Feðraveldi komið að fótum fram

Risaflóðbylgja reiði, örvæntingar, andspyrnu og lýðræðiskrafna ríður nú yfir Arabaheiminn, frá strönd Atlantshafsins til Adenflóa og frá Amman til Khartoum. Þegar þetta er skrifað fimmtudaginn 3. febrúar hefur skjálftamiðja hræringanna færst til Egyptalands, sérstaklega Kaíró, og það er hér, á hinu sögufræga Tahrir-torgi þar sem örlög bylgjunnar munu ráðast. Sumir hafa ráðið sér bana, lögreglan hefur drepið hundruð manna í mörgum löndum. Nú hafa vel vopnaðir “stuðningsmenn Mubaraks” – sem eru raunar ekki annað en leigusveitir ribbalda og menn öryggislögreglunnar – ráðist á mótmælendur snemma morguns, drepið fimm manns og meitt 836. Herinn, sem mótmælendur töldu að myndi vernda þá, birtist með skriðdreka en hafðist ekki að; hann gæti gert það en erfitt er um það að segja hvort hann gerir það og ekki er ljóst hvorum megin herinn tekur sér stöðu. (Eins og flestir vita tók hann að lokum stöðu með mótmælendum, þýð.)

Hvað sem því líður þá ræður enn hátíðastemning og hamingjutilfinning ríkjum hjá þeim sem skipa raðir uppreisnarmanna um allt svæðið. Sú ánægja er nú blönduð reiði og áhyggjum. Þann 1. febrúar komu tvær milljónir út á göturnar í sex borgum, frá Kaíró til Port Said, og önnur “ganga milljónanna” hefur verið tilkynnt á föstudag 4. febrúar, sem þáttakendur hafa nefnt “dag brottfarar” fyrir Mubarak og samstarfsmenn hans. Hún gæti orðið enn ofbeldisfyllri, og ef til vill rekur það herinn til að taka afstöðu. … Munu hershöfðingjarnir finna höll handa Mubarak í Saudi-Arabíu, þar sem hann getur sameinast kollega sínum Zine el Abidine Ben Ali? Sú ákvörðun verður ekki tekin í Kaíró, heldur Washington eða Tel Aviv.

Veraldarhyggja í öndvegi

Þette er stærsta einstaka uppreisn í nútímasögu Araba, en enginn getur sagt fyrir víst hvort raunverulegar breytingar verið í samfélagsskipan, efnahagsmálum eða félagsmálum, umfram einhvers konar fegrunaraðgerðir. Kröfur uppreisnarinnar eru um veraldlegar umbætur, komið verði á lýðréttindum og lýðræði virt, mannréttindi virt og spillingu útrýmt í stjórnkerfinu, og uppreisnin hefur þegar gert að engu þá goðsögn sem almenn er á Vesturlöndum, að hinn íslamski fjöldi geti aðeins orðið virkur á grunni trúarlegrar hvatningar, og hún hefur sýnt fram á að sú kennisetning amerísk-studdra einræðiherra að þeir einir geti hindrað vaxandi “islams-fasisma” (orð sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum) sem flæði um Arabalönd á ekki við rök að styðjast. Það sem nú flæðir um Arabalönd eru hin gömlu góðu gildi frönsku byltingarinnar.

Svo veraldleg er þessi hreyfing í grundvallaratriðum að jafnvel Bræðralag múslima í Egyptalandi, langstærstu islömsku samtökun í Arabaheiminum, hafa lýst því yfir frá upphafi að uppreisnin snúist ekki um íslam, heldur um Egyptaland, og Bræðralagið krefst ekki neinnar sérstakrar stöðu í hinni nýju skipan. Í stað þess hafa þeir myndað bandalag með fjórum veraldlegum samtökum og hafa þau í sameiningu beðið Mohammed el Baradei, fullkomlega veraldlegan og vestrænan tæknikrata, um að semja við herinn af þeirra hálfu.

Á sama hátt hefur Rachid Ghannouchi sem lengi hefur verið foringi islamska Ennahda flokksins (nahda er arabíska orðið fyrir endurreisn), sem er stærsti flokkur islamista í Túnis, en hann snéri til Túnis á ný eftir meira en tveggja áratuga útlegð, takmarkað kröfur sínar við að flokkur hans fái að starfa löglega og að taka þátt í lýðræðislegu starfi í landinu. Hann tjáði jafnframt Financial Times að “kommúnistar ættu að fá að taka þátt í lýðræðinu … það er ekki siðferðilega réttlátt að við krefjumst af yfirvöldum lögleiðingar okkar flokks, en bönnum alla flokka sem byggja á veraldlegu lífsviðhorfi um leið og við tökum völdin.” Flokkur Gannouchis hefur opinberlega farið fram á að skipað verði “stjórnarskrárráð þar sem fulltrúar allra pólitískra afla eigi sæti sem og borgarasamtök eins og verkalýðsfélög, samtök lögmanna og fulltrúar atvinnulausra háskólamanna, allt samtök sem léku mikilvægt hlutverk í byltingunni, með það markmið að semja lýðræðislega stjórnarskrá fyrir þingræðiskerfi sem byggir á eins mikilli valddreifingu og hægt er.” Ég get bætt við að þessi krafa um nýja stjórnarskrá, sem öll pólitísk öfl í Túnis taka undir, minnir mjög á Venesúela og Bólivíu, jafnvel þótt kröfur Túnisbúa gangi mun skemur og fari ekki út fyrir hefðbundin frjálslynd, borgaraleg viðhorf.

