Málfrelsið er til þess að vernda óvinsæla tjáningu

Takk fyrir að bjóða mér að vera með.

Ég ætla að velta aðeins fyrir mér málfrelsinu að því leyti sem það tengist máli nímenninganna og atburðunum 8. desember 2008 – en fyrst langar mig til að útskýra hvað það er sem ég á við með málfrelsi.

Já – ég held að málfrelsi horfi dálítið ólíkt við fólki, eftir því hvernig það kemur að samfélagsumræðunni. En þó málfrelsi eigi við alla tjáningu, hvort sem hún hefur pólítískt inntak eða ekki, er spurningin um málfrelsi, sama hvaða tjáningu við erum að tala um, alltaf pólítísk spurning – því málfrelsi er pólítískt hugtak: það er hugmynd um það hverskonar samfélagi við viljum við búum í.

Mikilvægi málfrelsis er sennilega líka mest þegar við komum að pólítískri samræðu.

Sum pólítísk þátttaka hefur verið viðurkennd af samfélaginu – starf innan skipulegra stjórnmálaflokka og blaðaskrif, og að einhverju leyti bloggskrif, kommentaskrif við bloggfærslur og Facebook, eru dæmi um viðurkennda pólítíska tjáningu sem almenn sátt er um. Nema nafnlaus komment, á Íslandi eru þau hræðilegur ósómi og til marks um agalaust samfélag og hrun siðmenningarinnar. En það eru aðrar tegundir pólítískrar tjáningar og hún getur átt sér stað á öðrum vettvangi en innan stjórnmálaflokka eða á prenti.

Fólk sem vill gera einhverjar róttækar breytingar á ríkjandi ástandi – og hefur annað hvort ekki trú á að það sé hægt að ná þeim “innan frá” – með starfi í skipulegum stjórnmálaflokkum eða með hefðbundnum skrifum, eða hefur ekki áhuga, verður að finna sér farveg fyrir pólítíska þátttöku utan þessara viðurkenndu tjáningarleiða. Eiginleg mótmæli eru til dæmis ævinlega utan hefðbundins stjórnmálastarfs.

Fólk sem er pólítískt aktíft og skiptir sér af samfélaginu og samfélagsumræðunni utan þessa hefðbundna vettvangs er samkvæmt skilgreiningu aktívistar – og mikið af því sem aktívistar gera eru einhverskonar mótmæli.

Jæja….

Það sem skiptir máli er tilhneyging valdhafanna og valdstjórnarinnar til að vilja þagga niður eða koma í veg fyrir pólítíska þátttöku sem er utan hins viðurkennda farvegar borgaralegs og hefðbundins stjórnmálastarfs. Það er hér sem málfrelsið verður virkilega mikilvægt.

Tilgangur málfrelsisins er að vernda rétt fólks til þess að tjá skoðanir sínar – ekki í einrúmi inni á heimilum sínum, friðhelgi einkalífsins sér um það. Málfrelsið verndar rétt borgaranna til að tjá skoðanir sínar opinberlega – það verndar rétt okkar til að taka þátt í samfélagsumræðunni, það verndar þannig rétt okkar til að taka pólítískan þátt í samfélaginu.

Og málfrelsið verndar sérstaklega rétt okkar til að lýsa yfir andstöðu, til að setja okkur upp á móti ríkjandi hugmyndum og ríkjandi valdhöfum – því það þarf varla nein sérstök ákvæði til að vernda rétt fólks til að vera sammála ríkjandi hugmyndum eða styðja ríkjandi valdhafa.

Ríkjandi valdhafar geta yfirleitt reitt sig á víðtækt net stofnana og vaskar sveitir embættismanna og viljugra borgara sem vernda réttindi þeirra, raunveruleg og ímynduð, og ríkjandi hugmyndir eiga ævinlega greiðan aðgang að hinum kapítalísku fjölmiðlum, og þurfa því enga sérstaka vernd í stjórnarskrá. Og þó málfrelsi sé mikilvæg forsenda allrar viðurkenndrar stjórnmálaþáttöku þarfnast pólítísk tjáning og þátttaka innan þeirra sjaldnast neinnar sérstakrar verndar.

Málfrelsið er til þess að vernda óvinsæla tjáningu – og sérstaklega tjáningu sem gengur með einhverjum hætti þvert á hagsmuni ríkjandi valdhafa.

Einhver mikilvægasti hluti málfrelsis er því mótmælarétturinn. Rétturinn til að mótmæla ríkjandi ástandi, valdhöfum eða öðrum valdamiklum aðilum, t.d. fyrirtækjum. Í málfrelsi felst að réttur borgaranna til pólítískrar tjáningar og pólítískrar þátttöku – mótmæla – á að vera tryggður.

