AGS frá Íslandi! Ályktun stjórnar Íslandsdeildar Attac

Reykjavík 10. október 2010

Stjórn Íslandsdeildar Attac fer fram á að ríkisstjórn Íslands slíti samstarfi við AGS og því verði hætt þann 30. nóvember 2010 eins og upphaflega stóð til. Í apríl á þessu ári var þetta samstarf framlengt þegjandi og hljóðalaust og án nokkurrar umræðu fram í ágúst á næsta ári. Það er lágmarkskrafa að fram fari opin, víðtæk og lýðræðisleg umræða um forsendur framlengingar á samstarfi við AGS.

Atburðir undanfarinna vikna sýna að afar brýnt er að binda endi á veru AGS hér á landi. AGS krefst þess að ríkisvaldið hætti að aðstoða fólk í gjaldþrotahættu og AGS krefst þess að ríkisvaldið rústi velferðarkerfinu með grimmdarlegum og glórulausum niðurskurði. Ríkisstjórnin ætlaði að hlýða, þar til þessum fyrirætlunum var mótmælt af viðeigandi hörku og fjölda. Vilji almennings er alveg skýr. Öllum er það nú ljóst að það var ekki og verður aldrei grundvöllur fyrir samstarfi við sjóðinn.

Nauðsynlegt er að endurskoða grundvöll að endurreisn bankanna um leið og AGS hverfur úr landi. Alræði fjármagnsmarkaðanna verður að afnema og altæk endurskoðun á grundvelli og markmiðum efnahags- og fjármálastefnunnar þarf að fara fram. Sú endurskoðun hafi að leiðarljósi að öll gögn og upplýsingar verði uppi á borðinu og víðtæk lýðræðisleg umræða fari fram um markmið íslenskrar efnahagsstefnu. Gervallt fjármagnskerfið verður að opna fyrir lýðræðislegu eftirliti á vegum almennings.

Stjórn Attac á Íslandi