Skömmu eftir að Sósíalistaflokkurinn vann kosningar á landsvísu í Grikklandi haustið 2009 varð ljóst að fjármál ríkisins voru í upplausn. Í maí 2010 tók Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, forystuna í að safna saman €120 milljörðum frá evrópskum ríkisstjórnum til að niðurgreiða óframsækið skattkerfi Grikkja sem hafði steypt ríkisstjórninni í skuld – og sem Wall Street hafði aðstoðað við að leyna með Enronískum bókhaldsbrellum.
Skattakerfið var notað til þess að safna tekjum til að borga þýskum og frönskum bönkum sem keyptu ríkisskuldabréf (með síhækkandi vöxtum). Bankastjórarnir vinna nú í að gera hlutverkið formlegt, opinbert skilyrði fyrir því að framlengja grísk skuldabréf þegar þau koma á gjalddaga, og lengja gjalddaga á skammtíma lánalínunni sem Grikkland býr nú við. Núverandi eigendur munu uppskera gríðarlegan hagnað ef þessi áætlun gengur eftir. Moody’s lækkaði lánshæfismat Grikklands niður í ruslflokk þann 1. júni, (úr B1 sem er þegar mjög lágt mat, niður í Caa1) og áætlaði að helmingslíkur væru á greiðslufalli. Lækkunin þjónar þeim tilgangi að herða tökin enn frekar á grísku ríkisstjórninni. Moody´s benti á að óháð því hvað evrópskir ráðamenn taka til bragðs séu “[a]uknar líkur á því að stuðningsaðilar Grikklands (AGS, Evrópski seðlabankinn og framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, þekkt sem “Þríeykið” (Troika)) muni á einhverjum tímapunkti í framtíðinni þurfa að leita eftir þátttöku einkaaðila í skuldaaðlögunun sem forsendu fyrir áframhaldandi fjármögnun.”
Skilyrðið fyrir hinum nýja “endurbætta” lánapakka er að Grikklandi á nú að hefja stéttastríð með því að hækka skatta, lækka útgjöld til félagslega geirans – og jafnvel ellilífeyri einkageirans – og selja þjóðlendur, ferðamannastaði, eyjar, hafnir, vatns- og fráveitufyrirtæki. Þetta mun valda verðbólgu og auka kostnaðinn við það að stunda verslun og viðskipti, og grafa þannig undan þegar takmarkaðri getu þjóðarinnar til að stunda samkeppnishæfan útflutning. Bankastjórarnir lýsa þessu fjálglega sem “björgum” grískra fjármála.
Þeim sem raunverulega var bjargað fyrir ári síðan, í maí 2010, voru frönsku bankarnir sem áttu €31 milljarð í grískum skuldabréfum, þýsku bankarnir sem áttu €23 milljarða, og aðrir erlendir fjárfestar. Vandamálið fólst í því hvernig hægt væri að sannfæra Grikki um að samþykkja áætlunina. Sósíalistar hins nýkjörna forsætisráðherra, George Papandreou, virtust færir um að fara með kjósendur sína á líkar slóðir og þær sem nýfrjálshyggnir sósíaldemókratar og verkalýðsflokkar víðsvegar í Evrópu hafa fetað – einkavæðingu grunnstoða samfélagsins og loforð um að bankastjórar hafi aðgang að framtíðartekjum ríkisins.
Þetta var einstakt tækifæri til þess að toga í fjárhagslega strengi, sölsa undir sig eignir og herða tökin á ríkiskassanum. Fyrir sitt leyti voru bankastjórarnir fúsir í að veita lán til þess að fjármagna kaup á lottóum og happdrættum, símaþjónustu, höfnum og samgöngum eða öðrum svipuðum einokunartækifærum. Og þegar kemur að hinum auðugu stéttum Grikklands myndi lánapakki Evrópusambandsins gera landinu kleift að dvelja nógu lengi innan evrusvæðisins til þess að hægt væri að flytja fé úr landi áður en til þess kæmi að Grikkland yrði tilneytt að skipta út evrunni fyrir drökmu og fella gengið. Þangað til að slík skipti yfir í fljótandi gengi ættu sér stað, átti Grikkland að fylgja stefnu Eystrasaltsríkjanna og Írlands um “innri gengisfellingu”, þe. verðhjöðnun launa og niðurskurð í ríkisfjármálum (nema í greiðslum til fjármálageiranns) til að lækka atvinnustig og þar með laun.
