Yfirlýsing Íslandsdeildar Attac vegna mótmælanna á Spáni.

Submitted by admin on Mán, 23/05/2011 – 08:19 Höfundur: Attac á Íslandi

Attac á Íslandi fagnar mótmælunum í Madríd og mörgum öðrum borgum Spánar og styður þau heilshugar. Við óskum Spánverjum til hamingju með að svo öflug og víðtæk mótmæli skuli hafin. Þúsundir manna hafa farið út á götur, hertekið torg, reist tjaldbúðir og hundsað andlýðræðislegar fyrirskipanir lögreglu og dómsstóla um að láta af aðgerðum. Spánverjar hafa nú tekið forystu í hinni alþjóðlegu baráttu gegn niðurskurði í velferð, félagsþjónustu og annarri samfélagsþjónustu. Á Spáni, líkt og annars staðar magnast árásir á réttindi almennings, og miðast allar aðgerðir yfirvalda við að endurreisa mannfjandsamlegt bankakerfi og tryggja áframhaldandi skuldaþrælkun almennings. Félagsleg vandamál, eins og gríðarlegt atvinnuleysi, afsprengi óréttlátar samfélagsgerðar, eru hundsuð á meðan markaðsvæðing og dekur við auðstéttirnar halda áfram, þvert á vilja kjósenda. Með niðurskurðinum á að afla fjár til að greiða niður skuldafjallið sem varð til við hrun nýfrjálshyggjunnar. Enn á ný sannast að tryggð hefðbundinna stjórnmálaafla er ekki við alla alþýðu fólks heldur við hina raunverulegu valdastétt; þá sem eiga fjármagnið. Almenningur borgar því kreppu hinna ríku með hærri sköttum, stórskemmdu velferðarkerfi og tilveru sem einkennist af kvíða yfir ótryggri framtíð.

Eins og á Spáni hafa íslenskir stjórnmálaflokkar og hinir kapítalísku fjölmiðlar hundsað raunverulegan vilja almennings. Við viljum ekki niðurskurð eða ríkisaðstoð við gjaldþrota banka, ekki endurreisn gjaldþrota kerfis. Við krefjumst breytinga nú þegar! Attac á Íslandi er stolt af því að Spánverjar horfa til baráttu Íslendinga veturinn 2008-2009 og einnig uppreisnarinnar gegn þrálátri kröfu stjórnvalda um að skuldir einkaaðila skuli ríkissvæddar. Þrátt fyrir að hér væri háð yfirgengilegt áróðursstríð íslenskrar elítu gegn hagsmunum skattgreiðenda og allri alþýðu fólks létu kjósendur ekki blekkjast. Og barátta okkar vakti von í hjörtum annara, enda alþjóðleg líkt og öll barátta almennings við arðránsöflin á tímum hnattvæðingar og nýfrjálshyggju.

Félagar, látum því kröfuna enduróma um alla heimsbyggðina, frá Spáni til Íslands, Bandaríkjanna til Egyptalands: Democracia Real YA! Raunverulegt lýðræði strax!

Stjórn Íslandsdeildar Attac, 22. maí 2011.