Ályktun Íslandsdeildar Attac vegna loftárásanna á Líbíu.

Attac samtökin fordæma stuðning íslenskra yfirvalda og alþingismanna við loftárásir svokallaðs *alþjóðasamfélags*, undir forystu Bandaríkjamanna, Breta og Frakka.

Engin upplýst umræða fór fram í utanríkismálanefnd Alþingis í aðdraganda ákvörðunarinnar, og má furðu sæta að engin þingmaður hafi krafist þess að sjá þau gögn sem utanríkisráðherra og aðrir ráðherrar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hljóta að hafa haft aðgang að og byggt ákvörðum sína um stuðning Íslands við aðgerð *Odyssey Dawn* á. Í nafni lýðræðis krefst stjórn Attac þess að gögn þessi verði gerð opinber fyrir allan almenning.

[Við fordæmum heimsvaldastefnu í nafni mannúðar, þar sem yfirvöld á Vesturlöndum telja sig enn á ný, í krafti óljósrar arfleiðar upplýsingarinnar, gædd yfirburðahæfileikum til að ákveða hver lifir og hver deyr. Sömu yfirvöld sem á tyllidögum hampa hugtökum eins og frelsi, jafnrétti og bræðralagi og segjast jafnvel aðhyllast kristin gildi, eru enn einu sinni lögð af stað vopnuð og með leyfi til að drepa, þó að í dag geysi blóðug átök, hafin af þeirra völdum víða um heim. Í Afganistan eru nú 140.000 hermenn NATO og Bandaríkjanna, og morð á almennum borgurum eru næstum daglegt brauð. Innrásin í Afganistan árið 2001 átti að vera takmörkuð aðgerð með það markmið eitt að finna og handtaka Osama bin Laden. Í aðdraganda innrásarinnar í Írak var ástæða hinna *Staðföstu þjóða*sú að Saddam Hussein byggi yfir gereyðingarvopnum. Nú er Gaddafi í hlutverki ógnvaldsins sem engu eirir.

Öllum má vera ljóst að hagsmunir vesturveldanna eru eins og alltaf, fyrst og fremst fjárhagslegir. Í Líbíu er gríðarlegur olíuauður og miklar gaslindir, og í því óvissuástandi sem barátta araba undanfarna mánuði fyrir lýðræði hefur skapað er augljóst að miklu skiptir fyrir alþjóðlega auðhringi að hafa óhindraðan aðgang að þeim auðlindum. Ef yfirvöld á Vesturlöndum bæru í raun hagsmuni almennings í Líbíu og annars staðar fyrir brjósti, væri nær lagi að hætta vopnasölu til ólýðræðislegra stjórnvalda, og binda endi á viðskiptasamninga stórfyrirtækja í þeim löndum sem slíkir stjórnarhættir gilda.

Á sama tíma og útgjöld til hernaðarvæðingar eru víðast hvar í sögulegu hámarki er grimmt skorið niður í allri þjónustu við almenning. Sem dæmi má taka að meðan Grikkjum er gert, samkvæmt skipunum frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðum, að skera niður velferðarkefið og selja eigur almennings til að standa skil á skuldum við evrópska banka, standa yfir samningar gríska ríkisins við Frakka og Þjóðverja um kaup á vopnum. Fjárframlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins, NATO, hækkar um 148,4 milljónir króna á þessu ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011, og kemur hækkunin meðal annars til vegna framkvæmda við nýjar höfuðstöðvar þess í Brussel. Hvert Tomahawk flugskeyti sem skotið er á Líbíu kostar 800.000$, sem jafngildir 91 milljón isk. Allt er þetta greitt úr sameiginlegum sjóðum almennings, sem á sama tíma eru sagðir of litlir til að standa undir útgjöldum til velferðarmála og öðrum skyldum ríkisvaldsins við borgaranna.

Bál efnahagslegrar og pólitískrar krísu logar nú í Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem stjórnvöld eru í óða önn, undir eftirliti og samkvæmt skipunum fjármálaauðvaldsins, að ríkisvæða skuldir einkaaðila. Árásir á réttindi launþega og alls almennings stigmagnast. Skortur á lýðræði er ekki bundinn við Mið-Austurlönd eða ríki Afríku heldur er hann alþjóðlegt vandamál. Ákvarðanir sem varða hag alls almennings eru teknar bak við luktar dyr, og mikilvægum upplýsingum er haldið leyndum fyrir kjósendum. Alþjóðastofnanir telja sig hafnar yfir lýðræðislega stjórnarhætti og grafa stöðugt undan staðbundnu lýðræði. Sem dæmi um algjöra vanhæfni slíkra stofnana má nefna að tveimur dögum eftir að átök brutust út í Líbíu, gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslu vegna stöðu landsins. Sendinefnd sjóðsins taldi nýfrjálshyggjuna eiga þar náðuga daga og eina athugasemdin sem orðuð er snýr að því að hraða þurfi einkavæðingu bankakerfisins.

Stjórn Attac fordæmir íslenska og alþjóðlega fjölmiðla. Sú einhæfa mynd sem birst hefur af átökunum er til þess fallin að blekkja og enn á ný hafa íslenskir fjölmiðlar brugðist skyldu sinni sem fjórða valdið; færa okkar þess í stað einsleita heimsmynd hagsmunaaðila og stýra almenningsáliti en miðla ekki fréttum á óhlutdrægan máta.

Norræna velferðarstjórnin sem svo var kölluð hefur fallið á hverju prófinu á fætur öðru og nú þegar sögulegir atburðir eiga sér stað í fjarlægum heimshlutum, sýnir hún vítavert gáleysi og tekur þátt í leik þeirra yfirvalda sem með hegðun sinni síðastliðinn áratug hafa farið fram af fullkomnu miskunarleysi gegn almenningi í Írak, Afganistan, Haíti, Pakistan, og Rómönsku Ameríka, þar sem tilraunum alþýðunnar og bólivarískra stjórnvalda hefur verið mætt með ósjálfráðum viðbrögðum afturhaldsafla heimsvaldastefnunnar, og síðast en ekki síst gegn eigin borgurum.

Stjórn Attac á Íslandi stendur með alþýðu allrar veraldarinnar í baráttunni fyrir réttlátum heimi. Við stöndum með aröbum í baráttunni gegn einræðisherrum, strengjabrúðum vestrænna hagsmuna, og fyrir lýðræði. Þó að ekki sé hægt að fullyrða um hver þróunin verður eru arabar einfærir um að leiða baráttuna til lykta með stuðningi okkar, ekki inngripum. Loftárásir stórvelda grafa undan allri slíkri baráttu og kynda undir ófriðarbáli á þeim landsvæðum sem fyrir þeim verða.

Stjórn Attac á Íslandi krefst þess að íslensk stjórnvöld láti umsvifalaust af stuðningi við loftárásirnar og beiti sér þess í stað fyrir lýðræðislegri og friðsamlegri lausn á átökunum.

Reykjavík, 24. mars, 2011.