Brennuvargarnir fagna eldvarnaráætlun evrusvæðisins

Leiðtogafundur evrusvæðisins í Brussel 21. júlí kom sér saman um enn eina “björgunaráætlun” fyrir Grikkland. Til viðbótar því að veita Grikkjum nýtt skammtímalán felur þessi nýja áætlun í sér mikilvæga nýjung: hægt verður að leyfa Stöðuleikasjóði Evrópu (Fonds européen de stabilité financière) að kaupa grísk, írsk og portúgölsk skuldabréf á eftirmarkaði. Bókstaflega þýðir þetta að ríkin og, þar af leiðandi, evrópskir skattborgarar muni geta losað banka og fjárfestingarsjóði við þessi “rotnu” verðbréf þegar skuldug ríkin stefna í greiðslufall.

Evrópski seðlabankinn, sem hingað til var eini aðilinn sem gat létt þessum vafasömu skuldum af bönkunum, krafðist þess að ESB tæki við boltanum: kröfum hans var mætt. Þetta er því nýr áfangi í þjóðnýtingu tapsins sem evrópsku bankarnir hefðu, fræðilega séð, átt að taka á sig því þeir lánuðu með ábyrgðalausum hætti ofurskuldsettum ríkjum. Þjóðnýting tapsins fyrirfram, öfugt við það sem gerðist 2008-2009: snilldaraðferð við að draga lærdóma af fjármálakreppunni því í dag létta ríkin tapinu af bönkunum áður en það verður!

Vissulega kveður evrópski samningurinn á um “sjálfviljuga þátttöku” einkabankanna í formi endurnýjaðra lána, framlengingu þeirra (lengingu lánstímans) og uppkaupum. En spákaupmennirnir skildu þetta vel: þetta sértæka og sjálfviljuga greiðslufall mun ekki kosta bankana mikið og hlutabréf þeirra hækkuðu því kröftuglega á fimmtudaginn (21.júlí) í kauphöllunum París, London, Mílanó og Frankfurt. Þannig fagna brennuvargarnir eldvarnaráætlun evrusvæðisins.

Að lokum léttir samkomulagið lítillega á skuldabyrði landanna sem orðið hafa fyrir árás markaðanna með því að lengja í lánunum (mest til 15 ára) og lækka vextina á lánunum frá Stöðugleikasjóðnum (Fonds de stabilité financière) til Írlands, Portúgal og Grikklands um eitt stig (úr 4,5% í 3,5%). Þetta er “sértækt greiðslufall” og kostnaðurinn af því fellur bara á skattborgarana. Þannig færa forystumenn Evrópu til bókar ósigur harðlínunnar sem fólst í að refsa löndum í erfiðleikum með harkalegum skilyrðum gegn lánveitingum. Grikkland séstaklega stefndi augljóslega í kreppu án útgönguleiðar og varð því að milda aðeins áfallameðferðina þar.

Samt sem áður ítreka þjóðaleiðtogar Evrópu skilyrðislausann stuðning sinn við niðurskurðaráætlanir: þeir hvetja til skjótrar samþykktar Evrópuþingsins á “aukna Evru-sáttmálanum” og krefjast þess “að halli fjárlaga verði kominn undir 3% af VLF frá og með 2013”. Þetta felur í sér róttækann viðsnúning á fjármálum hins opinbera alls staðar í Evrópu og sérstaklega í Frakklandi þar sem hallinn er enn rúmlega 6%.

Leiðtogafundur evrusvæðisins hefur þannig staðfest pólitískt val evrópskra ríkisstjórna: láta skattgreiðendur og almenning í Evrópu greiða kostnaðinn af kreppunni í gegnum Stöðugleikasjóðinn (FESF) og harkalegar niðurskurðaraðgerðir. Við krefjumst þess aftur á móti að hætt verði að taka við fyrirskipunum bankanna og fjármálamarkaðanna. Raunveruleg lausn á kreppu evrunnar felst í að hætt verði við niðurskurðaráætlanirnar, skuldirnar verði felldar niður að hluta, umbótum á skattakerfinu þar sem hætt verði að hygla fyrirtækjunum og hinum auðugu, að Seðlabanka Evrópu verði gert mögulegt að lána beint til aðildarríkjanna, ströngu regluverki og skattlagning fjármálamarkaðanna.

Attac í Frakklandi hvetur alla félagshópa til að sækja sér innblástur í aðgerðir hinna “hneyksluðu “, “indigné”, og setja lýðræðið á oddinn. Við viljum ákveða saman hvers konar Evrópu við fáum. Attac leggur því til að sett verði á fót borgaraleg endurskoðunarnefnd um skuldir hins opinbera til að hefja umræðu um uppruna þeirra, vinna að valkostum við niðuraskurðaráætlanirnar, leggja mat á hver eigi að borga skuldirnar og að hve miklu leiti þær eru raunverulega lögmætar. Við höfnum þjóðnýtingu á skuldum bankanna og fjárfestingarsjóðanna: hluthafar þeirra eiga að bera allan kostnaðinn af nauðsynlegum skuldbreytingum og uppsögn opinberra skulda í Evrópu.

Attac Frakkland,

París, 22 Júlí 2011