Andstæða málfrelsisins má segja að sé réttur stjórnvalda til að fá frið fyrir almenningi – krafan um “vinnufrið” handa Alþingi og ríkisstjórn sem heyrðist frá forhertustu stuðningsmönnum ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar í búsáhaldabyltingunni 2008-9. Þessi hugmynd virðist því miður hafa náð nokkurri fótfestu og svo virðist sem margir telji að tillit þurfi að taka til beggja þessara “réttinda”, annars vegar málfrelsisins, mótmælaréttarins, undirstöðu lýðræðis, og svo hins vegar firringar valdhrokans. Á fundum G8 og hjá GWB, og við ýmis önnur tækifæri, hafa lögregluyfirvöld til dæmis komið upp sérstökum og afmörkuðum málfrelsissvæðum, free speech zones, þar sem mótmælendur mega vera að iðka sitt málfrelsi með hvor öðrum. Þá er passað upp á að öll þessi málfrelsisiðkun trufli ekki fulltrúa alþjóðastofnanna sem ráða örlögum almennings.

Það gefur auga leið að þessháttar mál- eða mótmælafrelsi sem aðeins má nýta innan einhverra afmarkaðra svæða undir ströngu eftirliti lögreglu er hvorki nokkuð mál né mótmælafrelsi, heldur eitthvað hræðilegt leikrit.

Hér á Íslandi hefur lögreglan, að beiðni bandarískra stjórnvalda, ákveðið að friðlýsa gangstéttina fyrir utan bandaríska sendiráðið fyrir öllum mótmælum og málfrelsi.

Lögregla og stjórnvöld sem vilja vinnufrið fyrir mótmælum og borgurum halda því auðvitað fram að það þurfi að tryggja röð og reglu og að mótmæli fari ekki -úr böndunum-. Til þess að passa uppá það gæti þurft að skerða réttindi mótmælenda og hafa á þeim stjórn, vernda þá sjálfa og ferðafrelsið osfrv.

Í þessu sambandi hefur lögregla beggja vegna Atlantshafsins í vaxandi mæli tekið upp mjög árangursríka valdníðsluaðferð sem heitir “kettling” við stórar mótmælagöngur mynda lögreglumenn raðir, smala mótmælendum saman og umkringja þá svo og koma þannig í veg fyrir að þeir komist leiðar sinnar. Ragnar Aðalsteinsson nefndi í málflutningi sínum í Nímenningamálinu að lögreglan hefði í raun “kettlað” okkur í stiganum, þar sem fólk mátti ekki komast uppá pallana en ekki heldur niður stigann.

Þó dómari og yfirvöld hafi ekki viljað horfast í augu við það snýst mál nímenninganna í raun og veru um það hvernig eigi að ballansera málfrelsið og mótmælafrelsið – hvar landamærin liggja á milli réttar almennings til pólítískrar þátttöku, og svo vafasams réttar valdhafanna til að fá að vera í friði fyrir þessari pólítísku þátttöku, eða hvar landamærin liggja milli skýlauss réttar almennings til pólítískrar þátttöku og tjáningar og svo torskilgreindrar allsherjarreglu – að lokum umboð lögreglu og valdstjórnarinnar til að halda uppi landamæragæslu á þessum landamærum, að ákveða hver stígur yfir landamærin og hvernig refsa skal viðkomandi.

Þetta finnst mér vera aðalatriðið í þessu máli öllu: Hver á að ákveða hvað sé lögmæt pólítísk þátttaka og hvað sé það ekki – hvenær og hvar almenningur má taka þátt í pólítískri umræðu? Og þó sérstaklega hvort lögregla eða aðrir fulltrúar stjórnvalda eigi að fá að komast upp með að ákveða það með gerræðislegum geðþóttaákvörðunum – og hvort þeir eigi svo að komast upp með að framkvæma þessar gerræðisákvarðanir sínar með ofbeldi gagnvart borgurunum.

Reynslan, bæði hér og í útlöndum, er sú að lögreglan er ekki fær um að dæma hvar þessi mörk liggja.

Íslensk lögregla, líkt og lögregla annarstaðar á vesturlöndum hefur kerfisbundið beitt ólögmætu valdboði til þess að koma í veg fyrir að fólki neyti þessa réttar síns: Túlkun lögreglu á réttindum almennings til pólítískrar þátttöku er mjög þröng, svo vægt sé til orða tekið.

Þegar lögregla gefur út ólögmæt valdboð um að fólk eigi að þegja, láta af pólítískri tjáningu, færa sig, fara eða koma, þegar lögregla lokar án tilefnis og án lagaheimilda almannarými eins og götum eða gangstéttum, eða pöllum Alþingis, og skipar mótmælendum með valdi að yfirgefa viðkomandi svæði, og handtekur það svo fyrir að óhlýðnast ólögmætu valdboði hennar – er hún ekki aðeins að vega að tjáningarfrelsi okkar og þar með grundvelli lýðræðisins, heldur er hún að vega að réttarríkinu.