Gannouchi og flokkur hans hafa tekið þessa afstöðu vegna þess að þeir vita að íslamistar eru tiltölulega veikt afl í stjórnmálalífi Túnis. Þau öfl sem verkalýðssambandið, flokkurinn sem tengist því og nýstofnuð 14. júlí-samtökin sem eru bandalag vinstri flokka eru fulltrúar fyrir eru miklu öflugri en íslamistar. Athyglisvert er að Kommúníski verkamannaflokkurinn í Túnis, sem er hluti 14. júlí-samtakanna, tók mjög svipaða afstöðu og Ennahda:

Öll þau öfl sem tóku virkan og afgerandi þátt í því að steypa einræðisherranum af stóli, hvort sem um var að ræða stjórnmálasamtök, verkalýðssamtök, mannréttindasamtök eða samtök á sviði menningar, hvort sem þau voru formlega skipulögð eða ekki, skulu ásamt með fjöldanum eiga þátt í að móta framtíð Túnis og geta ekki haft aðra fulltrúa til að koma fram fyrir hönd sína.

Þannig að ef raunverulegt lýðræði skyldi nú verða til í Túnis eða öðrum Arabalöndum í miðju þessa uppreisnarstorms, og ef nýjar stjórnarskrár og ríkisstjórnir verða til með frjálsum hætti og með víðtækri samstöðu, munu ekki trúarbrögð heldur arabísk þjóðernisstefna og efnahagslegt réttlæti koma fram á sjónarsviðið sem ráðandi hugmyndastefna, og alls konar öfl allt frá verkalýðssamtökum, kommúnistum og vinstri sinnuðum þjóðernissinnum til íslamista munu fá sinn réttláta sess. Nákvæmlega af þeim sökum mun heimsvaldastefnan ekki leyfa þess kyns almenna lýðræðisþáttöku og mun vilja ráða niðurlögum uppreisnarmanna hvar sem hún getur eða takmarka ávinninga byltingarinnar við gerfikosningar og nýfrjálshyggjuskipan, öflugt vald alþjóðlegra auðhringa og stuðning við Ísraelsstjórn.

Rafeindatækni og vonir kjósenda

Síðar munum við ræða efnahagskreppu þá og sögulegan bakgrunn sem er forsenda þessarar þjóðfélagssprengingar. Ég vil fyrst segja að það hvernig mótmælin bárust frá þorpi til þorps, héraði til héraðs, frá einu landi til annars og varð loks að almennri arabískri uppreisn ber öll merki upplýsingaraldar og ákveðinnar tegundar póstmódernískra stjórnmála. Allar þær tegundir andstöðu og liðssöfnunar sem þekktar eru í nútímasamfélögum – stjórnmálaflokkar, verkalýðsfélög, frjálsir fjölmiðlar, mannréttindi af ýmsum tegundum – voru svo fullkomlega og algerlega bannaðar, eða heftar að minnsta kosti, af öllum einræðisstjórnunum, að hefðbundnar tegundir byltinga, svo sem uppreisn öreiga, leidd af þrautþjálfuðum byltingarflokki, voru ógerlegar.

Þetta má orða þannig að þessar stjórnir eftirlits og fangelsunar höfðu skapað aðstæður þar sem einhvers konar grundvallarbreytingar voru orðnar alger nauðsyn, en þær höfðu einnig fangelsað, drepið eða rekið þau öfl í útlegð sem mögulega gátu eða hefðu getað leitt árangursríka og vel skipulagða byltingu. Afleiðingin var sú að fram kom sögulega ný tegund uppreisnar sem byggist á algerri afneitun. Önnur öfl hafa eflaust leikið ýmis konar hlutverk á mismunandi tímum, en einstaklingsframtak byggt á örvæntingu og hetjuskap, sem leiddu til staðbundinna mótmæla hér og þar, urðu að gríðarlegri uppreisn innan og utan landamæra ríkisins, þegar miðstéttaungmenni í borgum tóku upp málstaðinn. Á póstmódern tímum er æskan ómeðvituð um nauðsyn vandlegs skipulags sem forsendu byltingar en hún er drifin áfram af þremur þáttum sem hin ameríska tegund af áróðri fyrir lýðræði leggur mesta áherslu á: mannréttindum, lýðræði og baráttu gegn spillingu.

Augljóst er að ekkert lýðræði var í þessum löndum, mannréttindi voru lítils virt og spilling hafði náð gríðarlegu umfangi. Þannig að allt eru þetta afar réttmæt mál. En það er yfirgengileg tilhneiging til að persónugera hið illa í persónu einræðisherrans og nánustu samstarfsmanna hans – Ben Ali og fjölskyldu í Túnis, Mubarak og sonum hans í Egyptalandi – en innri orsakir og uppruni valda þessara einræðisherra er ekki hluti af stjórnmálavitund þeirra sem nefna mætti Twitter-byltingarliðana. Við munum síðar sýna hvernig efnahag landa eins og Túnis og Egyptalands hefur verið rústað af óheftri frjálshyggju og tilskipunum AGS, sem þessir einræðisherrar létu með glöðu geði framkvæma. Utanríkisstefnu þeirra var stýrt með sama hætti af Bandaríkjunum, og herir þeirra eru fullkomlega háðir aðstoð frá Pentagon. Þeir taka við fyrirskipunum frá erlendum yfirmönnum og stýra með þeim íbúum þeirra landa þar sem þeir ráða ríkjum. Þeir þjóna, og er launað með gríðarlegu einræðisvaldi hverjum í sínu landi.

