosninga árið 2012 undir slagorðinu -Ekki treysta Syriza- hefur útilokað nokkuð samstarf. Jafnaðarmannaflokkurinn Pasok er í djúpri kreppu, hefur misst fjölda kjósenda yfir til Syriza og er af þeim sökum hatrammur andstæðingur. Pasok stendur hins vegar frammi fyrir möguleikanum á klofningi á milli formannsins Evangelos Venizelos og fyrrrum formanns og forsætisráðherra, Giorgos Papandreou. Gríska flokkakerfið er almennt mjög óstöðugt og óvíst er hvaða flokkar ná kosningu.
Ef Syriza nær ekki hreinum meirihluta í kosningunum, getur það gerst að elítur Evrópusambandsins beiti aðra flokka – líklegast að undanskildum KKE og Gullinni dögun – þrýstingi til að mynda svokallaða þjóðarstjórn gegn Syriza. Nýleg dæmi eru slík afskipti. Í nóvember 2011 var, að undirlagi þáverandi forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jose Manuel Barroso, mynduð teknókratísk stjórn í Grikklandi, undir forrystu fyrrum seðlabankastjóra, í þeim tilgangi að halda áfram niðurskurðarverkefninu. Þessi stjórn sat með samþykki hinna hefðbundum meginstraumsflokka, Pasok og Nýs lýðræði. Þrátt fyrir þetta eru félagar og aktivistar í Syriza bjartsýn – og sagan sýnir að þau geta náð lengra en reiknað er með.
Ef Syriza myndar ríkisstjórn…
Ef að Syriza tekst að mynda ríkisstjórn bíða gríðarmiklar áskoranir bæði innanlands og á evrópskum vettvangi. Á Grikklandi mun flokkurinn mæta hatrammri andstöðu frá stórfyrirtækjum, niðurskurðarflokkunum og grískum fjölmiðlum. Grísk efnahagselíta gæti notfært sér lög Evrópusambandsins til að vinna gegn Syriza, td. með því að höfða mál fyrir Evrópudómstólnum gegn endurskipulaggningu grískra banka.
Fyrir flokkinn sjálfan getur það að komast til valda skapað álag á samband forystunnar og stuðningsmanna, og breytt gangverki flokksins. Syriza verður að finna jafnvægi á milli tveggja hlutverka – þess að vera trúverðugur valkostur við valdaöflin í samfélaginu og þess að setja fram áætlun um myndun ríkisstjórnar.
Grikkland er sérstaklega viðkvæmt fyrir utanaðkomandi þrýstingi frá elítu Evrópusambandsins. Í stað þess að nota hótanir til þess að koma í veg fyrir að Syriza komist til valda líkt og gert var í kosningunum 2012 (þegar Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, kallaði Syriza lýðskrumara og forseti Frakklands, François Hollande, varaði Grikki við því að önnur lönd myndu vilja losna við Grikkland úr evrusamstarfinu ef Syriza sigraði kosingarnar), búast margir félagar Syriza við því að nú muni andstæðingar flokksins innan Evrópu fara sér hægar. “Þau munu ekki gera okkar þann greiða að standa gegn okkur opinberlega. Í þetta skipti væri það gott fyrir okkur ef þau væru fjandsamleg”, segir Andreas Karitzis, meðlimur miðstjórnar Syriza.
Evrópsk elíta gæti þess í stað ákveðið að leyfa Syriza að komast til valda til þess að láta flokknum mistakast, annað hvort með því að beita stjórnina gríðarlegum þrýstingi eða gera tilraun til að spilla flokknum. Hið síðarnefnda gerði það að verkum að niðurskurðarverkefninu yrði haldið áfram en kæmi jafnframt í veg fyrir að vinstrisinnað fólk og hreyfingar í Evrópu gætu fylgt liði að baki Syriza og Grikklandi.
John Milios, prófessor í stjórnmálahagfræði og þingmaður fyrir Syriza, telur seinni kostinn þann líklegri: “Ég held að þau muni reyna að gera Syriza það sem þau gerðu vinstri flokkunum á Ítalíu, sem voru mjög vinstrisinnaðar þegar þeir voru í stjórnarandstöðu og mjög hallir undir nýfrjálshyggju þegar þeir voru við völd… Þetta þýðir að við verðum að fara mjög varlega innan flokksins. Samkvæmt marxismanum eru stéttaátök allsstaðar, jafnvel innan flokksins. Þessvegna er nauðsynlegt að vinnuaflið skipuleggi sig, styðji flokkinn og leggi sjálft fram tillögur.”
Karitzis hefur þá skoðun að evrópsk elíta muni treysta á niðurskurðar stjórnarfyrirkomulagið sem til hefur orðið undanfarin ár, með tilkomu nýrra stofnanna og samkomulaga. “Þau munu samþykkja okkur, ganga til samninga við okkur í upphafi. Þau munu segja: -Sjáum hvað þið getið gert. Það eru reglur til staðar sem þið getið ekki brotið, samningar sem þið verðið að virða.- Þau eru sannfærð um að ómögulegt sé fyrir nokkra stjórn að breyta ástandinu sem komið hefur verið á síðan 2012.”
En Syriza ætlar sannarlega að reyna. Eitt það fyrsta sem flokkurinn gerir, komist hann til valda, verður að kalla saman alþjóðlega ráðstefnu um skuldir ríkja og krefjast skuldaniðurfellingar á grískum og evrópskum ríkisskuldum. Evrópskar ríkisstjórnir og stofnanir mæta sennilega til saminga án þess að gefa nokkuð eftir. Karitzis segir: “Þau eru sannfærð um að við göngum að málamiðlun, að við höfum ekki mikinn tíma, af þeim sökum verða þau ekki mjög óvinveitt í byrjun samingaviðræðna.” Giorgos Chondros, sem er í forsvari fyrir umhverfisdeild flokksins, telur að samningaviðræður verði langdregnar. “Við þurfum ekki aðeins að takast á við gríska elítu, heldur einnig þá evrópsku. Þetta gerir það að verkum að aðstæður okkar eru þeim mun erfiðari. Við þurfum á stuðningi samtaka og hreyfinga um alla Evrópu að halda.” John Milios býst við “sálfræðihernaði” frá háttsettu fólki í Evrópusambandinu sem og kröfuhöfum.
Að öllum líkindum munu Grikkir brjóta einhverjar af reglum ESB um hallarekstur á ríkissjóði. “Það leikur enginn vafi á því að þær upphæðir sem okkur eru sýndar um stöðu grískra ríkisfjármála, um stöðu bankanna, eru allar falsaðar,” segir Yanis Varoufakis, hagfræðiprófessor og ráðgjafi Syriza. Hið raunverulega ástand opinberra fjármála kemur sennilega í ljós þegar ríkisstjórn Syriza tekur við völdum.
Undirbúin fyrir hótanir bankamanna
Meðlimir Syriza halda því fram að vegna efnahagslegra ástæðna geti evrusvæðið ekki losað sig við Grikkland. En evrópsk elíta gæti beitt annars konar þrýstingi: Hægt væri að koma af stað bankaáhlaupi á gríska banka. Hægt væri að sverta ímynd Grikklands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Seðlabanki Evrópu gæti hætt að skila til baka hagnaði af vöxtum á grískum ríkisskuldabréfum.Grikkland gæti fengið færri styrki vegna verkefna til uppbyggingar á innviðum landsins, líkt og vegakerfinu – samkvæmt Varoufakis hefur verið slakað á regluverkinu í kringum slíka styrki til að styðja við núverandi stjórnvöld á Grikklandi, sem þýðir að hægt væri að herða reglurnar á ný til að skaða stjórn Syriza.
Þeim sem fjárfest hafa í grískum ríkisskuldabréfum hefur verið gefið til kynna með -blikki- frá Berlín að fari svo að Grikkland geti ekki borgað muni skuldin engu að síður fást greidd. Varoufakis segir ” þau gætu alveg eins farið hina leiðina til að auka efnahagslegan þrýsting á vinstrisinnaða ríkisstjórn.” Allar þessar aðgerðir gætu skaðað getu Syriza til að standa við mikilvæg loforð um að koma aftur á ókeypis heilbrigðiskerfi, hækka lægstu ellilífeyrisgreiðslur og koma á leigubótakerfi.
Líklegast er alvarlegasta aðgerðin sú að Evrópski seðlabankinn hóti því að hætta að veita lausafé til grískra banka. Varoufakis lýsir þessu sem “kjarnorkusprengju” sem myndi, því sem næst samstundis, gera það að verkum að gríska bankakerfið hryndi. Þetta væri öfgafullt en ekki óhugsandi: Í desember 2014 hótaði í raun Evrópski seðlabankinn því að skrúfa fyrir fé til grískra banka nema ríkisstjórnin færi að vilja Troikunnar. Varoufakis er sannfærður um að taki Syriza við völdum verði stjórnin að búa sig undir slíkar kúganir, ætli hún að endast nógu lengi til að semja upp á nýtt fyrir hönd Grikklands.
Þrátt fyrir allar þessar áskoranir ríkir bjartsýni hjá meðlimum Syriza. Jafnvel þó að mörg þeirra telji mögulegt að ríkisstjórnin endist aðeins í nokkrar vikur, segja þau að líkurnar séu betri nú en árið 2012. Þau sjá klofning innan bandalags nýfrjálshyggjuaflanna sem hægt er að notfæra sér, eins og td. hræðslu Evrópska seðlabankans við verðhjöðnum, stöðu ítalska forsætisráðherrans, Matteo Renzi og deilurnar innan frönsku ríkisstjórnarinnar.
Með því að ná völdum og byrja að framkvæma stefnu flokksins, vonast Syriza til þess að hraða núverandi umræðu, sérstaklega í röðum evrópskra sósíaldemókrata og verkalýðsfélaganna.
“Aðalmálið er að styðja við sjálfsöryggi samfélagsins, að berjast gegn þeirri hugmynd að við séum algjörlega uppá aðra komin og að við ráðum ekki við að gera áætlanir sem samfélag,”segir Alexandros Bistis, aðalkosningastjóri Syriza. Andreas Karitzis telur að hætta sé á því að evrópsk samfélög samþykki að þau séu ekki frjáls til að ráða neinu um efnahagsstjórn. “Við lifum á sögulegum tímum þar sem við verðum að berjast fyrir þeim gildum sem við trúum á, eins og lýðræði, frelsi, virðingu” segir Andreas. “Við eigum að reyna að vekja von hjá fólki.”
Lisa Mittendrein og Valentin Schwarz eru meðlimir í Attac Austurríki og þátttakendur í samstöðuherferð með grísku vinstri öflunum. Þessi grein byggir á rannsókn fyrir skýrslu þeirra Með Grikklandi fyrir Evrópu: Hversvegna stuðningur við gríska vinstrið er nauðsynlegur núna, sem hægt er að nálgast ókeypis hér.
Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir