Líbía og mannúðlega heimsvaldastefnan. Viðtal við Jean Bricmont

Grégoire Lalieu: Getur þú rifjað upp fyrir okkur í hverju mannúðarleg heimsvaldastefna felst?

Þetta er hugmyndafræði sem miðar að því að réttlæta hernaðarlega íhlutun í málefni fullvalda ríkja í nafni lýðræðis og mannréttinda. Hugsunin er ævinlega hin sama: Við verðum að grípa til aðgerða vegna þess að þegnar landsins eru fórnarlömb einræðisherra. Svo eru allar gömlu tilvísanirnar dregnar fram: seinni heimsstyrjöldin, stríðið á Spáni osfrv. Markmiðið er að selja okkur rökin um að herðnaðarleg íhlutun sé nauðsynleg. Þetta er það sem gerðist í Kósóvó, Írak og Afganistan.

Og nú er komið að Líbíu?

Það er munur hér á vegna þess að ályktun Sameinuðu þjóðanna gerir aðgerðirnar nú mögulegar. En þessi ályktun var samþykkt gegn meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna sjálfra. Ég get ekki með neinu móti komið auga á að í átökunum í Líbíu felist nein ógn við önnur ríki. Jafnvel þó að hugmyndin um “skyldu okkar til að vernda” almenning hafi verið dregin fram, stytti fólk sér leið að þeirri hugmynd. Þar að auki er engin sönnum fyrir því að Gaddafi stundi fjöldamorð á eigin borgurum til þess eins að slátra þeim. Málið er flóknara en svo: þetta er vopnuð uppreisn, og ég veit ekki af neinni ríkisstjórn sem myndi ekki brjóta á bak aftur uppreisn af þessum toga. Auðvitað verður eitthvað “collateral damage” og mannfall meðal almennings. En ef Bandaríkin kunna einhverja leið til að komast hjá slíku, þá ættu þau að segja Ísraelsmönnum frá henni og nota þá leið sjálf í Írak og Afganistan. Að auki leikur enginn vafi á því að sprengjuárásir bandalagsherjanna valda mannfalli meðal óbreyttra borgara.

Frá þröngu lagalegu sjónarhorni tel ég ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna vafasama. Hún er í raun afleiðing áralangs þrýstings á að Sameinuðu þjóðirnar viðurkenni einhverskonar “rétt til íhlutunar”, sem virðist nú hafa verið gefin ákveðin viðurkenning.

Og þrátt fyrir það hafa margir – jafnvel í flokkunum á vinstri vængnum – talið nauðsynlegt að grípa inní í Líbíu til að stoppa fjöldamorð. Telur þú að þarna sé um dómgreindarleysi að ræða?

Já, það tel ég, og af ýmsum ástæðum. Fyrst af öllu þá er þessi herferð upphaf valdatíðar geðþóttaákvarðanna. Átökin í Líbíu eru sannarlega ekki einstök. Það eiga sér stað mörg önnur átök víðsvegar um veröldina, hvort sem þau kunna að vera í Gaza, í Bahrain, eða þau sem urðu í Kongó fyrir nokkrum árum síðan. Í því tilfelli áttu átökin sér stað í tengslum við hernaðaríhlutun utanaðkomandi ríkja, Rúwanda og Búrúndí. Ef þar hefði verið gripið til aðgerða til að alþjóðalögum væri framfylgt hefði verið hægt að bjarga milljónum mannslífa, en það var ekki gert. Hvers vegna ekki?

Þar fyrir utan, ef við fylgjum eftir undirliggjandi hugmyndum árásanna í Líbíu, þýðir það að hver sem er getur gripið inní hvar sem þeir vilja. Ímyndaðu þér að Rússar skerist í leikinn í Bahrain eða Kínverjar í Jemen: veröldinni væri steypt í almennt og viðvarandi stríðsástandi. Eitt megineinkenni réttarins til íhlutunar er að hann brýtur gegn grundvallarhugmyndum almennra alþjóðalaga. Og ef við þurfum að breyta alþjóðalögum í ný lög sem réttlæta réttinn til íhlutunar hefði það í för með sér stríð allra gegn öllum. Þetta eru rök sem talsmenn íhlutunar svara aldrei.

