Blair ehf.

Um hádegisbil, 11. október síðastliðinn, hóf Nicolas Sarkozy feril sinn í New York sem upphafinn, hálaunaður fyrirlesari. Boð um slíkar uppákomur (launin eru ca 100.000 evrur) höfðu hlaðist upp á skrifborði fyrrum forseta franska lýðveldisins: samkvæmt tímaritinu l’Express hefur hann fengið “sjötíu slík tilboð síðan hann yfirgaf Elysée-höllina í maí sl.”(3. Okt. 2012)

Er það að gegna æðstu embættum þjóða einungis skref í átt að starfsframa sem byggir á auðsöfnun einstaklingsins? Það var alla vega á þessum nótum sem Sarkozy velti fyrir sér framtíð sinni 2008, þegar hann ætlaði sér ekki að sækjast eftir endurnýjuðu umboði sem forseti: “2012 verð ég orðinn 57 ára og býð mig ekki aftur fram. Og þegar ég horfi á alla milljarðana sem Clinton vinnur sér inn sé ég mig fyrir mér með fulla vasa fjár! Ég verð í embætti næstu fimm árin og síðan fer ég að safna peningum eins og Clinton”[1]Le Point, París, 3. Júlí 2008.

Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, skuldaði 11 milljónir dollara þegar hann yfirgaf Hvíta húsið í janúar 2001 og gerðist “rithöfundur og fyrirlesari”. Á einu ári höfðu árlegar tekjur Clintonhjónanna aukist úr 358.000 í 16 milljónir dollara, þökk sé fyrirframgreiðslu vegna endurminninga hans og ríkulegri gjaldtöku fyrir fyrirlestra.

Í þröngum heimi fyrrum þjóðhöfðingja er ný-framabraut Anthony Blair fyrrum forsætisráðherra Bretlands (1997-2007) ein sú best heppnaða. Pólitískur ferill hans, sem var bæði stormasamur og svipmikill – hann hófst í vinstri armi Verkamannaflokksins og honum lauk, á tímum Írakstríðsins, með algerri hlýðni við Bandaríkjastjórn og fékk hann því viðurnefnið “kjölturakki George Bush” – opnaði honum framtíð þar sem mannúð og ábatasöm viðskipti áttu góða samleið.

Hið góða og hið illa, smjaður og prinsipp, einkenna “Blairkerfið”. Hann játar í æviminningum sínum að hann hafi “alla tíð haft meiri ástríðu fyrir [trúarbrögðum] en stjórnmálum”[2]Tony Blaire, A Journey: My Political Life, Knopf, New York, 2010, bls. 654. Varla var hann hættur sem forsætisráðherra að hann fór á fund Benedikts XVI til að upplýsa páfann um að hann vildi yfirgefa biskupakirkjuna og snúast til kaþólsku – það vantar kannski guðfræðilegan strangleika í Ensku kirkjuna því til hennar var stofnað svo kóngurinn, Henri VIII (1491-1547), gæti skilið en páfinn hafði bannað honum það. Meðal allra þeirra stofnana og góðgerðarsamtaka sem Blair hefur komið á fót má finna Trúarstofnun hans – Tony Blair Faith Foundation – sem hefur það “markmið að stuðla að virðingu og skilningi milli trúarbragða” við hliðina á öðrum með pólitískari köllun eins og Afríkustofnun hans – The Africa Governance Initiative – sem ætlar sér að “bæta skilvirkni stjórnsýslunnar þar”. En markmiðið er alltaf það sama: koma á framfæri við fjölmiðla góðverkum fyrrum húsráðanda í Downingstræti 10 og tryggja honum stöðugt tekjuflæði í evrum, dollurum og öðrum gjaldmiðlum.

