Hinn nýi Alþjóðlegi samningur og minnisblaðið (The International treaty and Memorandum) sem fylgja “klippingunni” á grískum ríkisskuldum, ýta grísku þjóðinni lengra inná braut örbirgðar. Í honum felst gríðarlegt hrun á öllum lífskjörum sem og aðstæðum á vinnumarkaði, og þrældómur hjá lánadrottnum ríkisins. Skerðing á lífeyri og tekjum, afnám samningsréttar verkalýðsfélaga (sem gengur þvert á 22. grein grísku stjórnarskárinnar) og uppsagnir 150.000 opinberra starfsmanna munu leiða til hungurs og fátæktar. Atvinnuleysi, sem er nú þegar í sögulegu hámarki, mun verða 30%. Grimmilegur niðuskurður á félagslegum útgjöldum, sérstaklega í heilbrigðismálum, lækkar lífslíkur og eykur líkur á ungbarnadauða. Nýjar tilraunir til einkavæðingar afhenda stórfyrirtækjum þjóðarauðæfi og koma með því í veg fyrir að komandi kynslóðir geti notið tekna af þeim. Lög frá Englandi og Lúxemborg ná yfir nýju ríkisskuldabréfin ( 13. grein nýja samningsins) sem er bæði móðgandi og niðurlægjandi fyrir fullvalda ríki, auk þess sem greinin kemur á raunverulegri fangelsun heillar þjóðar, þar sem að með henni er komið í veg fyrir að hægt verði að semja uppá nýtt um skuldirnar. Einnig verndar 13. greinin skuldadrottna okkar þegar að því kemur að Grikkland á endanum yfirgefur evrusvæðið.
Vegna alls þessa krafðist Herferðin fyrir endurskoðun grískra skulda (The Greek Debt Audit Campaign) ásamt grískum almenningi, þess að gríska þingið samþykkti ekki nýja samninginn. Við krefjumst þess að samstundis og skilyrðislaust verði hætt að greiða af lánum ríkisins og að lánasamningar verði gerðir opinberir, svo að endurskoðun geti farið fram. Einnig gerum við að kröfu okkar að Þýskaland greiði til baka risavaxin lán sem tekin voru hjá Grikklandi á meðan á þýska hernáminu stóð sem og skaðabætur vegna hernámsins.
Það að tafarlaust verði hætt að greiða af skuldum gríska ríkisins er nauðsynlegt, sem og að hinum nýja samningi verði hafnað. Annars verða lífeyrissjóðir okkar, sem tapa 12 milljörðum evra með samningnum, gjaldþrota, á meðan fyrsti “björgunarpakki” Þrenningarinnar svokölluðu (Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) uppá 110 milljarða evra, sem þingið fékk ekki að kjósa um, verður að fullu greiddur til baka. Í grísku stjórnarskránni er gert ráð fyrir því að greiðslur til lánadrottna ríkisins stöðvist ef neyðarástand verður og ómögulegt er að standa skil bæði á ríkisskuldum og fjármögnun lögbundinnar þjónustu ríkisins (ss. heilsugæsla, menntun og félagslegt bótakerfi). Nefnd Sameinuðu þjóðanna um alþjóðalög sem og Alþjóðadómstólinn í Haag viðurkenna bæði að neyðarástand gefur ríkjum rétt til að draga sig úr alþjóðlegum skuldbindingum, sérstaklega með því að hætta greiðslum á opinberum skuldum. Mannréttindadómstóll Evrópu viðurkenndi nýlega að slíkt ætti við um skuldir rússnenska ríkisins, og úrskurðaði þar með að almannahagsmunir gengu fyrir kröfum lánadrottna.
Ríkisstjórn Papademos og Þrenningin verða innan skamms látin svara til saka fyrir þá skelfilegu, ómanneskjulegu og ólöglegu stefnu sem þau fylgja, sem að auki brýtur í bága við stjórnarskrá Grikklands. Hinn nýi alþjóðlegi samningur sem og aðrir samningar, sem á róttækan hátt breyta lífsskilyrðum almennings geta einungis öðlast lagalegt gildi með því að um þá sé kosið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Gríska þjóðin álítur að slíkir samningar hafi ekkert gildi, svo lengi sem þá skortir lýðræðislegt lagalegt samþykki, sökum þess að ekki hefur farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þá.
Nýlegar ákvarðanir, teknar á ráðstefnum Evrusvæðisins og ógnvægleg stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem ríkisstjórn Papademos neyðir uppá okkur, leiða til félagslegs niðurrifs og hörmunga, en ná ekki að uppfylla yfirlýst markmið. Með þeim verður ekki sloppið undan gjaldþroti, heldur færist það þvert á móti nær. Jafnvel þýskir embættismenn viðurkenna nú að fyrr en síðar verði nýjum niðurskurðarkröfum þröngvað upp á Grikki, samþykkis á nýjum ráns-samningum krafist og frekari örbirgð leidd yfir þjóðina. Að þeirra sögn stendur ekki annað til boða.
Ríkisstjórnin og þrenningin standa nú raunverulega fyrir ofbeldisfullri endurúthlutun á eignum og tekjum, þeim ríkustu í hag. Útrýma á hinum veikburða, afnema velferðarkerfið (heilsugæslu, menntun, bætur og almannaþjónustu) og breyta með því Grikklandi í nýlendu undir yfirráðum þýskra brúnstakka. Herferðin fyrir endurskoðun grískra skulda, ásamt öðrum samtökum, hafa fordæmt þetta grimmilega stéttastríð sem mun sökkva samfélaginu í eymd og volæði og rústa öllum þeim félagslegu réttindum sem áunnist hafa með áratuga baráttu.
Við leggjum til að þveröfugri stefnu verði fylgt. Samstundis á að stöðva afborganir af lánum, fram á að fara endurskoðun skulda, og hækka á laun, eftirlaun og atvinnuleysisbætur. Þjóðnýta á bankakerfið, og leggjast í mikla styrkingu á verferðarkerfinu öllu. Þetta er hin raunverulega lausn fyrir grísku þjóðina. Hún mun færa okkur dreifingu tekna sem koma hinum fátækustu best, draga úr misskiptingu og lýðræðisvæða stjórnmálin sem og samfélagið allt.
Allt þetta er mögulegt og mun jafnvel endurvekja hagvöxt. En okkur tekst þetta aðeins sem samfélagi ef við leggjum undir okkur götur og torg og hrekjum bankana frá völdum. Papademos hefur ýtt í gegnum þingið ógeðslegu afkvæmi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Seðlabanka Evrópu og Evrópusambandsins, en nú fyrst hefjast leikarnir. Bráðlega mun barátta fólksins kollvarpa öllum lögum þjófanna!
Þýtt af Íslandsdeild Attacsamtakanna, þann 18. febrúar 2012.