Lalli sjúkraliði með boðskap sinn við Bandaríaka sendiráðið

Í flestum tilfellum hafa ólögmæt valdboð lögreglu verið afleiðing móðursýkislegrar ofreaksjónar yfirvalda sem telja sig hafa einhvern óskilgreindan rétt til að vera í friði fyrir mótmælum – í tilfelli Lalla sjúkraliða fyrir framan bandaríska sendiráðið telja fulltrúar erlendra stjórnvalda sér vera ógnað af því að maður vogi sér að standa með skilti á gangstétt – og kölluðu til lögreglu sem skipaði Lárusi að færa sig – og þegar hann óhlýðnaðist þessu valdboði, sem átti sér engan lagastuðning – var hann handtekinn og dreginn fyrir dómara. Áttunda desember 2008 töldu fulltrúar íslenskra stjórnvalda að sér væri ógnað þegar óvenjulega margt fólk ætlaði að heimsækja palla Alþingis – þegar fólkið vildi ekki hlýða fyrirmælum þingvarða sem vildu meina því að heimsækja þingpallana, eins og við höfðum allan rétt á – var það túlkað sem árás á þingið og réttmæt stjórnvöld og kallað til allt tiltækt lögreglulið sem beitti mikilli hörku við að handtaka fólk, sem var óæskilegt, í ljótum fötum og tók ekki af sér.

Í báðum tilfellum er algjörlega óumdeilanlegt að mótmælendur voru í öllum rétti.

Það er enginn lagabókstafur sem meinar Lárusi sjúkraliða að standa á gangstétt. Og héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri óyggjandi niðurstöðu að ekkert, ekkert! benti til þess að fyrir gestum í Alþingishúsið 8. desember hafi vakað annað en að komast á stað sem stjórnarskrá okkar tekur skýrt fram að sé opinn almenningi, og að við höfum ætlað okkur að mótmæla þar.

En látum vera að lögregla dragi taum stjórnvalda og mæti aktívistum eða mótmælendum sem trufla frið stjórnvalda með hörku. Þannig er það bara.Það sem er verra er að fulltrúar hinna greina hins þrískipta ríkisvaldsins hafa brugðist með sama hætti.

Í málum þar sem lögregla hefur gefið út ólögmæt valdboð hafa dómstólar ekki aðeins látið undir höfuð leggjast að ávíta lögeglu, heldur hafa mótmælendur verið dæmdir fyrir að óhlýðnast. Í okkar tilfelli tekur dómarinn skýrt fram að ekkert hafi bent til þess að fyrir okkur hafi vakað neitt annað en að komast á þingpalla – sem hann viðurkennir að hafi verið stjórnarskrárvarinn réttur okkar – og að ekkert hafi vakað fyrir okkur annað en að mótmæla – sem er sömu leiðis stjórnarskrárvarinn réttur – en hann gerir enga athugasemd við þá ákvörðun lögreglu og þingvarða að meina okkur að neyta þessa réttar.

Öll brot sem dæmt var fyrir áttu sér stað eftir að þingverðir og lögregla gáfu út ólögleg valdboð sín: Það sem hleypti atburðarásinni af stað var ólögmætt valdboð lögreglunnar.

En dómarinn segir ekkert um það.

Dómstólar hér á landi hafa ekki veitt lögreglu neitt aðhald í þessum efnum: Í nímenningamálinu kemst dómarinn að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að gestir í Alþingishúsinu 8. desember hafi ætlað sér annað en að heimsækja áhorfendapallana og að fyrir þeim hafi vakað að mótmæla.

Þess í stað var dæmt fyrir nokkur atriði sem áttu sér stað eftir að lögregla og þingverðir tóku að hafa ástæðulaus afskipti af hópnum.

Dómarinn forðaðist því að taka á meginatriði málsins – sem er rétturinn til að mótmæla.

Réttur lögreglunnar til að gera það sem henni sýnist við mótmælendur er hins vegar staðfestur.

Í samskiptum sínum við mótmælendur hefur lögreglan augljóslega komið fram sem þjónar valdsins, ekki fólksins.

Ég held að það þurfi allir að hafa miklar áhyggjur af þessu – vegna þess að þegar lögreglan tekur á mótmælendum sem glæpafólki er vegið að grundvallarstefi lýðræðisins: mótmælafrelsinu og málfrelsinu.

Eins og slagorðið segir: Criminalising protest destroys democracy!

Takk fyrir.


Ræða flutt á málþinginu Guli borðinn – rétturinn til að mótmæla 3. maí 2011, alþjóðadegi tjáningafrelsis.

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir