Guð hinnar ósýnilegu handar og brauðmolahagfræðinnar

Kæru félagar!

Fyrir tveimur árum bað Geir Haarde guð sinn að blessa Ísland. Það fylgdi ekki sögunni til hvaða guðs Geir var að biðla, en við getum gengið út frá því að það hafi verið sami guð og hann og allt hans fylgdarlið hafði tilbeðið síðustu tuttugu ár eða svo, sami guð og íslensk alþýða hafði verið beðin um að færa fórnir til í formi niðurskurðar á félagslegum bótum, heilbrigðisþjónustu og velferðarkerfinu.

Guð hinnar ósýnilegu handar og brauðmolahagfræðinnar – fólk var varað við því að hin ósýnilega hönd þessa guðs myndi refsa þeim grimmilega sem ekki væru nógu dugleg að afregla og einkavæða – og fólki var líka sagt að þessi ósýnilega hönd myndi verðlauna þau sem væru þæg og dugleg með brauðmolum af gnægtarborðum bankanna.

Þessi guð virtist reyndar hafa haft sérstaka velþóknun á Íslendingum. Hann var þá búinn að blessa landið í ríflega áratug. Fyrst með kvótabólu og svo internetbólu fyrir aldamót og útrásar og lánsfjárbólu eftir aldamót. Þessi guð brauðmolanna hafði líka blessað Geir og flokkinn og plútókrasíuna af miklu örlæti, hækkandi hlutabréfamörkuðum, skuldsettum yfirtökum, FL group og stofnfjárbréfabraski.

Það er kannski ekki skrýtið að Geir hafi virst ráðvilltur í september og október fyrir tveimur árum, því hann hafði gert allt sem guðinn hans hafði beðið um. Íslandi hafði verið stýrt samkvæmt guðspjalli nýfrjálshyggjunnar: Bankarnir störfuðu án nokkurs raunverulegs aðhalds frá neinu yfirvaldi og auðmenn og arðræningjar óðu uppi. Að vísu fengu þeir sem ekki höfðu gengið í réttan trúarsöfnuð til að blóta guð græðgi og góðæris og vildu ekki greiða tíund til Valhallar að heyra það. En flestir höfðu vit á því að votta umboðsmönnum guðs góðærisins tilhlýðlega virðingu.

Við hljótum að gleðjast yfir því að Geir og samherjum hans hafði ekki tekist að breyta Íslandi í paradís þessa guðs – gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð. Fórnirnar sem átti að færa til að hægt yrði að ná þessu marki voru ekki litlar. Í hnattvæddri veröld þar sem þriðjungur allra tungumála er í útrýmingarhættu átti jafnvel að fórna tungumálinu til þess að hinum heilaga anda alþjóðafjármagnsins liði betur.

Sem betur fer var þessari fjármálamartröð afstýrt. Og ef eitthvað er að marka þær mótmælaöldur sem gengið hafa yfir Ísland síðan haustið 2008 er eins og Íslendingar hafi vaknað af einhverskonar svefni – æ fleiri gera sér grein fyrir því að þessi þríeini guð góðæris, græðgi og alþjóðafjármagns, er falsguð – og það má fullyrða að flestir hafi áttað sig á þeim ískalda raunveruleika að í nafni græðgi, góðæris, útrásar og þjónkunar við alþjóðlega fjármagnsmarkaði, var búið til skelfilegt samfélag hér – í raun var rekið einhliða stéttastríð auðstéttanna gegn alþýðunni.

Það hefur lengi verið í tísku á Íslandi að halda því fram að hér sé og hafi verið stéttlaust samfélag. Landnámsmennirnir allir kóngar og jarlar, Íslendingar miðalda allir bændur og kóngar í eigin torfkofa. Á tíunda áratugnum var þessi hugmynd endurvakin með þjóðarsáttarsamningum.

Auðvitað voru alltaf stéttir á Íslandi og stéttaátök. Fram á tíunda áratuginn var hér klassísk íhaldssöm valdastétt sem varði völd sín og aðstöðu gagnvart almenningi. En á tíunda áratugnum voru dagar þessarar yfirstéttar taldir. Það sem gerðist á tíunda áratugnum var að fram steig stétt stórtækra kapítalista, hér reis upp alvöru hnattvædd, nýfrjálshyggin arðránsstétt. Tilveru sína átti hún að þakka ráni á sameiginlegum eignum þjóðarinnar, auðlindinni í hafinu og ríkisfyrirtækjum, hvort sem það voru bankarnir eða SR Mjöl.

