Undarlegir eru menn sem ráða fyrir þjóðum – Ræða flutt 30. nóv. 2010

Kæru félagar!

Einar flytur ræðu 30. nóv 2010

Í ljóðabókinni Nei eftir Ara Jósefsson er ljóð, sem orðið hefur nokkuð fleygt, en Ari lést af slysförum árið 1964, aðeins 25 ára gamall. Ljóðið heitir Stríð og hljómar svona í öllum sínum einfaldleik og nakta sannleik.

Undarlegir eru menn
sem ráða fyrir þjóðum.

Þeir berjast fyrir föðurland
eða fyrir hugsjón

og drepa okkur sem eigum
ekkert föðurland nema jörðina
enga hugsjón nema lífið

Yfirstéttin er vel skipulögð …. Sér til fulltingis hefur hún stofnanir einsog Heimsbankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið. En við sem eigum ekkert föðuland nema jörðina og enga hugsjón nema lífið, eigum ekki mörg alþjóðasamtök og erum satt best að segja freka illa skipulögð – miðað við valdhafana.

Við lifum vissulega á breytingartímum þar sem allt breytist nema hagkerfið. Loftslagið breytist, árnar, skógarnir, fuglarnir, öll náttúran. Líf lágstéttanna breytist, líf millistéttanna, allt breytist nema kerfið, líf yfirstéttarinnar og aðalsins eða elítunnar í kringum hana. Ef það breytist þá breytist það aðeins til hins betra enda er hrunið og kreppan bara einsog hálfleikur í íþróttaleik í augum yfirstéttarinnar.

Sú saga var eitt sinn sögð um veitingastað hér í bæ að þar væru allir réttir kaldir nema ísinn. Sá sem skoðar prógram Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hvernig greiða eigi úr skuldunum sér strax að þar er um að ræða hreint brjálæði. Sé hagkerfið ein appelsína þá ætlar Alþjóðagjaldeyrissjóðurin að kreista fullan kassa af appelsínum út úr því, eiginlega úr einni appelsínu. Á tíu árum ætlar hann að rétta við fjárlagahallann með þeim hætti að ekkert svigrúm verður til mannsæmandi lífs í landinu.

Aðgerðirnar verða hækkun skatta, niðurskurður ríkisútgjalda, eyðing sparifjár almennings og annað af sama toga. Það verður engin leið að mæta þessu nema með einkavæðingu orkulinda og stóriðjuframkvæmdum. Því miður vilja Samtök atvinnuífsins og verkalýðshreyfingin gera þessa stefnu að sinni, allt til að fá tímabundna innspýtingu í hagkerfið. Þar gildir sú rökfræði fíkilsins að hann er í góðum gír á meðan hann fær skammtinn sinn.

Þess vegna mætir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nær engri mótspyrnu og má segja að atvinnurekendur og verkalýðshreyfing séu jafnvel kaþólskari en páfinn þegar að þeim efnum kemur. Það er blátt áfram fáránlegt að Vilhjálmur Egilsson fái að flytja boðskap sinn í fréttatímum fjölmiðlanna jafn oft og raun ber vitni. Boðskapur hans er nær alltaf hræðsluáróður sem miðar að því að koma í gegn óhagkvæmum framkvæmdum, eða réttara sagt, framkvæmdum sem gefa sér tímabundinn hagnað til þeirra sem í þeim standa en langtíma tap fyrir allt þjóðfélagið.

Hér er freistandi að rifja upp þá kenningu bandaríska rithöfundarins Williams Styron sem hann setur fram í skáldsögunum The Confessions of Nat Turner og Sofie´s Choice en William Styron heldur því fram að Auswitch og útrýmingabúðir nasista hafi ekki einungis byggst á viljanum til að útrýma þjóðum og þjóðarbrotum heldur hafi markmiðið verið endurreisn þrælahalds. Sá vilji birtist skýrt í orðunum á skiltinu yfir Auswitch Arbeit macht frei. Hugmyndafræðin var vinnubúðir, þrælar sem héldu uppi yfirstétt. Í rauninni er hugmyndafræðin á bak við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mjög svipuð, ef ekki sú sama, að fá sem mest út úr hagkerfunum í þágu fjármagnseigenda, að kreista eina appelsínu svo úr henni verði heill kassi af appelsínum.

