Írska kreppan – klúður nýfrjálshyggjunnar

Síðastliðinn áratug vísuðu áköfustu boðberar nýfrjálshyggjunnar til Írlands sem fyrirmyndaríkis. Keltneski tígurinn sýndi meiri hagvöxt en meðaltalið í Evrópu. Fyrirtækjaskattar höfðu verið lækkaðir niðir í 12, 5%[1]Tekjuskattur fyrirtækja er 20% á Íslandi, 39,5% í Japan, 39,2% í Bretlandi, 34,4% í Frakklandi, 28% í Bandaríkjunum og raunskattarnir sem fjölmörg fjölþjóðafyrirtæki[2]Erfiðleika þýska bankans, Hypo Real Estate (sem ríkisstjórn Angela Merkel kom til bjargar 2007) og gjaldþrot bandaríska fjárfestingarbankans Bear Sterns(sem JP Morgan tók yfir í mars 2008 … Continue reading,sem höfðu komið sér fyrir þar greiddu, rokkuðu á milli 3% og 4%: alger draumur! Hallinn á ríkissjóði var enginn árið 2007. Atvinnuleysið var 0% árið 2008. Töfrum líkast: allir virtust fá eitthvað fyrir sinn snúð. Verkafólk hafði vinnu (þó hún væri oft tímabundin), fjölskyldur þess voru hamingjusamir neytendur, nutu ávinninga auðsins og kapítalistarnir, innlendir sem erlendir, sýndu ótrúlegann hagnað.

Í október 2008, nokkrum dögum áður en ríkisstjórnin bjargaði stóru “belgísku” bönkunum (Fortis og Dexia) frá gjaldþroti með skattfé almennings lét Bruno Colmart, forstjóri kauphallarinnar í Brussel og hagfræðiprófessor, gamminn geysa í Le Soir, helsta dagblaði frönskumælandi belga, og staðhæfði að Belgía yrði að fylgja fordæmi Írlands og losa enn meir um hömlur á fjármálakerfinu. Bruno Colmant taldi að Belgía þyrfti að breyta stofnana- og lagaumhverfi sínu til að verða kjörlendi alþjóðlegs fjármagns eins og Írland. Nokkrum vikum síðar lá keltenski tígurinn í valnum.

Á Írlandi stuðlaði frelsið á fjármálamaqrkaðinum að sprengingu í lánum til heimilanna (skuldir heimilanna námu 190% af vergri landsframleiðslu þegar kreppan skall á), sérstaklega til húsnæðiskaupa, sem þandi út hagkerfið (byggingariðnaðinn, fjármálalífið, osfrv. ). Bankakerfið blés út og margfaldaðist með tilkomu fjölda erlendra fyrirtækja og eignaaukningu írsku bankanna. Hlutabréfa- og húsnæðisbóla myndaðist. Heildarmarkaðsvirði skuldabréfaútgáfu og eignasafna bankanna voru fjórtánföld verg landsframfleiðsla (VLF).

Það sem átti ekki að gerast í þessum töfraheimi gerðist samt: um mánaðamótin september-október hrundi spilaborgin, fjármála- og húsnæðisbólan sprakk. Fyrirtækin lokuðu eða fluttust úr landi, atvinnuleysið snarjókst (0% 2008 og var orðið 14% í ársbyrjun 2010). Fjöldi fjölskyldnanna sem ekki gat staðið í skilum við lánadrottnana jókst mjög hratt. Allt írska bankakerfið var á barmi gjaldþrots og ríkisstjórnin, skelfingu lostin og blind, tryggði allar bankainnistæður upp að 480 milljörðum evra (nærri þreföld VLF sem er 168 milljarðar evra). Hún þjóðnýtti Allied Irish Bank, helstu íbúðalánastofnunina með því að leggja henni til 48.5 milljarða evra (nærri 30% af VLF).

Útflutningur dróst saman. Tekjur ríkisins lækkuðu. Fjárlagahallinn rauk úr 14% 2009 í 32% 2010 (þar af meira en helmingurinn skýrist af miklum stuðningi við bankana: 46 milljarðar voru framlag til eigin fjárs og 31 milljarður til kaupa á áhættusömum eignum).

Evrópska astoðaráætlunin með þátttöku AGS er í formi láns 85 milljörðum evra (22.5 koma frá AGS) og það er nú þegar ljóst að hún er ófullnægjandi. Í staðinn, hrossalækningin sem er þröngvað upp á keltneska tígurinn er í raun harkalegur niðurskurður sem kemur þungt niður á kaupmætti heimilanna sem veldur minkandi neyslu, samdrætti í opinberum útgjöldum til félagsmála, launa opinberra starfsmanna og opinberra framkvæmda (til hagsbóta fyrir endurgreyðslur skulda) og skatttekna.

