Attac-samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð

Attac samtökin á Íslandi telja að auðlindir landsins eigi að vera í þjóðareign og að nýting þeirra eigi að þjóna sjálfbærri uppbyggingu landsins eftir hrun bóluhagkerfisins.

Við teljum það vera grundvallaratriði að auðlindirnar og nýtingarréttur þeirra verði tekinn af markaði, en sé ekki fóður fyrir spákaupmenn af öllum toga, erlenda sem innlenda einkaaðila og lífeyrissjóði.

Með því að selja einkaaðilum nýtingarrétt á orkuauðlindum líkt og jarðvarma, sem ekki eru að fullu endurnýtanlegar, eins og gert er í tilfelli HS Orku, er í raun verið að selja auðlindina. Slík ráðstöfun þjónar ekki hagsmunum þjóðarinnar, sem nú, eftir efnahagshrunið, þarf að finna sér leið til sjálfbærrar þróunar, með samvinnu og jafnræði allra landsmanna að leiðarljósi, en ekki veðja á næstu hagvaxtarbólu sem knúin verður af orkusölu og ofnýtingu auðlinda.

Þessi sala gerir það eitt að færa á silfurfati „kanadísku fjárfestingarfyrirtæki með aðsetur í skúffu í Svíþjóð“, Magma, ofurgróða á tímum orkukreppu og síhækkandi orkuverðs.

Þessi gerningur er arfleifð frá bóluhagkerfi nýfrjálshyggjunnar sem hrundi og einkavæðingaræðisins sem lagðist á meirihluta bæjarstjórnarinnar í Reykjanesbæ.

Attac-samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin standi við gefin loforð um að undið verði ofan af einkavæðingu orkuauðlinda landsins og geri það sem gera þarf til að stöðva þessa óheillaþróun.