Og að lokum, þá styrkja þessar íhlutanir það sem ég kalla “víggirðingaáhrifin“: öll lönd sem Bandaríkin hafa í sigtinu upplifa sér ógnað og munu leitast við að auka hernaðaruppbyggingu sína. Við munum öll hvað átti sér stað með Saddam. Gaddafi hafði sagt við Arababandalagið:

Við höfum misst aðildarríki bandalagsins og enginn ykkar gerði neitt. En hið sama getur gerst fyrir ykkur líka, vegna þess að jafnvel þó þið séuð bandamenn Bandaríkjanna var Saddam það líka fyrr á tíð.

Nú á það sama sér stað með Gaddafi og ógnin sem hvílir yfir mörgum ríkjum mun líklega endurvekja vopnakapphlaupið. Rússland, sem er ekki herlaust land, hefur þegar tilkynnt að herstyrkur landsins verði aukinn. En þetta getur gengið enn lengra: ef Líbía byggi yfir kjarnorkuvopnum hefði aldrei verið ráðist á landið. Reyndar er það ástæðan fyrir því að Norður-Kórea er ósnertanleg. Því ætti fólk á vinstri armi stjórnmálanna sem styður íhlutunina í Líbíu að gera sér grein fyrir því að íhlutun í nafni mannúðar mun óhjákvæmilega leiða til endurvakningar vopnakapphlaupsins og leiða til langvarandi stríðsátaka.

Og þó, var vopnuð íhlutun gegna Gaddafi ekki skárri kosturinn af tveimur slæmum kostum?

Við þurfum að íhuga afleiðingarnar. Nú þegar vestrænir herir eru þátttakendur, munu þeir augljóslega þurfa að fara alla leið, steypa Gaddafi af stóli og koma uppreisnarmönnunum til valda. Og hvað gerist þá? Líbía virðist klofin. Ætla Vesturveldin að hernema landið og leggja út í enn annað endalaus stríð, líkt þeim í Írak og Afganistan?

Hvað um það, gerum ráð fyrir því að allt fari vel: bandalagsherirnir koma Gaddafi frá á nokkrum dögum og uppreisnarmennirnir komast til valda. Líbíska þjóðin er sameinuð. Allir eru hamingjusamir. Og hvað svo? Ég held ekki að Vesturveldin muni segja: “Jæja, við gerðum þetta vegna þess að við erum gott fólk og hrifin af Mannréttindum. Nú getið þið gert það sem ykkur lystir.” Hvað gerist ef ný líbísk stjórnvöld eru of múslímsk, eða gera ekki nóg til að takmarka straum flóttamanna til Evrópu? Teljið þið að Vesturveldin leyfi þetta? Það er augljóst að eftir íhlutunina verður nýja líbíska ríkisstjórnin skuldbundin Vesturveldunum og bundin hagsmunum þeirra.

Hver er lausnin ef hernaðarleg íhlutun er það ekki?

Það hefði verið betra ef við hefðum gert heiðarlega tilraun til þess að leita allra friðsamlegra lausna. Það hefði kannski ekki virkað, en hér höfum við orðið vitni að blygðunarlausum ásetningi um að hafna öllum slíkum lausnum. Og við skulum minnast þess að þetta er viðvarandi hluti af mannúðarstríðum. Í sambandi við Kósóvó voru lagðar fram mjög ítarlegar tillögur af hálfu Serba til að komast að friðsamlegri lausn, en þeim var hafnað. Vestuveldin hafa jafnvel sett skilyrði sem gera allar samningaviðræður ómögulegar, eins og t.d. hersetu NATÓ í Serbíu. Í Afganistan lögðu Talibanar til að Bin Laden yrði dreginn fyrir alþjóðlega dómstóla ef sannanir yrðu lagðar fram um þátttöku hans í árásunum á World Trade Center. Bandaríkin höfnuðu þessu og sprengdu upp landið. Í Írak hafði Saddam samþykkt endurkomu eflitsmanna Sameinuðu þjóðanna auk margra ákaflega heftandi skilyrða. En það dugði aldrei til. Í Líbíu samþykkti Gaddafi vopnahlé og lagði til að alþjóðlegir eftirlitsmenn yrði sendir á staðinn. Það var ekki gert og því var haldið fram að Gaddafi hefði ekki virt vopnahléð. Vesturveldin höfnuðu einnig tilboði Hugo Chaves um að miðla málum í Líbíu, jafnvel þó að hugmyndin nyti stuðnings margra ríkja Rómönsku Ameríku og Samtökum Afríkuríkja.