Sá vandi sem miðstéttaræskan, sem svo hetjulega hefur risið upp gegn þessum einræðisþjónustuherrum á við að glíma er að hún er sjálf afurð bandarískrar frjálslyndisstefnu og sumir hinir fremstu fulltrúar hennar hafa fengið þjálfun sína og fjármögnun hjá bandarískum stofnunum eins og Freedom House, National Endowment for Democracy og International Centre for Nonviolent Conflict. Síðan sameinast þeir alls kyns samtökum í heimalöndum sínum og kunna að skipuleggja aðgerðir með Facebook og Twitter ef þörf krefur. Orðræða lýðræðisendurbóta sem af og til heyrist frá valdhöfum í Washington er þeim innblástur, einnig slagorð Baracks Obama um “Breytingu“, innihaldslaust en fjálglega talað um og fram sett. Þeir líta á Bandaríkin sem boðbera lýðræðis og vona að ef nógu mikil læti og vandræði verði á götum úti, og ef unnt er að sýna fram á mikinn fjölda mótmælenda muni Obama á einhvern hátt leysa Mubarak frá þjónustu við heimsveldið. Það hefur verið vandamál við sumar þessar uppreisnir. En hin gríðarmikli kraftur og fjöldi sem hefur birst hefur verið örvandi, því þegar hreyfingin er einu sinni komin af stað, þá bætast við ýmis öfl á götunum sem oft er ekki eins auðvelt að hafa stjórn á.

Hið mikla vopn byltingarinnar hefur verið internetið og vefrænir fjölmiðlar almennt. Margt hefur gerst sökum hraðrar fjölmiðlunar ímynda frá nýjustu mótmælum sem dreift er um heiminn með 24×7 fréttarásum, YouTube, Al Jazeera og jafnvel farsímum. Unnt er að ná til mikils fjölda á gríðarlegum hraða með tölvupósti, SMS, Facebook, Twitter o.s.frv. Þetta eru öflug vopn til að virkja reiðan, óvopnaðan fjölda. En staðreyndin er sú að andstæðingarnir búa yfir raunverulegum vopnum. Munu þessi átök uppreisnar og kúgunar leysast í hag uppreinsaröflunum og leiða til grundvallarbreytinga í kerfinu? Það er frekar erfitt að sjá fyrir.

Egyptaland, suðupunkturinn

Kröfum um lýðræði var hægt að verða við í fremur litlu landi utan við meginstrauminn, eins og Túnis, og það er fyrst eftir að lýðræði er komið á að fullu þar að baráttan fyrir félagslegu og efnahagslegu réttlæti mun hefjast. En Egyptaland? Síðan 1952 hafa örlög Egyptalands ráðið örlögum Arabaheimsins í heild. Kaíró var um langt skeið miðpunktur mennta, menningar og lista í hinum ýmsu Arabalöndum. Helmingur Araba býr í Egyptalandi. Bylting Nassers opnaði leið mörgum byltingum gegn konungsvaldi í Arabalöndum. Veraldleg arabísk þjóðernisstefna breiddist frá einu landi til annars, þegar Egyptaland varð miðstöð þess konar þjóðernisstefnu undir forystu Gamals Nassers.

Nútíma íslamismi breiddist einnig frá Egyptalandi til annarra Arabalanda og það var ekki fyrr en síðar að Saudi Arabía varð áberandi á því sviði. Það var ekki ósigur Arabaherja árið 1967 heldur friðarsáttmáli Anwar Sadat við Ísrael sem var stærsti ósigurinn í baráttunni fyrir frelsi Palestínu þegar litið er til alls Arabaheimsins. Hin nána samvinna Ísraels og Egypta er grundvöllur þess að Ísrael ræður ríkjum á öllu svæðinu og Bandaríkin hafa fjárfest meira í egypska hernum en nokkrum öðrum fyrir utan Ísraelsher.

Munu Bandaríkin láta allt þetta úr hendi rakna, og hafa þau næg völd innan Egyptalands – í öryggislögreglunni, hernum, meðal auðmanna – til að koma á ný á friði og ró sér í hag? Það kemur í ljós. Bandaríkin standa frammi fyrir valkosti. Þau geta skipulagt brottför Mubaraks og félaga, leyft stýrða lýðræðisþróun undir stjórn ábyrgra manna eins og El Baradei, og vonað að kosningar með þessum hætti muni leiða til að frjálshyggjuöfl vinsamleg AGS og með grundvöll í elítu landsins haldi völdum, jafnvel þótt Bræðralag múslima fái vænan hluta atkvæða. Hinn möguleikinn er að komið verði af stað nægu ofbeldi á götum úti til að herinn bregðist við og skerist í leikinn, sem mun leiða til áframhaldandi valda Múbaraksinna með eða án Múbaraks sjálfs, og jafnframt mun ofbeldið verða fordæmt (af þeim sem komu því af stað) með kröfum um að ofbeldismönnum verði refsað. Ísraelsmenn munu fremur vilja að hið síðarnefnda gerist og hafa þegar virkjað öfluga lobbýista sína í Bandaríkjunum, Bretlandi og öðrum löndum til að þrýsta á Obama. Hrósyrði um Múbarak hafa komið frá Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, jafnt sem Tony Blair, sem einhver lýsti sem eina Ameríkananum sem Bretland hefur haft fyrir forsætisráðherra og hitti þar naglann á höfuðið.

