Málfrelsi, trúfrelsi, hætta

Málfrelsi, trúfrelsi, hætta.

Samhyggð, forréttindi, samhengi.

3 orð sem væri gott að halda málþing um.

Samhyggð, að geta sett sig í spor annara, að reyna að klæða sig í annara upplifanir. Mannkynssagan er einskis virði án samhyggðar, án hennar er hún bara upptalning á atburðum, án hennar getum við sleppt því að skrá niður atburði, því við skiljum þá ekki og án skilnings er atburðaskráningin einskis virði, þá erum við eins og fólk með söfnunaráráttu, sem fyllir heimili sín af drasli sem það gerir aldrei neitt með.


Forréttindi, þau eru margskonar en td. eru það forréttindi að geta hlegið að bröndurum um fjöldamorð. Eða bröndurum um Múhammeð þegar það er alltaf verið að drepa menn sem heita Múhammeð, alltaf verið að pynta menn sem heita Múhammeð, í pyntifangelsum siðmenningarinnar, þegar fólk í löndum þar sem margir heita Múhammeð er alltaf að deyja, þegar þú heitir aldrei Múhammeð og enginn myndi nokkru sinni halda að þú hétir það, afþví það er ekkert Múhammeðslegt við þig, það tók enginn mynd af þér í pyntifangelsi, berum, blóðugum, saurugum, það hló enginn að þér svoleiðis og tók af því mynd.

Hvaða orð er mikilvægast? Í hvaða röð er best að  hafa þau? Getum við td. skilið forréttindi ef við höfum ekkert samhengi ? Samhengi; getum við sett atburði líðandi stundar í samhengi? Getum við sett tilveru fólks, annara annarsstaðar í veröldinni í samhengi við eitthvað sem gerðist áður í veröldinni? Getum við sett reiði og bræði fólks vegna svokallaðra brandara í samhengi? Við hvað? Við villimennsku og vanþróun? Við það að heita Múhammeð, sem við heitum aldrei.

Getum við sett nútímann í samhengi við atburði síðustu ára? Við innrásarstríð þar sem við verðum í upplifunum annars fólks martröð, viðbjóður úr iðrum mannlegs ímyndunarafls, morðingjar og nauðgarar, mannleg holdgerfing heimsendis fyrir milljónir? Í samhengi við upplifanir fólks í Írak, Afganistan, Líbíu af heimsendi?

Gerum við sett atburði nútímanns í samhengi við stuðning okkar við arðræninga og einræðisherra? Í samhengi við vopn sem við sendum svo hægt sé að drepa fólk? Í samhengi við dróna sem við sendum til að drepa fólk? Í samhengi við fólk sem við sendum til að drepa fólk? Í samhengi við vestræna siðmenningu og meinta yfirburði hennar? Getum við farið lengra aftur, erum við fær um að setja nútímann í samhengi við atburði sem við munum jafnvel ekki eftir sjálf? Í samhengi við óbærilegt ofbeldi nýlendutímans, þar sem kristnir hvítingjar arðrændu og píndu af svo mikilli innlifun að sadismi og þjáning varð hversdaglegasta upplifun í heimi?

Ég viðurkenni að ég finn oft til mikillar bræði. Ég fann til bræði þegar Bandaríkin gerðu innrás í Írak. Ég átti heima í Ameríku þegar sprengjurnar féllu á Bagdad. Ég fann til bræði vegna þess að ég gat ekkert gert. Ég skil bræði. Ég fann einhvern frið í Ameríku með því að fara í kirkju og með því að læra og reyna að skilja og finna huggun í vitneskju um veröldina. En ég naut forréttinda. Samhyggðin segir mér að ef ég hefði verið kona í öðru landi, fórnarlamb, ef ég hefði upplifað þessa bræði sem fórnarlamb en ekki áhorfandi hefði ég ekki fundið neinn frið. Ég viðurkenni það. Ég væri ekki friðsöm. Og mér finnst krafan um friðsemi sem kemur frá vesturlandabúum sem njóta allra forréttinda sem veröldin á barmi heimsendis getur veitt þeim satt best að segja fyrirlitleg. En ég reyni að sýna samhyggð, skilja forréttindi sem eru svo mikil að fólk getur ekki séð þau, menntunarskort sem er svo alvarlegur að fólk veit ekki einu sinni hversu illa menntað það er.

Ég skil bræðina. Hún kemur ekki til vegna íslam. Hún kemur til vegna heimsendis. Vegna verkefnisins heimsyfirráð mín, dauði þinn. Verkefnis sem við erum viljugir þátttakendur í, verkefnisin vestræn gildi uber alles. Verkefnisins sem íslendingar taka þátt í, Pegida á Íslandi, Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Sveinbjörg og Guðfinna, þær sem eru karikatúr af fáfræði og forréttindum, Evrópa sem er orðin karikatúr af endurtekningu mannkynssögunnar, Evrópa sem nú gengur í halarófu á eftir þeim sem ávallt leggja drög að heimsyfirráðum. Eins og merkilegur maður sagði í formála að merkilegri bók:

Og öll þín þögn er til einskis; í dag rís blindandi sól pyntinganna hæst, hún lýsir upp allt landið. Undir miskunarlausu skini hennar hljómar allur hlátur falskur.

Íslam er engin ástæða, sadískt flissið á vesturlöndum í átt að heimsendi er ástæða.


Pistill sem Sólveig Anna flutti á málþing í Iðnó 17. janúar um stöðu múslima á Íslandi, málfrelsi, trúfrelsi og þá hættu sem öfgafólk getur skapað í samfélaginu.

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir