Tony Omos

Ágætu fundarmenn, háttvirtu vegfarendur

Tveimur og hálfum mánuði eftir að minnisblaði innanríkisráðuneytisins um Tony Omos var lekið á Fréttablaðið og Morgunblaðið, þegar nokkrar vikur voru liðnar frá því að ríkissaksóknari hóf afskipti af málinu og Hanna Birna Kristjánsdóttir verið brennimerkt fyrir lífstíð af þessum leiðindum langt út fyrir landssteinana, skrifaði hún fallega hugleiðingu í Fréttablaðið.

Greinin bar nafnið Einstein var innflytjandi og var sett fram sem hvatning um jákvæðni í garð innflytjenda. Þar bendir ráðherrann á að innflytjendum „fylgi nýjar hugmyndir, ný tækifæri, nýjar lausnir og nýr heimur.” Í framhjáhlaupi nefnir hún þær „umbætur” í hælismálum sem hún hefur unnnið að áður en hún dembir sér í að útskýra hugmyndir sínar um opið fjölmenningarsamfélag.

„Við megum ekki missa af þeim tækifærum sem felast í því að fá hingað útlendinga.” skrifar hún. „Þannig tengjum við Ísland enn betur við umheiminn – og um leið umheiminn við Ísland. Við viljum vera land tækifæranna, við viljum vera land umburðarlyndis og við viljum vera land fjölbreytninnar. Við viljum víkka út sjóndeildarhringinn og við viljum vera opin fyrir þeim tækifærum sem okkur gefast.”

Áhersla Hönnu Birnu er á þau tækifæri og lausnir sem innflytjendur geti stuðlað að í samfélagi okkar, ekki þá sjálfsögðu kurteisi að vera tilbúin til þess að eiga fordómalaus samskipti við fólk hvaðanæfa, að ég tali nú ekki um að vera tilbúinn til að deila með þeim lífsgæðum.

Þetta er bara eitt lítið dæmi um það hvernig úrsérgengin huglaus og kaldaranalega íhaldsstefna reynir af veikum mætti að fóta sig í samfélagi sem óðum þokast frá hinu þjóðlega og afturhaldssama til þess alþjóðlega og framsækna. Útgangspunkturinn er mannfjandsamlegur og niðurstaðan geld, stofnanavædd auðhyggja. Við eigum að vera opin fyrir útlendingum eins og Albert Einstein, af því að í því felast tækifæri.

Greinin er auðvitað í hrópandi mótsögn við reynslu nánast allra innflytjenda af Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytinu sem virðast líta á það sem móðgun og árás að fólk utan Schengen svæðisins hafi áhuga á að setjast hér að.

Samt væri greinin svo sem ekki verri en hvert annað umburðarlyndisjarm ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hér reynir aðþrengdur mannréttindabrjótur að breiða yfir eigin rasisma. Greinin er rituð í skugga einhverrar sóðalegustu atlögu sem gerð hefur verið á flóttafólk á Íslandi þegar trúnaðarupplýsingum um fjóra nafngreinda einstaklinga var lekið úr ráðuneyti hennar á valda fjölmiðla.

Þegar greinin var rituð hafði Tony Omos þegar verið sendur úr landi án vitneskju lögmanns hans og Evelyn Glory Joseph alið honum son sem á lögvarðan rétt til samvista við báða foreldra.

Þegar þaulreyndur pólitíkus situr í öðrum eins grútarpotti á hann að hafa vit á því að þegja eða segja af sér. Fjálglegt tal um umburðarlyndi gerir ekkert annað en auka á reiði þeirra fjölmörgu sem nú krefjast þess að hún geri hreint fyrir sínum dyrum.