Upphafið í Túnis

Öll þessi atburðarás hófst í Sidi Bouzid, litlum bæ í miðhluta Túnis, þann 17. desember þegar 26 ára gamall atvinnulaus háskólamaður kveikti í sér eftir að lögreglan hafði barið á honum, hann lést nokkrum dögum síðar. Í mótmælunum sem á eftir fylgdu fyrirfór Houcine Falhi, 22 ára, sér með rafstuði, í sama bæ eftir að hafa hrópað “höfnum eymdinni, höfnum atvinnuleysi.” Mótmælin breiddust þegar út til nágrannabæja og – héraða, og leiddu til þess að 1000 manns fóru í mótmælagöngu í höfuðborginni Túnis, um leið og fleiri sjálfsmorð urðu í Túnis, Alsír, Egyptalandi og Máritaníu, hvert um sig mótmæli gegn hinu mikla atvinnuleysi og hækkandi verði á matvælum og olíu. Það var olía á eld reiði almennings, sem þegar var afar ósáttur við þessar hækkanir sem urðu vegna efnahagsstefnu AGS og vegna ráðgjafar þeirrar stofnunar.

Í lok desember höfðu mótmælin vaxið mjög og höfðu breyst í uppreisn, með þáttöku verkalýðssamtaka, bannaðra stjórnmálaflokka, samtaka lögfræðinga, listamanna, söngvara, blaðamanna, og margra annarra frá öllum hópum sem tóku þátt í daglegum mótmælaaðgerðum. Lögreglan brást við með grófu ofbeldi og skothríð og er vitað um 66 manns sem dóu fram að 14. janúar þegar herinn hjálpaði til við að reka harðstjórann í útlegð í Saudi-Arabíu og skarst síðan í leikinn til að stöðva lögregluofbeldi.

Hið sérstaka við þessa atburði í Túnis og annars staðar er að þótt sjálfsmorðin og fyrstu fjöldaaðgerðirnar yrðu vegna efnahagsmála, þá dró smám saman úr áherslu á þær kröfur og í stað þess kom áhersla á kröfur sem beindust gegn einræði, spillingu stjórnvalda og fótum troðnum mannréttindum, um leið og höfuðborgirnar risu í uppreisn og forystan færðist frá fátækum lágstéttum til miðstétta í borgum. Gríðarmikil mótmæli í Túnis og Kaíró voru athyglisverð fyrir að þar var alls engar kröfur að finna sem beindust gegn nýfrjálshyggju, heimsvaldastefnu gagnvart efnahag þessara landa og alþjóðlegum fjármálastofnunum í Washington.

Gagnlegt gæti verið að rifja upp sögulegar staðreyndir. Fyrstu miklu “brauðóeirðirnar” urðu í Túnis árið 1984, þegar brauðverð var hækkað um 100%. Sú hækkun, ásamt með því að hætt var að greiða niður matarverð, hafði verið hluti af “Structural Adjustment Program” sem AGS krafðist sem forsendu fyrir því að veita landinu lánafyrirgreiðslu. Fimmtíu manns féllu fyrir skotum lögreglunnar í það skiptið. Habib Bourgiba, sem stýrt hafði Túnis til sjálfstæðis undan nýlendustjórn Frakka, var enn við völd. Hann hætti við hækkun matvælaverðs, rak innanríkisráðherra þann sem fyrirskipað hafði skothríð lögreglu, og neitaði að hlýða fyrirskipunum AGS. Zine El Abidine Ben Ali steypti Bourgiba af stóli í valdaráni þremur árum síðar og hóf að framkvæma einkavæðingarstefnu og aðlögunarskipanir AGS með harðri hendi. Örfáum mánuðum síðar var ritað undir samkomulag við AGS ásamt með samkomulagi við Evrópusambandið sem ruddi brautina fyrir flóð af vörum frá Evrópusambandinu inn á Túnismarkað og opnaði landið, þannig að það varð nú uppspretta ódýrs vinnuafls fyrir auðmagn frá Evrópusambandinu.

Í kjölfarið á þessari samningagerð kom gríðarleg einkavæðingarbylgja, sem varð fyrsta uppsprettta auðsöfnunar fjölskyldna Ben Ali og eiginkonu hans, en eiginkonan er fyrrverandi hárgreiðslustúlka sem nýverið flúði til Abu Dhabi með allmörg tonn af gulli sem tekin voru úr fjárhirslu þjóðarinnar nokkru áður en húsbóndi hennar flúði land til Saudi-Arabíu. Skeyti frá bandaríska sendiráðinu sem birt voru á Wikileaks leiða í ljós að samkvæmt mati sendiráðsins hafi þessar tvær fjölskyldur annað hvort átt eða stýrt 50% af efnahag Túnisbúa, og miklu af gróðanum hafði verið komið fyrir erlendis. Aðgerðir sem voru afleiðing af Washington samkomulaginu (“Washington Consensus“, lykilþáttur í hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, þýð.) og samþykkt um frjálsa verslun voru þannig hin raunverulega uppspretta “spillingar” sem varð svo mikilvægt mál í uppreisninni í Túnis eftir að forysta hennar féll í hendur millistéttanna. Þessi grundvöllur spillingarinnar er hvergi nefndur í áróðri lýðræðissinna.

