Vatnaskil urðu. Áður fordæmdu Vesturlönd undiróðursstarfsemi kommúnista undir handarjaðri Moskvu og þeir í austurvegi lofuðu og prísuðu stéttabaráttuna og baráttuna gegn heimsvaldastefnunni. Í dag er aðeins talað um baráttu trúarhópa, þjóðernishópa og jafnvel ættbálka. Þessi nýi skýringarmáti öðlaðist aukið vægi eftir að bandaríski stjórnmálafræðingurinn Samuel Huntington setti fram, fyrir tuttugu árum síðan, kenningu sína um “átök menningarheima”, þar sem hann hélt þvi fram að orsök flestra stríðsátaka væri að leita í ólíkum menningarlegum, trúarlegum og siðfræðilegum gildum. Huntington endurvakti þannig gamla rasíska tvíhyggju sem Ernest Renan breiddi út á nítjándu öld um hinn aríska heim sem væri bæði menningarlegur og fágaður og hinn semíska heim sem væri bæði stjórnlaus og ofbeldisfullur.
Þessi skírsskotun til “gilda” hvetur til afturhvarfs til frumstæðra sjálfsímynda sem öldur nútímavæðingarinnar höfðu vikið til hliðar og sem, þversagnakennt sem það nú er, snýr aftur með hnattvæðingunni, einsleitni lífshátta okkar og neyslu, eða bara vegna þess hvernig nýfrjálshyggjan kollvarpar samfélögum og stórir samfélagshópar lenda utangarðs. Hún gerir mögulega herkvaðningu almenningsálitsins um heim allan með eða á móti aðilum stríðsátaka, dyggilega studd af ákveðinni akademískri hefð, menningarlegri eðlishyggju (essentialism culturel), sem á rætur að rekja til heimsmyndar nýlendutímans.
Nú þegar veraldleg frjálshyggja Evrópu og sósíalísk hugmyndafræði utan hennar virðast horfnar af sviðinu eru átök smækkuð niður í menningarlega og mannfræðilega vídd. Fáir blaðamenn og fræðimenn leggja lag sitt við klassískar greiningaraðferðir stjórnmálafræðinnar þar sem tekið er tillit til lýðfræðilegra, efnahagslegra, landfræðilegra, félagslegra, pólitískra, sögulegra og geopólitískra þátta, sem og metnaðar leiðtoga, ný-heimsvaldastefnu eða sóknar svæðisbundinna stórvelda eftir áhrifum.
Almennt er hinum fjölmörgu þáttum sem leiða til stríðsátaka ýtt út af borðinu þegar fjallað er um þau. Í umfjöllunum er látið nægja að greina á milli hinna “góðu” og hinna “vondu” og draga upp mjög einfaldaða mynd af samhenginu. Hlutverkum aðalpersónanna er útdeilt eftir því hvaða kynþætti, trúarhóp eða samfélagshóp þær tilheyra, sem gerir ráð fyrir einsleitni skoðana og atferlis innan þessara hópa.
Forsmekkin af slíkum greiningum fengum við á lokaskeiði kalda stríðsins. Þá voru hinir ýmsu leikendur í langvarandi átökum í Líbanon, 1975-1990, flokkaðir í “kristna menn og múhameðstrúar”. Þeir fyrrnefndu voru allir taldir tilheyra hreyfingu sem kölluð var Líbanska fylkingin eða flokki falangista, hægri flokki innan samfélags kristinna; þeir síðarnefndu voru settir undir hatt bandalags sem fyrst var kallað “framsæknir stuðningsmenn Palestínu (palestino-progressiste)” og síðan “framsæknir múhameðstrúarmenn/íslamistar (islamo-progressiste)”. Þeir sem drógu upp þessa einfölduðu mynd létu það ekki trufla sig að margir kristnir menn voru í röðum andheimsvaldasinna og andsnúnir Ísrael, og studdu rétt Palestínumanna til að reka aðgerðir sínar gegn Ísrael frá Líbanon á sama tíma og margir múslimir voru því andvígir. Auk þess voru vandamálin sem vera vopnaðra hópa palestínumanna og umfangsmiklar, ofbeldisfullar refsiaðgerðir Ísraela sköpuðu íbúum Líbanon af veraldlegum toga og höfði ekkert með skiptingu Líbana í trúarhópa að gera.
