Í Túnis hefur fjöldinn stigið með mikilfenglegum hætti inn á hinn pólitíska vettvang! Honum tókst eftir lýðræðislega uppreisn alþýðunnar, sem stóð í 29 daga, að koma einræðisherranum Ben Ali frá völdum! Það er mikill sigur! Þetta er stór dagur fyrir okkur öll, sem við deilum með öllum þeim sem berjast gegn heimsskipan kapítalismans! Mikilvægast er þó að við höfum endurheimt virðingu okkar og stolt, sem hafði lengi verið svívirt og fótum troðið af einræðinu. Núna bíður okkar að byggja upp nýtt Túnis: frjálst, lýðræðislegt og félagslegt.
En gagnbyltingin er þegar hafin! Ben Ali hefur misst völdin en stjórn hans, sem er illa skekin og veikburða, reynir að halda stöðu sinni. Destourianflokkurinn og stjórnkerfi hans er enn til staðar sem og efnahags- og félagsmálastefna hans í anda nýfrjálshyggjunnar.
Þetta stjórnarfyrirkomulag, sem tekið var sem dæmi um “góða nemandann” af alþjóðlegum fjármálastofnunum, sem blóðmjólkaði almenning í Túnís s.l. 23 ár í vasa gróðasækins alþjóðlegs fjármagns og auðgaði í leiðinni nokkrar fjölskyldur, sem voru skipulagðar í anda mafíunnar, í kringum valdhafana, verður að víkja. Það er vilji okkar!
Við höfnum yfirstandandi tilraun sem miðar að því að ræna okkur byltingunni og birtist í hugmyndinni um “þjóðstjórn”, en með henni reynir þetta ólögmæta stjórnkerfi að halda völdum sínum.
Samtímis hafa valdhafarnir sleppt lausum velvopnuðum hópum sínum, þeirra á meðal lífvörðum Ben Ali, sem nú skapa ógn og skelfingu í stórborgum landsins, sérstaklega í Túnís og úthverfum hennar. Hópar hinna fátæku og hungruðu nýta sér einnig ringulreiðina til að sækja sér björg í bú í stórmarkaðina, sérstaklega Carrefour og Géant. Ræningjahópar koma sér fyrir meðfram vegum landsins, sem gerir alla umferð hættulega! Skortur er að verða á helstu lífsnauðsynjum: brauði, mjólk, lyfjum…
Stjórnin sem leysti upp lögregluna (í borgunum) og þjóðvarðliðið (á landsbyggðinni) lætur þetta afskiptalaust, og nýtir sér ringulreiðina og óttann sem hún veldur meðal almennings til að koma á sínum eigin lausnum. Útgöngubannið sem sett var á og sýnilegur, vanbúinn her, sem hefur aldrei áður þurft að takast á við slíkar aðstæður, gerir ekki annað en auka á óttann, því það er á næturnar sem vopnuðu sveitirnar athafna sig!
Alls staðar reyna borgararnir að skipuleggja sínar eigin varnir, oft í samvinnu við herinn, þúsundir “alþýðunefnda til varnar borgurunum” hafa sprottið upp.
Aðeins stofnun bráðabirgðaríkisstjórnar, án þátttöku fulltrúa Destourian-stjórnarinnar, sem hefur það verkefni að undirbúa frjálsar og lýðræðislegar kostningar, undir nýju kostningakerfi, til stjórnlagaþings sem gerir túnisbúum mögulegt að endurheimta örlög sín og koma á stjórnarfyrirkomulagi í landi sínu sem er réttlátt og hagkvæmt fyrir allan almenning.
Daginn sem alþýðan vaknar til lífsins verða örlögin að beygja sig fyrir vilja hennar!
Túnis, 15 janúar 2011
RAID-Attac / CADTM Túnis
Fathi Chamkhi