Spilling var einfaldlega gerð móralskt röng sem illvirki (sem hún auðvitað er) en án þess að minnst sé á þau ferli og alþjóðlegar stofnanir sem stóðu að henni. Þetta er sérlega undarlegt þar sem uppreisnin var studd af öllum stéttum í Túnis: miðstéttin, sem leiddi uppreisnina þegar hún braust út í Túnis, er líklega sú fágaðasta og menntaðasta í öllum Arabalöndunum, og þrátt fyrir hin þröngu kjör sem einræðisstjórnin bjó því, þá er verkalýðssamband Túnis líklega eitt hið öflugasta á svæðinu.

Þessi einhliða áhersla á einræði, mannréttindi og spillingu má vel hafa verið gagnleg að því leyti að hún náði að virkja mjög breiðan hóp úr öllum stéttum, og hægt var að forðast að herinn, sem er svo amerísksinnaður, snérist gegn uppreisninni, og til að róa bandarísku lýðræðisáróðursvélina. Það er hugsanlegt, en ef til vill ekki mjög líklegt, að þegar lýðræði er formlega komið á muni þjóðleg efnahagsstefna verða ofan á og dreifing gæða og efnahagslegt réttlæti verða ofan á: bylting gegn Heimsveldinu og alræði þess! Aðeins tíminn mun leiða það í ljós. Það sem þegar er hægt að segja er að slík umskipti, jafnvel þótt lýðræðishreyfingin krefjist þeirra, mun þurfa að kljást við reiði þeirra sem standa að Washington samkomulaginu og Evrópu bankamannanna (sem er hið raunverulega inntak ESB), sem og kúgunarkerfið heima fyrir sem hefur verið byggt upp undir handarjaðri Frakka og Ameríkana. Heimsveldið lifir og hefur endanlegt vald í Túnis.

Kaíró, borgin eilífa í umsátursástandi.

Þegar þetta er skrifað eru tvær milljónir manna staddar í mótmælagöngum í sex borgum Egyptalands, að því er talið er. Önnur milljónaganga hefur verið boðuð á föstudag, og kölluð “dagur brottfarar” (Mubaraks, hins 82 ára gamla harðstjóra í Egyptalandi). Stærð mótmælanna hlýtur að hafa komið algerlega flatt upp á stjórnvöld. Sú hugmynd að unnt verði að endurtaka mótmælin tveimur dögum síðar, á föstudag, þegar hundruðir þúsunda safnast saman til bænagerðar í moskum og ekkert er hægt að gera til að hindra að fólk komi saman, hlýtur að fylla stjórnvöld skelfingu. Fram að þessu hefur lögreglan beitt nokkru ofbeldi. Eftir að hafa fengið framan í sig risagöngu og af ótta við aðra slíka leystu stjórnvöld úr læðingi hina svokölluð “stuðningsmenn Mubaraks” – öryggislögreglumenn sem komu fram í gervi almennra borgara, fyrst í stað aðeins takmarkaðan fjölda, til að reyna fyrir sér, en fleiri mættu daginn eftir. Ekki er ljóst hvað gerist næst.

Stjórnin hefur haft tíma og úrræði til að undirbúa sig. Egypska ríkið er hið langöflugasta allra í Arabaheiminum. Sú var raunin jafnvel á tíma Nassers þegar Vesturveldin hundsuðu landið. Síðan þá, eftir að Sadat undirritaði friðarsamninginn við Ísrael og opnaði efnahag Egyptalands fyrir arðráni vestrænna fyrirtækja, hefur egypska ríkið fengið um 80 milljarða dollara frá Bandaríkjastjórn í verðlaun fyrir að hafna arabískri þjóðernisstefnu og vinna þess í stað með Ísrael. Stærsti hluti þess fjár hefur runnið til hersins. Egypska ríkið er sagt hafa innanríkisöryggislögreglu sem telur yfir milljón manna með veltu upp á yfir milljarð dollara (112 milljarða króna), sem er einfaldlega rosalegt á mælikvarða Araba og Afríku. Omar Suleiman, sem þar til nýlega var yfirmaður Öryggislögreglunnar og er nú einnig varaforseti, er mjög líklega sá maður í Egyptalandi sem hefur mest völd, líklega meiri en Mubarak, sem treystir á liðssveitir Suleimans.

