Á hvaða tímabili lifum við? Við upphaf 20. aldar var oft sagt að við lifðum á krepputímum, á tímum styrjalda og byltinga. Við upphaf 21. aldarinnar vantar hvorki kreppur né styrjaldir, en byltingar með stóru bé-i láta á sér standa, að minnsta kosti í þeim skilningi sem lagður var í þær fyrir hundrað árum síðan. Kerfið sem þá átti að hrynja er jafnvel sterkara nú en það var þá og þau öfl sem áður vildu brjóta það niður reyna nú að styrkja það. Hið gamla neitar að deyja. Hið nýja getur ekki fæðst. „Úr liði er öldin!“ sagði Hamlet.
Eftir seinna stríð var velferðarþjóðfélagið málmiðlun þjóðfélagsátaka sem hæglega hefðu getað leitt til byltinga. Baráttan gegn fasismanum hafði virkjað almenning og nú tók við stórveldistími jafnaðarmanna. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn smitaðist af jafnaðarstefnunni. Jafnaðarmenn fengu völdin á norðurhveli jarðar og skeið velferðarþjóðfélags rann upp með norrænni samvinnu þar sem öll dýrin í skóginum áttu að vera vinir.
„I was born in welfare state/ ruled by beareaucracy/ contained by civil servants/ and people dressed in gray,“ söng hljómsveitin Kinks á plötunni Muswell Hillbillies við upphaf áttunda áratugarins, nánar tiltekið árið 1971 þegar danska herskipið Vædderen sigldi inn í Reykjavíkurhöfn og Danir afhentu okkur handritin sem ekki bara innsiglaði sjálfstæði Íslendinga og vináttu þjóðanna heldur gaf fyrirheit um hvernig aðrar þjóðir gætu greitt úr fornum flækjum. Svona var velferðarþjóðfélagið gott. Synir og dætur alþýðunnar stóðu fluglæs á hafnarbakkanum og veifuðu fánum.
En skjótt skipast veður í lofti. Við lok sama áratugar var Margaret Thatcher komin til valda í Englandi og hóf nú styrjöld við kolanámumenn, velferðarkerfið og verkalýðshreyfinguna, allt eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði gripið inn í málefni Englands, fyrst Evrópuríkja. Líklega er pönktónlistin ein helsta menningarafurð Englendinga frá þessum tíma og að mörgu leyti viðbrögð við þeim þjóðfélagsbreytingum sem þá gengu í garð.
No Future! varð slagorð tímans og þótti ýmsum sem nú væri tímibili fúturismans lokið, þeirrar stefnu sem Rússar og Ítalir hófu til vegs og virðingar upp úr fyrri heimstyrjöld, hvor með sínum hætti. En kannski var No Future! einmitt framtíðin og fútúrisminn að fæðast þarna, sá heimur sem við lifum í dag, einhvers konar blanda af sýndarveruleika og bóluhagkerfi hins skáldlega auðmagns sem engu eirir nema fjármagninu.
Það liðu tæp þrjátíu ár þar til Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greip inn í málefni Íslands og var Ísland land númer tvö í Evrópu til að njóta þess heiðurs, á eftir Englendingum. Síðan hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið gestur í svo mörgum Evrópulöndum að menn eru hættir að kippa sér upp við komu hans. Hvar sem fulltrúar hans koma hverfa þeir á braut með töskur fullar af skuldbindingum og því segja sumir að sjóðurinn komi fyrst þegar hann fer. Lánað er til að bjarga bönkum en skattgreiðendur framtíðarinnar gerðir ábyrgir fyrir reikningnum. Það er kveðjan til hinna óbornu.
…
Öll þekkjum við hin frægu upphafsorð Karls Marx úr Átjánda brumaire Lúðvíks Bónaparte um að sagan endurtaki sig tvisvar, fyrst sem harmleikur, síðan skrípaleikur, og þannig koll af kolli. Oft er líka hægt að spyrja þegar um sögulega atburði er að ræða: Hvora útgáfuna viltu, þá harmrænu eða þá skoplegu, því harmurinn og skopið eru ekki endilega mótsagnir heldur tvær hliðar á sömu myntinni. Stundum er harmræna útgáfan skopleg og á bak við skopið mikill harmur.
Þetta vitum við úr bókmenntunum og við vitum líka að mennirnir skapa söguna sjálfir en velja ekki þær aðstæður sem þeir fæðast inn í. Arfur kynslóðanna hvílir á heilum okkar. Með öðrum orðum, sagan er til, þó að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar til að útrýma henni bæði úr raunveruleikanum og huganum.
