AGS hefði betur verið farinn – Ræða 30 nóvember 2010

Gunnar Skúli flytur aðra ræðu

Í dag komum við saman til að minnast þess að AGS hafði ætlað sér að fara af landi brott á þessum degi, þ.e.a.s. í dag 30 nóvember.

Því miður var veru sjóðsins hér á landi framlengd og er enn óvissa hvort um enn frekari framlenginu verður að ræða. Þess vegna er dagurinn í dag sorgardagur því ef sjóðurinn væri farinn væri gleðidagur.

Við vissum ekki mikið um sjóðinn þegar hann kom en núna hafa Íslendingar kynnt sér hann betur.

Sjóðurinn á sér fortíð, fortíð sem er óhuggnanleg. Þar sem sjóðurinn hefur ráðið för hefur hagur almennings versnað verulega á sama tíma og hagur banka og stórfyrirtækja hefur batnað. Sjóðurinn hefur skilið þjóðir eftir í miklum samdrætti og verulega skuldsettar. Rannsóknir sýna glögglega fram á að ráðstafanir sjóðsins gera kreppu viðkomandi þjóða verri, dýpri og kreppan dregst á langinn.

Attac samtökin á Íslandi standa að þessari sorgarstundu hér á Austurvelli og viljum við AGS af landi brott. Við teljum að AGS stjórni á Íslandi mun frekar en kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi. Við teljum það mjög ólýðræðislegt að stofnun sem við höfum ekki kosið yfir okkur, stofnun sem við höfum ekki afhent með formlegum hætti völdin, að þessi stofnun, AGS, ráði mestu á Íslandi í dag.

Það kemur skýrt fram í öllum viljayfirlýsingum sem íslensk stjórnvöld hafa skrifað undir að þau munu aldrei aðhafast neitt nema að ráðfæra sig við sjóðinn áður og ekkert framkvæma gegn samþykki hans. Þar með erum við komin aftur til ársins 1874 þegar Alþingi var ráðgefandi þing en kóngurinn í Köben gat hafnað öllu sem honum hugnaðist ekki.

Kóngurinn í Köben sá Ísland sem nýlendu og vildi hagnast sem mest á henni. Góðvinir kóngsins fengu síðan einkaleyfi á því að mergsjúga íslenskan almenning.

Í dag er AGS kóngurinn og góðvinir AGS eru bankarnir og það á að mergsjúga okkur. Allur niðurskurðurinn og skattahækkanirnar eru tilkomnar vegna mistaka bankanna. Almenningur á Íslandi var við sína framleiðslu haustið 2008 og það eina sem breyttist var að nokkrir einkabankar fóru á hausinn. Hvað kemur það þjóðinni við?

Þegar nokkrir einkabankar fara á hausinn er málið svo grafalvarlegt að þjóðin verður að afhenda fullveldi sitt til stofnunar sem hefur það hlutverk að lágmarka skaða einkabankanna á kostnað okkar hinna. Það er ekki lítið. Það segir okkur að einkabankar hafa tæki og tól til þess að aftengja lýðræðið frá þjóðinni. Einkabankar geta því komið upp á milli þjóðar og þings og tekið völdin. Einkabankar eru þar með orðnir hluti af framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu án þess að hafa nokkurn tíman farið í framboð. Í því felst hið ólýðræðislega vald þeirra.

Hagnaður Landsbanka Íslands er 13 milljarðar nú þegar á þessu ári. Rúmur milljarður á mánuði.

Þegar 10.000 Íslendingar koma saman á Austurvelli og fara fram á lausn sinna mála þá bíður ríkisstjórn Íslands í andakt vikum saman eftir því hvað bönkunum hugnast að gera. Það er því ljóst að bankar og AGS eru þeir aðilar í landi okkar sem hafa þau völd sem skipta máli. Við hin getum engu breytt nema að bera það fyrst undir kónginn.

Til hvers kjósum við okkur þingmenn? Vorum við ekki að afhenda þingmönnum völdin frá okkur tímabundið. Vorum við ekki að afhenda þeim völdin með þeim takmörkunum sem Stjórnarskráin setur þeim. Vorum við ekki að kjósa okkur þingmenn vegna þess sem þeir sögðust ætla að gera fyrir okkur.

Eru það ekki svik að svíkja kosningaloforð, er það ekki brot á Stjórnarskránni að veita stofnun eins og AGS neitunarvald yfir Alþingi Íslendinga. Er það sjálfgefið að ekki þurfi að virða þjóðina eða hagsmuni hennar viðlits eftir kosningar. Þegar þjóðin fékk loksins þjóðaratkvæðagreiðslu fannst mörgum óþarfi að taka þátt í henni.

Álítur íslensk valdastétt að hún sé í áskrift hjá íslensku þjóðinni?

Býr íslensk valdastétt í bönkunum?

Við erum búin að endurtaka orð Jóns Forseta nokkrum sinnum það er; að vér mótmælum valdníðslu kóngsins, en hingað til ekki með miklum árangri; en gleymum því ekki að valdið býr hjá þjóðinni.

Þess vegna verðum við sjálfsagt að endurtaka söguna enn einu sinni enn og reka kónginn, það er AGS og vini hans frá völdum.