Það sem raunverulega er gengisfellt í niðurskurðaráætlunum og verðlækkunum á gjaldmiðlum er verð á vinnuafli. Í því er fólginn helsti innlendi kostnaðurinn, að því leyti sem sameiginlegt verð ræðst á heimsmarkaði með eldsneyti og steinefni, neysluvarning, matvöru og jafnvel lánsfé. Ef ekki er hægt að lækka laun með “innri gengislækkun” (atvinnuleysi sem hefst í opinbera geiranum, og leiðir til lækkunnar á launum), mun lækkun á virði gjaldmiðlsins ná tilætluðum árangri að lokum. Það er á þennan hátt sem hið evrópska stríð kröfuhafa gegn skuldugum löndum snýst uppí stéttastríð. En til þess að hægt sé að framfylgja slíkum nýfrjálshyggnum umbótum þarf að sneiða fram hjá innlendum, lýðræðislega kjörnum þjóðþingum. Ekki er hægt að reikna með því að allir kjósendur verði eins passívir í því að snúast gegn eigin hagsmunum og Lettar og Írar.
Stærstur hluti grísku þjóðarinnar áttar sig á því sem gerst hefur eftir því sem atburðarásin hefur þróast undanfarið ár. “Papandreou sjálfur viðurkennir að við ráðum engu í þeim efnahagslegu ráðstöfunum sem þröngvað er upp á okkur” sagði Manolis Glezos sem tilheyrir vinstriarminum. “Þær voru ákveðnar af Evrópusambandinu og AGS. Við erum nú undir erlendri yfirstjórn og það vekur spurningar um efnahagslegt, hernaðarlegt og pólitískt sjálfstæði okkar.” Á hægri væng stjórnmálanna sagði leiðtogi íhaldsmanna Antonis Samaras þann 27. maí á meðan samningaviðræður við evrópska þríeykið stigmögnuðust: “Við erum ósammála stefnu sem drepur hagkerfið og eyðileggur samfélagið. … Það er aðeins ein leið út fyrir Grikkland, að semja uppá nýtt um björgunarpakkan (frá ESB/AGS).”
En lánadrottnarnir í Evrópusambandinu uku þrýstinginn og höfðu í hótunum: Það að neita samningnum myndi leiða til afturköllunar á fjármunum og þar með orsaka bankahrun og efnahagslegt stjórnleysi.
Grikkir neituðu að gefast hljóðlega upp. Verkföll breiddust út frá stéttafélögum opinberra starfsmanna og urðu að “Ég borga ekki” hreyfingu á landsvísu þar sem Grikkir neituðu að borga vegatolla og önnur opinber þjónustugjöld. Lögreglan og aðrir innheimtuaðilar hins opinbera reyndu ekki að framfylgja innheimtu. Vaxandi popúlísk samstaða rak forsætisráðherra Lúxemborgar Jean-Claude Juncker til að hafa í samskonar hótunum og þeim sem Gordon Brown hafði beint til Íslands: Ef Grikkland léti ekki undan fjármálaráðherrum Evrópu myndu þeir koma í veg fyrir júní afgreiðslu AGS lánapakkans. Þetta kæmi í veg fyrir að ríkisstjórnin gæti greitt erlendum bankamönnum og hrægammasjóðunum sem hafa verið að kaupa grískar skuldir á sífellt auknum afslætti.
Í eyrum margra Grikkja er þetta hótun frá fjármálaráðherrunum um að skjóta sjálfa sig í fótinn. Ef engir peningar eru til að borga, munu erlendir skuldabréfaeigendur þjást – svo lengi sem Grikkland setur eigin efnahag í fyrsta sætið. En þetta er stórt “ef”. Forsætisráðherra sósíalista, Papandreou, líkti eftir íslenska sósíaldemókratanum Jóhönnu Sigurðardóttur með því að hvetja til “samstöðu” í því að hlýða fjármálaráðherrum Evrópusambandsins. “Stjórnarandstaðan hafnar síðasta niðurskurðarpakkanum á þeim forsendum að aðhaldið sem samþykkt er í skiptum fyrir €110 milljarða björgunarpakkann dragi allt líf úr hagkerfinu”.