Ein ástæða þess að arðránið fór einhvernveginn framhjá almenningi, og um leið ein ástæða þess að arðránið gat orðið valdarán, var sú að vinstrimenn sofnuðu á verðinum. Nýstofnaður sameinaður jafnaðarmannaflokkur ákvað að kasta öllum jafnaðarhugsjónum og taka í staðinn upp fána Blairismans – hugmyndafræði sem gengur fyrst og fremst út á þjónkun við alþjóðafjármagnið.

Flokksblöðin dóu – öll nema eitt, Morgunblaðið – sem varð blað allra landsmanna og allt sem það sagði hlaut því að vera satt og rétt.

Auðstéttirnar og stjórnmálafélög þeirra, Blairkratar, íhald, og menn á mála hjá Friedman stóðu að mestu sameinaðar um að telja alþýðuna á að vera hlýðna og þæga, gera ekki of miklar kröfur, hvorki um laun né samfélagsþjónustu, því þá!, aðeins þá myndi hin ósýnilega hönd láta brauðmolum rigna af borðum alþjóðafjármagnsins.

Hulunni hefur nú verið svipt af tálsýninni: Hér munu engir brauðmolar falla af borðum hinna ríku. Aftur á móti er þess krafist eins og alltaf að hinar vinnandi stéttir taki á sig allar byrgðar hins ósanngjarna hákapítalíska samfélags.

Krafan um að íslenskir skattgreiðendur borgi Icesave – krafan um að venjulegt fólk borgi allar sínar skuldir, jafnvel eftir að þær hafa verið margfaldaðar með verðtryggingu og vaxtaálagi – upp í topp – svo að hollenskt og breskt stóreignafólk sem lagði peninga á hávaxtareikninga í áhættusömum netbönkum geti gengið fullbætt frá fjármálakasínóinu – svo að Bjarni Ármannsson geti fengið sínar skuldir afskrifaðar og um leið greitt sjálfum sér hundruð milljóna í arð – svo að Halldór Ásgrímsson og kvótaþjófarnir geti fengið sínar skuldir afskrifaðar! – Krafan er ekkert annað en hluti þess einhliða stéttastríðs sem auðstéttirnar hafa háð gegn almenningi undanfarna áratugi.

Og við það verður ekki unað. Við getum ekki setið hjá meðan bankarnir og alþjóðafjármagnið í formi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fara gegn alþýðunni með hernaði!

Nú ríður á að almenningur átti sig á því að háð er stríð gegn okkur, og átti sig á því hverjir það eru sem heyja það stríð.

Um leið ríður á að stjórnmálasamtök sem kenna sig við vinstrið, og flokksmenn, þingmenn og ráðherrar þessara samtaka, átti sig á því að þeir þurfa að standa vörð um hagsmuni vinnandi fólks en ekki fjármálafyrirtækjanna – að fyrsta vinstristjórnin í sögu Íslands standi við þau orð sín að slá skjaldborg um heimilin – að hún standi með almenningi – gegn óvinum almennings. Auðmönnunum, arðræningjunum og alþjóðafjármagninu.

Innan við hálfu ári eftir að Geir bað guð sinn að blessa Ísland áfram, var orðið ljóst að þessi guð, þó máttugur væri, og allir þjónar hans, máttu sín í raun ósköp lítils frammi fyrir þeim krafti sem fólst í sameiningarmætti almennings.

Þau stjórnvöld sem komust til valda í kjölfarið virtust átta sig á því að þau höfðu komist til valda í uppreisn – og í fyrstu leit út fyrir að þessi “fyrsta vinstristjórn” í sögu Íslands ætlaði að standa með alþýðunni gegn auðmagninu: Í aðdraganda kosninganna var Icesave fordæmt, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fordæmdur og því lofað að skjaldborg yrði slegin um heimilin.

Og núna á mánudaginn flutti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra þessarar fyrstu vinstristjórnar [aðra] stefnuræðu sína. Og ég er ekki frá því að í þessari stefnuræðu hafi mátt finna vísbendingar um af hverju efndirnar hafa ekki verið meiri en raun ber vitni.