Í þessu sambandi reiðist ég þegar ég heyri vinstri arminn í Evrópu fordæma hið hræðilega Bólivaríska bandalag Ameríkuríkja sem styður einræðisherrann Gaddafi. Hér er öllu snúið á hvolf! Á herðum leiðtoga ríkja rómönsku Ameríku hvílir mikil ábyrgð. Þeir eru ekki einhverjir litlir vinstrimenn blaðrandi útí horni. Og stærsta málið sem þessir leiðtogar standa frammi fyrir er íhlutunarstefna Bandaríkjanna: því sjaldnar sem Bandaríkin komast upp með að gera það sem þeim sýnist, þegar þeim sýnist, þeim mun betra verður ástandið fyrir þau lönd sem eru að reyna að frelsa sig undan erlendri afskiptastefnu, og einnig fyrir alla veröldina.

Þýðir kerfisbundin höfnun á friðsamlegum lausnum að mannúðarsinnuð íhlutun sé notuð sem afsökun?

Já, en þetta virkar vel á menntastéttina, ég hef meiri efasemdir um viðbrögð evrópsks almennings. Mun hann styðja leiðtoga sína í árásunum gegn Gaddafi? Fólk telur lögmæti stríða til að verja öryggi vera mest: td. ef almenningur er í hættu eða lífsháttum okkar er ógnað osfrv. En prófaðu að útskýra, í andrúmslofti almennrar íslamófóbíu (sem ég hafna, en hún er engu að síður raunveruleg) hér og í Frakklandi, að við berjumst í Kýrenæku fyrir uppreisnarmenn sem við sjáum öskra “Allahu akbar”. Þetta er allt dálítið þversagnakennt!

Á hinum pólitíska vettvangi styðja flestir íhlutunina, jafnvel flokkarnir á vinstri vængnum. Hinir varkárustu styðja einungis flugumferðarbannið, en ef Gaddafi sendir skriðdreka inní Benghazi, hvað eigum við þá að gera? Þjóðverjar misstu fljótt stjórnina yfir loftrýminu í seinni heimsstyrjöldinni, en þeir héldu áfram að berjast í nokkur ár í viðbót. Að því leyti sem markmiðið var að koma Gaddafi frá völdum hefði hina varkáru átt að gruna að þetta myndi ganga lengra en að loftferðabanni yrði komið á.

Vinstrimenn, sem hafa verið ófærir um að taka raunverulega afstöðu sem byði upp á einhvern valkost, hafa látið fanga sig með röksemdafærslunni um mannúðarlega hernaðaríhlutun, og eru nú knúnir til að styðja Sarkozy. Ef stríðið gengur vel og því lýkur skjótt, mun staða franska forsetans vafalaust vera örugg fyrir forsetakosningarnar árið 2012, þökk sé vinstriöflunum sem hafa stuðlað að þeirri niðurstöðu. Vegna þess að þau eru ófær um að mynda heildstæða afstöðu gegn stríðsrekstri eru vinstri öflin knúin til að fylgja í humátt á eftir íhlutunarstefnunni.

Og hvað ef stríðið gengur ekki vel?