Það sem um ræðir er hvort Grikkland, Írland, Spánn og önnur lönd í Evrópu muni snúa til baka lýðræðislegum umbótum og færast nær einræði fjármagnsaflanna. Fjárhagslegu markmiðin eru að sniðganga þjóðþing með því að krefjast “samstöðu”um að setja hagsmuni erlendra lánadrottna fyrst, framar heildarhagsmunum efnahagskerfisins. Þjóðþing eru beðin um að gefa eftir völd sín til stefnumótunar. Hin eiginlega skilgreining á “frjálsum markaði” er nú miðstýrð stefnumótun – framkvæmd af seðlabankastjórum. Þetta er hin nýja leið að því að allur almenningur verði leiguliðar (serfdom) sem fjármálavæddir “frjálsir markaðir” leiða að : markaðir þar sem einkavæðingaröflin geta rukkað það sem þeim þóknast fyrir grunnþjónustu “frjálsa” undan verðstýringu og lögum gegn hringamyndun og einokun, markaðir ” frjálsir” undan því að lánþegar séu verndaðir með þaki á lánveitingum, og fyrst og fremst frjálsir undan nokkrum afskiptum kjörinna þjóðþinga. Það að sölsa undir sig einokunarstöðu í samgöngum, fjarskiptum, happdrættum og þjóðlendum frá almenningi er kallað valkosturinn við ánauð, ekki leiðin að fjármálavæddu nýlénskerfi og skuldaánauð þeirri sem vofir yfir sem raunveruleiki nýrrar framtíðar. Svona er hin öfugsnúna efnahagslega heimspeki okkar tíma.
Samþjöppun fjárhagslegs valds í hendur þeirra sem hafa ekki hlotið nokkur lýðræðisleg völd í gegnum kosningar er rökrétt afleiðing af því hvernig miðstýrt fjármálaskipulag Evrópu varð til. Evrópski seðlabankinn hefur ekkert kjörið yfirvald á bak við sig sem hefur völd til að leggja á skatta. Stjórnarskrá Evrópusambandsins meinar Evrópska seðlabankanum að bjarga ríkisstjórnum úr snörunni. Og sjálf ákvæði AGS samningsins meina sjóðnum að veita fjárhagslegann stuðning til þess að rétta af fjárlagahalla ríkja. “Aðildarríki er heimilt að fá lán aðeins að því skilyrði uppfylltu að það hafi ‘þörf á því að taka lánið sökum greiðslujafnvægis eða gjaldeyrisforða eða breytinga á samsetningu gjaldeyrisforðanns.” Grikkland, Írland og Portúgal eru sannarlega ekki í vandræðum með gjaldeyrisforða… AGS veitir nú lán vegna fjárlagahalla, og það er ekki hlutverk sjóðsins. Deutschebank lagði mikla áherslu á þetta í mánaðarlegri skýrslu sinni í mars 2010: “Allt fjárframlag frá AGS sem notað er til að leysa vandamál sem fela ekki í sér þörfina fyrir erlenda mynt- eins og td. fjármögnun sem rennur beint til þess að borga niður fjárlagahalla- stangast á við peningamálastefnu sjóðsins.” Yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins Dominique Strauss-Kahn og aðalhagfræðingur sjóðsins Olivier Blanchard eru á leið með AGS inná brautir sem honum eru óheimilar, og það er enginn dómstóll sem getur stoppað þá.” (Roland Vaubel, “Europe’s Bailout Politics,” The International Economy, Vor 2011, bls. 40.)
Lærdómurinn er sá að þegar að því kemur að bjarga bankastjórum, eru reglur hunsaðar- í því skyni að þjóna “hinum æðra tilgangi” að bjarga bönkunum og viðskptaaðilum þeirra í fjármálaheiminum frá tapi. Þetta er anstætt stefnu AGS þegar kemur að vinnuafli og “skattgreiðendum.” Stéttastríðið er komið aftur á fullt skrið- með látum, og bankamennirnir eru að þessu sinni sigurvegararnir.