Á Íslandi er talað um tvær byltingar og þær eru með tvöhundruð ára millibili. Líklega verður þó hvorug þeirra metin sem sögulegt hreyfiafl í líkingu við margar aðrar breytingar á þjóðfélaginu á sviði framfara, tækni og félagslegra réttinda. Sú fyrri er kennd við danska óþekktarorminn Jörgen Jörgensen, son konunglegs úrsmiðs, sem ekki var hægt að ala upp eða ná tökum á þegar hann var ungur, og var því sendur til sjós og er talinn fyrsti Daninn til að sigla umhverfis hnöttinn.
Á Íslandi fékk hann nafnið Jörundur hundadagakonungur, því sú bylting sem við hann er kennd stóð yfir sumarið 1809, en hundadagar eru einmitt hlýjasti tími sumarsins. Seinni byltingin er vanalega kennd við potta og pönnur og nefnd búsáhaldabyltingin, en hún átti sér stað í janúar 2009 í eins góðu byltingarveðri og hugsast getur, myrkri sem lýsa mátti upp með blysum og bálköstum auk sem sem segja má að samfélagið hafi breyst í sirkus borgaralegrar óhlýðni þar sem hver uppákoman rak aðra. Samfélagið tók á sig mynd byltingarástands með borgarafundum, mótmælum og uppákomum.
Þau tvöhundruð ár sem eru á milli þessara tveggja byltinga eru jafn langur tími og á milli frönsku byltingarinnar og þess að Berlínarmúinn hrynur. Stundum er talað um 19. öld hina lengri sem spannar tímann frá frönsku stjórnarbyltingunni og fram að fyrri heimsstyrjöld. Báðar eru þó íslensku byltingarnar afar óvenjulegar einsog flest sem gerist á Íslandi og raunar hvorug byltingin bylting í þeim skilningi sem oftast er lagður í það orð. Ísland virðist alltaf geta sagt einsog Frank Sinatra: I did it my way, en raunar var það Paul Anka sem samdi lag og texta. Samt erum við ekki jafn sérstök og við höldum og margir aðrir vilja trúa.
Jörgen Jörgensen eða Jörundur hundadagakonungur var í raun stríðsfangi Breta en var látinn laus gegn drengskaparheiti. Hann mun hafa hitt íslenskan kaupmann í London sem sagði honum frá því hvaða viðskiptatækifæri væru til staðar á Íslandi. Tveimur árum fyrr eða 1807 höfðu Englendingar sprengt Kaupmannahöfn og valdið miklu tjóni. Þeir lögðu líka hald á ótal dönsk skip og helminginn af öllum skipum Íslendinga eða tuttugu skip af fjörtíu. Þetta gerðist vegna bandalags Dana við Napóleon og baráttan stóð um höfin og þar höfðu Englendingar tökin. Íslenski kaupmaðurinn sagði Jörundi að það þyrfti að færa landsmönnum nauðsynjar og kaupa af þeim vörur eins og tólg. Hafði kaupmaðurinn sagt Jörundi að hann ætti 150 tonn af tólg í skemmu í Hafnarfirði.
Eftir árin á heimshöfunum þekkti Jörundur verslun í nýlendum og heillaðist af hugmyndinni um verslunarleiðangur til Íslands. Hann nefndi þetta við enskan mann, James Savignac að nafni, sem hann hitti á veitingahúsi í London. James Savignac kynnti Jörund síðan fyrir sápukaupmanninum Samuel Phelps sem sárlega vantaði tólg til sápugerðar og varð það upphafið að hinni ævintýralegu byltingu sem um leið speglaði sterka stöðu enska flotans en að sama skapi veika stöðu þess danska.
Samuel Phelps leigði skip sem var hlaðið nauðsynjum og sendi Savignac til Íslands. Jörundur var ráðinn sem túlkur, því að hann talaði dönsku en Danir álitu hann Englending og Englendingar álitu hann Dana. Aðeins á Íslandi var hann kóngur. Að þessi sápuverslun leiddi af sér byltingu er raunar ákaflega merkilegt. Það grunaði ekki marga að sú bylting væri á leiðinni og raunar tóku ekkert margir eftir henni. Engu að síður endurómaði hún þætti úr byltingunum á meginlandinu, einkum frönsku byltingunni, og gekk jafnvel lengra í vissum efnum. Til dæmis er 12. greinin í auglýsingu Jörundar frá 11. júlí 1809 afar merkileg, en þar stendur „og einn og sérhvörr, svo vel fátækur, tekur jafnvæga hlutdeild í þeirra stjórnun, sem hinn meiriháttar“. Hér gekk Jörundur lengra en hinir byltingarsinnuðu Frakkar sem kröfðust að menn þurftu að eiga talsvert af veraldlegum eignum til að öðlast kosningarétt og kjörgengi. Jörgensen treysti greinilega ekki valdastéttinni og vildi veita hinum almenna Íslendingi þátttöku í stjórn landsins.