Það er hryggilegt, en eini franski flokkurinn sem hefur sett sig upp á móti íhlutuninni út frá frönskum hagsmunum, er Þjóðarfylkingin [Front National, þjóðernisflokkur öfgasinnaðra hægrimanna]. Hún hefur vísað til innflytjendastraumsins og greip tækifærið til að aðgreina sig frá flokki Sarkozy, UMP, eða Sósíalistaflokknum, með því að segjast aldrei hafa átt í samvinnu með Gaddafi. Ef að stríðið í Líbíu fer ekki samkvæmt áætlun mun það gagnast Þjóðarfylkingunni í forsetakosningunum árið 2012.

Ef íhlutun af mannúðarástæðum er einungus afsökunun, hvert er þá markmiðið með þessu stríði?

Uppreisnirnar í arabaheiminum komu vesturlandabúum í opna skjöldu, þeir voru ekki nógu vel upplýstir um það sem átti sér stað í Norður Afríku og Mið-Austurlöndum. Ég andmæli því ekki að til eru vel upplýstir sérfræðingar í þessum málum, en á þá er sjaldan hlustað á vettvangi stjórnmálanna, og þér að segja þá kvarta þeir undan því. Og nú munu nýjar ríkisstjórnir í Egyptalandi og Túnis kannski ekki stilla sér upp með hagsmunum Vesturveldanna lengur, og í kjölfarið verða óvinveittar Ísraelsríki.

Til að ná stjórn á svæðinu og til að vernda stjórnvöld í Tel Aviv, eru Vesturveldin líklegast viljug til að velta ríkisstjórnum sem nú þegar eru óvinveittar Ísrael og vestrinu. Hinar þrjár helstu eru þær íranska, sýrlenska og líbíska. Hin síðastnefnda, sökum þess að hún er veikust fyrir, verður fyrst fyrir árásum.

Mun þetta ganga?

Vesturveldin þráðu að drottna yfir veröldinni en í kjölfar Íraksfíaskósins árið 2003 er öllum ljóst að þau geta það ekki. Áður tóku Bandaríkin sér það vald að steypa af stóli þeim þjóðhöfðingjum sem þau höfðu áður komið til valda, eins og t.d. Ngô Dinh Diêm í Suður Víetnam á sjöunda áratugnum. En nú á dögum geta stjórnvöld í Washington ekki lengur gert slíkt. Í Kósóvó hafa Bandaríkin og evrópsk stjórnvöld neyðst til málamiðlana við stjórnvöld sem hafa öll einkenni skipulagðs glæpagengis. Í Afganistan segir fólk að Karzai sé spilltur en Vesturveldin hafa engan annan til að vinna með. Í Írak hafa þau einnig þurft að sætta sig við ríkisstjórn sem þau eru langt þvi frá að vera fyllilega ánægð með.

Þetta vandamál mun örugglega einnig koma upp í Líbíu. Íraki nokkur sagði eitt sinn við mig: “Í þessum heimshluta eru engir frjálslyndir menn í vestrænum skilningi þessa orðs, fyrir utan nokkra fremur einangraða menntamenn.” Þar sem Vesturveldin geta ekki treyst á valdhafa sem deila hugmyndum þeirra og verja fyllilega hagsmuni þeirrra, reyna þau að beita valdsmunum til að koma til valda einræðisherrum. En það skapar augljóst misræmi við óskir almennings.

Þar að auki hefur þessi aðferð reynst vera misheppnuð og fólk ætti ekki að láta blekkjast af því sem nú á sér stað. Að Vesturveldin sem töldu sig geta stjórnað arabaheiminum með strengjabrúðum á borð við Ben Ali og Mubarak, muni skyndilega hugsa: “Við höfðum algjörlega rangt fyrir okkur, nú ætlum við að styðja lýðræði í Túnis, Egyptalandi og Líbíu.”


Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir

Jean Bricmont kennir eðlisfræði í Belgíu og er meðlimur í Brussel Tribunal- http://www.brussellstribunal.org/ Hann er ma. höfundur bókarinnar Humanitarian Imperialism.