Efnahagsbandalag Evrópu sem kom á undan Evrópusambandinu var skapað af kynslóð leiðtoga sem höfðu það að sínu helsta markmiði að binda endi á innbyrðisátök þau sem tættu Evrópu í sundur í eittþúsund ár. Markmið margra var að binda endi á fyrirbærið þjóðríki – á þeirri forsendu að þjóðir stundi hernað. Almennt var búist við því að efnahagslegt lýðræði myndi vinna geng einveldissinnuðum hugmyndum þeirra sem sóttust eftir dýrð og ljóma með landvinningum og heimsvaldastefnu. Innanlands áttu umbæturnar að hreinsa evrópsk hagkerfi eftir arfleið fyrri landvinninga lénskerfisins, sameignum almennings. Markmiðið var að allir nytu góðs af umbótunum. Þannig var umbótaáætlun hins klassíska pólitíska hagkerfis.
Sameinigin Evrópu var byggð í kringum milliríkjaviðskipti, sem var einnig sú leið sem var líklegt að mætti minnstri mótspyrnu – Kola- og Stálbandalaginu sem Robert Schuman barðist fyrir, stofnað árið 1952, og á eftir því fylgdi Efnahagsbandalag Evrópu (EEC, the Common Market, hinn sameiginlegi markaður) árið 1957. Sameinað tollabandalag og sameiginleg landbúnaðarstefna (Common Agricultural Policy – CAP) voru fullkomnaðar með fjármálalegri sameiningu. En án raunverulegs meginlandsþings sem gæti samið lög, ákveðið skattahlutföll, verndað lífskjör og aðstæður vinnuaflsins og réttindi neytenda, og haft völd yfir fjármálamiðstöðvum á aflandseyjum, færist miðstýrt skipulag sjálfkrafa í hendur bankastjóra og fjármálastofnanna. Þannig er lýðræðislegum stjórnmálum skipt út fyrir einræði fjármagnsaflanna.
Fjármál eru tegund af hernaði. Líkt og í hernaðarlegum ávinningum er markmiðið að ná stjórn á landi, innviðum, og að leggja á skatta. Þetta felur í sér að setja þegnunum lög, og að þjappa miðlægt saman völdum til félagslegrar og efnahagslegrar stefnumótunar. Þetta á sér nú stað með fjárhagslegum hætti, án þess kostnaðar sem árásaraðilinn verður að bera ef beitt er herafli. En hagkerfi þau sem verða fyrir árásinni geta orðið fyrir jafn miklu tjóni eins og ef um hernaðarlega árás væri að ræða, með fólksfækkun, styttri líftíma íbúanna, brottfluttningi og fjármagnsflótta.
Þessi árás er ekki af völdum þjóðríkja sem slíkra, heldur framin af hinni alþjóðlegu stétt peningamanna. Fjármagnsauðvaldið hefur alltaf verið alþjóðlegt fremur en bundið þjóðríkinu – og hefur ávallt leitast við að beygja lýðræðisríki sem búa við þingræði undir vilja sinn og neyða þau til að þjóna hagsmunum sínum.
Eins og allar einokunarstéttir eða þeir sem eiga hagsmuna að gæta, er stefna fjármagnsauðvaldsins að koma í veg fyrir að hið opinbera geti lagt á það skatta eða takmarkað frelsi þess. Frá sjónarhorni fjármagnsins á ríkisvaldið helst einvörðungu að efla og vernda fjármagnið og “kraftaverk vaxtavaxta” sem gerir formúum kleift að margfaldast út í hið óendanlega, hraðar en hagkerfið getur vaxið, þangað til að þær éta sig inní undirstöður hagkerfisins og gera því (hagkerfinu) það sama og okurlánarar gerðu rómverska heimsveldinu.