Leiðangur Jörundar og Savignacs hélt úr höfn og kom til Íslands í byrjun árs 1809. Þeim var í fyrstu synjað um verslunarleyfi, enda Íslendingum bannað að versla við útlendinga en Danir voru ekki útlendingar því að þeir réðu landinu. En Jörundur og hans menn höfðu það sem kallað var víkingaleyfi sem leyfði hertöku skipa óvinarins á stríðstímum. Því tóku þeir skip sem lá fyrir ströndum og dugði það til að knýja fram verslunarsamning. Verslunin gekk þó treglega þar sem þeir höfðu komið um miðjan vetur, en kauptíðin var ekki fyrr en um sumarið. Þegar leið á mars var því ákveðið að senda Jörgensen til baka með tómt skip, á meðan Savignac varð eftir til að gæta byrgðanna og bíða kauptíðarinnar.
Jörundur kom til London í apríl og sagði Samuel Phelps fréttirnar. Það var fljótt ákveðið að leggja í annan leiðangur um sumarið. Nú keypti Samuel Phelps tvö skip og sótti þar að auki um vernd breska flotans. Samuel ákvað að fara sjálfur með og réð Jörund sem túlk. Stærra skipið var hlaðið nauðsynjum og héldu þeir til Íslands á ný. Á sama tíma kom danski stiftamtmaðurinn, Frederik Trampe, aftur til Íslands og endurnýjaði verslunarbannið við útlendinga. Stuttu síðar kom aftur á móti breska herskipið Rover, eins og Samuel Phelps hafði beðið um, og knúði fram endurnýjun verslunarsamningsins frá því um veturinn. Að því búnu sigldi Rover á brott og var farið þegar leiðangur Samuels Phelps kom til Íslands stuttu síðar. Trampe greifi stiftamtmaður, sem var hæstráðandi á Íslandi og stjórnaði í umboði konungs, auglýsti hinsvegar aldrei nýja verslunarsamninginn og leit ekki út fyrir að hann ætlaði sér að gera það. Eftir þriggja daga bið héldu því Samuel Phelps og fylgdarmenn hans því í land og handtóku Trampe geifa.
Með handtöku stiftamtmannsins hafði völdum verið rænt og landinu steypt í stjórnleysi. Því þurfti að finna einhvern sem gæti tekið að sér stjórn landsins án þess að skerða verslunarhagsmuni Englendinga. Úr varð að danski túlkurinn, Jörgen Jörgensen eða Jörundur einsog við kjósum að kalla hann, tók að sér starfið og reyndist hann afar áhugasamur stjórnandi. Hann byrjaði á því að tryggja sér völdin með því að lýsa yfir sjálfstæði Íslands frá Danmörku. Þar með misstu allir Danir embætti sín og eignir en það truflaði Jörgensen alls ekki þótt hann væri sjálfur danskur að uppruna.
Síðan kynnti hann nýju stjórnarskipunina. Einungis innlendir embættismenn mættu þjóna landinu og áttu íbúar þess að útnefna átta fulltrúa til þings í anda hins forna Alþingis. Skuldir við dönsku kaupmennina og konung voru afskrifaðar og átti fólk ekki að greiða nema helming skatta næsta ár. Að vísu ríkti almennur ruglingur um niðurfellingu skulda og þurfti Jörgensen að árétta að ekki væru allar skuldir strikaðar út og minnir það nokkuð á nútímann og þá hundadagakónga sem nú stjórna. Kornverð var lækkað og aðgerðum lofað í heilbrigðismálum og skólamálum. Einnig átti að bæta réttarfar með því að koma á kviðdómi og máttu allir landsmenn nú ferðast frjálsir um landið, en áður þurfti leyfisbréf til þess og voru menn því oft dæmdir fyrir flakk sem auðvitað var í mikilli mótsögn við þá borgaralegu strauma sem léku um heiminn.