Holar alhæfingar og staðalmyndir
Á sama tíma áttu sér stað aðrar sjónhverfingar með trúarímyndir sem hvorki sérfræðingar né fjölmiðlar gerðu athugasemd við. Þannig leiddi stríðið í Afganistan sem hófst með innrás Sovétríkjanna í desember 1979 til herkvaðningar “íslam” gegn guðlausum innrásarhernum og drap þannig á dreif þjóðernisvídd andspyrnunnar. Þúsundir ungra múslima af ólíkum þjóðernum, þó aðallega arabískir, gerðust róttækir og fengu þjálfun undir handleiðslu Bandaríkjanna, Sádí-Araba og Pakistana, og sköpuðu þannig hagstæð skilyrði fyrir uppbyggingu Alþjóðasambands íslamskra djihadista sem enn er til.
Þessu til viðbótar varð íranska byltingin veturinn1979 upphafið að meiriháttar geopólitískum misskilningi því vesturveldin töldu í fyrstu að trúarleiðtogar væru besti valkosturinn við keisarann og að þannig mætti koma í veg fyrir stjórn með þjóðernislegu-borgaralegu yfirbragði (af sama toga og stjórn Mohammad Mossadegh í upphafi sjötta áratugarins) eða stjórn undir sósíalískum og and-heimsvaldasinnuðum áhrifum. Fordæmi tveggja ákafra trúarríkja, Sádí-Arabíu og Pakistans, sem voru nánir bandamenn Bandaríkjanna, urðu til þess að Vesturveldin ætluðu að Íran yrði jafn dyggur bandamaður, og jafn ákafur andstæðingur Sovétríkjannna.
Síðan breyttist þessi greiningarrammi. Andheimsvaldastefna Teheran og stuðningur hennar við Palestínumenn voru fordæmd sem “sjítísk”undirróðursstarfsemi gegn Vesturlöndum öfugt við hógværa stefnu sunnita. Helsta baráttumál Bandaríkjanna varð að reka fleyg á milli sjíta og sunníta, og þ.m. milli araba og persa – í þessa gildru féll Saddam Hussein þegar hann réðist gegn Íran í september 1980 -, og hefur vægi þess aukist enn eftir ósigur innrásarinnar í Írak 2003, sem hefur styrkt stöðuns Írans.[1]Sjá til dæmis Seymour M. Hersch, „The redirection“, The New Yorker, 5. Mars 2007
Í fjölmiðlum og á sviði stjórnmálanna er nú til dags mikið fjallað um hættuna sem stafar frá hinum svokallaða “sjítíska” hálfmána, (en honum tilheyra Íran, Írak, Sýrland og Hezbollah í Líbanon) sem reynir að grafa undan stöðugleika sunní íslam, ástundar hryðjuverk og stjórnast af viljanum til að eyða Ísraelsríki. Engum dettur í hug að vekja athygli á því að Íranir snérust ekki til sjíta íslam fyrr en á sextándu öld, og gerðu það fyrir hvatningu Safavides konungsættarinnar til að eiga auðveldara með að standa gegn útþenslustefnu Ottómana.[2]Konungsætt Safavides réði yfir Persíu frá 1501 til1736. Ismaïl I (1487-1524) hóf trúskipti íbúanna til sjííitisma. Einnig er horft fram hjá því að Íran hefur alltaf verið stórveldi í heimshlutanum, og stjórnin nú heldur áfram, undir nýjum formerkjum, stórveldisdraumum keisarans sem ætlaði sér að vera lögreglustjóri Flóans – og lét sig dreyma um kjarnorku, hvattur áfram af Frökkum. Þrátt fyrir þessar veraldlegu, sögulegu staðreyndir, er allt í Austurlöndum nær nú greint með hugtökunum “sunnítar og sjítar”.