Það er þetta fjárhagslega gangverk sem nú ógnar, og getur sundrað Evrópu okkar daga. En fjármagnsstéttin hefur nú öðlast nægilegt afl til þess að snúa hugmyndafræðilegri vörn í sókn og heldur því fram að það sem ógni evrópskri samstöðu séu almenningur í þjóðríkjum sem reynir að standa gegn alþjóðlegri kröfu fjármagnsins um að þröngva niðurskurði og sparnaði uppá vinnuaflið. Skuldir sem þegar eru orðnar of háar til að hægt sé að greiða þær skulu settar á efnahagsreikning hins opinbera – án þess að til komi nokkur hernaðarátök. Slíkar blóðsúthellingar heyra í það minnsta sögunni til. Frá sjónarhóli írsks og grísks almennings (kannski bættast brátt í flokkinn almenningur í Portúgal og á Spáni) á að virkja þjóðþing til að innleiða skilmála uppgjafar gagnvart útsendurum fjármagnsins. Það er næstum hægt að segja að markmiðið sé að grafa undan þjóðþingum og koma til valda innlendum leppstjórnum sem þjóna hinni alþjóðlegu stétt fjármagnsins, og nota skuldir til þess að þvinga fram einkavæðingu á því sem eftir er af almannaeign. Að því leiti erum við á leið inní tímabil nýmiðalda og uppskiptingar almenninganna (post-medieval world of enclosures), – uppskiptingarhreyfingar sem knúin er áfram af lögmálum fjármagnsins, sem eru hafin yfir landslög, og ganga gegn almannaheill.
Í Evrópu hefur fjárhagslegt vald safnast saman í Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi. Það eru bankar í þessum löndum sem eiga flest skuldabréf grísku ríkisstjórnarinnar, sem nú er krafin um að skera niður, og einnig skuldabréf írsku bankanna sem nú þegar hefur verið bjargað á kostnað írskra skattgreiðenda.
Fimmtudaginn 2. júni, 2011, lagði forseti Evrópska seðlabankans fram áætlun sína um það hvenig ná á fram einræði fjármagnsaflanna í Evrópu allri. Á viðeigandi hátt tilkynnti hann áætlunina um leið og hann hlaut Charlemagne verðlaunin (Karlamagnúsar verðlaunin) í Aachen, Þýskalandi- og sýndi með því á táknrænan hátt hvernig Evrópa skal sameinast, ekki á grundvelli efnahagslegrar friðsemdar eins og arkitekta hins sameiginlega markaðar dreymdi um á sjötta áratugnum, heldur á þveröfugum forsendum, út frá hagsmunum fjármagnseinræðisins.
Í upphafi ræðu sinnar um að “Byggja Evrópu, Byggja stofnanir” eignaði Trichet Evrópuráðinu, undir forrystu van Rompuy, heiðurinn af því að hafa vísað veginn og veit meðbyr frá efstu stigum og einnig Evrópuhóp fjármálaráðherra, undir forrystu Juncker. Saman skipa þeir það sem fjölmiðlar kalla Þríeyki evrópskra lánadrottna. Í ræðu sinni vísar Trichet til “samræðunnar á milli Þingisns, Nefndarinnar og Ráðsins.”
Verkefni Evrópu, útskýrði hann, var að fylgja í fótspor Erasmusar og færa Evrópu frá hinni hefðbundnu “þröngu skilgreiningu á þjóð.” Skuldavandinn kallaði á nýjar “aðgerðir í peningamálum – við köllum þær ‘óhefðbundnar’ ákvarðanir, strangt aðskildar frá ‘hefðbundnum’ aðgerðum, sem miða að því að endurheimta skilvirkari framkvæmd peningamálastefnu okkar við þessar óeðlilegu markaðsaðstæður.” Vandamálið sem við er að eiga er hvernig hægt er að gera þessar aðstæður að því sem telst hefðbundið- það að borga skuldir og endurskilgreina greiðsluhæfni sem getu þjóða til að borga með því að selja almannaeignir.
“Þau lönd sem ekki hafa lifað eftir bókstaf laganna eða anda þeirra hafa átt í erfiðleikum” hélt Trichet fram. “Með því að smitast hafa þessir erfiðleikar haft áhrif á önnur lönd innan Efnahags og myntbandalagsins (EMU). Það að styrkja reglurnar til að koma í veg fyrir óskynsamlega stefnu er þessvegna brýnt forgangsverkefni.” Notkun hans á hugtakinu “smit” gaf til kynna að lýðræðislega kjörnar ríkisstjórnir og verndun á skuldurum væru einhverskonar sjúkdómur. Þessi orð minna á ræðu Gríska ofurstans, opnunaratriði frægrar myndar frá 1969, “Z”: að berjast gegn vinstristefnu líkt og hún væri landbúnaðarplága sem þyrfti að eyða með réttu hugmyndafræðilegu skordýraeitri. Trichet tileinkaði sér orðræðu ofurstans. Hlutverk grískra sósíalista er að því er virðist að framkvæma það sem ofurstunum og íhaldssömum eftirmönnum þeirra tókst ekki: að þröngva uppá vinnuaflið óafturkræfum efnahagslegum endurbótum.