Trampe var færður undir þiljur á skipinu og Jörgensen flutti sjálfur í stiftamtmannshúsið við Austurstræti 22. Nú gátu Englendingarnir hagnast af versluninni á meðan Jörundur lét framkvæma eignarnám hjá dönsku kaupmönnunum. Fyrstu daganna ríkti þó töluverð óreiða. Landsmenn voru hræddir og þurfti Jörundur að endurtaka að ekki yrði skert hár á höfði neins friðsams manns. Þótt landsmenn væru honum ekki hættulegir voru tveir menn settir í varðhald. Flestir íslensku embættismannanna ákváðu að þjóna áfram undir stjórn Jörgensens en kalli hans eftir fulltrúum á þing var ekki svarað. Eftir tvær vikur lýsti hann því yfir, að „vér Jörgen Jörgensen höfum tekið að oss landsins stjórn“ þó einungis „þar til að regluleg landsstjórn er ákvörðuð.“ (Auglýsing Jörundar, 11. júlí 1809)
Nú var nýja íslenska fánanum flaggað í Reykjavík. Hann var blár og skreyttur þremur hvítum þorskum, en hvarf í sjóinn og veit enginn nákvæmlega hvernig hann leit út. Um hríð virtist sem Jörundur væri kominn til að vera. Hann gekk um götur Reykjavíkur í einkennisbúningi skipherra, vopnaður sverði og skammbyssu, og í fylgd lífvarða sinna, átta íslenskra soldáta, sem gengu um í sérsaumuðum búningum afar skrautlegum. Hann fór í tíu daga yfirreið norður í land til að gera eignir dönsku kaupmannanna upptækar. Á meðan var reist virki í Reykjavík og við komuna til Reykjavíkur hóf Jörundur að gera áætlun sína í heilbrigðis- og skólamálum.
Þegar leið á ágúst kom annað breskt herskip til að vernda verslunina. Hafði þess verið óskað. Skipstjórinn hét Alexander Jones. Hann trúði ekki eigin augum þegar hann sá ókunnuga fánann blakta yfir Reykjavík. Honum þótti það með ólíkindum að Samuel Phelps og félagar hefðu tekið stiftamtmanninn fastan án umboðs breskra stjórnvalda. Enn frekar vakti furðu hans að þeir höfðu látið danskan mann taka að sér stjórn landsins. Bæði var England í stríði við Dani og þessi danski kóngur á Íslandi var strangt tiltekið stríðsfangi Englendinga. Hér var eitthvað sem gekk ekki upp. Alexander Jones ákvað að ljúka þessu máli og gaf út fyrirmæli um að Jörgen Jörgensen, sem Englendingar kölluðu Jorgen Jorgensen, yrði settur af. Allar tilskipanir hans voru ógiltar og danska landsstjórnin endurreist. Hinar róttæku aðgerðir hans urðu fljótt kenndar við byltingu, þótt honum hefði ekki tekist að framkvæma nema hluta af því sem hann lofaði.
…
Auðvitað er þetta bara brot af sögunni svipað en tvöhundruð árum seinna skömmu eftir að bankarnir hrundu hófst eldgos í Eyjafjallajökli og enski leikarinn John Cleese sagði að Íslendingar gætu hvorki stjórnað bönkum né eldfjöllum, og uppskar hlátur, en gleymdi því líklega á meðan á hlátrinum stóð að hann var andlit eins af hrundu bönkunum, Kaupþings sem er á topp tíu yfir gjaldþrot sögunnar og ef laun æðstu stjórnanda bankans væru reiknuð yfir í meðallaun hefðu launagreiðslur hafist löngu fyrir fæðingu Jesús Krists.
Flugumferð stöðvaðist. Það var einsog eldfjöllin væru að gera sig klár í nýja byltingu, svipaða þeirri frönsku rúmum tveimur öldum fyrr. Þá settu íslensku eldfjöllin sín strik í reikning loftslagsins, en þá voru engir fréttaþulir til að reyna að bera fram orðið Skaftáreldar einsog síðar þegar þeir reyndu að bera fram nafn Eyjafjallajökuls.
Skaftáreldar hófust í maí árið 1783 og ollu uppskerubresti víða í Evrópu sem leiddi til byltinga en gosið í Eyjafjallajökli hófst í apríl og setti flugsamgöngur úr skorðum. Á enskum bloggsíðum var sagt: Fyrst ræna Íslendingar peningunum okkar, svo senda þeir yfir okkur ösku. Ash rímaði á móti cash. John Cleese sagði brandarann um eldfjöllin og bankana þegar hann gat ekki flogið á milli Osló og Brussel og varð að taka leigubíl.
Allt er þetta mikil kaldhæðni og ekki síður kaldhæðnislegt að eldgosið í Eyjfjallajökli hófst daginn eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis á hruni bankanna var gerð opinber og því engu líkara en að stjórnmálamenn, eftirlitsstofnanir og auðmenn, sem skýrslan snerist um, væru í beinu sambandi við djöfulinn sem magnaði upp heilt eldgos til að skyggja á dáðir þeirra og dirfsku enda gleymdist skýrslan fljótt þótt hún væri níu bindi og afar vönduð í frágangi öllum og framsetningu.