En Blair er ekki jafn opinskár um aðra starfsemi sína: leit hans að ábatasömum samningum og tæling áhrifamikilla og auðugra viðskiptavina. Á milli þess sem hann bjargar fuglum og stundar trúboð hefur hann stofnað fyrirtæki sem lúta ekki jafn óeigingjörnum hvötum. Þannig er t.d. félagið Tony Blair Associates sem hefur að markmiði “að bjóða fram, með viðskipti að leiðarljósi, strategíska ráðgjöf um stjórnmála- og efnahagsstefnu og umbætur í ríkismálum” og fjárfestingarfélagið Firerush Ventures N° 3. Þessi fyrrum leiðtogi Verkamannaflokksins útdeilir sínum góðu ráðum til bandaríska bankans JP Morgan, svissneska tryggingarfélagsins Financial Services, ríkisstjórnar Kuvæt, Abou Dhabi-íska fjárfestingasjóðsins Mubadala, ásamt fjölda annarra alþjóðlegra fjármálastofnana og ríkja – og hefur sérstakt dálæti á ólígörkum og kleptókrötum í Austurlöndum nær, Afríku og fyrrum Sovétríkjum. Fengur þessa fyrrum þjóðhöfðingja eftir starfsskiptin er metin einhversstaðar á bilinu 20 til 60 milljónir punda (5 til 12 milljarðar íslenskra króna).

Blair segist “sárna” þegar honum er lýst sem gírugum fjármálamanni: “Ég ver tveim þriðju tíma míns í sjálfboðaliðastarfi eða í friðarferlið í Austurlöndum nær sem einnig er án þóknunar.” Áður en hann bætir því við að hann gæti “þénað enn meiri pening”[3]The Daily Telegraph, London, 30. September 2011. ef hann í raun sæktist eftir því…

Stofnandi New Labour hefur aldrei vikið af sviði stjórnmálanna. 27. júní 2007, daginn sem hann sagði af sér sem forsætisráðherra í samræmi við ársgamlan samning gerðan við fjármálaráðherra sinn Gordon Brown um að Brown tæki við stjórnartaumum, varð Blair fulltrúi Kvartetsins (Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Rússlands og Sameinuðu þjóðanna) í Austurlöndum nær. Hlutverk hans var að fylgja eftir “friðarferlinu milli Ísraels og Palestínumanna” og bæta lífsskilyrðin á herteknu svæðunum. Hann er sjaldan á vettvangi og að meta störf hans þar – sem aðallega felast í tárvotum hvatningum til beggja aðila um að sýna góðan vilja – sem “léttvæg” eru talsverðar ýkjur.

Þetta hlutverk hans gegnir samt mikilvægu hlutverki í kerfi þar sem sjálboðaliðastörf reynast mjög svo arðvænleg. Kvartetinn nær yfir allt það sem skiptir máli jafnt á pólitíska sviðinu sem og því efnahagslega. Blair hefur því hvenær sem er aðgang að hvaða ráðamanni/stjórnanda sem er, þar á meðal (og ekki síst) einræðisherrum Flóans, helsta fjárhagslega bakhjarli Palestínumanna. Þannig vinna saman tengslanetið sem hann kom sér upp þau tíu ár sem hann var húsbóndi í Downingstræti 10, og fyrirsláttur til sambanda sem hin fjölmörgu góðgerðarsamtök sem hann hefur stofnað bjóða upp á. “Blair-merkið” blandar þannig saman ólíkum þáttum, einkenni háþróaðs kapítalisma, og selur aðgang að sér dýrum dómum.

Le Monde (29. september 2012) skýrði til dæmis frá því hvernig Blair kom að því að auðvelda opinbert útboð hráefnisrisans Glencore á námufélaginu Xstrata en annar stærsti hluthafinn er nú opinberi fjárfestingasjóðurinnn Qatar Holding. “Í guðanna bænum gerðu eitthvað til að hrífa Qatar-liðið” grátbað Ivan Glasenberg. “Samstundis” segir dagblaðið, hringdi Blair í vin sinn Hamad Ben Jassim Al-Thani forsætisráðherra gas-furstadæmisins og forstjóra Qatar Holding: “Í lok samtalsins var tekin ákvöðun um stefnumót beggja aðila í London”. Opinbera útboðsferlinu átti að ljúka í lok nóvember. Og hvað fékk Blair fyrir viðvikið? “Ríflega milljón punda (rúmlega 200 milljónir kr.) … fyrir þriggja stunda vinnu”.