Í samskiptum sínum við heimsveldið hefur Suleiman, fremur en nokkur annar í Arabaheiminum, verið aðalaðstoðarmaður CIA við svokallaða “flutninga” (renditions), illræmdar aðgerðir þar sem bandarískir leyniþjónustumenn hafa rænt fólki um allan heim á grundvelli hinna og þessara grunsemda og síðan sent fólkið til einhverrar hliðhollrar stjórnar í Vestur-Asíu, þar sem þetta fólk hefur ýmist verið pyntað til að fá það til að játa eitt eða annað, eða einfaldlega drepið og síðan látið hverfa – skráð sem óleyst mannshvarf. Suleiman hefur tekið þátt í hliðstæðum aðgerðum alveg síðan á 9. áratugnum, tveimur áratugum fyrir 9/11 árásirnar á tvíburaturnana í New York City, og hina formlegu stríðsyfirlýsingu á hendur hryðjuverkum. Það “stríð” er miklu eldra en frá tíma Bush forseta, þótt eflaust hafi innrásin í Afghanistan og Írak lyft því í æðra veldi.

Vitað er að um leið og uppreisnin í Túnis varð þjóðaruppreisn og fór að hafa áhrif út fyrir landamærin um öll Arabaríkin, þá flaug yfirmaður egypska hersins til Washington og dvaldi þar í heila viku. Hann var augljóslega ekki að sóla sig þarna í miðjum vetrarstorminum. Eflaust hefur hann heyjað sér hvers kyns áætlanir um viðbrögð við ýmsum aðstæðum sem upp gætu komið. Við vitum ekki hvað þessar viðbragðsáætlanir fela í sér.


Við vitum að Netanyahu, hinn mjög svo hægrisinnaði forsætisráðherra Ísraels hefur sett sig upp á móti því að Mubarak láti af völdum, og að það sem Netanyahu segir skiptir meira máli í Washington en rödd tveggja milljóna Egypta á götum Kaíró. En ekki aðeins Netanyahu. Við getum skilið skelfinguna sem menntamenn Ísrael finna fyrir andspænis uppreisninni í Egyptalandi þegar við lesum í Haaretz, frjálslyndasta dagblaði Ísraels, þessi orð Ari Shavi:

Í 60 ár hefur bandaríska Heimsveldið haldið heiminum stöðugum og viðhaldið kyrrð, friði og velmegun. Núverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, grefur undan Heimsveldinu. Obama hefur svikið Múbarak og það eru ekki bara svik við hægfara egypskan forseta sem hefur haldið tryggð við Bandaríkin, stuðlað að stöðugleika og ýtt undir hægfara stefnu. Svik Obama við Múbarak jafngilda svikum við sérhvern bandamann í þriðja heiminum. Um alla Asíu, Afríku og Suður-Ameríku fylgjast leiðtogar nú með því sem er að gerast í samskiptum Washington og Kaíró.

Við vitum einnig að Mahmoud Abbas, hinn ólöglegi forseti Palestínustjórnar, en í raun og veru kjölturakki Ísraelsstjórnar, hringdi í Múbarak til að lýsa yfir stuðningi við egypska einræðisherrann. Ísraelsstjórn og Palestínustjórn vinna saman að því að bjarga Múbarak frá milljónum reiðra Egypta. Maður er orðlaus.

Allt þetta þurfa milljónirnar sem mótmæla í Egyptalandi að horfast í augu við. Uppreisn sem hófst svo skyndilega og óx úr mótmælum nokkurra þúsunda í Kaíró upp í milljónagöngur um alla óshólma Nílar, frá Kaíró til Alexandríu, á minna en tveimur vikum, án nokkurrar forystu eða miðstýrðs skipulags, á sannarlega skilið að vera útnefnd sjálfsprottin uppreisn fjöldans. Trúin á að fjöldinn gæti unnið bug á alheimsyfirráðum heimsvaldastefnunnar og hinu öfluga og vel skipulagða kerfi innlendrar kúgunar og ofbeldis virðist nokkuð einfeldningsleg. En sjálfsprottin einfeldni er nú raunar einnig vel þekkt í mannkynssögunni.

Öll saga arabísks stolts og arabískrar þjóðernisstefnu hefur krystallast fyrir meirihluta Egypta í spurningunni um Palestínu, og það er saga niðurbældrar skammar og reiði sem flestir Egyptar hafa fundið fyrir í meira en þrjá áratugi, saga sem snýst um samvinnu leiðtoga þeirra við Ísraelsríki. Á síðari árum hefur fólk gefið þessa tilfinningu til kynna í ýmis konar stuðningsaðgerðum við Palestínumenn eftir að önnur Intifadan braust út árið 2000. Jafnlöng saga skammar og reiði varðar þjónkun stjórnenda Egyptalands við herra þeirra hjá Heimsveldinu, og hún hefur brotist út í fjölda uppþota eftir innrásina í Írak 2003. Nasralla, leiðtogi Hezbollah í Líbanon, sem hyllti veraldlegu uppreisnirnar í Túnis og Egyptalandi strax og þær brutust út, varð almenningshetja í Egyptalandi eftir innrás Ísraels 2006, ekki vegna þess að flestir Egyptar (a.m.k. súnníar) hefðu snúist til sjítatrúar eins og hann heldur vegna þeirrar aðdáunar sem vörn Hezbollah vakti.

Verkalýðsstétt Egyptalands hefur heldur ekki legið á liði sínu. Þrátt fyrir undirokun stjórnvalda þá eru 28% vinnuaflsins skráð í verkalýðsfélög, meginhlutinn á sviði opinbers rekstrar. Joel Beinin, prófessor við Stanfordháskóla hefur kallað verkalýðshreyfinguna í Egyptalandi öflugustu félagshreyfingu í Arabalöndunum síðan í síðari heimsstyrjöld. Samkvæmt skýrslu Carnegie stofnunarinnar frá febrúar 2010 hafa um 3000 verkföll orðið í Egyptalandi síðan 2004. Skýrslan segir að þessar aðgerðir séu miklu umfangsmeiri en allar pólitískar mótmælaaðgerðir í Egyptalandi á sama tíma, bæði að vöxtum og með tilliti til þeirra afleiðinga sem þær hafa haft.