Þetta er ein af ástæðum þess að hvar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið við sögu hefur millistéttin verið þurrkuð út. Afskiptin af Ekvador og Argentínu eru góð dæmi um það. Við hrun Sovétríkjanna er sagt að tvær milljónir Rússa hafa lifað undir fátækramörkum. Eftir aðkomu Alþjóðagjaldeyririssjóðsins voru þessar tvær milljónir orðnar sjötíu milljónir.

Allt er þetta gert í nafni fjármálamarkaðanna. Við fáum fregnir af fjármálamörkuðunum, hvernig þeir hafa það, það eru góðar batahorfur einn daginn, en slæm líðan þann næsta. En hver hefur hitt þennan fjármálamarkað? Hefur einhver tekið í höndina á honum? Þetta eru eignarhaldsfélög, vogunarsjóðir, sem við vitum ekkert hverjir standa á bak við og hvílir í raun á ekkert ósvipaðri hugmynd og vald páfans á miðöldum, á guðlegum aflátsbréfum sem stundum er kölluð aðstoð við bankana en byggir á því að flytja verðmæti samfélagsins og eigur almennings yfir til þessara andlitslausu fjármálastofnana.

Ég hóf þetta stutta erindi á ljóði Ara Jósefssonar og enda þetta á tveimur úr eigin ranni.

Vopnin kvödd

Þetta er bjargið …

bjargið
þar sem gömul dægurlög
svífa á milli auðra húsa
og þokan opnar dyr
inn í ókunna heima.

Á gólfinu situr jökull
og talar upp úr svefni
um ryðgaðar leifar
úr heimsveldi tímans,
ísaldir fornar
og eilífa bið eftir engu.

þetta er bjargið …

bjargið þar sem
yfirgefinn ratsjárskermur
liggur í þoku og sefur
án sambands við heiminn

og bækur fullar
af dulmálslyklum úr
löngu gleymdu stríði
eru grafnar í snjó,

bjargið þar sem
dægrin svífa um auðnir
þess tíma sem varð eftir
þegar hermennirnir fóru.

Þetta er bjargið …

Á þessu bjargi eigruðu þeir
í einsemd og þögn,
í þoku hins norðlæga dumbungs
og myrkri jafn þykku og ull,
um tómið svo djúpt og dimmt
að unnvörpum gengu þeir
fyrir björg og týndust,
í myrkur þessa lands,
í þoku þessa heims,
í tómið á bak við tímann
þar sem bjargið stendur
í ólgandi brimi
og veturinn klífur fjöll.

Ræðupúlt örlaganna

Ekki tala um
stórar þjóðir og litlar þjóðir,
útkjálka, heimshorn og jaðra.

Þetta er hnöttur; og miðjan
sem hvílir undir iljum þínum
breytist við hvert fótspor.

Hér er landið
þar sem heimsálfurnar skrifast á
í leit sinni að þögn og grjóti.

Sjáðu jökulinn,
hvernig hann vappar um blámann
einsog ísbjörn á leið yfir heiminn.

Í draumnum opnast dyr
og myrkrið flæðir
sem tár gegnum svefninn.

Hér er landið
þar sem tíminn fellur
einsog dagblað í gegnum lúgu,
en það er enginn áskrifandi,
ekkert rúm,
aðeins hyldýpi
þar sem stjörnurnar glitra.

Þegar við sökkvum
í fen næturinnar
drögum við okkur upp á hárinu.

Vetrarbrautin
er gata í litlu þorpi.

Örlögin eru net
sem leggjast yfir húsin,
við skálum
með hafdjúpin á milli okkar.

Norðurljósin
loga við stíginn.