Andófshreyfingar í Evrópu mótmæla veitingu Friðarverðlauna Nóbels til ESB

Ákvörðun norsku Nóbelsnefndarinnar að veita Evrópusambandinu Friðarverðlaun Nóbels vekur furðu almennings í Suður Evrópu sem hefur að undanförnu mótmælt þeim árásum á lýðræði og frelsi sem “Stöðuleikasáttmáli” Evrópusambandsins felur í sér. Evrópusambandið hefur hvorki mætt milljónum atvinnuleysingja álfunnar með friði og sáttfýsi, né öllu því fólki sem hefur þurft að þola launalækkanir og niðurskurð á lífeyri eða þeirrar glötuðu kynslóðar ungs fólks sem horfir nú fram á mjög erfiða og ótrygga framtíð vegna efnahagsstefnu sambandsins.

Luis Bernardo frá Attac samtökunum í Portúgal lýsir neikvæðum viðbrögðum margra þar í landi vegna verðlaunaveitingarinnar. “Þó ESB aðild hafi fært Portúgölum margt gott þá er Framkvæmdanefnd ESB meðlimur þess þríeykis sem um þessar mundir þröngvar róttækum niðurskurði og aðhaldsaðgerðum upp á lönd í Suður Evrópu. Við berum vissulega virðingu fyrir Evrópusambandinu sem mikilvægri alþjóðastofnun, en það verður ekki horft fram hjá því að sem stendur er sambandið að þröngva efnahagsstefnu nýfrjálshyggjunnar upp á aðildarríkin í Suður Evrópu, stefnu sem er uppspretta fátæktar og atvinnuleysis. Með ákvörðun sinni hefur norska Nóbelsnefndin því sýnt fádæma smekkleysi.”

Ungmenni, verkalýður og lífeyrisþegar í mörgum aðildarríkjum ESB þurfa að takast á við afleiðingar harðneskjulegs niðurskurður á sama tíma og íbúar þessara landa hafa glatað rétti sínum til að stjórna eigin ríkisfjármálum í gegnum lýðræðislegar stofnanir landanna.

Mótmælum gegn niðurskurði og misheppnaðri efnahagsstefnu ESB er mætt með lögregluofbeldi og árásum á lýðræðisleg réttindi almennings. Á Spáni eru stjórnvöld að undirbúa löggjöf sem beint er gegn hverjum þeim sem tekur þátt í friðsömum borgaralegum mótmælum á götum úti. Í Portúgal er verið að þrýsta í gegn andlýðræðislegum lagabreytingum sem ráðast að rétti borgarana til mótmæla og lögreglan mætir friðsömum mótmælum á götum úti með ofbeldi.

Fjöldamótmæli gegn efnahagsstefnu Evrópusambandsins hafa verið skipulögð í stærstu borgum Evrópu í dag, 13 október.