Á þessum árum varð veruleikinn ekki bara heimssögulegur heldur varð Ísland allt í einu einsog smækkuð mynd af heiminum. Ekki bara tilraunastöð náttúruaflanna heldur líka frjálshyggjunnar, þessa undarlega dýrs sem gleypti allt, bæði eignir fólks, banka og stjórnmálaflokka, sem raunar er í undarlegri mótsögn við þá yfirlýstu stefnu frjálshyggjunnar að láta allt í friði.
…
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til okkar einn dag í október árið 2008 um svipað leyti og forsætisráðherrann birtist í sjónvarpinu og bað guð að blessa landið í beinni útsendingu. En hvernig átti guð að fara að því þegar Mammon hafði messað í átján ár og Margret Thatcher verið einsog María mey, hin heilaga jómfrú úr járni? Þegar bankarnir voru einkavæddir sögðu fulltrúar þeirra að nú færi hið dauða fjármagn í umferð, óveiddir fiskar veðsettir og allt keypt með lánsfé. Sögunni var lokið, öll samstaða út í hött. Allt varð gamaldags sem ekki var hægt að veðsetja. Lágvöruverslanir áttu að koma í staðinn fyrir stéttabaráttu, auðmenn í jólasveinabúningum leysa opinbera þjónustu af hólmi og bankarnir sjá um menningarviðburði. Búsáhaldabyltingin sneri þessu við þó að margt virðist komið í sama horfið aftur og gagnrýnin og róttæk umræða nánast horfin, af yfirborðinu að minnsta kosti.
Á Íslandi gaf Viðskiptaráð tóninn samanber þessa stefnuyfirlýsingu: “Röksemdir gegn opinberri reglusetningu og eftirliti á fjármagnsmarkaði eru meira sannfærandi en röksemdir með slíkum opinberum afskiptum. Miklu skynsamlegra væri að láta markaðsaðilum það eftir að setja sér eigin reglur og framfylgja þeim.” Og um árangurinn af þessari stefnu segir: “Athugun Viðskiptaráðs sýnir að Alþingi fór í 90% tilfella að hluta eða öllu leyti eftir tilmælum ráðsins.” Það þurfti ekkert ofbeldi til að koma þessum breytingum á, þvert á móti runnu þessar hugmyndir smurðar í gegnum Alþingi án þess að nokkuð stæði í vegi fyrir þeim. Það var frekar einsog löggjafinn væri í vinnu hjá viðskiptalífinu.
Hið norræna velferðarkerfi fékk nýtt nafn og var kallað „forsjárhyggja ríkisvaldsins“ og nú hvísluðu frjálshyggjumennirnir hver að öðrum: Múrinn er hruninn! Næsta skotmark: Velferðarkerfið. Í byrjun hrukku auðvitað nokkrir brauðmolar af borðum. Nú áttum við ekki lengur að miða okkur við Norðurlönd, við vorum svo miklu fremri á flestum sviðum. Okkar menn fóru um Norðurlönd og keyptu fyrir lánsfé verslanir, stórhýsi, tyggingafélög, banka og fjármálastofnanir og fjölmiðla. Viðskiptalífið tók völdin í landinu. Þessi bylting er stundum nefnd þögla byltingin og hún fór fram víðar en á Íslandi. Þessu lauk með hruni. Forsætisráðherrann gafst upp og bað guð að blessa landið. Hægrisinnuðu flokkarnir fóru frá völdum eftir að hafa nánast sett landið á hausinn og skuldsett íbúana langt inn í framtíðina eða réttara sagt, fjöldamótmæli leiddu til þess að þeir sögðu af sér.
…
Eldar loguðu á Austurvelli. Þinghúsið var grýtt. Mjólkurafurðir og egg láku niður veggi þess og eftir gangstéttum. Meira að segja jólatréð sem Norðmenn gefa okkar árlega stóð í ljósum logum. Þetta eru mestu uppþot sem orðið hafa í landinu. Að lokum fór ríkisstjórnin frá og boðað var til kosninga. Vinstriflokkarnir sigruðu. Fyrsta vinstristjórnin með hreinan meirihluta var mynduð. Hún kallaði sig Norrænu velferðarstjórnina og var mynduð í Norræna húsinu. Allt hafði þetta yfir sér táknrænan blæ, að snúið væri af braut frjálshyggjunnar og inn á braut hinnar norrænu jafnaðarstefnu. Embætti sérstaks saksóknara var stofnað til að rannsaka afbrot sem þátt í hruninu. Einnig voru sett fram loforð um nýja stjórnarskrá, nýtt kerfi í sjávarútvegi og fleira mætti telja.