Þjónusta slíks aðila, sem aldrei hefur unnið í einkageiranum, vekur áhuga jafnt fyrirtækja sem leita eftir ábatasömum samningum á erfiðum mörkuðum sem og spekúlanta í leit að vísbendingum (ef ekki innherjaupplýsingum). Og önnur þverstæða: þessi markaðsetning í nafni eins manns, felur í sér starf fjölda aðstoðarmanna sem sumir hverjir voru í innsta hring forsætisráðherrans, á meðan aðrir koma frá City eða Wall Street eða sinna verkefnum fyrir mikils metin ráðgjafafyrirtæki.

Slíkur samtvinningur kemur ekki alltaf í veg fyrir klaufaskap. Sem forsætisráðherra ábyrgðist Blair “umskiptin” á Mouammar Kadhafi í samkvæmishæfan þjóðhöfðingja – með þeim árangri sem er velkunnur. Í sínu nýja hlutverki sem milligöngumaður fór hann margar heimsóknir til Trípolí sem fjármálaráðgjafi fjölskyldu Líbíuforseta og sem ráðgjafi JP Morgan bankans. Árleg þóknun hans fyrir það verkefni er metin á tvær milljónir punda. Nær okkur í tíma hóf hann viðskipti við Noursoultan Nazarbaïev, sem stýrir Kazakhstan harðri hendi, en þar náði hann endurkjöri árið 2011 með meira en 95% greiddra atkvæða. Þetta er allt gert í þágu góðra málefna! sver Blair sem fær 8 milljón pund árlega fyrir að “móta stjórnsýsluna” og “endurbæta stjórnarhættina” í þessu lýðveldi á umbreytingarskeiði[4]The Daily Telegraph, London, 22. Október 2011.

Fellur ekki skuggi á hugmyndir okkar um lýðræðið þegar opinber þjónusta er ekki lengur markmið í sjálfu sér heldur einungis skref í framtíðaráætlun um frama, með sjálfsauðgun eina að leiðarljósi? Eins og “superlobbyistinn” fyrrverandi, Jack Abramoff, hefur upplýst okkur um þá er besta vopn fyrirtækja til að spilla stjórnmálamönnum að gylla fyrir þeim horfur á framtíðarstarfi sem tryggir þeim vænar fúlgur í vasann[5]Jack Abramoff, Capital Punishment: The Hard Truth About Washington Corruption From America‘s Most Notorious Lobbyist, WND Books, New York, 2011..

Í nýlegri grein um kosti mannúðarstarfseminnar útlistaði Blair fyrir okkur hvað það “að starfa utan þröngra, lúinna, takmarkana ríkisstjórna væri gefandi, örvandi og gerði [honum] mögulega kleift að hafa meiri áhrif en þegar [hann var] í pólitík”. (Huffingtonpost 16. Apríl 2012, Tony Blair: In Favour of Philanthropy).


Ibrahim Warde er prófessor við Fletcher School of Law and Diplomacy. Le Monde Diplomatique birtir reglulega greinar hans. Þessi grein birtist upphaflega í Le Monde Diplomatique i nóvember 2012

References

References
1 Le Point, París, 3. Júlí 2008
2 Tony Blaire, A Journey: My Political Life, Knopf, New York, 2010, bls. 654
3 The Daily Telegraph, London, 30. September 2011.
4 The Daily Telegraph, London, 22. Október 2011
5 Jack Abramoff, Capital Punishment: The Hard Truth About Washington Corruption From America‘s Most Notorious Lobbyist, WND Books, New York, 2011.