Unnið er nú eftir fyrirkomulagi, þar sem um ræðir fjárhagsaðstoð samkvæmt ströngum skilyrðum, fullkomlega í takt við stefnu AGS. Mér er kunnnugt að sumir þeir sem fylgjast með málinu hafa áhyggjur af því hvert þetta muni leiða. Línan á milli svæðisbundinnar samstöðu og einstaklingsbundinnar ábyrgðar gæti orðið óskýr ef skilyrðum samningisns er ekki fylgt eftir að hörku. Að mínu mati gæti verið viðeigandi þegar til lengri tíma er litið að tvö stig væru fyrir lönd í vanda. Þetta myndi að sjálfsögðu krefjast breytinga á sáttmálanum.
Á fyrsta stiginu er réttlætanlegt að veita fjárhagsaðstoð samhliða öflugri aðlögunaráætlun. Það er við hæfi að veita löndum tækifæri til að koma ástandinu í lag og endurheimta stöðugleika.
Á sama tíma er slík aðstoð í þágu alls Evrusvæðisins, þar sem hún kemur í veg fyrir að hættuástand breiðist út á hátt sem væri skaðlegur öðrum löndum.
Það er mikilvægara en nokkuð annað að aðlögun eigi sér stað; að lönd – stjórnvöld og stjórnarandstaða -sameinist að baki átakinu; og að þau lönd sem leggja til aðstoðina fylgist grant með framkvæmd áætlunnarinnar.
En ef landið sem um ræðir er samt ekki að skila tilhlýðilegum árangri, tel ég að við séum öll sammála um að seinna stigið verði að vera ólíkt. Myndi það ganga of langt ef við sæum fyrir okkur, á þessu seinna stigi, að yfirvöld á evrusvæðinu hefðu meiri og skýrari völd þegar kemur að myndun efnahagsstefnu lands, ef hún (stefnan) hefur farið hættulega af leið? Bein áhrif, sem ná langt yfir það styrkta eftirlit sem nú er gert ráð fyrir? (Áherslubreyting MH)
Forseti Seðlabankanns upplýsti síðan um pólitísk aðalatriði og forsendur umbótaáætlunarinnar (ef það er ekki svívirða að nota hugtakið “umbætur” í andrúmslofti and-upplýsingar nútímans):
Við sjáum því fyrir augum okkar hvernig aðild að Evrópusambandinu, og ennþá frekar aðild að Efnahags og myntbandalaginu (EMU), innleiðir nýjan skilning á því hvernig fullveldi er beitt. Það að lönd eru háð innbyrðis þýðir að þau hafa í reynd ekki fullveldi. Þau geta upplifað krísur sem koma til eingögnu vegna slæmrar hagstjórnar annara landa.
Með nýrri hugmynd um seinna stig, myndum við breyta að verulegu leiti núverandi stjórnarháttum byggðum á samspili eftirlits, tillögum og viðurlögum. Í núverandi skipulagi eru allar ákvarðanir í höndunum á viðkomandi landi, jafnvel þótt að tilmælin séu hundsuð og jafnvel þótt að slíkt viðhorf leiði af sér alvarlega erfiðleika fyrir önnur sambandslönd.
Með þessari nýju hugmynd yrði það ekki aðeins mögulegt, heldu í sumum tilfellum skylda, á seinna stiginu, fyrir evrópsk yfirvöld – þeas. Evrópuráðið samkvæmt tillögu framkvæmdarstjórnarinnar, í samvinnu við Evrópska seðlabankann – að taka sjálf ákvarðanir sem eiga við í því hagkerfi sem um ræðir.
Það má sjá þetta fyrir sér sem svo að evrópsk stjórnvöld hafi eitthvað neitunarvald þegar kemur að hagstjórn ríkja. Eftirgjöfin gæti falist í endurskoðun stórra útgjaldaliða fjárlaga og þáttum sem nauðsynlegir eru fyrir samkeppninshæfi landsins. …
Með “óskynsamlegri efnahagsstefnu” á Trichet við það að borga ekki skuldir – þannig að greiðsla þeirra verði viðráðanleg án þess að til komi stórfeld einkavæðing , og með því að neita að afhenda bönkunum hin rauverulegu pólitísku völd og afnema efnahagslegt lýðræði.
Með því að reka hnífinn dýpra í langa sögu evrópskrar hugsjónamennsku, lýsti hann með blekkjandi hætti hugmyndum sínum um fjárhagslegt valdarán líkt og þær væru í anda Jean Monnet, Robert Schuman og annara frjálslyndra hugsuða sem börðust fyrir evrópskri sameiningu í þeirri von að með henni væri hægt að skapa friðsælli heim – heim sem í væri meiri velmegun og verðmætasköpun, ekki heim byggðan á gripdeildum fjármagnsins.
Fyrir 35 árum ritaði Jean Monnet í æviminningum sínum: ‘Í dag getur enginn spáð fyrir um það hvert stofnanaumhverfi Evrópu morgundagsins verður vegna þess að breytingar framtíðarinnar, fóstraðar af breytingum nútímanns, eru ófyrirsjáanlegar.’
Væri það of stórhuga, í þessu Sambandi morgundagsins, eða dagsins þar á eftir, að sjá fyrir sér á efnahagslega sviðinu, þar sem einn markaður, ein mynt og einn seðlabanki eru til staðar, fjármálaráð Sambandsins? Ekki endilega fjármálaráðuneyti sem hefur umsjón með stórum fjárlögum ríkisins.
Heldur fjármálaráðuneyti sem bæri beina ábyrgð á í það minnsta þremur sviðum: í fyrsta lagi með eftirliti á ríkisfjármálum og stefnumótun um samkeppnishæfni, auk beinnar ábyrgðar á þeim löndum innan evrusvæðisins sem væru komin á ‘seinna stigið’ sem minnst var á hér áður; í öðru lagi, alla dæmigerða ábyrgð framkvæmdarvaldsins þegar um er að ræða samofinn fjármálageira sambandsins, í því markmiði að fylgja fullri samþættingu fjármálageirans; og í þriðja lagi, að vera í forsvari fyrir sambandssamveldið innan alþjóðlegra fjármálastofnana.
“Husserl lauk fyrirlestri sínum á framsýnan hátt: ‘Tilvistarkreppa Evrópu getur aðeins endað á tvo vegu: með endalokum hennar ( Evrópu) (…) með því að verða hatri og villimennsku að bráð; eða með endurfæðingu í anda heimspekinnar, með hetjuskap rökhyggjunnar(…).'”
Vinur minn Marshall Auerback komst þannig að orði að skilaboð ræðunnar væru nógu kunnuleg til að geta verið lýsing á því sem er að gerast í Bandaríkjunum: “Þetta er lausn Repúlíkana í Michigan. Takið yfir borgir þær sem eru í krísu og undir stjórn minnihlutahópa, fjarlægið lýðræðislega kjörnar stjórnir þeirra og notið víðtækar heimildir til þröngva niðurskurði uppá almenning.” Með öðrum orðum, það verður ekkert pláss fyrir stofnun eins og þá sem Elizabeth Warren hefur talað fyrir, innan Evrópusambandsins. Það er ekki slík hugsjónamennska sameiningar sem Trichet og Evrópski seðlabankinn sjá fyrir sér.Hann (Trichet) er á leið að lokasenu myndarinnar “Z” og því sem þar birtist á skjánum: Það sem bannað er undir herforingjastjórinni: “friðarhreyfingar, verkföll, verkalýðsfélög, karlmenn með sítt hár, Bítlarnir, önnur vinsæl nútímatónlist (‘la musique populaire’), Sófókles, Leó Tolstoj, Aeschylus, að skrifa að Sókrates hafi verið samkynhneigður, Eugène Ionesco, Jean-Paul Sartre, Anton Tsjekhov, Harold Pinter, Edward Albee, Mark Twain, Samuel Beckett, samtök lögmanna, félagsfræði, alþjóðlegar alfræðiorðabækur, frjáls fjölmiðlun, og nýja stærðfræðin. Einnig er bókstafurinn Z bannaður,sem var notaður sem symbólísk áminning um að Grigoris Lambarkis lifði og með honum andi andspyrnunnar.”
Eins og Wall Street Journal benti réttilega á er pólitískt inntak ræðu Trichet “að ef land sem hefur hlotið björgunarpakka stendur ekki við þá aðlögun ríkisfjármála sem um var samið, þá væri hægt að krefjast ‘seinna stigs’, sem gæti mögulega innihaldið ‘að yfirvöld á evrusvæðinu hefðu meiri og skýrari völd þegar kemur að myndun efnahagsstefnu lands…'” Yfirvöld á evrusvæðinu – sérstaklega fjármálastofnanir þeirra, ekki lýðræðislegar stofnanir sem ætlað er að vernda vinnuafl og neytendur, bæta lífskjör osfrv. – “gætu haft ‘neitunarvald þegar kemur að sumum ákvörðunum um hagstjórnarstefnu’ undir slíku stjórnarfyrirkomulagi. Neitunarvaldið gæti sérstaklega átt við meiriháttar útgjaldaliði fjárlaga og atriði sem nauðsynleg eru fyrir samkeppninshæfi landsins.'”
Með því að umorða mæðulega fyrirspurn Trichet: ” Væri það of stórhuga, í þessu sambandi morgundagsins…að sjá fyrir sér á efnahagslega sviðinu…fjármálaráð sambandsins?” var bent á í greininni að “[s]líkt ráðuneyti myndi ekki endilega ráða yfir stórum alríkisfjárlögum en myndi standa fyrir eftirliti og beitingu neitunarvalds, og myndi vera í forsvari fyrir myntsvæðið innan alþjóðlegra fjármálastofnana.”
Mín eigin minning er sú að sósíalísk hugsjónamennska eftirstríðáranna var uppgefin af þreytu yfir því að sjá þjóðríkin sem tæki hernaðarbrölts. Þessi hugmyndafræði friðarhugsjónarinnar skyggði á hina upprunalegu hugmyndafræði sósíalisma 19. aldarinnar, sem leitaðist eftir því að ná fram umbótum með því að fá ríkisstjórnir til að skattleggja völd og eignir úr höndum stétta þeirra sem höfðu ráðið síðan lénskerfinu var komið á í kjölfar innrása víkinga, haft fjárhagsleg yfirráð yfir einokunarfyrirtækjum í verslun og í vaxandi mæli, forrréttindi sjálfrar peningasköpunarinnar.
En einhvernveginn gerðist það sem samstarfsmaður minn í Háskólanum í Missouri, Kansas, (UMKC) Bill Black, prófessor í hagfræði og lögum, nefndi í nýlegu bloggi hagfræðideildar háskólans: “Ein af hinum miklu þversögnum er sú að hinar almennt vinstrisinnuðu ríkisstjórnir jaðarlandanna samþykktu af svo mikilli ákefð öfga-hægrisinnaðar efnahagslegar hrossalækningar Evrópska seðlabankans – niðurskurður eru viðeigandi viðbrögði við miklum samdrætti… Hver ástæðan er fyrir því að stjórnmálaflokkar á vinstri vængnum taka ráðgjöf frá öfga-hægri væng hagfræðinnar, sem átti sök á afreglunaröfgunum sem orsökuðu krísuna, fagnandi er ein af hinum miklu leyndardómum tilverunnar. Stefna þeirra grefur undan efnahagslífinu og er pólitískt sjálfsvíg.”
Grikkland og Írland eru prófraun á það hvort hagkerfum landa verður fórnað í tilraunum til að borga skuldir sem ekki verða greiddar. Hætta er á millibilsástandi þar sem leiðin að greiðslufalli og varanlegum niðurskurði mun mótast af því að meira og meira af þjóðlendum og fyrirtækjum í almannaeigu hverfur úr eign ríkisins, sífellt meira af tekjum heimilanna verður notað til að greiða af lánum og skattar notaðir til að greiða ríkisskuldir, og hærra hlutfall af tekjum atvinnurekanda rennur til fjármagnsstofnanna.
Ef þetta er ekki stríð, þá veit ég ekki hvað stríð er.
Þýðing: Sólveig Anna Jónsdóttir