Norrænu velferðarstjórinni eða vinstri stjórninni tókst sumt, sumt ekki. Hún setti sér stór markmið en megnaði ekki að framkvæma þau, ekki síst vegna þess að hún vildi standa í þessu ein með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en ekki virkja fólkð sem kom henni til valda með sér. Þegar mótmælununum lýkur fyrir utan þing og stjórnarráð taka við mótmælaaðgerðir fyrir innan, mótmæli útgerðarmanna, fjármálstofnana og banka, í stuttu máli, þeirra sem í raunveruleikanum ráða; eða ráða þeir kannski raunveruleikanum? Norrænu velferðarstjórninni, vinstristjórninni, tókst ekki að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann róttæka hátt sem flestir vilja, ekki að koma í gegn nýrri stjórnarskrá og heldur ekki að endurskipuleggja fjármálakerfið í anda félagslegra sjónarmiða. Samtök útvegsmanna og bankarnir og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reyndust sterkari en ríkisstjórnin og höfðu hana undir í flestum glímubrögðum og létu hana setja fram sín sjónarmið. En ríkisstjórninni tókst að standa vörð um velferðarkerfið sem er ekki sjálfgefið á tímum bankakreppu og skuldakreppu. Henni tókst að hluta að jafna tekjur í gegnum skattakerfið og ná tökum á efnahagsmálunum þannig að landið náði á ný fótfestu í alþjóðasamfélaginu, sem svo er nefnt. Spádómar um einangrun og volæði rættust ekki. Ríkisstjórninni tókst að halda niðri atvinnuleysi og standa vörð um náttúruna, samþykkja rammaáætlun, sem stóriðjukapítalismi núverandi ríkisstjórnar vill nú brjóta upp. Þó að ýmislegt hafi verið gert í skuldamálum heimilanna náðist engin lausn í þau mál. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti rammann og vildi sértækar aðgerðir í stað almennra leiðréttinga og því enduðu skuldamálin fyrir dómstólum eða umboðsmanni skuldara með þeim afleiðingum að deilur um tæknilegar útfærslur urðu ríkjandi á kostnað réttlætissjónarmiða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi líka niðurskurð í velferðarkerfinu en treysti sér ekki í þann slag þegar hann fann andstöðuna gegn þeim hugmyndum. En velferðarkerfið er engu að síður verulega laskað og nú er komin ríkisstjórn sem hyggst laska það enn meir.
…
Hún var mynduð í sumar, hreinræktuð hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ef völva hefði séð fyrir komu þessarar ríkisstjórnar í miðri búsáhaldabyltingunni hefðu ekki margir álitið að spádómsgáfa hennar væri merkileg. Til marks um það eru nokkrir yfirlýstir hatursmenn búsáhaldabyltingarinnar nú komnir til valda og verma jafnvel ráðherrastóla. Maður er nefndur Gunnar Bragi Sveinsson. Hann hefur aðallega unnið við að reka bensínstöðvar úti á landi en er nú sestur í stól utanríkisráðherra. Á síðasta kjörtímabili lagði hann til, þá sem óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu, að búsáhaldabyltingin yrði rannsökuð sem sakamál. Tveir aðrir þingmenn voru meðflutningsmenn á tillögunni og er annar þeirra ráðherra. Þeir lögðu til að „framferði einstakra þingmanna í búsáhaldabyltingunni verði rannsakað og það kannað hvort þeir kunni að hafa bakað sér refsiábyrgð,“ og einsog vera ber í verðandi sakamáli gátu flutningsmenn bent á sakamennina. Sáu þeir einkum fyrir sér eina þingkonu úr röðum Vinstri Grænna sem þau vildu meina að stjórnað hefði öllum hinum miklu mótmælum í gegnum farsíma. Hún hefur þá verið með ansi mörg númer í símanum sínum og væntanlega þurft að borga háan símareikning. Þó minnast þess fáir, ef nokkrir, úr röðum mótmælenda að hringt hafi verið í þá úr síma hennar. Hún átti víst líka að hafa veifað til mótmælenda og jafnvel kreppt hnefann. Sjálf kvaðst þingkonan hafa verið að hringja í son sinn sem var meðal