Eftir að uppreisnirnar brutust út í arabaheiminum í ársbyrjun 2011 hafa einfaldanirnar haldið áfram. Í Bahreïn er mótmælendum lýst sem “sjítum” stýrt frá Íran gegn stjórn sunníta. Með þessu gleymast þeir sjítar sem styðja sitjandi stjórnvöld og þeir sunnítar sem hallast að andstöðunni. Í Jemen er uppreisn houthista[3]Sjá https://www.monde-diplomatique.fr/2009/10/BERNIN/18194">Pierre Bernin, „Les guerres cachées du Yémen“, Le Monde Diplomatique, octobre 2009
[þeir eru kenndir við leiðtogann, Hussein_al-Houthi], stuðningsmanna konugsættarinnar sem lengi stýrði landinu, einungis skoðuð sem uppreisn “sjíta” undir áhrifum Írans.
Þegar Líbanon er til umfjöllunar er talað um Hezbollah sem einfalt tæki Írana í baráttu þeirra fyrir áhrifum, þrátt fyrir andstöðuna gegn þeim í röðum sjíta og vinsældanna sem þeir hafa áunnið sér meðal fjölmargra kristinna og múslima af öllu tagi, líka sunníta. Það er þagað um að flokkurinn varð til vegna hernáms Ísraels á suðurhluta landsins á árunum 1978-2000, þar sem íbúarnir eru í meirihluta sjítar – hernáms sem stæði eflaust enn ef ekki hefði komið til kröftugrar andspyrnu Hezbollah.
Hins vegar truflar það ekki greinendur sem styðja “hógværa” sunníta að Hamas á Gaza er af hreinum “sunnískum” uppruna, afkvæmi múslimsku bræðralagshreyfingarinnar: þessa hreyfingu verður að fordæma því vopnin koma frá Íran og þeim er ætlað að aflétta herkví Ísraels á Gaza.
Í stuttu máli vantar öll blæbrigði í greiningarnar. Þagað er um það þegar kúgun eða félgsleg og efnahagsleg mismunun kemur við sögu. Valdabarátta stríðsaðila er ekki til: bara góð öfl og illmenni. Fjallað er um samfélög þar sem hópar með margbreytilegar skoðanir og atferli búa, með innantómum mannfræðilegum alhæfingum og menningarlegum staðalmyndum, þó svo að þau hafi í gegnum aldirnar lifað saman undir gagnkvæmum félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum áhrifum.
Ný hugtök hafa þrengt sér inn í umræðuna: á Vesturlöndum hafa “grísk-rómverskar”, veraldlegar rætur menningarinnar vikið fyrir “gyðinglegum-kristnum gildum”. Einnig hefur áróður fyrir “gildum, sérstöðu og siðum múslima” ýtt út af borðinu and-heimsvaldastefnu, undir merkjum sósíalisma og “iðnvæðingar”, sem einkenndi arabíska þjóðernisstefnu af veraldlegum toga, sem löngum réð ríkjum í stjórnmálum heimshlutans.
Nú til dags eru einstaklingsmiðuð lýðræðisleg gildi sem Vesturlönd telja sig holdgervingu á, í andstöðu við gildi sem eru sögð vera tákn um heildarhyggju (holism) sem á rætur í “feðraveldi og ættbálkasamfélögum” Austurlanda. Fyrr á tíð töldu merkir evrópskir félagsfræðingar að búddísk samfélög gætu aldrei þróast til iðnvædds kapítalisma þvi hann byggði á því sem ætlað var sérstökum gildum mótmælendastefnunnar…
Á sama hátt eru málefni Palestínumanna ekki lengur skoðuð sem þjóðfrelsisbarátta sem hægt er að leysa með stofnun ríkis þar sem gyðingar, kristnir og múslimir lifa saman á jafnréttisgrundvelli, eins og krafa Frelsissamtaka Palestínu (PLO) löngum var.[4]Þetta kom skýrt fram í frægri ræðu Yasser Arafats á Allsherjarfundi Sameinuðu þjóðanna 1974 þar sem hann talaði fyrir ríki, þar sem gyðingar, kristnir og múhameðstrúar væru … Continue reading Litið er á þau sem höfnun araba og múslima á veru gyðinga í Palestínu, og er því í hugum margra tákn um varanleika and-semitisma sem verði að berjast gegn. En ögn af hyggjuviti nægir til að skilja að andspyrnan hefði, ef búddistar hefðu ráðist inn í Palestínu, eða ef Tyrkland hefði, eftir daga Ottómaríkisins viljað leggja hana aftur undir sig, verið jafn samfelld og ofsafengin.