Egypska verkalýðshreyfingin lá undir miklum árásum lögreglu á 9. og 10. áratugnum, t.d. var skotið á friðsama verkfallsmenn í stálverksmiðjum 1989 og 1994 í vefnaðarverksmiðjum. En síðan í desember 2006 og fram undir þetta hefur riðið yfir mesta verkfallsalda Egyptalands síðan 1946. Þessi alda hófst í vefnaðarverksmiðjum í Mahalla, þeim stærstu í Miðausturlöndum með yfir 28.000 verkamenn. Þessi blanda arabískrar þjóðernistilfinningar og verkalýðsbaráttu er efnislegur bakgrunnur núverandi uppreisnar.

Palestína

Umfang byltingann hefur leitt athyglina frá öðrum tímamótaviðburðum sem hafa orðið í Miðausturlöndum að undanförnu.

Í Líbanon hafði Bandaríkjastjórn ráðgert að fá rannsóknarnefnd SÞ sem er að rannsaka morðið á Rafiq Hariri forsætisráðherra til að gefa út ákæru á hendur forystumönnum Hizbollah, fá samtökunum úthýst úr SÞ og afla alþjóðlegra handtökuskipana á hendur leiðtogum Hizbollah. Við því mátti búast að Hizbollah daufheyrðist við slíkum skipunum og myndi þá koma til átaka í Líbanon milli Sjíta og Súnníta, og að Ísrael myndi ef til vill nota tækifærið til að ráðast inn í Líbanon aftur undir því yfirskyni að framkvæma skipun SÞ en í raun til að hefna ósigursins fyrir Hizbollah 2006.

Í öðru lagi, Palestína. Mjög snemma í Arabauppreisninni fóru Al Jazeera og Guardian að birta mikinn fjölda skjala, sem kölluð eru Palestínuskjölin, og afhjúpa samskipti Bandaríkjastjórnar, Ísraels og Palestínustjórnar undir forystu Mahmoud Abbas. Þessi skjöl sýna að Abbas er óvinveittur Arabaheiminum og vinnur með Ísrael, sem hann hvetur til að eyða Hamas, jafnvel þótt það þýði áframhaldandi umsátur um Gaza og ólýsanlegar þjáningar íbúanna þar. Fram kemur að hann hefur í samningaviðræðunum boðist til að afhenda Ísrael nær alla Austur-Jerúsalem og til að láta niður falla lykilkröfur Palestínumanna um þá Palestínumenn sem vísað var úr Ísrael árið 1948 og síðar. Á öðrum tímum hefðu þessar uppljóstranir leitt til ramakveins um allan Arabaheiminn og ekki síður í öðrum heimshlutum. Vegna uppreisnanna höfðu Palestínuskjölin einfaldlega ekki þessi áhrif. Slíkar afhjúpanir gleymast hins vegar ekki svo auðveldlega. Palestínumenn á hernumdu svæðunum, í Gaza, Jerúsalem, á Vesturbakkanum, Ísraelsmegin við “grænu línuna“, sem og um allan heim hafa nú skjalfestar sannanir fyrir því sem flestir vissu í hjarta sínu að væri í gangi. Örlög Palestínustjórnar eru nú ráðin, sem og örlög hinnar bandarísk-stýrða blekkingarleiks sem kallast “friðarferlið í Miðausturlöndum“. Það er mjög líklegt að Hamas verði nú einnig ráðandi afl á Vesturbakkanum.

Í þriðja lagi, Ísrael. Verkamannaflokkurinn, hvers leiðtogar stýrðu stofnun Ísraels og sem var óumdeildur ríkisstjórnarflokkur landsins frá 1948 þar til seint á 8. áratugnum – og sá flokkur sem blekkti Yasser Arafat til að taka þátt í Óslóarsamkomulaginu vafasama, hrundi loks einmitt þegar Arababyltingin hófst, og gaf öflum á ysta hægri væng, eins konar fasista-Zíonisma, algjör yfirráð yfir ísraelskum stjórnmálum. Ef Arababyltingin misheppnast, sérstaklega ef hún misheppnast í Kaíró, þá má búast við mikilli hörku Ísraelsmanna í samskiptum þeirra við nágranna sína, ekki aðeins Palestínumenn heldur einnig öll nágrannaríkin, sérstaklega Líbanon og Sýrland.

Á meðan

Nú er farið að styttast í valdasetu patríarkanna í Arabaheiminum, sem ekki eru alveg konungar en hafa með undantekningarástandsvöldum sínum eins konar konungsvald. Ben Ali var einræðisherra í 23 ár og situr nú í höll í Saudi-Arabíu, hinni sömu og Idi Amin, hinn hryllilegi einræðisherra Uganda, dvaldi í síðustu ár sín. Muammar Qaddafi, sem ríkt hefur yfir Líbíu í rétt rúm 40 ár, var svo brugðið við uppreisnina í Túnis að hann sendi trúðsleg skilaboð til alþýðu Túnis um að hún ætti ekki aðeins að halda Ben Ali á valdastóli forseta áfram heldur og skipa hann forseta til æviloka í þokkabót, svipað og Qaddafi sjálfur hefur verið.


