Sviplegt fráfall Néstors Kirchners í dag (27. Október 2010) er ekki aðeins mikið áfall fyrir Argentínu heldur einnig fyrir Suður Ameríku alla og heiminn. Kirchner tók við embætti sem forseti í maí 2003 þegar Argentína tók fyrstu skrefin til endurreisnar eftir mikið samdráttarskeið. Hlutverk hans í að bjarga efnahag Argentínu er sambærilegt við hlutverk Franklin D. Roosevelts í Kreppunni miklu í Bandaríkjunum. Rétt eins og Roosevelt þurfti Kirchner bæði að rísa gegn sterkum hagsmunum peningaaflanna og taka slaginn við flesta starfandi hagfræðinga sem fullyrtu að stefna hans myndi leiða til hamfara. Þeir reyndust hafa rangt fyrir sér en Kirchner rétt.
Samdrátturinn í Argentínu frá 1998-2002 var sannarlega sambærilegur við Kreppuna miklu í Bandaríkjunum hvað varðar atvinnuleysið, sem náði hámarki í meira en 21 prósenti, og samdrátt í framleiðslunni (u.þ.b. 20 prósent af landsframleiðslu). Meirihluti Argentínumanna, sem fram til þessa nutu hvað bestu lífskjara í Rómönsku Ameríku, lentu undir fátæktarmörkum. Í desember 2002 og janúar 2003 hrundi gengið, landið sló heimsmet í greiðslufalli á ríkisskuldum upp á 90 milljarða dollara ($ 95 000 000 000) og fjármálakerfið hrundi.
Þótt sumum þeirra óhefðbundnu aðferða sem á endanum tryggðu skjótan bata Argentínu væri þegar farið að beita áður en Kirchner tók við embætti þá varð hann að fylgja þeim í gegnum nokkur erfið viðfangsefni til að gera Argentinu að hraðast vaxandi hagkerfi Suður Ameríku.
Stóra áskorunin kom frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS). Sjóðurinn hafði gert sitt til að stuðla að hruninu – með því að styðja, meðal annarra slæmra þátta, of hátt gengi með sívaxandi skuldasöfnun á hækkandi vöxtum. En þegar hagkerfi Argentínu komst óhjákvæmilega í þrot bauð sjóðurinn enga aðstoð, bara bálk skilyrða sem myndu hindra endurreisn efnahagslífsins.
AGS hafði það eitt að markmiði að ná sem bestum samningi fyrir erlendu kröfuhafana. Kirchner hafnaði réttilega skilyrðum sjóðsins og AGS neitaði að endursemja um skuldir Argentínu.
Í september 2003 komst baráttan á úrslitastig þegar Kirchner, tímabundið, hætti að standa í skilum við sjóðinn frekar en að ganga að skilyrðum hans. Þetta var óvenju djörf ákvörðun – ekkert meðaltekjuland hafði áður lent í vanskilum við sjóðinn, aðeins fáein útlagaríki eins og Írak og Kongó. Ástæða þessa var að AGS var talinn hafa vald til að loka á öll lán, jafnvel viðskiptalán, til landa sem ekki stóðu í skilum við sjóðinn.
Enginn vissi fyrir víst hvað myndi gerast. En sjóðurinn gaf eftir og endursamdi um lánin.
Hagvöxtur í Argentína varð að meðaltali meira en 8 prósent á ári til ársloka 2008, og hóf meira en 11 milljónir manna, í landi með 40 milljónir íbúa, upp úr fátækt. Stefna Kirchnerstjórnarinnar, sem fól m.a. í sér stefnumið Seðlabankans á stöðugt og samkeppnishæf raungengi, og harðlínustefnu gegn kröfuhöfunum sem ekki fengu greitt – var hvorki vinsæl í Washington né meðal viðskiptapressunnar. En hún gekk upp.
Árangursrík átök Kirchner við AGS áttu sér stað á sama tíma og áhrif sjóðsins fóru þverrandi í heiminum, eftir mistök hans í efnahagskreppunni í Asíu sem var undanfari hrunsins í Argentínu. Þau sýndu heiminum að eitt land gæti boðið AGS birginn, lifað það af og verið til frásagnar, og stuðlað að áframhaldandi missi áhrifa AGS í Rómönsku Ameríku og meðaltekjulöndum almennt.Þar sem AGS var á þessum tíma mikilvægasti farvegur áhrifa Washington í lág-og meðaltekjulöndum stuðlaði þetta einnig að minnkandi áhrifum Bandaríkjanna, sérstaklega í nýlega sjálfstæðum ríkjum Suður-Ameríku.
Og Kirchner gegndi mikilvægu hlutverki í að styrkja þetta sjálfstæði með því að vinna með öðrum vinstrisinnuðum ríkisstjórnum, þar á meðal í Brasilíu, Venesúela, Ekvador og Bólivíu. Í gegnum stofnanir eins og UNASUR (Samband Suður-Ameríkuríkja), MERCOSUR (Viðskiptasamtök Suður-Ameríku), og fjölda viðskiptasamninga, tókst Suður-Ameríku að breyta stefnu sinni svo um munaði. Þau studdu með góðum árangri ríkisstjórn Bólivíu gegn atlögu hægriaflanna árið 2008, og nú síðast stóðu þau við bakið á Ekvador í valdaránstilraun fyrir nokkrum vikum síðan. Því miður tókst þeim ekki að snúa við valdaráni hersins á síðasta ári í Hondúras, þar sem stuðningur Bandaríkjanna við valdaránsstjórnina reyndist afgerandi. En Argentína, ásamt UNASUR, neita staðfastlega að hleypa Hondúras aftur inn í OAS (Samband Ameríkuríkja), þrátt fyrir mikinn þrýsting frá Washington.
Kirchner ávann sér einnig virðingu mannréttindasamtaka með vilja sínum til að sækja til saka og framselja herforingja sem sakaðir voru um glæpi gegn mannkyninu á herstjórnarárunum 1976-1983 – öfugt við stefnu fyrri ríkisstjórna. Ásamt konu sinni, núverandi forseta, Cristina Fernández, lagði Nestor Kirchner mikið af mörkum til að færa Argentínu og heimshlutann inn á framfarabraut. Þó þessi tilþrif hafi ekki almennt aflað honum mikilla vinsælda í Washington og í alþjóðlegum viðskiptaheimi, mun sagan ekki aðeins minnast hans sem mikils forseta heldur einnig sem sjálfstæðishetju Rómönsku Ameríku.