Hitt er annað mál að með greinininni afhjúpar ráðherrann bjánaleg viðhorf sín til málefna innflytjenda og gerir lítið úr raunverulegum ástæðum þess hve margir eru á farandsfæti um þessar mundir. Greinin hefði nefnilega með réttu átt að heita „Einstein var flóttamaður” en tilgangurinn með búferlaflutningum hans var ekki fyrst og fremst til að auðga bandarískt mannlíf, heldur flótti undan ofsóknum nazista. Þess ber að geta að hérlend stjórnvöld hefðu að öllum líkindum vísað honum beina leið „heim” til nazistalands hefði hann bankað upp á hér, eins og þau gerðu við fjölda gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni.

Þá væri ekki úr vegi fyrir ráðherrann að velta fyrir sér hversu margir menntamenn hafi fengið að fjúka úr landi gegn vilja sínum í hennar ráðherratíð, eða hversu margir muni fara á innan við 48 tímum verði tillögur hennar að umbótum í málaflokknum að veruleika. Það ætti ekki að þurfa neinn Einstein til þess að spá fyrir um hvernig útlendingastofnun mun fara með slíkar brottvísunarheimildir.

Hér á landi er ekki og hefur aldrei verið rekin nein umburðarlyndisstefna í garð fólks sem færir okkur tækifæri. Sú stefna sem Hanna Birna mælir fyrir nú mismunar fólki á grundvelli huglægs mats á framlagi þess til samfélagsins, rétt eins og mannúðarfasismi Ögmundar Jónassonar mismunar því á grundvelli huglægs mats á góðmennsku þess. Slíkar áherslur eru ólögmætar og ómannúðlegar gagnvart þeim fjöldamörgu sem vilja setjast að hér af öðrum ástæðum, svo sem vegna áhuga, vegna fátæktar eða vegna lífshættu heima fyrir.

Umrædd blaðagrein ráðherra er hugsanlega aumkunarverðasta tilraun Hönnu Birnu til þess að breiða yfir lekann og mannréttindabrotin sem honum var ætlað að réttlæta. Þar er engu að síður af nógu að taka.

Hún hefur reynt allt sem í hennar valdi stendur til þess að þaga lekann í hel. Hún og aðstoðarfólk hennar hefur skorast undan því að svara eðlilegum spurningum fjölmiðla og þingmanna, skrópað í viðtöl og gefið frá sér yfirlýsingar sem vekja upp fleiri spurningar en svör.

Þau hafa reynt að þagga niður í þingmönnum og fjölmiðlum og reynt að koma sökinni á óviðkomandi stofnanir og félagasamtök.

Þau hafa dregið lappirnar með að skila umbeðnum gögnum, bæði til lögmanna þolendanna í málinu og ríkissaksóknara.

Og þau hafa soðið saman samsæriskenningar um að fjölmiðlun um málið, mótmæli, sjálfstæð greinaskrif og umræða um það almennt, sé samstillt pólitískt átak gegn Hönnu Birnu sprottið af annarlegum sjónarmiðum sem hafi lítið með réttindi flóttafólks,eða almenn borgaraleg réttindi að gera.

Því segi ég: Nú er nóg komið Hanna Birna. Nú þegir þú, stígur til hliðar og lætur náttúruna hafa sinn gang. Fórnarlömb þessa glæps eiga að fá mál sín tekin upp enda mjög mikill vafi á að þau hafi fengið sanngjarna meðferð í ráðuneyti þínu. Kæruna gegn Tony Omos verður að leiða til lykta innan íslensks dómskerfis og réttindi sonar hans verður að tryggja um alla framtíð. Þau Evelyn eiga rétt á auðmjúkri afsökunarbeiðni þinni vegna lekans og samfélagið allt á rétt á því að vita að slíkir níðingar fari ekki með opinberar stöður eða höndli viðkvæmar upplýsingar.

Þú og þitt aðstoðarfólk eruð ekki starfi ykkar vaxin sem stendur. Upplýsið lekamálið, allt lekamálið, strax eða drullið ykkur út.


Haukur flutti ræðu þessa á mótmælafundi við Innanríkisráðuneytið 12. febrúar 2013.