Jóhanna byrjaði ræðu sína á að tala um allan þann mælanlega árangur sem hún hefur náð:

Gengi krónunnar styrkst um svo og svo mörg prósent, stýrivextir lækkað um prósentustig, breytingar á prósentum afgangs af viðskiptum við útlönd og rúsínan í þessum pylsuenda mælanlegs árangurs var sá að “Í sjöunda lagi hefur skuldatryggingarálag á skuldbindingar ríkissjóðs hægt og bítandi verið að lækka, var talsvert yfir 600 punktum en er nú komið niður undir 300 punkta. Það sýnir með ótvíræðum hætti jákvætt mat fjármálaheimsins á árangri ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.”

Ég vil ekki efast um að það sé rétt að allt sé þetta mikilvægur mælanlegur árangur, og að hann hafi “vakið athygli” og “traust” “á alþjóðavettvangi”, eins og Jóhanna talaði um.

En ekkert af þessu eru þó velferðarmál – og þó skuldatryggingarálag sé mikilvægt leyfi ég mér að fullyrða að fólk sem ekki á fyrir rafmagns-, síma- eða vísareikningnum eða afborgunum af lánum og bíður nú eftir því að verða borið út, situr ekki spennt að fylgjast með skuldatryggingarálagi ríkissjóðs.

Ég leyfi mér líka að fullyrða að ein ástæða þess að átta þúsund manns stóðu á Austurvelli meðan Jóhanna flutti þessar gleðifréttir var ekki sú að -fjölmiðlar hér á landi dragi upp dökka mynd af ástandinu [og] fjalla lítið um þann mikla árangur sem náðst hefur og ala með því á óánægju og sundrungu – eins og Jóhanna gaf í skyn. Nei. Ástæðan fyrir því að fólk var að mótmæla – ástæðan fyrir því að fólk er enn að mótmæla meira en einu og hálfu ári eftir að búsáhaldabyltingin náði hámarki – er sú að fólk hefur á tilfinningunni að ríkisstjórnin eyði meiri tíma í að hafa áhyggjur af því hvað einhverjum fjármálaskíthælum í útlenskum fjárfestingarbönkum finnst að skuldatryggingarálagið eigi að vera hverju sinni en hvað verði um alþýðu þessa lands.

Sú staðreynd að afskriftir á brasklánum til gæðinga bankanna líðast óáreittar meðan ríkisstjórnin beinlínis lofar Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ekki verði slakað á klónni þegar kemur að almenningi hefur síst orðið til þess að bæta stemminguna.

Löngu seinna kom Jóhanna að skuldavanda heimilanna og viðurkenndi þá að það hafi nú ekki tekist alveg nógu vel upp á þeim vígstöðvum. En það er einhverjum öðrum að kenna, bönkunum, sem Jóhanna segir að hafi dregið lappirnar.

En ef þetta er vandamálið, að bankarnir neita að hjálpa fólki, er þá ekki einfaldast að ríkið setji lög sem neyða þá til þess? Er ástæðan sú að Jóhanna og ríkisstjórnin bera hag bankanna frekar fyrir brjósti en hag almennings? Eða er ástæðan sú að ef bankarnir yrðu neyddir til að endurmeta lán til almennings, ekki bara eigin toppa og annarra meðlima elítunnar, þá myndu skuldatryggingaséníin ákveða að það þyrfti að hækka skuldatryggingarálagið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reiðast?

Ég átta mig ekki alveg á þessu, en það er alveg klárt að þessi ríkisstjórn talar hvorki né hegðar sér eins og “félagshyggjustjórn”. Er skýringin sú að Jóhanna og ríkisstjórnin óttast reiði guðs Geirs? Reiði ósýnilegu handarinnar sem birtist okkur í gerli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Góðir félagar – við vitum að sameinuð er alþýðan miklu sterkari en auðvaldið. En þá verðum við líka að mynda sterk samtök sem eru tilbúin til að mæta öllum ósanngjörnum kröfum yfirvalds og arðræningja af fullri hörku.

Takk fyrir.


Ræað fluut á útifundi Rauðs vettvangs, Baráttudagar í október, á Lækjartorgi 6. október 2010

About Sólveig Anna Jónsdsóttir

View all posts by Sólveig Anna Jónsdsóttir