Uppreisnin í Yemen hefur verið svo öflug að Ali Abdullah Saleh, sem hefur verið forseti síðan 1978, hefur tilkynnt að hann muni ekki bjóða sig fram á nýjan leik, aðeins í því skyni að bjarga eigin skinni. Hversu lengi Hashemítakonungsættin í Jórdaníu eða Assad fjölskyldan í Sýrlandi munu endast er alveg undir hælinn lagt.

Ekki er unnt að spá fyrir um hver verður útkoman úr yfirstandandi uppreisnum. Eins og þegar hefur komið fram er útlitið tvísýnt. Það má taka saman yfirlit um ástandið að lokum. Versti gallinn á veraldlegum, “framsæknum” þjóðernissinnastjórnum Araba sem urðu til í uppreisnum gegn konungsvaldi, lénsvaldi og nýlendustefnu – Nasserítar í Egyptalandi, Baath-flokkurinn í Írak og Sýrlandi, FLN í Alsír – var að þær höfðu horn í síðu tveggja meginþátta Upplýsingarinnar, frjálslyndisstefnu og marxisma, sem höfðu náð æ meira fylgi í Arabaheiminum síðustu hálfa öldina fyrir “framsæknu” byltingarnar. Þessar stjórnir létu drepa kommúnista, undirokuðu lýðræði, lögðu bönd á allt mennta- og menningarlíf sem ekki studdi beinlínis við yfirvöld. Einræðisstjórnirnar sem ráðið hafa yfir Arabaheiminum – Múbarakar og Salehar þessa heimshluta – héldu við lýði verstu þáttum þessara ólýðræðislegu stefnu sem hafði einvörðungu efnahagslega uppbyggingu að markmiði en hafnaði öllum framsæknum þáttum hinnar upphaflegu stefnu.

Uppreisnirnar sem nú standa yfir gætu mögulega opnað á ný þætti úr sögu Araba sem eitt sinn aðhylltust gildi Upplýsingarinnar og leituðust við að samsamsa sig hinum miklu siðvæðingarbyltingum nútímans: Hinni frönsku orðræðu um Réttindi mannsins og borgaranna, hinni marxísku sýn um róttækt jafnrétti, stéttlaust samfélag og þess konar verkefni sem Marx lýsti eitt sinn sem “fullkomnun lýðræðisins.” Þessar uppreisnir hafa hvergi nærri nálgast þessi markmið, en þær gætu mögulega stefnt í þessa átt. Það er ástæðan fyrir því að allur heimurinn nötrar og vonar að þær vinni sigur.

En hvað gerist ef þessar uppreisnir veraldlegra og lýðræðilegra afla bíða ósigur? Tvennt mun sennilega gerast.

Í fyrsta lagi mun Zíonisminn geta einbeitt sér að Lokalausn “Palestínuvandamálsins“, en einnig að því að kúga nágranna sína í Sýrlandi og Líbanon (Jórdanía er þegar í vasa þeirra).

Meira máli skiptir að íslamískir öfgamenn munu líklega breiða áhrif sín út með eldingarhraða. Egyptaland er landið þar sem íslamisminn varð til eftir ósigrana 1967, og þegar þeir sem voru handteknir fyrir tilræðið gegn Sadat voru yfirheyrðir í réttinum 15 árum síðar, sagði meirihluti þeirra að þeir hefðu verið fylgismenn þjóðernisstefnu Nassers í ungdæmi sínu en hefðu síðan farið að trúa því eftir ósigurinn að stjórnin væri ófær um að sigra Ísrael, því hefði íslamisminn orðið til.

Ef uppreisnin lýtur í lægra haldi, verður útkoman þeim mun verri þar sem sigurvegararnir munu ekki vera Ísraelsmenn og borgunarmenn þeirra (Bandaríkin) heldur þjónar þeirra í Arabaríkjunum sem stýrt hafa í nafni þess að hafa stjórn á íslamisma. Í þeirri stöðu mun stór hluti hins stefnulausa fjölda sem þegar er orðinn pólitískt virkur í uppreisnunum og lúta síðan í lægra haldi fyrir einræðisherrunum sem alltaf koma fram sem verndarar veraldlegrar stefnu, snúa sér að íslamskri öfgastefnu, af biturð og vonbrigðum.

Ég óttast að Obama-Clinton stjórnin átti sig ekki að fullu á því hvað hér er í húfi, eins blinduð og hún er af hagsmunum Heimsveldisins.


Þýðing: Árni Daníel Júlíusson

AIJAZ AHMAD. Autumn of the patriarchs. Frontline – INDIA’S NATIONAL MAGAZINE from the publishers of THE HINDU, Volume 28 – Issue 04 :: Feb. 12-25, 2011

Höfundurinn, Aijaz Ahmafd, er Pakistani búsettur í Indlandi. Hann er þekktur fyrir bók sína In Theory: Nations, Classes, Literatures, þar sem hann gagnrýnir póstkólóníal kennisetningar út frá marxískum sjónarhól. Greinin er örlítið stytt frá upphaflegri útgáfu.