Hundruð Þúsunda fóru út á götur Lissabon sem og annarra borga Portúgal laugardaginn 15. sept. til að mótmæla eymd og volæði í boði AGS og Evrópusambandsins. Þannig svaraði almenningur kalli Attac í Portúgal, sem og annarra baráttu- og launþegasamtaka og gekk undir slagorðinu: Út með AGS. Ags boðar hungur og eymd. Hér á eftir birtum við ávarp Attacsamtakanna í Portúgal í þýðingu Sólveigar Jónsdóttur.
Til helvítis með Þríeykið – Troikuna! Við viljum líf okkar til baka!
Við verðum að takast á hendur eitthvað stórfenglegt. Við verðum að streyma útá götur og torg, bæði í borgum og bæjum. Þögnin drepur okkur. Síbyljan frá meginstraums-fjölmiðlunum bergmálar í þögninni, magnar þögnina, og spinnur lygaveg sem deyfir og drepur langanir okkar og þrár. Aðgerða er þörf til að sigrast á undirgefni, til að vinna gegn eyðileggingu hugmynda, gegn dauða sameiginlegs vilja okkar. Við verðum að mætast enn á ný, raddir okkar og líkamar, í þeirri vitneskju að tilvera okkar og framtíð ákvarðast á götum úti. Við verðum að sigrast á óttanum, þessum ótta sem hefur verið sáð svo kænskulega í kringum okkur, og skilja, í eitt skipti fyrir öll, að nú höfum við nánast engu að tapa, og sá dagur rennur brátt upp að við höfum glatað öllu, vegna þess að við stóðum ein, einsömul, gáfumst upp.
Ránið (lánin, “björgunaraðgerðirnar”, fjárkúgunin, hver sú lygi sem notuð var til að sigrast á okkur) er hafið í formi efnahagsaðgerða sem auka atvinnuleysi, óöryggi, fátækt og félagslegt óréttlæti, það sem eftir er af eignum ríkisins verður selt, almannatryggingar skornar niður, ráðist verður á mennta og heilbrigðiskerfið (heilbrigðiskerfið sem nú liggur banaleguna), menningarstarfsemi og almnnaþjónusta hverfur – allt þetta í þágu manna og fyrirtækja sem auðgast á spákaupmennsku í kringum þjóðargjaldþrot. Að öðru ári niðurskurðar liðnu, undir erlendu eftirliti, eru framtíðarhorfur okkar Portúgala, dekkri en nokkru sinni fyrr.
Sá niðurskurður sem við verðum fyrir, niðurskurður sem niðurlægir okkur og vanvirðir, leysir engin vandamál en grefur undan lýðræðinu. Stjórnvöld sem hafa tekið að sér að stýra landinu samkvæmt minnisblaði Þríeykisins -Troikunnar – nota ekki lengur tæki þau sem stjórn landsins grundvallast á, heldur hafa látið þau í hendur spákaupmanna og teknókrata, allt í þágu hugmyndafræði sem hyglir þeim best settu, hugmyndafræði sem tekur ekkert tillit til væntinga okkar til þess samfélags sem við byggjum, hugmyndafræði sem tekur ekkert tilliti til kröfunnar um mannsæmandi lífsskilyrði og reisn.
Grikkland, Spánn, Ítalía, Írland og Portúgal eru fangar Þríeykisins og þeirrar spákaupmennsku sem það verndar. Þessi lönd hafa glatað fullveldi sínu og fátækt eykst dag frá degi, eins og í öllum löndum sem hafa verið neydd til að þola niðurskurð. Í stað þess að láta þessi ósköp ganga yfir okkur, í stað þess að gefast upp og deyja þurfum við að gera eitthvað stórkostlegt.
Við verðum að skapa raunhæfa valkosti skref fyrir skref. Íbúar, borgarar þessara landa – Grikklands, Spánar, Ítalíu, Portúgals og Írlands – verða að sameinast, vinna saman, í baráttu fyrir eigin lífi, mælandi einni röddu.
Ef þau vilja beygja okkur, neyða okkur til að samþykkja að líf okkar einkennist af atvinnuleysi, óvissu og óréttlæti , munum við svara með lýðræði, frelsi og staðfestu. Valdinu sem felst í baráttunni. Við viljum taka ákvarðar dagsins í dag í okkar hendur svo við getum ráðið framtíðinni.
Þetta er því ákall til fólks úr ólíkum áttum og hópum. Við biðlum til allra – enstaklinga, hópa, samtaka, pólitískra afla, flokka, verkalýðsfélaga/launþegasamtaka – að koma saman 15. september á götum og torgum.
Þau hafa sundrað okkur til að kúga okkur. Við sameinumst í frelsinu!