Helstu aðgerðir niðurskurðaráætlunarinnar koma harkalega niður félagslega:

  • fækkun starfa hjá hinu opinbera um 24 750 (8% vinnuaflsins sem jafngildir 350 000 glötuðum störfum í Frakklandi);
  • 10% lækkun launa þeirra sem eru nýráðnir;
  •  minni félagslegar millifærslur með lækkuðum atvinnuleysis- og fjölskyldubótum, verleg lækkun í fjárlögum til heilbrigðisútgjalda, frysting lífeyris;
  • hækkun skatta sem meirhluti almennings, fórnarlamba kreppunnar, ber, sérstaklega hækkun virðisaukaskatts úr 21 í 23% 2014; nýr húsnæðisskattur ( sem nær til þess helmings heimila sem áður var skattlaus);
  • lækkun lágmarkslauna um 1 evru á vinnustund (úr 8, 75 í 7.65 evrur, sem þýðir -11%).

Vextir á lánin sem Írlandi eru veitt eru mjög háir: 5, 7% á lánin frá AGS og 6, 05% á “evrópsku” lánin. Þau eru nýtt til að endurgreiða bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum sem kaupa veðbréf í skuldum íra, en sjálf taka þau lán á 1% vöxtum í evrópska seðlabankanum til kaupanna. Enn ein gullnáman fyrir einkafjármagnið. Samkvæmt AFP sagði Dominique Strauss-Kahn:

Þetta mun ganga upp, vissulega verður þetta erfitt . . . því það er erfitt fyrir almenning sem verður að færa fórnir vegna niðurskurðar á fjárlögum.

Andstaðan á götunni og í þinginu hefur verið kröftug. Neðri deildin, Dail, samþykkti ekki aðstoðaráætlunina upp á 85 milljarða evra nema með 81 atkvæði gegn 75. Fjarri því að gefa eftir af nýfrjálshyggjustefnu sinni setur AGS það meðal forgangsatriðanna að Írland samþykki umbætur sem afnemi “viðskiptahindranir” til að “styðja við samkeppnishæfi á komandi árum“. Sósíalistinn Dominique Strauss-Kahn hefur sagst sannfærður um að tilkoma nýrrar ríkisstjórnar eftir kostningarnar sem eiga að fara fram í byrjun 2011 muni engu breyta:

Ég er sannfærður um að, jafnvel þótt stjórnarandstöðuflokkarnir, Fine Gael og verkamannaflokkurinn gaqgnrýni ríkisstjórnina og stefnuna . . . þá skilji þeir nauðsynina á að hrinda henni í framkvæmd.

Í stuttu máli, þá hefur frelsið í enahags- og fjármálum sem var ætlað að laða að erlenda fjárfesta og fjölþjóðleg fjármálafyrirtæki hvað sem það kostaði, farið gjörsamlega út um þúfur. Og til að auka á þjáningar íbúanna sem urðu fórnarlamb þessarar stefnu dettur ríkisstjórninni og AGS ekkert betra í hug en skerpa enn betur á nýfrjálshyggjustefnunni sem fylgt hefur verið síðastliðin tuttugu ár og, undir þrýstingi frá alþjóðlegum fjármálaheimi, keyra í gegn endurskipulagningu (ajustement structurel) í anda þeirra sem þröngvað hefur verið upp á þriðja heiminn síðastliðna þrjá áratugi. Þessir þrír áratugir verða, þvert á móti, að vera dæmi um það sem mikilvægt er að gera alls ekki. Þess vegna er brýnt að knýja fram aðra og gjörólíka forgangsröðun með hag almennings í fyrirrúmi en ekki einkafjármagnsins.

References

References
1 Tekjuskattur fyrirtækja er 20% á Íslandi, 39,5% í Japan, 39,2% í Bretlandi, 34,4% í Frakklandi, 28% í Bandaríkjunum
2 Erfiðleika þýska bankans, Hypo Real Estate (sem ríkisstjórn Angela Merkel kom til bjargar 2007) og gjaldþrot bandaríska fjárfestingarbankans Bear Sterns(sem JP Morgan tók yfir í mars 2008 með aðstoð Bush) stöfuðu einkum af vandamálum spákaupssjóða þeirra sem voru með höfuðstöðvar í Dublin.