Er hægt að skoða deilurnar í Tíbet, Xinjiang, Filippseyjum, Kákasus undir forræði Rússa, í Búrma, þar sem tilvist múslima uppgötvaðist nýlega í átökum við búddíska nágranna sína, og nú Mali, en einnig í fyrrum Júgóslavíu sem skipt var upp eftir trúarskoðunum (kaþólsk Króatía, orthodox Serbía, múslímska Bosnía), á Írlandi (sem skiptist milli kaþólikka og mótmælenda) sem átök milli trúarskoðana og gilda? Eða eru þau af veraldlegum toga, þ.e.a.s. með djúpar rætur í félagslegum veruleika sem enginn reynir lengur að greina sem hreyfiaflið á bak við atburðina, á meðan fjöldi sjálfskipaðra trúarleiðtoga fær þar útrás fyrir metnað sinn?
Að gera sjálfsímyndir að tæki í valdabaráttu stórra og smárra ríkja er þekkt frá örófi alda. Við hefðum getað ætlað að nútímavæðing stjórnmálanna og prinsipp lýðveldisins sem breiddust út eftir Frönsku byltinguna hefðu varanlega innleitt veraldlega sýn á alþjóðleg samskipti og samskipti ríkja; en því er ekki svo farið. Við sjáum ríki gera tilkall til þess að vera talsmenn yfirþjóðlegra trúarbragða, sérstaklega ríki úr ranni eingyðistrúarbragðanna þriggja (gyðingdóms, kristni og íslam).
Ólíkar refsingar “alþjóðasamfélagsins”
Ríki sem grípa til trúarbragða láta þau þjóna baráttu sinni um völd, áhrif og útþenslu. Þannig réttlæta þau brot á meginreglum mannréttinda, skilgreindum af Sameinuðu þjóðunum. Vesturlönd samþykkja áframhaldandi hernám á palestínsku landi og sum ríki múslima samþykkja hýðingar, grýtingar og handarhögg af þjófum. Refsingarnar fyrir að sniðganga alþjóðalög eru einnig breytilegar: “alþjóðasamfélagið” refsar stundum harkalega (Írak, Íran, Líbía, Serbía o.s.frv.) en stundum ávítar það ekki einu sinni þá sem gerast brotlegir (hernám Ísraela, fangabúðir Bandaríkjanna í Guantánamo).
Það er mikilvægt að sigrast á þessari misbeitingu (Instrumentalisation) og einfeldningslegum greiningum sem hafa það markmið að fela raunverulegar, veraldlegar orsakir stríðsátaka, sérstaklega þegar kemur að Austurlöndum nær, ef við viljum koma á friði í þessum ólgusama heimshluta.
Georges Corm (1940 – ) er líbanskur hag- og sagnfræðingur, prófessor við háskóla heilags Jósefs í Beirút, og hefur skrifað fjölda bóka um Mið-Austurlönd og um heimaland sitt, Líbanon. Gein þessi er kynning á síðustu bók hans, samnefndri, sem kom út í Frakklandi á síðasta ári: Pour une lecture profane des conflits, La Découverte, Paris 2012.
References
↑1 | Sjá til dæmis Seymour M. Hersch, „The redirection“, The New Yorker, 5. Mars 2007 |
---|---|
↑2 | Konungsætt Safavides réði yfir Persíu frá 1501 til1736. Ismaïl I (1487-1524) hóf trúskipti íbúanna til sjííitisma. |
↑3 | Sjá https://www.monde-diplomatique.fr/2009/10/BERNIN/18194">Pierre Bernin, „Les guerres cachées du Yémen“, Le Monde Diplomatique, octobre 2009 |
↑4 | Þetta kom skýrt fram í frægri ræðu Yasser Arafats á Allsherjarfundi Sameinuðu þjóðanna 1974 þar sem hann talaði fyrir ríki, þar sem gyðingar, kristnir og múhameðstrúar væru jafnréttháir, sem lausn. |