mótmælenda og veifa honum. Allt myndi þetta hljóma einsog hver önnur sérviskuleg vitleysa, hliðstæð því sem alltaf hefur verið til á Íslandi og raunar um allt norðurhvel jarðar og jafnvel allan heim, það er þegar einn þingmaður eða fleiri taka að sér hlutverk trúðsins eða þorpfíflsins, en slíkir aðilar eru sjaldnast gerðir að ráðherrum í öðrum löndum. Á vef um málið segir: „Samsæriskenning framsóknarmanna afhjúpar þá. Þeir vita ekkert um búsáhaldabyltinguna. Þeir skilja ekki hvað samtakamáttur er. Allir þeir sem komu nálægt búsáhaldabyltingunni vita að henni var ekki stýrt. Hún var sjálfsprottin.“
Sumir segja að vísu að ráðherrastólar hugsi sjálfstætt. Það skipti ekki máli hver sitji í þeim. Stóllinn hafi orðið. En það er önnur saga. Frekar að hún eigi við fyrri ríkisstjórn, fyrstu hreinræktuðu vinstristjórn í sögu lýðveldisins, en hún þótti standa sig svo vel við endurreisn fjármálakerfisins að haft var í flimtingum í höfuðstöðvum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hún tæki við völdum í Grikklandi. Nýja stjórnin hefur strax látið til sín taka og fært þeim efnuðu aftur hluta af því sem þeir töldu sig hafa tapað í gin samneyslu og velferðar, sem vinstri stjórninni tókst að ýmsu leyti að verja þrátt fyrir niðurskurð. Veiðigjald fyrir afnot af sjávarauðlindinni hefur verið lækkað og þótti ekki hátt fyrir og kannanir sýna að meira en 80% þjóðarinnar vilja að sanngjarnt gjald komi fyrir nýtingu auðlindarinnar, enda er hún skilgreind sem sameign þjóðarinnar.
Sumir segja þessa nýju ríkisstjórn vera ríkisstjórn útgerðarmanna og eignafóks en landsamband útgerðamanna eru ótrúlega vel skipulögð samtök. Telji þeir sig verða fyrir skakkaföllum hefja þeir áróðursherð með blaðaauglýsingum, sjónvarpsauglýsingum, lýsa yfir lokun frystihúsa, í stuttu máli sagt, þeir veifa sinni svipu yfir öllu samfélaginu. Samt eiga þeir allt undir því komið að samfélagið sé sátt við þá en það er samfélagið ekki ef marka má kannanir. Þeir skipuleggja jafnvel mótmæli þar sem áhafnir mæta í vinnugöllum enda vellaunaðar og þola illa að missa vinnuna. En málið er ekki svona einfalt: Ríkisstjórnin var ekki kosin vegna stuðnings síns við útgerðina. Hún var kosinn vegna þess að Framsóknarflokkurinn sem fyrir nokkrum árum var deyjandi flokkur lofaði að leysa skuldavanda heimilanna.
Ríkisstjórnin var því kosin út á mál sem fyrri ríkisstjórn tókst ekki að leysa, jafnvel þótt hún væri líka kosin til að leysa þau. Svo virðist sem flestar ríkisstjórnir sem komast til valda um þessar mundir treysti sér ekki til að framfylgja eigin stefnuskrá. Hollande sem vann stórsigur í forsetakosningunum í Frakklandi lofaði að ráðast gegn spilltum og gráðugum fjármálaheiminum en skipaði síðan fjármálaráðherra sem gróf undan því ætlunarverki hans og birtir nú sjálfur nýja hægristefnu en hún fór framhjá ansi mörgum vegna kvennamála forsetans. Til dæmis rakti RÚV kvennamál forsetans í einum fimm fréttaskýringaþáttum en minntist á tillögur hans í efnahagsmálum einsog hverja aðra neðanmálsgrein, en það var einmitt hún sem var áhugaverð í ljósi þess sem hér er til umræðu, sem sé, að nýfrjálshyggjan er ekki dauð úr öllum æðum og er jafnvel enn voldugri í pólitískum skilningi. Það sem við þurfum að skýra er hvers vegna nýfrjálshyggjan neitar að deyja og hefur alveg náð sínum fyrri styrk aftur, jafnt í ræðu sem riti, í sýnd sem reynd. Það er jafnvel farið að gagnrýna menn fyrir að ætla aldrei að komast út úr hruninu, þó að það sé bara fimm ára gamalt, en slíkt myndi aldrei vera sagt um mann sem talaði stöðugt um eldri viðburði sögunnar, því við erum ekkert komin út úr hruninu frekar en kapítalisminn sjálfur.
…
Áður en ég lýk máli mínu er eiginlega nauðsynlegt að spyrja um þessar byltingar og hvað sat eftir af þeim. Bylting Jörundar átti sinn þátt í því að aflétta verslunareinokuninni og þar með bæta hag landsmanna en hvorki voru landsmenn tilbúnir í byltingu hans né heldur að hún hefði áhrif á annað í kerfinu en aukna verslun. Á hinn bóginn má spyrja hvernig farið hefði ef Jörundur hefði náð að festa sig í sessi og ríkja hér einsog lítill Napóleon, Napóleon norðursins. Honum var stundum líkt við Napóleon. Þegar ferill Jörundar eftir byltinguna 1809 er skoðaður kemur í ljós að hann var ekki bara spilafíkill og alkóhólisti heldur líka algjör tækifærissinni. Hér er ég á engan hátt að draga úr því að hann var stórkostlegur persónuleiki, en hann gerði allt til að þóknast Bretum, fór sem njósnari þeirra víða um lönd og endaði með því að þeir sendu hann með fangaskipi til Tasmaníu eftir að hafa breytt dauðadómi í lífstíðarfangelsi og það þó að lífstíðarfanginn yrði svo lögregluþjónn í Hobart í Tasmaníu, en þegar þau mál komu til tals í Bretlandi að taka Ísland, sem þau gerðu nokkrum sinnum, þá var einkum þrennt sem Bretar sáu við Ísland, það voru verslun og vöruskipti, það voru fiskimiðin og síðast en ekki síst, möguleikinn á góðri fanganýlendu, einsog Tasmanía var. Hefði þessi söguþróun farið í gang er ég nú ekki viss um að við værum hér.
En þá að búsáhaldabyltingunni. Hún var að mörgu leyti sem hvörf í leikriti, eiginlega augnablik þar sem við öðluðumst innsýn í samfélag, stöðu þess og tilveru, en svo hvarf þetta augnablik eiginlega jafnskjótt og það kom, og við erum aftur lent í gamla tímanum bara aðeins ruglaðari. Við heyrum ekki lengur um Nýtt Ísland og ekki nýja stjórnarskrá eða neinar umbætur varðandi eignarhald á náttúruauðlindum eða fiskimiðum. Enginn talar lengur um kvótakerfið. Það er aftur orðið einsog náttúrulögmál. Samfélagsumræðan rís upp og hnígur í hneykslisöldum, hneykslin eru til að staðfesta að ekkert breytist. Hneyklismálunum er fleygt til okkar einsog beinum til hunda en það vantar alla greiningu og skilning á samfélaginu og hann þurfum við að öðlast.
En við sýndum að við getum breytt. Við sýndum að samstaðan virkar. Komið var til móts við allar kröfurnar sem settar voru fram en þær voru líklega ekki eins róttækar og við héldum. Kosningar, brotthvarf seðlabankastjóra og forstjóra fjármálaeftirlitsins … Við fengum kosningar … en sáum að við getum ekki treyst stjórnmálaflokkum til að sinna verkefnum sem við veljum þá til … við verðum að vera virk … en þegar stjórnmálaflokkarnir sem við veljum komast til valda vilja þeir ekki virkni okkar heldur vilja þeir fá að standa í þessu einir … Þá fara flestir heim því fæstir hafa tíma til að standa í þessu en þeir sem eftir verða fá á sig mynd eintrjánunga sem þrjóskast við en eru látnir sýna hvað krafan um breytingar á lítinn stuðning … Það er í raun ótrúlegt hve vel allt hið kapítaliska kerfi er skipulagt, og hve stofnanir þess eru sterkar og áhrifaríkar, nefnum bara nokkrar … G-8, G-20, NATO, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Heimsbankinn, OECD og hvað þetta allt heitir, og leyniþjónusturnar og símhleranirnar, og svo allir klúbbarnir þar sem hinir ríku ráða ráðum sínum … en almenningur og mótmælendur hafa nánast ekkert skipulag … og enga miðlæga gagnagrunna til að sækja í reynslu og skiptast á skoðunum … einkavæðing hugarfarsins hefur líka farið fram … en ástandið er frjótt og óvissan mikill … svartsýni hugans og bjartsýni viljans …
„Úr liði er öldin! Ó, mig hryllir við þeim örlögum að kippa henni í lið.“ Var Hamlet með þetta? Eru þetta tímarnir sem við lifum? Það er ekkert einfalt svar. Af hverju verða ötulustu stuðningsmennirnir alltaf fyrir vonbrigðum? Á Íslandi eru kjósendur sagðir hafa gullfiskaminni. Svo gjósa menn upp í reiði og hneyslan yfir því hvað fólk er vitlaust í kjörklefanum. Hver dæmir? Hið gamla sem neitar að deyja. Hið nýja sem getur ekki fæðst. „Úr liði er öldin!“